Leita í fréttum mbl.is

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar

Hvað finnst ykkur að sé mikilvægast að einbeita sér að á þessu sumarþingi? Set hér fram skránna um þau 38 lagafrumvörp sem áætlað er að vinna að á sumarþingi. Finnst listi mála sem vel mega bíða fram á haustþing furðulega langur. Nær væri í mínum huga að gefa nefndum kost á að vinna vandaða vinnu - helst fullan vinnudag - sér í lagi nefndum sem eiga að fjalla um stóru málin í sumar og hreinlega fresta þingfundi á meðan - ágætt væri fyrir þingmenn að skreppa út og tala við mann og annan og heyra frá fyrstu hendi þá miklu reiði sem ómar um samfélagið. 

Í eftirfarandi skrá er getið um þau lagafrumvörp, sem unnið er að í einstökum ráðuneytum og áformað er að flytja á 137. löggjafarþingi. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta einnig hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp tillögur til þingsályktunar, sem ætlunin er að flytja.

Forsætisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, sem efnt er til í kjölfar ákvörðunar Alþingis eða ríkisstjórnarinnar, en einnig ef til hennar kemur vegna ákvæða stjórnarskrárinnar (breyting á kirkjuskipan o.fl.).
  2. Frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um val á fulltrúum, skipulag og verkefni stjórnlagaþings.
  3. Frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna milli ráðuneyta. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um þær breytingar á heitum og verkefnum ráðuneyta sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og koma eiga til framkvæmda á árinu 2009.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis nr. 24 16. maí 2000. Um er að ræða breytingar á lögunum svo unnt sé að taka upp svokallað persónukjör þar sem kjósendur geti haft meiri eða minni áhrif á val á frambjóðendum í kosningum.  
  2. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5 6. maí 1998.  Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórnar og að tekið verði upp persónukjör, líkt og í kosningum til Alþingis.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um aðild starfsmanna við samruna hlutafélaga yfir landamæri.
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem fela í sér innleiðingu á 16. gr. tilskipunar nr. 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundna ráðningu starfsmanna.Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum að teknu tilliti til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á innleiðingu tilskipunar nr. 1999/70/EB, um tímabundnar ráðningar, hér á landi.
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfsmenn í hlutastörfum.
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum að teknu tilliti til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á innleiðingu tilskipunar nr. 97/81/EB, um hlutastörf, hér á landi. 
  4. 4.    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar.
    Í frumvarpinu verður lögð til breyting á lögunum sem felur í sér breytingu á frítekjumarki vegna fjármagnstekna elli- og örorkulífeyrisþega

Fjármálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Frumvarpið er liður í vinnu að endurreisn bankakerfisins. Það var upphaflega flutt á síðasta þingi en verður endurflutt.
  2. Frumvarp til lokafjárlaga 2007. Frumvarpið var upphaflega flutt á síðasta þingi en verður endurflutt.
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjararáð. Í athugun er að gera þá breytingu að forræði Kjararáðs nái til fleiri ríkisaðila en nú er.
  4. Frumvarp til laga um heimild til að veita ríkisábyrgð á lánum til að styrkja gjaldeyrisforðann o.fl.
  5. Skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum 2009 til 2013. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er ákveðið að áætlun þessi verði lögð fram til kynningar. Í henni er gerð grein fyrir þeim aðgerðum í ríkisfjármálum sem taldar eru nauðsynlegar til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu árum og standa við forsendur aðstoðaráætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
  6. Frumvarp til breytinga á ýmsum skattalögum o.fl. vegna tekjuöflunar ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir á grundvelli áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum verði nauðsynlegt að auka tekjur á þessu ári.
  7. Frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til lækkunar á ríkisútgjöldum 2009. Gert er ráð fyrir á grundvelli áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum verði nauðsynlegt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári.

Heilbrigðisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um heilbrigðisstéttir.  Tilgangur frumvarpsins er að samræma ákvæði fjórtán laga sem nú gilda um heilbrigðisstéttir og fella í eina rammalöggjöf.  Nánari ákvæði um einstakar stéttir verði sett með reglugerðum.

Iðnaðarráðuneytið

Engin fyrirhuguð þingmál á 137. löggjafarþingi.

Menntamálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náms- og starfsráðgjafa. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fela viðurkenndum háskólum sem bjóða upp á nám í náms- og starfsráðgjöf að gefa út leyfisbréf til náms- og starfsráðgjafa.
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að falla frá kröfum laganna um ábyrgðarmenn.

Samgönguráðuneytið

Engin fyrirhuguð þingmál á 137. löggjafarþingi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006.  Um er að ræða upptöku á nýjum flokki veiða, svokölluðum strandveiðum, þar sem handfæraveiðar verða frjálsar innan ákveðins ramma og að uppfylltum settum skilyrðum.  Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um svokallaðar frístundaveiðar og heimildir til að leyfa smáveiðar í fræðsluskyni, auk ákvæða er varða skiptingu veiða úr stofnum djúpkarfa og gullkarfa.
  2. Frumvarp til laga um hvali, sem kemur í stað eldri laga um hvalveiðar nr. 26/1949 og miðast við breyttar þjóðfélagsaðstæður og þá þróun sem orðið hefur á stjórnsýslurétti.
  3. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á nýrri matvælalöggjöf Evrópusambandsins.
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993.  Frumvarpið er flutt vegna framlengingar á búvörusamningum um mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, sem gerð var 18. apríl síðastliðinn.

Umhverfisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur,  nr. 18/1996.  Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins  2001/18/EB í íslensk lög, um vísvitandi sleppingar erfðabreyttra lífvera í náttúruna.
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni. Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 842/2006/EB í lög um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir en tilskipunin hefur verið felld inn í EES samninginn. Frumvarpið fjallar um kröfur sem gerðar eru til aðila sem annast uppsetningu, viðhald og aðra þjónustu vegna kælikerfa, loftkælinga og slökkvikerfa sem innihalda gróðurhúsalofttegundir.
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Markmið frumvarpsins er að innleiða í lög reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 1013/2006/EB um flutning úrgangs en tilskipunin hefur verið felld inn í EES samninginn.
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003 meðhöndlun úrgangs og lögum nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Markmið frumvarpsins er að starfsemi Endurvinnslunnar hf. verði breytt til samræmis við kröfu um framleiðendaábyrgð, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjavöruumbúða.  Við þessa breytinu munu lög nr. 52/1989 falla út gildi.  Setja þarf ákvæði um  einnota drykkjavöruumbúðir inn í lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og jafnframt að fella niður ákvæði um einnota drykkjavöruumbúðir í lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002.
  5. Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009 – 2013.  Umhverfisráðherra ber skv. lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd að vinna náttúruverndaráætlun á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi.  

Utanríkisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um eftirlit með hlutum, tækni og þjónustu sem hafa hernaðarlega þýðingu. Með frumvarpinu eru m.a. uppfærðar gildandi reglur (lög nr. 4/1988 um útflutningsleyfi) um eftirlit með útflutningi hluta, sem hægt er að nota í hernaði eða til hryðjuverka, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
  2. Tillaga til þingsályktunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Viðskiptaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
    Á grundvelli EES-reglna þarf að breyta ákvæðum framangreindra laga til að einfalda reglur við samruna og skiptingu félaga. Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfisreglum í ljósi fjármálaáfallsins.
  3. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í frumvarpinu felst heildarendurskoðun á þeim kafla laganna sem fjallar um sparisjóði.
  4. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við ákvæði í bráðabirgðaákvæði með lögum um fjármálafyrirtæki, er varða heimilda skilanefnda og slitastjórna til útgreiðslu.
  5. Frumvarp til laga um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. 
    Tilgangur frumvarpsins er að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra.
  6. Frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi.
    Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um vátryggingarstarfsemi. Með frumvarpinu eru gerðar tillögur að innleiðingu tilskipunar um endurtryggingu í íslenskan rétt.  Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum. 
    Í frumvarpinu er lagt til að tæming réttinda (réttindaþurrð) miðist við Evrópska efnahagssvæðið, í stað alþjóðlegrar tæmingar.  Hliðsjón er höfð af nýlegum dómi EFTA-dómstólsins.  Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.
  8. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti.
    Frumvarp þessi felur í sér innleiðingu á ákvæði tilskipunar um óréttmæta viðskiptahætti.  Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi, en var ekki afgreitt.

mbl.is Allt undir í Karphúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Birgitta ég viðurkenni það að ég las ekki ekki öll frumvörpin en mér finnst auðvitað brýnast eru stefnumálin okkar. Þ.e. fjárhagsvandi heimila og fyrirtækja, rannsókn á bankahruninu og að síðustu lýðræðishallinn.

Mér sýnist lýðræðishallinn koma vel fram í því hvernig ykkur er ætlað að vinna. Ráðuneytin (ráðherrarnir) setja fram frumvörpin sem þið (þingmennirnir) eigið að afgreiða. Þetta eru í raun fáránleg vinnubrögð sem lama í raun þingið fyrirfram sýnist mér.

Ástæðan fyrir því að ég fór ekki nema yfir helming frumvarpana sem á að leggja fram er sú að ég rakst einum og oft á að það átti að breyta lögum vegna ESS, EU eða ESB... sjálfstæði hvað? Ég rakst líka alltof oft á það að mér fannst forgangasröðunin alls ekki rétt. 

En í alvöru talað þá finnst mér mál 1 og 2 frá Forsætisráðuneytinu eiga heima á sumarþingi. Nr. 1 frá Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Líka nr. 1 frá Fjármálaráðuneytinu og nr. 1 frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Mér sýnist að mál 3 ætti að vinna í mjög nánu og góðu samstarfi við bændur. Held að þetta sé „hættulega“ frumvarpið. Að lokum sýnist mér að frumvarp nr. 2 og 5 (e.t.v. þau sem eru þar á milli líka) frá Viðskiptaráðuneytinu séu mjög mikilvæg og sé þess vegna ástæða til að setja í forgang.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2009 kl. 14:39

2 identicon

Sæl og til hamingju með að vera komin á þing.

Ég hef rosalega trú á þér og Þór og veit að þið munuð gera góða huti en getur þú sagt mér eitt? Hvers vegna ert þú orðinn flutningsmaður á tillögu um breytingar á lögum um veitinga og gistihús?

Hefur þú kynnt þér út á hvað það mál gengur eða varstu plötuð að málinu?

Það koma mér svakalega á óvart að þú værir komin á það mál því ef þú hefur kynnt þér það þá tel ég öruggt að þú hafir ekki skrifað upp á þetta.

Það stendur til að taka vinnuna af fullt af fólki sem hefur unnið á þessum veitingahúsum í mörg ár og þetta mun kosta ríkið hundruð milljóna.

Samkvæmt öllu sem fram hefur komið þá hafa aldrei komið upp vandamál og lögreglan staðfestir að aldrei hafi komið fram neitt sem bendir til þess að ólöglegir hlutir séu þarna í gangi.

Vertu svo almennileg að skrifa hér inn rökin fyrir því að þú setjir þitt nafn við þetta mál, brot á mannréttindum og forsjárhyggja sem er ömurleg??

Takk,

Tumi

Tumi (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 00:57

3 identicon

Leiðrétting lána á að ganga  fyrir öllu öðru ásamt því að það þarf að koma fram upplýsingar um eigendur jöklabréfa og það þarf að leggja hald á þessi jöklabréf með þau lög að þau "ógna öryggi Íslands"

Leikum sama leikinn og bretar... við verðum að fara að vera smartari en við höfum verið til þess að lifa þetta af..

 Gangi þér virkilega vel.. kross á fingri

Björg F (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 03:55

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég ætla að snúa titlatutlinu við, enda þykir mér asnalegt að kalla embættismenn framkvæmdavaldsins hærra virta en sjálfa þjóðkjörna fulltrúa okkar, þingmennina.

því við ég segja, hæstvirtur þingmaður minn, að mér þykir eftirsjá af Sigga sprútt. enda sjaldan þörfin eins brýn og nú að fá keyptan bjór og brennivín í 10-11.

en utan gríns, þá kann ég að meta að fá loks einhverjar upplýsingar um störf þingsins. slíkt væri ekki til staðar án þín og félaga þinna.

rock on!

Brjánn Guðjónsson, 24.5.2009 kl. 04:24

5 Smámynd: Sigurjón

Hafðu þökk fyrir að kynna þessi þingmál fyrir okkur almenningi Birgitta.  Ég sé ekki eftir að hafa stutt ykkur í kosningunum...

Sigurjón, 24.5.2009 kl. 07:14

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Tumi ég ætla að svara þér í sérstakri færslu - ég var ekki búin að kynna mér hvernig meðflutningur virkaði þegar ég jánkaði við þessu - hélt að við myndum hittast og fara yfir frumvarpið áður en nafn mitt yrði sett við þetta. Því mun ég biðja um að nafn mitt verði tekið af frumvarpinu, ef það er hægt.

Það sem mér finnst agalegt við öll þessi frumvörp sem sett eru þarna fram er að þingmannafrumvörp eiga nánast ekki neinn möguleika á að ná fram í þessu flóði af ees frumvörpum og öðrum sem geta alveg beðið fram á haustþing. Við hefðum viljað leggja fram frumvarp um leiðréttingu á höfuðstól lána en það er auðvitað bara tímasóun því það eru svo fáir þingmenn því hlynntir - því ætlum við að einbeita okkur að fyrirspurnum á þinginu því það er ansi mörgu ósvarað. 

Birgitta Jónsdóttir, 24.5.2009 kl. 07:41

7 Smámynd: Héðinn Björnsson

Finnst þér ekki skjóta soldið skökku við að málin sem eigi að taka til afgreiðslu á þinginu séu flokkuð eftir ráðuneytum? Ætti ekki að flokka eftir fastanefndum þingsins?

 Hvað varðar hvað sé mikilvægast af þessum málum tel ég að mikilvægast sé að skoða í þaula skýrsluna um fjárlög 2009-2013, en þar má sjá hvaða möguleikar þjóðin á undir fjármálastjórn AGS.

Héðinn Björnsson, 24.5.2009 kl. 10:45

8 identicon

Takk fyrir svörin, það var eins og mig grunaði að þú hafir verið blekkt að málinu.

Ég vona að þú hafir tök á að skoða málið vel áður en það kemur til umræðu og að þér takist að skoða gögnin og þannig að þetta verði ekki bara látið rúlla í gegn vegna þess að enginn þorir að skoða málið heiðarlega.

Ég á erfitt með að trúa því eins og ég sagði í upphafi að þú munir vera flutningsmaður af þessu miðað við hvernig þú hefur talað og tekið málefnalega á þeim málum sem rætt hefur verið um og ég hef séð.

takk og gangi þér vel.

Tumi

Tumi (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 15:46

9 Smámynd: Sigurjón

Athyglisverður punktur hjá Héðni.  Það er ekki vanþörf á að útrýma þessu bölvaða ráðherraræði!  Ráðherrar eiga ekki heima á þingi, nema í fyrirspurnartímum.  Þeir eiga ekki að hafa atkvæðisrétt eða geta lagt fram lagafrumvörp og ekki hafa málfrelsi utan téðra fyrirspurnartíma.

Sigurjón, 24.5.2009 kl. 17:04

10 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Þið klúðrið algerlega veru ykkar á þingi ef ekki verður stjórnlagaþing sem verður í höndum hundraða íslendinga. Sennilegast er að ríkisstjórnin og þingflokkarnir gæti þess að stjórnlagaþingið verði einungis "ráðgefandi" og samsett úr þingmönnum eða þeirra kónum. Og sennilega verður með það eins og stripp-frumvarpið þitt - Borgarahreyfingin verður snúin og blekkt, samsömuð hinum og ýtt út í hlægileg verkefni eins og þú núna. Stór orð í aðdragandanum - Láta svo hlæja að sér í eftirleiknum í einhverjum þarflausustu málum sögunnar. Er það ásættanlegt?

Umsókn um ESB - Stjórnlagaþing - kosningalög. Að færa lýðræðið Ísland til nýs lýðræðis!

Eins og ég skrifaði fyrir löngu - allar líkur eru á "sell-out" og að þið látið stjórna ykkur inn í tilgangsleysi. Þið eruð í þeirri stöðu að hafa þaggað raddir lýðræðisins með því að standa fyrir a.m.k. hluta þeirra inni á þingi. Munuð þið láta þagga niður í ykkur þar? Það er auðveldara fyrir fjórflokkinn að beisla og teyma örfáa nýgræðinga á þingi en þúsundir manna á götum úti. Hvernig væri nú að sýna að þið eruð ekki bara til að kapítalisera á þrá fólks eftir raunverulegu lýðræði og nota hana til að bæta nokkrum núllum aftan á launaseðlana ykkar? Eða til að fá yfir höfuð launaseðla.

Rúnar Þór Þórarinsson, 28.5.2009 kl. 13:25

11 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Æi Rúnar minn - mikið skelfing getur þú verið ómerkilegur í einfeldni þinni og alhæfingum um eitthvað sem þú hefur ekkert vit á.

Birgitta Jónsdóttir, 28.5.2009 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.