Leita í fréttum mbl.is

Enn ein staðfestingin

Nú þarf víst SJS að éta ofan í sig stóru orðin frá því í fréttum fyrr í kvöld um að það væri misskilningur að Icesave sé tengt ESB umsókninni. Gegn þessum blekkingaleik börðumst við í síðustu viku og reyndum eftir fremsta megni að sýna fram á þessi tengsl. Ég ætla að rekja þessa tengingu í afar stuttu máli og er nú að koma í ljós það sem blasti við mér við lestur þessara svokölluðu leynigagna sem þjóðin ætti að fá að lesa, þau eru nú varla neitt leyndarmál lengur - hægt væri að stroka út viðkvæm nöfn og annað sem mætti lögsækja okkur fyrir að opinbera en ég get ekki séð að þessi gögn séu þess eðlis að þau eigi að varðveitast í möppum sem aðeins einn og einn þingmaður má lesa í einu, undir vökulum augum.

Ef Icesave-skuldabréfið, sem note bene er ríkisábyrgð á gjaldþrota fyrirtæki, sérdeilis sérstök skuldbinding, verður ekki samþykkt, eða samþykkt með breytingatillögum þá munu Bretar og Hollendingar beita eftirfarandi þumalskrúfum: 

1. Þeir munu beita sér gegn aðildarviðræðum við ESB

2. Þeir munu beita sér gegn því að við fáum annan hluta AGS lánsins

AGS mun setja upp ný viðmið ef Icesave verður samþykkt: lengja í þeim tíma sem hér verða gjaldeyrishöft og krefjast enn meiri niðurskurðar en fyrirhugaður er. 

Mér er fyrirmunað að skilja af hverju við erum að leggja slíka ofuráherslu í dag á þessar aðildarviðræður eins og það komi ekki dagur eftir þennan dag með Icesave eins og nábít á möguleika á aðild og að öllu óleyst mál. Það er alveg ljóst að nú á að nota aðildarviðræðurnar sem nýja grýlu og til að beita enn meiri þrýsting á ríkisstjórn sem er við það að bresta.

Hve dýr á setja nokkurra einstaklinga í valdastólum að verða þjóðinni? Hve dýr á aðgöngumiðinn að inngönguferli ESB aðildar að verða? Miði sem flestir gera ráð fyrir að hafna. Margir sérfræðingar í hagfræði hafa bent á að við erum hvorki meira né minna gjaldþrota, það væri ráð að athuga hvort að það sé ekki kominn tími á að fara fram á afskriftir, því það er ljóst að við getum ekki haldið áfram á þessari vegferð. En samt á að halda þessu áfram því varla fer ESB að taka við aðildarumsókn frá gjaldþrota þjóð af einhverri alvöru.

Það er líka ömurlegt til þess að hugsa að fólk haldi virkilega að með því að láta níða af okkur allt sem við eigum verði til þess að auka á tiltrú á skynsemi og heilindi okkar erlendis, hvað þá að það auki virðingu fyrir okkur.

Ég vil að lokum segja: ég hef ekkert á móti aðildarviðræðum ef að það er ljóst að það sé meirihluti þjóðarinnar á bak við þá ákvörðun. Ég vil jafnframt biðja þá kjósendur XO sem hafa fundist þeir sviknir afsökunar - ég lít ekki á þessa leið okkar til að reyna að fá Icesave frestað sem hrossakaup enda ekkert í þessu fyrir okkur - ég er ekki inni á þingi fyrir mína hagsmuni, ég er að reyna að vinna eins samviskusamlega að þjóðarhagsmunum og mér er mögulega unnt að gera, ég hef ekki áhuga á að vera á þingi til langframa og mun ekki ætlast til þess að ég fái bitlinga eins og sendiherrajobb út á þessa vinnu sem ég er að vinna núna. En mér finnst ekkert mál eins mikilvægt og þetta Icesave mál og ætla að einbeita mér að því að halda áfram að viða að mér upplýsingum. Á morgun mun ég birta sérálit mitt hérna á blogginu sem ég hef skrifað varðandi Icesave þegar það verður tekið út úr Utanríkismálanefnd. Ég vona að þessu verði frestað og unnið áfram í þessu þó ekki væri til annars en að eyða þeim vafa sem um málið hefur hjúpast, núna á bara að horfa fram hjá varnarorðunum og láta eins og ekkert sé.

Ég bið fólk að sýna því skilning að ég næ alls ekki að svara öllum þeim athugasemdum sem koma við bloggið mitt, en ég les þetta allt saman og finnst gott að heyra ólíkar skoðanir þó þær séu ekki endilega í takt við mínar eigin:)


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir að standa vörð um okkur fólkið.  Atkvæði mínu var vel varið að kjósa Borgarahreyfinguna. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.7.2009 kl. 00:56

2 identicon

Fyrst, vil ég taka fram að það er ekkert að fyrirgefa varðandi gambít ykkar þremenninganna. Að standa vörð um hagsmuni sinnar þjóðar og fylgja sinni sannfæringu í stað þess að halda hollustu við menn sem eiga það ekki lengur skilið er ekkert annað en lofsvert. Að ekki sé talað um að þið gerðuð fulla og skilmerkilega opinbera grein fyrir gjörðum ykkar. Ef ekki væri fyrir ykkar sakir þá væri ekkert gangsæi á störfum Alþingis og þjóðin í þoku. Þjóðin stendur í þakkarskuld við ykkur. Ég þakka fyrir mig.

Varðandi Icesaveklúðrið og ranghæfingar SJS þá er tími til kominn að málum linni. SJS þarf hjálp frá sjálfum sér. Mér er gersamlega hulið ágæti þess kapps sem Sigfús og Jóhanna setja í að gangast undir hótanir og auðmýkingu Breta og Hollendinga. Eru einhver þrumu ESB tromp uppi í erminni sem vinna slaginn, sem þessi undirlægjusemi og vilji að gera sjálfan sig að ómerkingi réttlæta? Eða er þetta bara blindur metnaður og kapp án forsjár?

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 01:46

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hvað ertu að fara Birgitta?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.7.2009 kl. 01:59

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Skil ekki, Bretar og hollendingar munu beita sér gegn okkur ef við samþykkjum ekki icesave á vettvangi ESB og AGS, AGS mun beita sér með harðari aðgerðum í ríksisbúskapnum EF við samþykkjum icesave??? Var það þetta sem stóð á blaðinu fræga í möppunni góðu?

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 22.7.2009 kl. 02:35

5 Smámynd: Billi bilaði

Kristján Gunnarsson sagði hér að ofan nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa.

Þökk til ykkar allra.

Billi bilaði, 22.7.2009 kl. 03:32

6 Smámynd: Sævar Finnbogason

Ég fæ ekki betur séð en Bretar og Hollendingar muni beita sér gegn okkur á hvern veg sem þeir geta ef við samþykkjum ekki Icesave samninginn. Ekki bara í aðildarviðræðum við ESB heldur í ASG og hvar annarstaðar sem þeir koma því við.  Það sem verst er, þeir munu vinna ímynd okkar mikinn skaða. 

Það er því ekki þannig að ef við værum ekki á leið í aðildarviðræður skipti engu máli hvort við höfnuðum þessum vonda samningi. 

G. Brown dauðvantar vonda kalla til að snúa niður eða gott stríð til að sýna styrk sinn, enda er hann með allt niður um sig og við vitum að hann og "his Darlig" hika ekki við að nýta sér slíkt tækifæri til hins ýtrasta.

Sævar Finnbogason, 22.7.2009 kl. 03:43

7 identicon

áfram Birgitta!

sandkassi (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 04:05

8 Smámynd: Billi bilaði

Þannig að þú, Sævar, vilt leggjast flatur fyrir Bretum?

Billi bilaði, 22.7.2009 kl. 04:43

9 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Ég segi eins og Gunnar : Áfram Birgitta!

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 22.7.2009 kl. 04:48

10 identicon

En þú Billi.. vilt þú semsagt stríð hérna frekar en að samþykkja samninginn ? ekki ég..

Sigga (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 08:41

11 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég fanga þessum skrifum frá Hollendingum, núna vantar bara ummæli frá Bresku ráðamönnum þess eðlis að ESB aðild komi ekki til greina nema ísþrælasamningurinn verði samþykktur og þá getur SJS "étið hann sjálfur" og verið enn þá meiri "drusla og gunga" eins og hann kallaði Davíð Oddson fyrir að vilja ekki stíga upp í ræðupúltið og eiga við sig orðastað.

Sævar Einarsson, 22.7.2009 kl. 09:44

12 identicon

þÚ þarft ekkert að afsaka þig, takk fyrir mig.

(IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 09:52

13 Smámynd: Sævar Einarsson

Verulega góð skrif um þetta hér en þar endar Esther á að segja:

Varðandi ábyrgð íslenskra skattgreiðenda á að greiða innistæður Breta og Hollendinga: Við skulum ekki gleyma því að hollenskir og breskir innistæðueigendur hafa greitt fjármagnstekjuskatt af sínum innistæðum til breska og hollenska ríkisins undanfarin ár en ekki hins íslenska!

Þarna er komið alveg kjörið tækifæri á að krefjast þess að fá þennan skatt greiddan áður en Iceslave verði svo mikið íhugað að fjalla um á alþingi.

Sævar Einarsson, 22.7.2009 kl. 09:52

14 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Vissulega voru hrossakaupin um ESB mistök Birgitta en ég get vel tekið þessa afsökunarbeiðni og mun ekki erfa það mál sérstaklega sem kjósandi og frambjóðandi XO.  Á þessum tíma voruð þið undir miklu vinnuálagi og slíkt getur að sjálfsögðu leitt til mistaka.  Eflaust hefur ykkur gengið gott eitt til og ég efast ekki um það eitt augnablik.

Hitt finnst mér öllu verra hvernig þinghópurinn virðist úr öllum takti og sambandsleysi við Borgarahreyfinguna, stjórn og grasrót. Óánægjan með hrossakaupin snýst aðallega um vinnubrögð, miklu frekar en efnislega um IceSave/ESB málið.  Það er undarlegt ef þingmenn grasrótarframboðs telja sig ekki þurfa með nokkrum hætti að vera í samband við grasrótina þegar afstaða til einstakra mála er rædd og stórar ákvarðanir eru teknar.

Í gær var haldinn fundur Borgarahreyfingarinnar um IceSave málið.  Afar áhugaverður og ágætur fundur þar sem margt fróðlegt kom fram.  Fjórir fulltrúar Indefence hópsins mættu og fóru rækilega ofan í málið og veltu upp áhugaverðum vinklum.  Þá fengu fundarmenn að bera fram spurningar og segja sína skoðun.  En fundurinn var þó mjög illa sóttur og enginn þingmaður hafði tök á að mæta.  Í kjölfarið var svo stjórnarfundur og þegar ég yfirgaf húsið þá hafði enginn þingmaður mætt á þann fund heldur.  Auðvitað geta komið dagar þar sem þingmenn líkt og aðrir komast ekki á einstaka fundi en þetta er víst reglan.  Ég ræddi við stjórnarmenn milli funda og mér skilst að þingmenn Borgarahreyfingarinnar mæti aldrei á stjórnarfundi.  Undantekning er víst Margrét sem reynir að mæta ef hún mögulega hefur tök á og afboðar ef hún kemst ekki og rétt að halda því til haga.

Því miður sýnist mér að allt kraumi í óánægju innan hreyfingarinnar í garð þinghópsins.  Áhuginn á að starfa með hreyfingunni er að deyja út sem sést til dæmis á dræmri mætingu á fundinn í gær um þetta stóra mál.  Þinghópurinn er einangraður og telur sig einhverra hluta vegna ekki þurfa að ræða við eða leita ráða hjá grasrótinni.  Einn lykilmaður í grasrótarstarfi hreyfingarinnar orðaði þetta svo í gær að hann vissi meira hvað væri í gangi hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins en Borgarahreyfingarinnar.  Þinghópurinn er að verða lítill einangraður hópur á þingi sem stendur ekki við gert samkomulag, stundar pólitísk hrossakaup og er án pólitísk baklands.  Eiginlega eins langt frá því að vera grasrótarhreyfing eins og hægt er.

Ég hef þó enn mikla trú á ykkur, veit að þið eruð hörku duglegt og heiðarlegt fólk.  En þið verið að fara að vakna og átta ykkur á óánægjunni innan Borgarahreyfingarinnar.  Þið verið að vera í nánara sambandi við stjórn og almenna félagsmenn.  Þið verið að átta ykkur á skildum ykkar gagnvart kjósendum og stuðningsfólki XO.  Hvað er grasrótarhreyfing án grasrótar?

Jón Kristófer Arnarson, 22.7.2009 kl. 09:57

15 identicon

Ósköp finnst mér umræðan um Icesave vera að þróast sérkennilega.  Andstaðan er hætt að snúast um hvort og hvernig samningurinn eigi að vera og snýst núna um hvort verið að þvinga okkur til að ganga að samningum / tengsl við ESB.  Við eigum svo sannarlega margt skylt með söguhetjunum hans Laxness okkar!

Að sjálfsögðu hefur útkoma Icesave áhrif á samskipti okkar við aðrar þjóðir, það er barnaskapur að halda annað.  Það breytir því hins vegar ekki að málið snýst ekki um það heldur um hvort og þá hvernig eigum við að ganga frá þessu máli.  Því flestir, þó ekki allir, virðast á þeirri skoðun að lagalega beri okkur að gera það.  Flestir, þó ekki allir, virðast telja okkur bera siðferðislega skyldu að komast að samkomulagi.  Og flestir, þó ekki allir, telja betra að semja en neita að borga - þó ýmsir, en ekki allir, telji þennan samning ekki eins góðan og ættum að geta náð.  Þó reyndar ekki mikið talað um hvernig samning við værum tilbúin að skrifa undir, t.d. hvaða vaxtatala væri ásættanleg, hvaða greiðslutími, o.s.frv. 

Þið þingmenn eruð fulltrúar okkar þjóðar og gott að takið skyldur ykkar alvarlega og kjósið eftir ykkar sannfæringu.  Og vissulega gott að haldið kjósendum upplýstum um gang mála.  En orð eru dýr.  Ykkur ber líka skylda til að vera málefnaleg í umfjöllun ykkar og að leitast við að ýta ekki frekar undir "glundroðann" í samfélaginu (fann ekki betra orð til að lýsa ástandinu!).

Gangi þér vel og þegar þú kýst þá munt þú (eins og aðrir alþingismenn) bera ábyrgð á afleiðingum þess sem þú kýst.  Við vitum hver gæti orðið allra versta mögulega útkoman ef Icesave samþykkt, við vitum hins vegar ekki hver allra versta mögulega útkoman gæti orðið ef hafnað.  Ég verð að segja fyrir mitt leyti að myndi ekki þora að taka þá áhættu, en það mín skoðun.

ASE (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 10:08

16 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Jón minn, það vildi svo til að ég lagði til að Indefence hópurinn yrði fenginn á fund stjórnar sem ákveðið var að hafa opinn. Það vill svo til að ég er einstætt foreldri og yngri sonur minn er með athyglisbrest og á einhverfurófinu og því get ég ekki stöðugt látið hann vera í pössun og á oft bágt með að koma á fundi þó ég fegin vildi. Þinghópurinn bauð Indefence hópnum til sín fyrir nokkrum vikum og svo hef ég hlustað á þeirra greinagóða málflutning á fundi utanríkismálanefndar.

Fjölskylda Margrétar er að fara erlendis í dag í frí sem hún mun ekki geta farið í með þeim vegna þess hve þingstörfin hafa dregist á þessu sérstaka sumarþingi. Því finnst mér bara mjög eðlilegt að hún hafi ekki komið í gærkvöldi. Ég tala reglulega við fólk úr Indefence hópnum og reyni svo að miðla þeim upplýsingum áfram út í samfélagið.

Ég ætla ekki að fara þræta um stjórnina og þinghópinn hér enda ekki viðeigandi. En verð að segja að það eru gerðar algerlega ómanneskjulegar kröfur á okkur af félögum í grasrótinni sem við höfum reynt að útskýra fyrir trekk í trekk að það er bara ekki hægt að við séum í persónulegum samskiptum við alla né getum mætt á alla fundi, því höfum við boðið félögum að koma á þinghópsfundi. Það voru mistök að ráða ekki framkvæmdastjóra í upphafi til að halda utan um þræðina og skipuleggja meðal annars þessi tengsl á milli þinghóps og grasrótar. Við ætluðum að kíkja á skrifstofuna í gær en þar var allt lok lok og læs.

Ég ætla að biðja þig Jón minn að ef þú ert óhress með okkur að sýna þann manndóm að segja það við okkur milliliðalaust.

Birgitta Jónsdóttir, 22.7.2009 kl. 10:09

17 Smámynd: Offari

Þú stendur þig bara vel.  Takk fyrir.

Offari, 22.7.2009 kl. 10:52

18 identicon

Trúverðugleiki SteinRÍKS fjármálaráðherra er HORFINN - bagalegt fyrir ykkur þingmenn & þjóðina að þurfa að hlusta endarlaust á "lygar & blekkingar" tengt arfavitlausum IceSLAVE samningnum.  Þegar það ekki virkar þá er töfraðar fram "barbabrellu skýrslu frá Seðlabankanum - skýrslur sem viljandi setja upp ranga mynd til að gleðja stjórnvöld - eins og ávalt var gert fyrir bankahrun!"  Svo þegar allt þetta virkar ekki, þá grípur SteinRIKUR til "hræðslu áróðurs" - staða okkar yrði vægast sagt slæm....bla...bla...EF...þessu er hafnað!  Nei, staða okkar yrði miklu miklu betri, þá myndum við eflaust spara 35 milljarða á ári - ég hélt að það munaði um slíkt nú á tímum..!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 10:57

19 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Sæl Birgitta.  Þú talar um manndóm minn eða manndómsleysi og milliliðalaus samskipti.  Ég vil minna þig á að ég mætti nýlega á þinghópsfund, eða rétt fyrir ESB málið.  Þar var reyndar okkur sem þar mættum sagt að við gætum hlustað en mættum ekki tala.  Þrátt fyrir það gerðist ég svo frakkur að tala um þessi mál þar milliliðalaust beint við þinghópinn en ég sé því miður ekki að það hafi borði neinn sérstakan árangur.  Talaði um mikilvægi þess og nauðsyn að efla samband ykkar við hreyfinguna en fáeinum dögum síðar kom þetta ESB mál upp.  Á sama fundi bað Lilja Skaftadóttir ykkur um að funda með hreyfingunni um IceSave en þú tóks af allan vafa að þú eða þið hefðuð engin tök á því.

Ég nota hvert tækifæri til að hæla ykkur, krafti og dugnaði og geri það líka í pistlinum hér að ofan.  En þið eruð ekkert hafin yfir gagnrýni frekar en aðrar dauðlegar verur.  Ég er einfaldlega að segja frá minni upplifun á ástandinu í Borgarahreyfingunni.  Ég er ekki síst að segja mína upplifun af gærkvöldinu og hef þann "manndóm" í mér að segja það hér milliliðalaust.  Held samt að ég sé hér miklu frekar hér boðberi tíðinda en tíðindin sjálf.

Ef þér finnst óþægilegt að ræða innri mál hreyfingarinnar eða gagnrýni á þín störf hér á opnum vettvangi þá skal ég virða það og er til í að hitta þig/ykkur hvenær sem er.

Jón Kristófer Arnarson, 22.7.2009 kl. 11:01

20 identicon

Bíddu nú alveg pollrólegur Jón Frímann. Af hverju segirðu að Íslendingar verði að borga IceSave? Landsbankinn var einkafyrirtæki, ekki satt? Innistæðutryggingasjóðurinn var á vegum einkafyrirtækja og kemur ríkinu ekkert við eða hvers vegna eru Bretar og Hollendingar annars að fara fram á ríkisábyrgð? Þeir þyrftu ekki að fara fram á ríkisábyrgð ef hún væri þegar fyrir hendi, eða hvað?

Setjum nú sem svo að þarna væri um annað fyrirtæki að ræða en Landsbankann. Segjum t.d. Icelandair. Þeir keyptu flugvélar hjá t.d. Boeing. Fengju 10 þotur á krít og seldu þær áfram og neituðu svo að borga Boeing. Væri þá bandaríska ríkið í fullum rétti að krefjast þess að íslenskur almenningur borgaði reikninginn? Og beitti hótunum til að innheimta?

Þetta er kannski ekki alveg sambærilegt en hliðstætt. Það var búið að vara fólk við í bæði Bretlandi og Hollandi að þessir reikningar væru varasamir. Of góðir til að vera í lagi. Það hefur komið fram að það var margbúið að vara við þessum reikningum af yfirvöldum í þessum löndum en samt hélt fólk og stofnanir áfram að dæla inn á þá fé í von um skjótfengin gróða. Meira að segja þremur dögum fyrir hrun lagði breskt sveitarfélag inn stóra fúlgu inn á IceSave í Bretlandi.

Nú spyr ég þig Jón Frímann. Mundir þú leggja pening inn á Nígeríureikning og taka sjensinn á skjótfengnum gróða ef yfirvöld hefðu varað við slíkum reikning?

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 11:02

21 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Segi eins og margir fleiri, áfram Birgitta.

Magnús Sigurðsson, 22.7.2009 kl. 11:19

22 Smámynd: Sævar Einarsson

Bretar og Hollendingar vilja fá ríkisábyrgð samþykkta vegna þess að það er enginn ríkisábyrgð á þessu, það er bara til ábyrgð frá tryggingarsjóði innistæðueigenda sem stendur engan veginn undir þessu og sá tryggingarsjóður er tómur en uppfyllti að öllu leiti öll regluverk EES og ESB og það er ekki nema von að Bretar og Hollendingarvilji ekki að þetta verði sent til dómstóla því þar tapa þeir þessu og það vita þeir.

Sævar Einarsson, 22.7.2009 kl. 11:32

23 identicon

Það er algjör þvæla að þingmenn Borgarahreyfingarinnar séu án pólitísks baklands.

Það að Borgarahreyfingin sveik samkomulagið við leppstjórn hinna erlendu kröfuhafa sýnir mikla tryggð við þjóðina, ekki bara Borgarahreyfinguna.

Einhverjar óánægjuraddir heyrir maður frá félagsmönnum en ánægjuraddirnar eru samt yfirgnæfandi og mun fleiri. Það er nú ekki hægt að vera í meiri tengslum við grasrótina en Birgitta er hér á blogginu og á hún þakkir skilið fyrir það.

Það er ekki hægt að gera öllum þeim hópi til hæfis sem gekk í Borgarahreyfinguna á sínum tíma og hefst nú þingflokkurinn líklegast handa við að móta og tálga sitt raunverulega fylgi.

Það er mín tilfinning að fylgi við Borgarahreyfinguna sé að aukast þessa dagana og það mikið. Ekkert stendur í stað og við skulum ekki missa sjónar á málinu sem um er fjallað Icesave/ESB sem er eitt og sama málið eins og það kemur fyrir þingið.

Þeir þingmenn sem horfa framhjá því eru ekki hæfir til að taka ákvarðanir í málinu og þar með talið allir þingmenn Samfylkingarinnar.

Fidel Castro henti úr landi erlendum afætum og arðræningjum sem fyrirrennari hans Batista hafði verið leppur fyrir.

Eini munurinn á þeim og okkur er að nú vilja afætur og arðræningjarnir komast inn og hér er flokkur manna sem vill hleypa þeim hingað inn. Sá flokkur, Samfylkingin, er leppur hagsmuna erlendra kröfuhafa og Evrópusambandsins.

Hvað getur gerst við það að samningarnir verði felldir? Viðskiptabann? Nei, til þess þarf sterkan pólitískan meðbyr á alþjóðlegum vettvangi, það mun ekki gerast.

Margt getur gerst og mun gerast sama hvor leiðin verður farinn. "Samningar eða ekki" munu hafa áhrif á lánshæfismat Landsvirkjunar og bankanna. Hvor leiðin verður dýrkeyptari er ekki hægt að segja til um og er fyrst og fremst komið undir því hvernig við ákveðum að haga okkar stjórnarháttum á næstu árum. Ef að hér fara fram umbætur, þá eru hér uppgangstímar framundan.

Ef spillingin heldur óáreytt áfram í skjóli stjórnvalda, þá mun allt halda áfram á hraðleið til heilvítis, með eða án ríkisábyrgðar á Icesave skuldbindingum.

Jafnvel þótt þetta verði sett í mikið og ýtarlegt mat, þá verður samt ekki að marka niðurstöðuna. Til þess eru óvissuþættir of margir og framtíðin óráðin, sem betur fer.

Landsbankamenn báðu ekki um leyfi til að setja upp útibú frá bankanum hér heima í Bretlandi, þeir bara gerðu það með ríkisábyrgð. Hún er ekki til staðar og reglur Evrópska Efnahagssvæðisins svo stórgallaðar að ekki var hægt að banna þeim þennan rekstur.

Evrópusambandið er sökudólgurinn og brennuvargurinn í  eigin bakgarði í þessum málum og kominn tími til að menn átti sig á því, að sambandið hyggst ekki sýna okkur neina linkind í þessum málum. Þeir eru svo sannarlega að sýna sitt rétta andlit.

Kúba norðursins? Það er ekki slæmt. Kúbumenn eiga færustu jazztónlistarmenn í heiminum í dag og færustu listmálarana. Þeir eru ein best menntaða þjóðin í heiminum í dag á raungreinasviði og á sviði vísinda. Er eitthvað slæmt við það?

En þingmenn borgarahreyfingarinnar eru ljósið í myrkrinu og sannkölluð himnasending. Áfram Birgitta!

sandkassi (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 11:55

24 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæl Birgitta og takk fyrir síðast.

Þú ert ein af fáum manneskjum inni á þingi sem ég bæði treysti og virði.  Mundu að þú getur alltaf leitað til mín ef ég get eitthvað fyrir þig gert.

Axel Þór Kolbeinsson, 22.7.2009 kl. 12:12

25 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Áfram Birgitta, þið eruð eina von okkar til þess að þjóðin verði ekki nauðbeygð til að greiða fyrir glæpamenn. Þetta voru bankar í einkaeign en ekki okkar landsmanna. Ekki flóknara en það. Þetta eru ekki okkar skuldir! Við höfum nóg með að borga af þeim (okkar skuldum) eins og dæmin sanna. Það er klárt mál að það verður bylting ef þetta verður samþykkt og þá eiga ráðherrastólar eftir að fjúka, það er holl hugleiðing fyrir þá sem halda fast í sætin sín.

Rut Sumarliðadóttir, 22.7.2009 kl. 12:44

26 Smámynd: Benedikta E

Sæl og blessuð Birgitta.

Haltu þínu striki ótrauð - þú hefur sýnt og sannað að þér er vel treystandi til starfa á Alþingi Íslendinga.

Með baráttu kveðjum !

Benedikta E, 22.7.2009 kl. 13:11

27 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Takk Birgitta fyrir að halda okkur upplýstum og berjast gegn ríkisábyrgðinni á Icesave.

Ég veit að þetta er brjáluð og oft vanþákklát vinna svo ég vill þakka kærlega fyrir mig og frá mínu fólki :)

Jón Þór Ólafsson, 22.7.2009 kl. 13:56

28 Smámynd: allial

Haltu áfram þínu striki, Birgitta!

Ég syrgi oft atkvæði mitt sem ég gaf VG. Hefði betur kosið Borgarahr.

Áfram XO!!

allial, 22.7.2009 kl. 14:03

29 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mikið er það notalegt og gagnlegt að fá allar þessa hvatningu - ég er þakklát:)

Birgitta Jónsdóttir, 22.7.2009 kl. 14:10

30 identicon

Þar sem ég hef unnið náið með Birgittu og Þór síðan í október 2008 þá  veit ég hvernig þau vinna af heilindum og hversu ósérhlífin þau eru. Ég hef þar af leiðandi aldrei efast um mitt fólk inni á þingi. Það er aftur á móti mikilvægt að stjórn Borgarahreyfingarinnar sé virk og í góðum tengslum við þinghópinn, það er þeirra verksvið en ekki öfugt. Mér finnst það ómannlegt að krefjast þess af þinghópnum að utan vinnutíma þeirra, sem er 24/7, að þau séu um allan bæ á fundum líka. Enginn nýr þingmaður hefur lent í jafnmikilli kleppsvinnu og þetta fólk, enginn. Við sem stöndum fyrir utan getum ekki krafist þess af fólki að það hafi sama tíma og við hin til að mæta á fundi.

Haldu ótrauð áfram Birgitta, þetta er allt að koma!

P.s 

Frábær pistill hjá Gunnari Waage hér fyrir ofan, eins og talað frá mínu hjarta. Það má vera að þjóðin sé efnahagslega gjaldþrota en að bjóða henni upp á andlegt gjaldþrot í ofanálag er ógnvekjandi og óásættanleg útgönguleið. Minni á hverjir fóru um allan heim og lugu á kostnað þjóðarinnar á meðan Icesave var stofnað í Hollandi og Björgvin G, var þá ábyrgur sem sk. bankamálaráðherra.  Þetta fólk situr enn inni á þingi og hanskast með framtíð afkomenda okkar. 

Sigurlaug (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 14:42

31 Smámynd: Sævar Finnbogason

Þannig að þú, Sævar, vilt leggjast flatur fyrir Bretum?

Billi bilaði, 22.7.2009 kl. 04:43

Svarið við því er nei! Sumt fólk virðist ekki geta lesið fyrir ESB andúð.

Ég er ekki hrifinn af þessum samningi og skil ekki hvers vegna samninganefnd Íslend nýtti sér ekki Brussel viðmiðini sem samþykkt voru fyrir tilstilli ESB og fengu þau skjalfest í þessa lánasamninga.

Þegar við ákveðum hvað við gerum varðandi þennan samning þurfum við að hugsa bæði um hvort við getum greitt og hvortsamfélagið þolir afleiðingar þess að skrifa ekki undir. Við verðum að meta hvaða aðgerðum við yrðum breitt af einhverri skynsemi, alveg blákalt og yfirvegað.

Hverjum kemur á óvart að Hollenski utanríkisráðherran reyni að nýta sér öll ráð til að fá Ísland til að samþykkja þennan gerning. Hann er bara að hugsa um hellenska sparifjáreigendur og skattgreiðendur

Ef hollendingar beita sér gegn aðildarumsókninni tefst það ferli eitthvað en hefur ekki efnahagslega áhrif í skammtímanum.

Hinsvegar vita Bretar að þeir geta trufla upbyggingu okkar hér mun meira gegnum stórkostlega AGS (og þar ekki ráðherraráð, framkvæmdastjórn og 800 manna þing sem þarf að samþykkja hlutina) Þau áhrif STRAX einsog við sjáum og finnum á eingin skinni. (hvar er annar hluti AGS lánsins sem átti að vera búið að afgreiða fyrir 3 mánuðum minnir mig)

Það sem ég er að segja er að AGS heldur okkur hreðataki og getur valdið okkur miklum skaða. það geta þeir með því að tefja lánafyrirgreiðslu til Íslendinga og ráðum og að gefa út neikvæð álit, herða skilyrði hvað varðar niðurskurð og einkavæðingu. Þetta er aðal vandinn í dag. ESB hefur ekkert slíkt hreðjatak á okkur og getur í versta falli hótað að segja upp EES samningnum, en það yrði þá að samþykkja í framkvæmdastjórn, ráðherraráði og þingi ESB og það sé ég ekki gerist eins og málið liggur.

Flestir sem hafa kynnt sér sögu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vita að hann hefur alla tíð starfað með fögrum fyrirheitum og fagurgala á sama tíma og hann hefur breytt samfélögunum sem hann kemst með klærnar í í tílraunastofu frjálshyggju og einkavæðingar. Hann hefur semsagt margsinnis orðið uppvís af því að segja eitt og gera annað. Sjóðnun hefur miskunnarlaust verið beitt til þess að tryggja hagsmuni stærstu eigenda hans, einkum USA, Breta og nokkurra annarra og Ég get ekki séð annað en að hann sé á kafi í því hér þar sem við erum til að mynda enn að bíða eftir afgreiðslu á hluta 2 af láni ASG .

Þess vegna segi ég, ef við höfnum samningnum er það ASG, og Ímynd Íslands sem við þurfum að hafa áhyggjur af, ESB tafir eru bara tafir sem ekki hafa nein stórkostleg áhrif í skammtímanum  

Sævar Finnbogason, 22.7.2009 kl. 15:02

32 Smámynd: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir

Þú stendur þig afspyrnuvel, Birgitta, og frábært að fá að lesa hreinskilnar frásagnir þingmanns. Ef þið haldið þessu góða starfi áfram munið þið eiga atkvæði mitt visst í næstu kosningum.

Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 22.7.2009 kl. 15:57

33 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ég stend með þér Birgitta! Láttu ekki kúga þig!

Guðrún Sæmundsdóttir, 22.7.2009 kl. 17:01

34 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Því miður varð mér það á að kjósa V-G í síðustu alþingiskosningum, þau mistök geri ég ekki aftur! Hvernig að stjórnmálaflokkur sem gaf sig út fyrir að berjast gegn ESB inngöngu hefur látið kúga sig svona gjörsamlega af Samfylkingunni er skelfilegt! það er greinilega erfitt að standa á sinni sannfæringu inná þingi, og ég dáist af öllum þingmönnum sem neita að gjörast sekir um landráð með Icesave/ESB samþykktum

Guðrún Sæmundsdóttir, 22.7.2009 kl. 17:05

35 identicon

Jón Frímann 

Það verður örugglega þetta sama fólk þitt aftur samfylking -lið (+ ESB-sinnar)  sem mun heimta rétt eins og þú (Jón Frímann) að þessi ríkisábyrgð verður komið yfir á okkur, og/eða heimta að við íslenska þjóðin verði látin borga Icesave- reikninga Landsbanka HF.

Því að þeir hjá Samfylkingunni og/eða þessir litlu, litlu, nice, nice ESB-sinnar munu á næstu dögum reyna allt hvað þeir geta til þess að koma á þessari ríkisábyrgð þar sem þessi ríkisábygð er ekki til staðar í dag, og þar þessir ESB-sinnar eru annarrs svo hræddir um að komast ekki í ESB. Nú verður ekki bara áróðri beitt heldur einnig kúgunum, já og allt fyrir ESB, ekki satt?

Kv

Þorsteinn

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 19:05

36 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Segi það bara enn og aftur að ég dáist að þér fyrir þitt ómetanlega starf! Mig hefur lengi grunað að það væri ekki fyrir neitt „venjulegt“ fólk að fara inn á þing. Nú þegar ég hef fylgst enn betur með starfi þingmanna en hingað til í gegnum ykkur þrjú (þig, Margréti og Þór) þá er ég enn sannfærðari en áður að þingmennska er aðeins fyrir ofurfólk með virkilega sterk bein.

Álagið er jafnvel margslungara en mig grunaði. Þið hlífið ykkur hvergi heldur gefið okkur kjósendum ykkar og fleirum tækifæri til að fylgjast með störfum ykkar og því sem er að gerast inni á Alþingi með reglulegum greinaskrifum. Mér finnst allt ykkar starf færa mér heim sanninn um óvenjulega mannkosti ykkar. Mér finnst með ólíkindum að fylgjast með því hve skipulögð og viljasterk þið eruð að komast yfir allt það sem þið komist yfir; þing- og nefndarstörf, fundarhöld, viðtöl í fjölmiðlum, greinaskrif, sinna fjölskyldu og rækta ykkur sjálf. Ég veit að margt er ótalið enn...

Ég vona ykkar vegna að þið eigið í sterkt bakland í fjölskyldu, vinum og hvert öðru. Ekki veitir af í þeim ólgusjó sem þingmennskan greinilega er!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.7.2009 kl. 21:33

37 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Birgitta, ég er hrifið af baráttugleði þinni g hún er smitandi!

En ég er ekki að kúga þig þegar ég minni á að Landsbankamenn (Islenskir i skjóli íslenskra stjórnvalda 2006) hafa gjörsamlegar KLÚÐRAÐ TRAUSTI þjóðar vorrar?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.7.2009 kl. 01:58

38 identicon

Mönnum væri hollt að hlusta, þegar að Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra og einn af hornsteinum Vinstri Hreyfingarinnar Græns Framboðs sendir Steingrími J. Sigfússyni flokksbróður sínum tóninn með afgerandi hætti í frábærri grein á vefnum smugan.is

Það er erfitt að sjá hvernig nokkur þingflokkur getur lifað af sambúð með Samfylkingunni í ríkisstjórn. Það virðist vera einungis ein aðferð sem Samfylkingin notar til að komast að samkomulagi við samstarfsflokka sína og það er með hótunum um stjórnarslit.

Það er mikið lagt á þingmenn að þeim sé sífellt hótað því að þeir muni eiga sök á stjórnarslitum ef þeir greiði atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu. Það er einnig slæmt og ljótt til þess að vita að þannig skuli Samfylkingin stjórna landinu með þeim stjórnarskrárbrotum sem í þessu hátterni felast.

Þetta er nú mín hugleiðing í kjölfar þess að lesa grein Hjörleifs, einnig eftir undarlega afgreiðslu á undirskrift Lilju Mósesdóttur í Efnahags og skattanefnd í dag þar sem að hún var látin vita að athugasemdir hennar yrðu ekki vel liðnar. Í framhaldi var einfaldlega séð til þess að hún yrði ekki viðstödd afgreiðslu málsins og á áliti nefndarinnar á Icesave ríkisábyrgð. Annar maður var sendur inn í hennar stað til að greiða atkvæði um ályktunina.

Það er virkilega efni til þess að farið verði ofan í stjórnarhætti Samfylkingarinnar, þessi mál könnuð af hlutlausum aðila og reynt að komast að því hvort okkur stafi hreinlega hætta af þessum stjórnarháttum.

sandkassi (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 02:08

39 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Mér finnst voðalega vont að upplifa það þannig að það að ég sé ósammála þessum gjörningi ykkar valdi mér brennandi óvinsældum og baknagi .......en það er akkúrat það sem ég upplifi

fólk innan þinghópsins hefur látið hafa eftir sér að þeir treysti ekki formanni og varaformanni stjórnarinnar og hópurinn virðist leggja allt kapp á að slíta tengsl við grasrótina. 

Fúlt........ ég hef stutt ykkur hingað til en ég er ekki viss um að geta það héðan í frá. Fólk verður að geta treyst því að skoðanir þess á pólitík verði ekki endalaust persónugerðar. Ég er satt að segja orðin hundleið á því að fá skammir fyrir skoðanir mínar.........frá vinum mínum

Heiða B. Heiðars, 23.7.2009 kl. 12:49

40 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Heiða mín

ég kannast ekki við að hafa skammað þig fyrir skoðanir þínar í þessu máli ... 

Birgitta Jónsdóttir, 23.7.2009 kl. 13:55

41 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Nei Birgitta....enda átti ég bara við svona almennt en ekki að þú hefðir skammast í mér. Ég geng bara út frá því sem vísu að þú gefir mér eins og öðrum svigrúm til að vera ósammála ef því er að skipta

Heiða B. Heiðars, 23.7.2009 kl. 14:14

42 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

auðvitað máttu vera með aðrar skoðanir en ég:)

Birgitta Jónsdóttir, 23.7.2009 kl. 14:24

43 identicon

Við erum 3 hér á heimilinu sem kusum VG í síðustu kosningum.  Í dag sjáum við eftir þeim atkvæðum.  Næst fara þau til Borgarahreyfingarinnar, vonum bara að þá verði Þráinn "farinn heim".

Kveðja.

AM (IP-tala skráð) 24.7.2009 kl. 10:16

44 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Birgitta, ég dáist af kraftinum í ykkur og vonandi endist ykkur orka til að koma í veg fyrir það stórslys sem "Svavarssamningurinn" er.  Ég skil bara vel að Bretar hafi borgað 2 milljarða fyrir lögfræðivinnuna við samningsgerðina.  Hún hefur þegar borgað sig margfallt til baka.  Svavar hefði betur fengið jafn hæfa lögfræðinga til að vinna fyrir hönd Íslands, þá værum við líklegast ekki að rífast um þennan óskapnað, sem ég vil að fái sitt réttnefni, Svavarssamningurinn.

Í mínum huga er þetta mál mjög einfalt.  Við þurfum að standa skil á að hámarki EUR 20.887 til hvers innistæðueiganda.  Okkur ber ekki að borga neina vexti bara höfuðstól, þar sem vaxtakröfur eru almennar kröfur.  Það er okkur gjörsamlega óviðkomandi að Bretar og Hollendingar hafi að einhverju eða öllu leiti greitt þarlendum innistæðueigendum út innistæður sínar.  Það er ekki í samræmi við innitæðutilskipunina og gefur þeim engan rétt til vaxta eða greiðslu kostnaðar af okkar hálfu.  Í raun og veru þurfum við ekki að semja neitt við þessi lönd um málið.  Við þurfum bara að skuldbinda Tryggingasjóðinn einhliða til að greiða innistæðueigendum eftir því sem eignir Landsbankans eru seldar, sem ætti að gerast eins fljótt og kostur er.  Vilji skilanefnd Landsbankans ekki sæta því, getur hún tekið lán (ef einhver lánar henni þá) og greitt alla upphæðina til Tryggingasjóðsins strax.  Um þetta mál gilda íslensk lög og varnarþing er í Reykjavík.  Þetta voru jú íslenskir innistæðureikningar.  Það væri svo sem ekki slæmt að nota samsvörun við bresk lög um innistæðutryggingar, því samkvæmt þeim eiga eingöngu þeir sem hafa heimilisfestu/skattskyldu í Englandi, Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi rétt til greiðslu innistæðutryggingar.  Breski ríkissjóðurinn er búinn að fá milljarða á milljarða ofan í fjármagnstekjuskatt af Icesave, en sá íslenski engar.  Er þá bara ekki rétt að breski ríkissjóðurinn endurgreiði þennan skatt?

Ég hvet Alþingi til að hafna samningnum, en um leið lýsa einhliða yfir að Ísland muni virða tilskipun ESB um innistæðutryggingar.  Innistæðurnar verði greiddar út jafnóðum og eignir Landsbankans verði seldar.  Reynt verði að flýta því ferli eins og frekast sé hægt.  Ísland hafni jafnframt öllum kröfum breskra og hollenskra stjórnvalda um greiðslu vaxta og kostnaðar.

Marinó G. Njálsson, 24.7.2009 kl. 13:15

45 Smámynd: Sævar Finnbogason

Ég er hjartanlega sammála þér Marinó og öðrum hér, að þessi samningur er ömurlega samsettur og augljóslega hefur Íslenska samninganefndin verið rassskellt án þess einusinni að átta sig á því sjálf. Auk þess sem það erhundfúlt og ósanngjarnt að Bjöggarnir skuli ekki borga þetta sjálfir.

EN Úr því sem komið er, eftir að því er virðist loforð þriggja Íslenskra ríkisstjórna um að bæta 20.887 evru lágmarkið er erfitt að bakka með að greiða þetta á þess að allir missi þolinmæðina gegn okkur.

Það er allavega vonandi að okkur takist í það minnsta að fá lagæringar á samningnum og vonandi er fólk að vinna í því eftir hörðum höndum eftir pólitískum leiðum bæði í Hollandi og Bretlandi.

Sérstaklega er mikilvægt að skýra endurupptekningarákvæðið og setja fyrirvara við griðhelgi afsalið.

Sævar Finnbogason, 25.7.2009 kl. 03:31

46 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég tók saman fyrir nokkru mína sýn á þetta Icesavemál og rót vandans,  ég tel að allir hafi gott af að  renna yfir þetta til á skerpa á stóru myndinni, því menn virðast vera farnir að líta framhjá hvað það var sem bjó til vandann. 

Um  innistæðutryggingar

Um Icesave samninginn

Svo vil ég þakka þér Birgitta enn og aftur fyrir frábær störf að almannhagsmunum, jafnvel þó það fari gegn hagsmunum einstaka kjósenda borgaradreifingarinnar.

Guðmundur Jónsson, 25.7.2009 kl. 11:36

47 Smámynd: Gunnlaugur Gunnlaugsson.

Sæl Birgitta ég hef skrifað þér áður þá var ég að hæla Atla Gíslasyni fyrir að hann væri einn Á móti icsave samningnum þetta var vitlaust orðað hjá mér þið þrjú hafið staðið ykkur með prýði á móti icsavesamningnum og ESB og vona ég svo sannarlega að þið eigið eftir að fella þessa samninga ef svo myndi verða þá myndi mitt atkvæði og konunnar koma til ykkar þó svo að ég hafi alltaf kosið sama flokkinn þá myndi ég breyta til Birgitta og Þór Saarhi, þór er mjög góður í þessu alveg eins og þú ,ég þekki hann frá gamalli tíð þegar hann var til sjós Baráttukveðjur til ykkar þriggja það þarf að losna við Þráinn Bertelsson hann er ekkert annað en VG.þú þarft ekki að svar þessu frekar en þú vilt ég veit að það er mikið að gera hjá þér, kvgug en Þór þú þarft að koma inn í umræðuna við Guðni treysum þér og Birgittu það eru fullt af greinum hér á undan sem ég er sammála.Borgraflokkurinn verður með mesta fylgi í næstu kosningum ef þið haldið svona áfram , með kveðju gug@internet.is

Gunnlaugur Gunnlaugsson., 31.7.2009 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.