Leita í fréttum mbl.is

Jómfrúrræðan mín

Kæra þjóð

Þessi ríkisstjórn hefur lagt fram frábæra stefnuskrá ef hún hefði verið sett saman fyrir árið 2006. Stjórnarsáttmálinn hefði án efa komið þjóðinni að verulegu gagni í góðærinu. En ríkisstjórnin virðist ekki vera meðvituð um að við erum tæknilega séð gjaldþrota þjóð.

Þessi stjórn hefur um margt góðan vilja og margt í þeirra stefnu sem Borgarhreyfingin getur stutt varðandi lýðræðisumbætur. Stjórnin hefur sett frábært fordæmi fyrir nýjum vinnubrögðum á þinginu með því að leggja ESB málið í dóm samvisku sérhvers þingmanns óháð flokkslínum. Þarna er kominn vísir að vinnubrögðum sem við viljum upplifa á þinginu.

En þegar ég las verkefnalista sumarþingsins varð ég satt best að segja reið. Öskureið vegna þess að þessi listi endurspeglar ekki þá brýnu þörf á neyðaraðgerðum til að hjálpa fjölskyldunum í landinu. Reið því ég upplifi eins og svo margir aðrir að ráðamenn hafi ekki fullan skilning á því hörmulega óréttlæti sem við höfum orðið fyrir og virðast ekki skilja umfang neyðarinnar. Það þýðir ekkert að vera með bómullaraðgerðir eða málamiðlanir til að þóknast öllum hags á meðan þjóðinni er að blæða út.

Nú þurfa stjórnvöld að sýna okkur að þau hafi þor og vilja til að forgangsraða rétt, sýna að þau setji fjölskyldurnar í fyrsta sæti en ekki fjármagnseigendur.

Samkvæmt því sem komið hefur fram telur ríkisstjórnin að þær aðgerðir sem hún hefur boðað séu nægilega góðar til að hjálpa nauðstöddum. Því mun ekkert verða gert á þessu sumarþingi til að bregðast við neyðarópum almennings um hjálp.

Við verðum að hugsa út fyrir ramman – taka hugrakkar ákvarðanir sem litast ekki af flokkadráttum eða valdapólitík. Það er ekkert réttlæti í því að veðsetja vinnu Íslendinga til næstu 70 ára til að borga skuldir sem þjóðin efndi aldrei til.

En það verður engin þjóðarsátt fyrr en fargansröðin verður rétt hjá núverandi ríkisstjórn. Það verður engin þjóðarsátt nema hér verði skuldastaða heimilanna leiðrétt með stórum heildrænum aðgerðum sem koma heimilunum strax til hjálpar áður en fólk hreinlega gefst upp.

Kæru landsmenn

Þjóðin hefur verið beitt miklu óréttlæti. Það verður að draga einhverja til ábyrgðar á því hruni sem við sjáum enn ekki fyrir endann á. Það er mikil reiði í samfélaginu. Ef enginn verður færður til saka og eigur þeirra sem enn svíkja og pretta fyrir opnum tjöldum frystar á meðan rannsókn stendur, mun skella á önnur bylting, bylting fólks sem hefur engu að tapa. Það er einfaldlega ekkert réttlæti í því að þeir aðilar sem hafa hneppt komandi kynslóðir í rammgert skuldafangelsi gangi enn lausir á meðan aðrir er fangelsaðir og sektaðir fyrir að stela sér í matinn.

Ósjálfrátt eru háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar grunaðir um hagsmunatengsl.

Endurreisnin verður að fela í sér von. Von um réttlátt samfélag sem er ekki gróðrarstía svika og pretta. Vonin kemur þegar ljóst er að hér verði tekið föstum tökum á spillingu og að það sé tilgangur með því að fórna sér enn og aftur fyrir samfélagið sem við búum í. Ef hér verða ekki gerðar nauðsynlegar stjórnsýslubreytingar og lýðræðishallinn réttur af, mun fólk eiga það á hættu að lenda í sömu stöðu áður en langt um líður.

Það er því miður staðreynd að AGS stjórnar fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Við megum ekki láta þau fjölmörgu varnarorð sem við höfum fengið um þá vá sem við stöndum frammi fyrir sem vind um eyru þjóta. Auðlindir okkar og sjálfstæði er í bráðri hættu. Lærum af reynslunni í þetta sinn. Við vorum ítrekað vöruð við vegna ofþenslu í bankakerfinu okkar, en hlustuðum ekki, gerðum lítið úr þeim sem varnarorðin sögðu og uppskárum algert hrun fyrir vikið.

Yfir okkur vofir skriðþungi jöklabréfa sem geta hæglega gefið, því sem næst gjaldþrota hagkerfi okkar náðarhöggið. Við krefjumst þess að leyndinni yfir þeim verði aflétt nú þegar, sem og bankaleyndinni. Þjóðin krefst þess og við erum hér inni á þessu þingi til að þjóna henni og því megum við aldrei gleyma.




mbl.is Átta jómfrúrræður í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott hjá þér.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 08:05

2 identicon

Framúrskarandi góð ræða hjá þér.

J.þ.A. (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 08:11

3 identicon

Birgitta til hamingju með þessa ræðu hún var greinilega töluð frá hjartanu, við fólkið í landinu þurfum róttækar lausnir fyrir heimili okkar nú þegar, ég treysti á borgarahreyfinguna öðrum fremur þvi þið eruð ekki sýkt af flokkræði og ónýtum frösum.

 Ræður ykkar voru þær bestu sem fluttar vour á alþingi í gær.

 kv

Steinar Sörensson

10. sæti suður

Steinar Immanúel Sörensson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 08:31

4 identicon

Meiriháttar flott ræða hjá þér einföld, en þú sagðir það sem "fólkið & fyrirtæki" í landinu vilja segja, okkur er að blæða út....  Á ekkert að gera fyrir okkur spyrja ALLIR...?

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 08:39

5 identicon

Kaerar thakkir fyrir mjog goda raedu.

Vonandi verdur thessi raeda thin til thess ad eitthvad verdur gert.

En ekki er eg bjartsynn a thad.

Islendingur (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 09:23

6 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Góð jómfrúrræða hjá þér Birgitta flutt frá hjartanu. Vonandi hlustuðu stjórnarliðarnir vel á hana.

Jón Baldur Lorange, 19.5.2009 kl. 09:31

7 identicon

Takk, Birgitta, þú hefur talað beint út úr hjarta þjóðarinnar.

Rostungurinn (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 09:37

8 identicon

Ég gerði svo sannarlega rétt með því að kjósa þig ;-) treysti því að þið munið ekki renna ofan í gömul hjólför forvera ykkar á Alþingi.

Hrönn (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 09:59

9 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir góða ræðu Birgitta. Þú stendur þig vel. Bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 19.5.2009 kl. 10:09

10 Smámynd: Héðinn Björnsson

Þú stendur þig vel! Gott að halda fókus á stóru málin og taka ekki þátt í þessarri ESB-afvegaleiðingu stjórnmálanna á Íslandi.

Héðinn Björnsson, 19.5.2009 kl. 10:19

11 Smámynd: Einhver Ágúst

Mögnuð ræða!! Og ég held þú hafir hitt á taug þega þú talaðir um aðra byltingu, sú bylting er í loftinu og hún verður því miður ekki tónuð niður af okkur "aktívistunum"......

Halltu ótrauð áfram og gangi þér vel

KV Gústi

!8 sæti Reykjavík Norður

Einhver Ágúst, 19.5.2009 kl. 13:42

12 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flott ræða, Birgitta. Treysti að þú og þið haldið stjórninni við verkið.

Villi Asgeirsson, 19.5.2009 kl. 13:55

13 identicon

Ég horði á þennan þingfund í sjónvarpinu í gærkvöldi og eftir að hafa hlustað, þá hálfpartin sé ég eftir að hafa ekki kosið Borgarahreyfinguna, þetta voru mjög góða ræður hjá ykkur. Haldið áfram á sömu braut, þá verður gaman að fylgjast með þessum íhaldssömu fugum sem engu vilja breyta, engjast sundur og saman yfir orðum ykkar.

Valsól (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 13:58

14 identicon

Til hamingju með jómfrúarræðuna. Ég horfði á hana og mér þótti hún mjög góð og margt gott sem þú sagðir. Ég er ekki neinum vafa um að þið haldið áfram að segja það sem segja þarf á Alþingi, en ég er ekki jafn viss um að þeir hlusti sem þurfi að heyra.

Jón (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 14:41

15 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Góð byrjun, nú er bara að halda rétta "hugarfarinu" alla leið og muna að þú ert þjónn þjóðarinnar og hún treystir á þig.  Jafnvel "andstæðingar" eru farnir að gera sér grein fyrir þeim "mistökum" sínum að hafa ekki kosið Borgarahreyfinguna. 

Páll A. Þorgeirsson, 19.5.2009 kl. 16:35

16 identicon

Frábær ræða.

Takk.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 17:08

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þína einlægu en um leið kjarnyrtu ræðu! Það var virkilega svalandi fyrir áhyggjufullan huga að hlusta á skinlinginn sem endurspeglast í orðum þínum og samúðina sem skein í gegnum röddina þína.

Mig langar ekki til að vera væmin eða fara yfir strikið en þú ert svo sannarlega ein af vonarstjörnunum mínum um þessar mundir Vona að þér finnist þessi hreinskilnin frekar jákvæð en íþyngjandi!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.5.2009 kl. 18:36

18 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 19.5.2009 kl. 20:28

19 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Er ekki hægt að blokkera Ip-tölur manna eins og JI?

Guðl. Gauti Jónsson, 19.5.2009 kl. 21:35

20 identicon

Birgitta þú færð A+ í kladdann fyrir Jómfrúarræðuna. Engin froða, kjarni málsins samkvæmt þjóðarpúlsinum. Þið þingmenn Brorgarahreyfingarinnar eruð að nútímavæða Alþingi og lyfta því á hærra plan með ykkar vinnubrögðum. Takk fyrir það.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 22:40

21 Smámynd: Baldvin Jónsson

Takk Birgitta, þetta var snilldin ein :)

Raunveruleg ræða um Raunveruleg málefni þjóðarinnar - ekki froðusnakkið sem ríkisstjórnin virðist ætla að bjóða okkur upp á þar sem lítið sem ekkert virðist fullmótað eða úthugsað!

Borgarahreyfingin fer svo sannarlega vel og skörungslega af stað!

Baldvin Jónsson, 19.5.2009 kl. 23:12

22 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær Jómfrúarræða hjá þér, ef þið Þór haldið áfram á sömu braut hlakka ég til þess að fylgjast með ykkur.  Áfram Borgarahreyfing. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.5.2009 kl. 02:17

23 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka ykkur innilega fyrir hvatninguna og hlýjunni sem ég finn fyrir - það gefur mér styrk að takast á við þetta starf - það er gott að vita af baklandinu - við sem erum þarna inni þurfum á ykkur að halda til að halda fókus:)

Birgitta Jónsdóttir, 20.5.2009 kl. 06:01

24 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Já, flott ræða. Þetta byrjar vel.

Vésteinn Valgarðsson, 20.5.2009 kl. 12:10

25 identicon

Til hamingju, bæði með ræðuna og þingsetuna.   Það er erfitt að halda í hugsjón og verða ekki samdauna því umhverfi sem maður kemur inní en ég vona svo sannarlega að þið hafið úthald í það.

Einar Þór (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 11:09

26 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Gott hjá þér Birgita.

Sigurður Þórðarson, 21.5.2009 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband