Leita í fréttum mbl.is

Stjórnlagaþing fólksins

496824-1.jpgFyrir helgina var ég í sjálfskipaðri atvinnubótavinnu, eftir helgina veitti 7% þjóðarinnar mér og félögum mínum í Borgarahreyfingunni umboð til að vera talsmenn hennar á þingi. Þetta eru mikil viðbrigði og ég er ekki alveg enn að ná utan um þessar miklu breytingar.

Ég er meira en þakklát þessu trausti og vona að ég muni standast þær væntingar sem kjósendur okkar bera til okkar. Stefnan okkar er einföld en sumir þættir hennar gætu vafist fyrir þeim sem aðhyllast flokksræði og að halda í þau völd sem þeir hafa nú þegar. 

Það hefur farið lítið fyrir umræðu um Stjórnlagaþing í fjölmiðlum - ég ætlaði alltaf að koma því að þegar ég var í pallborðum og umræðum í fjölmiðlum en það tókst ekki, því ESB umræða sem og spillingarmál XS og XD voru þungamiðja orðræðunnar og erfitt að koma okkar rödd að. Ég er samt sannfærð um að það muni lagast núna, því fyrirspurnakerfi þingheims er þess eðlis að flokkarnir verða að svara okkar fyrirspurnum þar. 

Kreppan er rétt að byrja og mikilvægt að við tryggjum að almenningur leggi ekki á sig ómælt erfiði við að vinna sig úr þessu og standi svo kannski frammi fyrir því eftir 10 ár að allt fari á sama veg og núna. Stjórnlagaþing verður að vera þing fólksins ekki flokksræðisins. Tillögur Ragnars Arnalds varðandi Stjórnlagaþing hugnast mér best af þeim tillögum sem ég hef séð hingað til. Þá er mikilvægt að hafa það í huga að Stjórnlagaþing á að búa til einföld lög sem allir geta skilið og tryggi hér nauðsynlegar lýðræðisumbætur og réttlæti. Ég held að slíkt þing gæti gefið þjóðinni eitthvað uppbyggilegt að tala um og vera með í - ég held að það sé kominn tími á að við förum að hugsa út fyrir alla þessa ramma og segja má að niðurstaða kosninganna hafi endurspeglað vilja þjóðarinnar um raunverulegar umbætur. 

Ég veit að sumir óttast vinstri stjórn - það geri ég ekki - ég hef horft á og upplifað samfélagið okkar molna innan frá vegna þeirrar nýfrjálshyggju sem hér hefur sýkt og eyðilagt meira en margan grunar. Ég hef verið svo lánsöm að reka mig á alla mögulega kerfisveggi bæði fyrir mig og aðra - það er ágætur grunnur til að byrja sín þingstörf á - að laga þessa kerfisgalla með stórkostlegum endurbótum á stjórnsýslu landsins. 

En fyrst og fremst hjartans þakkir til allra sem studdu mig í þessari baráttu og lögðu lið við að vinna að því að skapa þessa hreyfingu en segja má að drög að henni hafi verið rædd í nóvember þegar 10 manna hópur ræddi um hvernig hægt væri að finna lausnir á hinu algera hruni sem við erum enn að upplifa. Ég ætla ekki að telja upp alla sem lögðu okkur lið því það er alltaf þannig að maður gleymir einhverjum - en eitt er alveg ljóst - við sem munum setjast á þing erum bara angi af risastórri grasrót sem vonandi mun halda áfram að þrýsta á utan frá. 1000 þakkir til allra sem tóku þátt í að gera það mögulegt að við erum 4 að fara inn á þing.

Hvet fólk til að mæta í 1. maí göngur og minna á að við viljum Stjórnlagaþing fólksins og að það verði enginn niðurskurður í mennta- og heilbrigðisþjónustu. Það má skera af annars staðar. Hættum við að fara til Kína á heimssýninguna - sá gjörningur mun kosta okkur skattborgara 420 milljónir. Notum þá peninga frekar í heilbrigðisþjónustuna. 


mbl.is Þörf á að endurskoða kosningalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Til hamingju Birgitta,nýafstaðnar kosningar voru mikill sigur fyrir Borgarahreyfinguna og í raun stærri sigur en maður hefði þorað að vona þar sem við höfðum ekki það fjármagn sem aðrir flokkar höfðu úr að moða til að kynna sig.

Ég er sjálfur stoltur af þvi að vera meðlimur þessarar hreyfingar og var í 10 sæti í suðurkjördæmi á lista hreyfingarinnar, nú höfum við rödd á réttum stað, og ég vona svo sannarlega að þeir sem á þing komust munu halda áfram af fullum krafti þvi starfi sem hreyfingin og meðlimir hennar standa fyrir.

til hamingu Ísland

Steinar Immanúel Sörensson, 28.4.2009 kl. 11:37

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Til hamingju sjálfur Steinar:) Þetta er upphafið að miklum breytingum og það besta er að almenningur er til í að koma að því að hafa eitthvað um samfélag sitt að segja... það er mikill og stór sigur fyrir þjóðina að vakna upp af þessum dásvefni sem hún virðist hafa verið í svo lengi. Ég hef trú á að okkur takist að klára verkefnalistann okkar sem fyrst.

Birgitta Jónsdóttir, 28.4.2009 kl. 11:51

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Til hamingju með árangurinn. Ég tek heilshugar undir hugmyndir um stjórnlagaþing.

- Undirritaður er formaður stuðningsmannafélags L-lista Fullveldissinna

Guðmundur Ásgeirsson, 28.4.2009 kl. 12:29

4 identicon

Til hamingju Birgitta og allir aðrir sem lögðu sitt lóð á vogaskálina til að koma ykkur inn . Núna er bara að halda báðum fótum á jörðinni og ekki gleyma sjálfum sér og öðrum þegar inn á alþingi er komið með fimmfaldar atvinnuleysisbætur í laun . Ég kaus ykkur eða kannski ég ætti frekar að segja okkur eftir langa umhugsun um hvað ég ætti að gera við  atkvæði mitt . Ætlaði lengi framanaf að skila auðu en söðlaði um og kaus O og lagði þar með mitt atkvæði í púkk ásamt mörgum öðrum sem varð svo til að Margrét fór inn. Hana þekki ég ekki neitt en lýst vel á hana það litla sem ég hef séð og heyrt. Þig veit ég aðeins meira um vegna barátu þinnar vegna Tíbet og svo varstu áberandi í hinni svokölluðu pönnubyltingu . En hvað um það,peningar og völd spilla besta fólki og fór svolítið um mig þegar Þráinn sagðist vegna heiðurslaunanna ætla að kynna sér hverjar hefðir og venjur alþingis væru í sambærilegum málum og hans . Eru það ekki hefðir og venjur sem við þurfum að breyta hér svo hægt sé að ná hér fram réttlættara samfélagi eins og O listin talaði um í aðdraganda kosninga . Og ef ekki nást þau margmið eða þau nást þá leggi listin sjálfan sig niður.

Jon Mag (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 12:54

5 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

  Þegar svo árar sem nú fá upphrópunar- og skrumflokkar alltaf nokkurt fylgi. Fyrir þessu  er ævalöng reynsla. Þið náðuð  betri árangri,en ég bjóst við. Vegna ykkur vel. Þið meinið vel, þykist ég vita. Ekki ætla ég ykkur annað. Heiðurslaun Alþingis verða Þráni Bertelssyni myllusteinn um háls.

Eiður Svanberg Guðnason, 28.4.2009 kl. 13:30

6 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Til hamingju Birgitta og við öll . Ég er einn af þeim sem ákvað að taka mér stöðu með ykkur, enda stefnan og málflutningurinn sá sem féll best að mínum skoðunum.

Get ekki stillt mig um að brosa af kommenti Eiðs fyrrverandi þingmanns og ráðherra um "upphrópunar- og skrumflokka" líklega á þessi nafnbót við fá betur en hans eigin flokk og reyndar allan fjórflokkinn. Spillingarmálin sem upp opinberuðust svo berlega nú í vor segja allt sem segja þarf um skítlegt eðli þeirra!

Annað , þetta með hann Þráinn og heiðurslaunin. þætti gaman að vita hvers konar eiginlega Heiðursútnefning það er sem mönnum ber að skila ef kjósendur treysta þeim til þingsetu fyrir sína hönd! Hefði t.d. Halldór Laxness átt að skila Nóbelsverðlaununum ef hann hefði verið kosinn á þing í framhaldinu af þeirri útnefningu?

Kristján H Theódórsson, 28.4.2009 kl. 15:15

7 identicon

   Að bera saman ÞB og  HKL   er  með ólíkindum !

Ef heiðra átti kvikmyndagerðarmann  voru  margir  ÞB langtum fremri. Hann hefur hinsvegnar verið duglegur að   koma sér á framfæri. Þar hefur  Framsóknarflokkurinn líka stutt vel  við  bakið á  honum.

Eiður (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 15:23

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Bíddu nú við Eiður! Ber að skilja þig svo að Þráinn hafi ekki unnið til þessara verðlauna að þínu mati og að hann eigi þess vegna að skila þeim? Það er flókið mál þegar svo er komið að úthlutunarnefnd listamannalauna verður að leita álits út fyrir nefndina.

Það er samfylkingarmönnum eðlilega sár reynsla að ná ekki sínu mesta fylgi í kosningum þrátt fyrir að stærsti flokkur þjóðarinnar bíður sögulegt afhroð. Og þrátt fyrir að vera með vinsælasta stjórnmálamann þjóðarinnar í forystu. Og þrátt fyrir að vera eina stjórnmálaaflið sem setti ESB aðildarumsókn í forgangsröð. En þegar svona vonbrigði hitta okkur þá verðum við að mæta þeim með reisn.

Og þá er að sætta sig við stórsigur Borgarahreyfingarinnar og stórsigur eina stjórnmálaflokksins sem beinlínis lýsti andstöðu við inngöngu í ESB. - Stórsigur Vinstri grænna.

Árni Gunnarsson, 28.4.2009 kl. 17:41

9 Smámynd: Hörður B Hjartarson

     Birgitta !  Lifi Búsáhaldabyltingin ! (Borgarahreifingin) . Takk fyrir brosið sem ég fékk .

Hörður B Hjartarson, 1.5.2009 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.