Leita í fréttum mbl.is

Enginn er ólöglegur

Fyrstu sumartónleikar ársins verða haldnir á nýja hljómleikastaðnum Sódóma við Tryggvagötu (Gamla Gauk á Stöng). Tónleikarnir eru haldnir til að vekja athygli á stöðu hælisleitenda hér á landi - sem og annarsstaðar í heiminum. Fjölmargir listamenn koma fram, þar á meðal: Vicky, Blóð, Megasukk & Ágústa Eva, Tóta & Djassbandið, Þrjár raddir beatur, Rapparinn Nour frá Bagdad, Skorpulifur og AMFJ.

Kynngimagnað kvöld: Íslensk músik, stutt erindi um stöðu hælisleitenda, og arabískt rapp. Aðgangseyrir er 1000 kr.


barattutonleikar

Um hælisleitendur

Um 20-30 hælisleitendur dvelja á Íslandi hverju sinni. Margir þeirra eru flóttamenn frá stríðshrjáðum löndum, eins og Afganistan og Írak. Þeir dvelja í herbergjum í Njarðvík, en flestir Íslendingar vissu ekki af tilvist þeirra fyrr en nú í vetur. Sumir þeirra hafa beðið eftir svari við hælis-umsókn sinni í nokkur ár. Á meðan þeir bíða mega þeir ekki vinna, ekki stunda nám, og eins eiga þeir erfitt með að fá lágmarks læknaþjónustu. Þeir vita ekki hvort þeir fái svar frá Útlendingastofnun á morgun, í næsta mánuði eða eftir ár. Líf þeirra er því ein nagandi óvissa.

Á árunum 1990 til 2007 sóttu 601 manns um hæli á Íslandi, öllum var hafnað nema einum. 53 fengu hinsvegar tímabundið dvalarleyfi. Útlendingastofnun hefur veitt vinum ráðamanna greiða og skjóta þjónustu, á meðan þeim hælisleitendum, sem hingað koma með réttum leiðum, hefur kerfisbundið verið hafnað. Þess vegna er Ísland langt undir þeim tölum sem nágrannalönd okkar hafa markað sér varðandi hælisveitingar. Þessu verður að breyta!

Af hverju ekki Grikkland?

Hælisleitendum er vísað frá Íslandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Reglugerðin var samin til að tryggja hælisleitendum athvarf leiti þeir þess innan Schengen-svæðisins. Hún að tryggja það að fyrsta landið, innan Schengen-svæðisins, sem hælisleitendur koma til, sé skylt að skoða mál þeirra. Hælisleitendur eiga þó einnig rétt á að sækja um hæli í öðrum löndum innan svæðisins. Hér á landi hafa hælisleitendur iðulega verið sendir aftur til fyrsta Schengen-landsins sem þeir ferðuðust í gegnum, í mörgum tilvikum er það Grikkland - án þess að mál þeirra sé skoðað hérlendis.

Að undanförnu hefur Grikkland ekki uppfyllt skilyrði Dyflinnarreglugerðarinnar, en um 2,4% hælisleitenda sem eru sendir þangað fá þá „sanngjörnu málsmeðferð“ sem Dyflinnarreglugerðin lofar þeim. Á heimasíðu Rauða kross Íslands stendur:

Íslensk stjórnvöld verða að ganga úr skugga um að [hælisleitandi] fái umsókn sína til meðferðar og að hann eigi ekki á hættu að verða sendur til heimaríkis... Íslensk stjórnvöld eru bundin af Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem banna endursendingu... til heimalands eða annars ríkis þar sem viðkomandi á hættu á að verða fyrir ofsóknum... Væri t.d. ljóst að íslensk stjórnvöld gætu sent hælisleitanda til annars aðildarríkis Dyflinnarsamkomulagsins og hefði rökstuddan grun um að það ríki myndi síðan strax senda viðkomandi til síns heimalands þar sem hann ætti á hættu að verða fyrir ofsóknum þá væru íslensk yfirvöld mjög líklega að brjóta gegn skuldbindingum sínum.

Ítrekað hafa hælisleitendur verið sendir af íslenskum stjórnvöldum til Grikklands, án þess að íslenskt stjórnvöld hafi fengið staðfestingu frá Grikklandi um að þeir taki mál hælisleitandans að sér. Því eru mörg dæmi um að þeir hælisleitendur séu sendir frá Grikklandi aftur „heim“ - til Afganistan eða Íraks, eða þess lands sem þeir flúðu upphaflega.

Í Grikklandi búa hælisleitendur í tjöldum, í flóttamannabúðum, þar sem aðgengi að hreinu vatni er takmarkað. Þeir njóta engra réttinda - sé þeim nauðgað, eða þeir beittir ofbeldi, geta þeir ekki leitað sér hjálpar eða réttar síns. Þess vegna hafa samtök eins og Amnesty International og Flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna lagt til að ríki sendi ekki hælisleitendur til Grikklands.

Dómstólar í Belgíu úrskurðuðu einnig, í apríl 2008, að þarlendum stjórnvöldum sé óheimilt að vísa hælisleitendum til Grikklands vegna slæmrar meðferðar. Sama ár var lögð fyrir Evrópuþingið 68 blaðsíðna skýrsla sem norskar og finnskar stofnanir unnu um beitingu Dyflinnarsáttmálans í tilfelli Grikklands. Þar kemur fram að móttaka og hýsing flóttafólks sem er handtekið við komuna til Grikklands er fært í varðhald og hýst til lengri tíma í „varðhaldsmiðstöðvum“. Dvölin þar feli í sér linnulaus mannréttindabrot, aðstæður og meðferð séu „óviðunandi“ og vitnisburður liggi fyrir um skelfilegt ofbeldi og pyndingar af hálfu lögreglu.

21. öldin verður öld flóttamannsins.

Ísland verður að standa við þær alþjóðlegu skuldindingar sem landið hefur þegar skrifað undir. Á síðasta ári sagði hælisleitandi frá Afganistan að honum væri ítrekað svarað, þegar hann fengi höfnun um hæli, að hann væri einfaldlega ólögleg manneskja. Í september síðastliðinn var hann sendur með lögreglufylgd frá Íslandi, og aftur til Afganistan. Enginn manneskja er ólögleg! Enginn er ólöglegur!

Nánari upplýsingar

Hér er youtube myndband frá búðunum í Grikklandi:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Við þurfum svo sannarlega konu eins og þig til að breyta vinnubrögðum á Alþingi og í stjórnkerfinu. Þá þurfum við ekki lengur að skammast okkar fyrir það hvernig við höfum komið fram við þá sem leita ásjár okkar.

Margrét Sigurðardóttir, 24.4.2009 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband