Leita í fréttum mbl.is

Bandormsræðan mín frá því í gær

Bandormur að forskrift AGS

Frú forseti

Undanfarna tvo áratugi hafa nánast allir sameiginlegar eignir þjóðarinnar verið seldar á útsölu í einkavinavæðingarklúbbnum sem á rætur sínar að rekja hingað í hina háu sali ráðamanna ríkisins. Enn sitja margir þeirra sem tilheyra þessum klúbbi á þinginu og því efast maður um að hér muni fara fram alvöru uppgjör og siðabót á þeirri miklu spillingu sem hefur fengið að grassera hérlendis. Spillingin og samtryggingin svo mikil að hún mælist ekki einu sinni á alþjóðastöðlum, samtygging sem skilgreina má sem mafíu.

bitormur_180408.jpgNú eru flestar stofnanir sem einkavæddar voru að komast í eigu þjóðarinnar að nýju með meiri blóðtöku en nokkurn hefði getað órað fyrir. En ekki má gleyma ábyrgð þeirra sem áður sátu hér við völd og því ósanngjarnt að velta allri gremjunni yfir á VG sem þarf að finna lausnir á þeim vanda sem ríkisstjórnir síðustu 18 ára hafa tekið þátt í að skapa. En Frú Forseti það er samt sem áður ósanngjarnt að taka á þessum erfiðleikum á þann hátt að þjóðin þurfi að taka enn meira á sig en hún þarf nú þegar að bera.

Það sem þjóðin þarf að finna fyrir í dag er réttlæti, trú á því að hún hafi ástæðu til að fórna enn meiru. Til að geta tekist á við langan dimman vetur samdráttar og lakari lífsgæða til lengri tíma. Sú staðreynd að enginn hefur verið dreginn til saka fyrir þá svikamyllu sem hér var stunduð fyrir opnum tjöldum í einkavinavæddu bönkunum er ekki til þess fallið að almenningur sé tilbúinn til frekari fórna. Það er ekki réttátt að þjóðin eigi að taka á sig skerðingu á sínum kjörum, þurfi að vinna lengur dag hvern fyrir brot af þeim lífsgæðum sem hún áður bjó við á meðan þetta fólk gengur laust. Kæra frú forseti það er verið að byrja á röngum enda. Fyrst þarf að taka á samtryggingunni og spillingunni. Fyrst hefði átt að kynna niðurskurð á spikinu en ekki mergsjúga þjóðina. Fyrst ætti að elta fjármagnið til huldueyjanna og gera eignir þeirra sem allir vita að eru sekir upptækar.

tapeworm_866652.jpgNorræna velferðarstjórnin er ekki öfundsverð og reyndar alveg stórmerkilegt að hæstvirt ríkisstjórn vilji spyrða velferð við þann niðurskurð sem framundan er.

Til þess að það náist sátt um niðurskurð er nauðsynlegt að einhenda sér í það að láta Evu Joly allt það í té sem hún óskar eftir svo að rannsóknin verði ekki fyrir frekari töfum. Það er nauðsynlegt að þeir sem bera ábyrgð á þessum alherjahruni axli ábyrgð nú þegar, áður frekari fórna er óskað af þjóðinni með aukinni skattheimtu og niðurskurði á velferðarkerfinu. Það eru ekki bara hinir svokölluðu útrásarvíkingar sem verða að sæta ábyrgð, það eru þeir yfirmenn stofnanna sem sváfu á verðinum sem þurfa að sæta ábyrgð, það er gjörvalt embættismannakerfið sem þarf nákvæmrar endurskoðunar við og þar verður að fara fram alvöru uppgjör, annars mun hér aldrei verða friður. Slíkar aðgerðir eru það eina sem mun verða til þess að fólk sé tilbúið að taka þátt í endurreisn samfélagsins. Til hvers að endurreisa samfélag sem getur allt eins hrunið á nákvæmlega sama hátt og það sem áður hrundi. Það er alveg ljóst að það mun gerast ef hér verða ekki róttækar stjórnsýslulegar breytingar. Það þýðir ekkert að setja plástra á innri mein, það verður að hreinsa meinið, taka bandorminn út úr görnunum. Því ættum við að styðja slíkt sníkjudýr sem mun éta inniviði samfélags okkar að forskrift alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég skora á hæstvirtan fjármálaráðherra að benda mér á þjóðir sem hafa komið vel útúr AGS prógrammi. Ég get talið upp fjöldann allan af þjóðum sem hefur farið mjög illa út úr samskiptum við þennan sjóð. Það er sorglegra en tárum taki að horfa upp á hæstvirtan fjármálaráðherra hlýða AGS án þess að blikna og neita að horfast í augu við að aðrar leiðir séu færar út úr þessu vandamáli.

26a1.jpgÉg ætla ekki að eyða dýrmætum tíma þingsins í að týna til hvaða þættir þessa frumvarps eru góðir eða slæmir. Þetta snýst um róttækt hugarfar og aðrar lausnir. Þetta snýst um réttlæti og óréttlæti. Þetta snýst um að fara eftir baneitruðum aðferðum alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða ekki. Þetta frumvarp er fyrsta skrefið sem hæstvirt velferðarríkisstjórnin tekur til að þóknast lénsherrum landsins. Ef við höldum áfram á þessari vegferð þá er alveg ljóst að við munum eyðileggja velferðarkerfið, hrekja fjöldann allan af fólki burt frá eyjunni okkar og glata auðlindum okkar frá okkur.

Flestir ráðamenn afskrifuðu slíkar varnaðarræður sem vænisjúka orðræðu og eitthvað sem myndi aldrei geta átt sér stað hér á landi, en því miður varð ég vitni að því að okkar hæstvirti fjármálaráðherra gaf umboð til undirskrifta á samning, þar sem vafaatriði eru um hvort að hann feli í sér framsal á auðlindum og eignum þjóðarinnar ef ekki er staðið í skilum á samning sem næsta ljóst er að við munum ekki geta efnt, sama hve viljinn er góður til slíks.

Við verðum að vera á varðbergi og ekki leyfa okkur að taka slíkar áhættur. Hvað með einhliða upptöku annars gjaldmiðils, eða er bara til ein mynt í þessum heimi sem kennd er við Evrópu? Er kannski bara til ein lausn hjá hæstvirtri ríkisstjórn? Sú leið að gagna í ESB. Hvað gerist ef þjóðin hafnar því? Er eitthvað plan B ef svo verður?

Ég óska eftir plani B ef þjóðin hafnar aðild að ESB. Ég óska eftir hugrekki í því að taka erfiðar ákvarðanir eins og til dæmis að hafna Icesave samningunum því það er alveg ljóst að þessi samningur er ekki það sem hann sýnist.

isolation.jpgNú erum við beitt miklum óttaáróðri og grýlur einangrunar við hvert fótmál. Ég held reyndar að þessar grýlur séu nú þegar til staðar. Hér er allt frosið hvort er eð. Hvort sýnum við umheimum fram á ábyrga hegðum með því að steypa þjóðinni í slíkar fjárhagslegar skuldbindingar að við munum aldrei geta komið okkur úrvaxtagreiðslunum eða með því að taka raunsætt á málunum án hroka með aðstoð einhverra þeirra fjöldamörgu snillinga sem hafa áratugalanga reynslu af heiminum í kringum okkur og hafa boðist til að hjálpa okkur.

Ég er sannfærð um ef að við byrjum á réttum enda, ef við tökum fyrst á spillingunni, og færum þá til dómstóla sem arðrændu okkur og svívirtu okkar mannorð. Þá séu forsendur til að leggja upp með nýjar áherslur í samfélagi okkar, þar sem áherslur verða lagðar á að neyslumenning víki manneskjulegra og fjölskylduvænna samfélagi Ég er alveg viss um að þjóðin sé til í að leggjast á árarnar með hvaða ríkisstjórn sem er ef hún upplifir réttlæti og rétta forgangsröðun. Ég er viss um, ef þjóðin sjái fram á bjarta framtíð með raunverulegum breytingum og sanngirni eftir þessa dimmu nótt að hún sé til í að taka þátt í endurreisninni. Ég er viss um að ef þeim sem þjást núna vegna ónógs skilnings á erfiðleikum sem þeir standa frammi fyrir í ómanneskjulegu kerfi, ef þeim verður rétt hjálparhönd, að þeir hinir sömu séu til í að horfa handan þess taps sem það hefur orðið fyrir, en það verður réttlætið að hafa sinn gang. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þær áherslur sem hæstvirt ríkisstjórn er með í þessu frumvarpi.

mbl.is Fara framhjá gjaldeyrishöftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Ég er 100% sammála öllu í þessari flottu ræðu

Fríða Eyland, 20.6.2009 kl. 13:37

2 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Frábært Birgitta. Takk fyrir að deila þessari frábæru ræðu með okkur.

Margrét Sigurðardóttir, 20.6.2009 kl. 13:58

3 Smámynd: Einar Indriðason

100% sammála!  Takk fyrir mig! 

Hvað þarf að gera(st) til að hræra gegnheila steypuklumpa í heilastað í gang hjá stjórnvöldum?

Einar Indriðason, 20.6.2009 kl. 14:11

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Takk fyrir heilbrigða og rökfasta hugsun, sem vel er orðuð. Ég er svo hjartanlega sammála öllu sem þú segir þarna. Maður finnur kraft kærleika og heiðarleika steyma frá þessari ræðu þinni.

Gangi þér vel, og við biðjum fyrir að starf ykkar í Borgarahreyfingunni megi nýtast þjóðinni sem best. 

Guðbjörn Jónsson, 20.6.2009 kl. 14:41

5 identicon

Þetta var falleg ræða hjá þér fallega kona.

Anna María (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 15:01

6 identicon

Takk Birgitta.

Góð ræða og gott að vita af þér á þingi.

Haltu áfram að vera svona einbeitt, rökföst og sjálfri þér samkvæm.

Kær kveðja,

Sæunn Þorsteinsdóttir

Sæunn Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 15:39

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þingmaðurinn „minn“ er að standa sig

Brjánn Guðjónsson, 20.6.2009 kl. 16:52

8 identicon

Ég er mjög ánægður með hugarfar þitt, kollurinn er klárlega skrúfaður rétt ofan á þig.

Bragi (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 17:08

9 identicon

Þakka þér fyrir Birgitta. Þetta er sennilega ein besta og manneskjulegasta ræða sem flutt hefur verið á þingi í sögu lýðveldisins. Það er ekkert mál að berjast undir "fána" þess leiðtoga sem svona talar og hugsar.

Guðjón Petersen 

Guðjón Petersen (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 17:19

10 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Góð ræða Birgitta.

Sjá líka: FRÉTT er þetta! – að "við getum alls ekki treyst því, að eignasafn Landsbankans í Bretlandi gangi allt upp í Icesave-skuldadæmið."
Á bloggi Jóns Vals Jenssonar

Ísleifur Gíslason, 20.6.2009 kl. 18:12

11 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Takk fyrir kæra fólk - það er gott að vita að maður sé öðrum áþekkur í hugsun og hjartans einlægni...

Birgitta Jónsdóttir, 20.6.2009 kl. 23:10

12 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þessi ræða er frábær, og kemur inn á öll þau mál sem ég hef hugsað um.  Aðalmálið er kerfisbreyting, til þess að fyrirbyggja að svona komi fyrir aftur. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.6.2009 kl. 01:25

13 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Má maður efast?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 21.6.2009 kl. 01:42

14 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er einmitt málið, réttlæti í stað ranglætis. Hver sú stjórn sem setur réttlætið í öndvegi fær fólkið með sér, hinar fá það ekki. Svo einfalt er það.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 21.6.2009 kl. 02:02

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott ræða og gott að hafa ykkur þarna innanborðs til að sýna fram á innantómið sem fer fram í alþingishúsinu.  Takk Birgitta mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.6.2009 kl. 09:18

16 Smámynd: SM

He who has a why to live can bear almost any how. - Friedrich Nietzsche
Ef við(almenningur) fáum vita afhverju og svar sem réttlætiskenndin er sátt við, þá erum við tilbúin að gera hvað sem er til að komast útur þessu. En á meðan...
 

SM, 21.6.2009 kl. 11:46

17 identicon

Hvenær á að fara að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu og þá erum við ekki að tala um lengingar?  Viljið þið fara að hamra á þessu?  Getið þið ekki lagt fram frumvarp um að nýju bankarnir fái auknar heimildir til að semja við skjólstæðingar sína ... á t.d. lægri vöxtum, um niðurfellingu hjá þeim sem keyptu eftir 2005 o.s.frv..  skuldbreytingar ... Eitthvað annað en lengingar ... og halló það er út í hött að senda fólk í Héraðsdóm til að það fái það réttlæti sem því ber!  Þetta á að vinnast inn í bönkunum þeir þekkja hvaða vandræði fólk á við að etja ...og þeir segja að ekki sé gert nóg til að hjálpa heimilum!  Spurning hvað Borgarahreyfingin ætlar sér að gera nú?

ÞE (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 22:43

18 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gaf mér loksins tíma til að lesa þessa ræðu og sé ekki eftir honum! Þetta er vonlyftandi ræða enda flutt af einurð og hugrekki þess sem vinnur með réttlætið að leiðarljósi

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.7.2009 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.