Leita í fréttum mbl.is

Að fara í framboð

Lífið er skringilegt ferðalag og enginn veit sína ævi fyrir, svo mikið er víst. Ég get ekki sagt að ég hafi tekið þá ákvörðun að leiða lista með léttum hug. Ég veit að við erum að fara að kljást við einhverja þá verstu tíma sem þjóð mín hefur staðið frammi fyrir. En það er annað hvort að hrökkva eða stökkva og mér fannst mikilvægt að hafa hugrekki til að stíga inn í óttann sem felst í því að takast á við þetta hlutverk. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að venjulegt fólk bjóði sig fram í þetta hlutverk. Ég er ósköp venjuleg manneskja sem rétt eins og svo margir óttast um framtíð komandi kynslóða, óttast hvað koma skal ef við þurfum að bera skuldir óreiðumanna. Ég vona að þessi ákvörðun mín verði til þess að fleiri gefi kost á sér sem hafa engin hagsmunatengsl, sem eru að upplifa á eigin skinni þá kreppu sem við erum rétt að byrja að stíga inn í. Ég vona að þið komið til liðs við okkur og hjálpið okkur að ryðja veginn að auknu lýðræði hérlendis. Oft hefur mér liðið sem ég búi fremur í einveldi en lýðveldi. Flokksræðið er algert og stendur án efa fyrir því að þau mál er brenna hve mest á að koma í gegnum þingið, virðast pikkföst.

Ég óttast að skjaldborgin svokallaða verði notuð sem kosningamál - skil ekki af hverju þau mál er varða þessa skjaldborg séu ekki í algerum forgangi inni á þingi. Ég skil ekki af hverju hér var hægt með einu pennastriki að setja á neyðarlög sem ganga á skjön við stjórnarskrá okkar, ég skil ekki af hverju það er ekki hægt með einu pennastriki að stoppa að fólk sé borið út á götu. Ég í einfeldni minni hélt að það væri það sem gera ætti fyrst þegar ný stjórn tók við. Hvað á þessi seinagangur að þýða?

Ég ætla ekki að lofa neinu sem ég veit ekki hvort að ég geti staðið við - ég get bara lofað að gera mitt besta. Ég get lofað því að starfa eftir stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar - Ég mun vera dugleg að fá lánaða dómgreind frá ykkur sem eruð baklandið - þið sem eruð rétt eins og ég sannfærð um að hér verður að hrinda af stað róttækum breytingum á stjórnsýslu og valdi - hér verði að komast á þrískipting valds og að hér þurfi að losa um þau höft sem flokksræðið hefur þvingað þjóðina inn í. Það er ekki eðlilegt að heil helgi fari í að tala um foringja og glæsileika landsfunda á meðan þjóðinni blæðir. Ég hef engan áhuga á að daga uppi á þingi - ég vil aftur á móti fara og moka flórinn - ég vil fá aðgang að þeim upplýsingum sem þjóðin kallar eftir en fær bara þögn - ekkert hljóð - bara yfirvofandi niðurskurðarblóð. 

Ég get lofað því að svíkja aldrei samvisku mína eða siðferðiskennd sem oft er stærri en góðu hófu gegnir. Ég mun frekar víkja en að fara inn á grá svæði. Ég mun frekar víkja en að þynna út stefnu okkar þannig að hún verði svipur hjá sjón. 

Ég hef aldrei litið á þann stuðning sem Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, tengist beint persónum - við erum öll aðalleikendur í þessu leikriti lífsins og við skiptum öll máli - rödd okkar hefur aldrei þagnað þó sumir haldi því fram að raddir fólksins séu þagnaðar - við erum líka raddir fólksins - við vorum líka í mótmælum frá upphafi hrunsins - skipulögðum viðburði og fundi - við slógum á búsáhöld og hrópuðum okkur hás en síðast en ekki síst þá höfum við unnið myrkrana á milli við að finna lausnir - í allskonar hópum - frá öllum mögulegum þjóðfélagshópum. 

Næg eru verkefnin sem framundan eru - ég hef engan áhuga á að sitja með hendur í skauti. Þetta er mín leið til að sá fræjum - til að hafa áhrif, til að breyta því sem mér finnst vera ólíðandi. 

Nóg um mig: hvað vilt þú? Hvað finnst þér mikilvægast að gera til að upplifa réttlæti og sátt innra með þér, meðal þjóðarinnar?


mbl.is Rithöfundar leiða í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Ég tek ofan fyrir fólki sem situr ekki við orðin tóm. Þorir að bjóða sig fram og láta verkin tala. Ég held að Borgarahreyfingin geti veitt flokksræðinu aðhald og vonandi breytt einhverju. Flott framtak!

Haraldur Hansson, 30.3.2009 kl. 18:20

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka þér innilega fyrir Haraldur:)

Birgitta Jónsdóttir, 30.3.2009 kl. 20:52

3 identicon

Mér lýst vel á ykkur!  Ég vil ykkur á þing. Orðinn þreyttur á þessu pakki sem halda að þau ráði öllu og finnst sjálfgefið að allir vilji þau á þing.

En má ég spyrja að einu, bara þar sem ég er nú svona áhugamaður um það.  Munuð þið beyta ykkur fyrir því að reyna að vinna saman, reyna að fá alla til að koma saman, hlusta og reyna að finna lausnir og einhversskonar miðjupunkt milli skoðana.  Mér finnst orðið svo þreytt að þurfa að hlusta á þetta með og á móti kjaftæði.  Fyrir mér er það bara þras um ekki neitt og ég held að fólk ætti að geta unnið betur saman en nú er gert.

Miðað við það sem ég les um borgarahreyfinguna er þetta fólk úr öllum áttum, sem reynir að vinna saman að lausnum og er ekki að láta eigin skoðanir ganga fyrir heldur þvert á móti, reynir að finna eitthvern miðjupunkt.  Það er það sem þarf að fara að gera á þingi, ekki þetta endalausa væl og þras.

Baráttu kveðjur!

Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 21:28

4 identicon

Haraldur ég veit hvað þú ert góður penni, mig langar til að biðja þig um að ganga í hreyfinguna

Ég setti þetta komment sem svar hjá 1 framsóknarmanni sem var að tala um það að  Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur haft hugrekki og þor í endurnýjun á forystu og framboðslistum flokksins vegna búsáhalda byltingarinnar, kommon var ekki verið að kalla allt annað það?

Mr;Magoo (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 21:55

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þið voruð frábær á blaðamannafundinum í dag. Takk fyrir mig Skrif þín hér að ofan er líka frábær lesning Ég trúi ekki öðru en þú komist inn á þing! og það verða fleiri úr hreyfingunni sem sitja þar með þér á næsta kjörtímabili

Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.3.2009 kl. 22:26

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Til hamingju, þetta lítur flott út hjá ykkur, og ég veit að innihaldið er massíft bæði um mannaval, hugmyndir og skrif.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.3.2009 kl. 22:39

7 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég óska þér góðs í þessum kosningum og gaman væri að sjá þig komast á þing enda eru skrif þín afar áhugaverð. Það myndi marka töluverða endurnýjun á Alþingi að fá Borgarahreyfinguna þangað til starfa.

Hilmar Gunnlaugsson, 31.3.2009 kl. 01:57

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Já, fjandakornið þá vildi ég sjá Birgittu komast á þing

Helgi Jóhann Hauksson, 31.3.2009 kl. 02:31

9 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Trúðu mér Birgitta, að hvernig sem allt fer þá verður þetta gaman -og ómetanleg reynsla fyrir þig.

Bestu kveðjur,

Hildur Helga Sigurðardóttir, 31.3.2009 kl. 06:12

10 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka ykkur kærlega fyrir traustið:) Finnst þetta allt saman frekar óraunverulegt en ákaflega lærdómsríkt. Hef líka í öllum þessum aðdraganda lært óendanlega mikið um kerfið sem við búum við - lært mikið um mannlegt eðli og útaf því að ég er mikil áhugamanneskja um mannlegt eðli þá finnst mér ég nú þegar búin að öðlast dýrmæta reynslu - ekki síst um sjálfa mig sem ég ætla að nýta mér ef ég kemst inn á þing. Ég mun aldrei geta orðið miðjumoð manneskja. Ég er aftur á móti til í að hlusta á rök annars fólks og ef einhver kemur með betri lausn sem greiðir leið þeirrar alsherjarlausnar sem við erum að leita eftir til að koma hér á betra samfélagi þar sem almenningur fær tækifæri á að vera virkari í að móta framtíð og líf sitt þá er ég alltaf til í að hlusta og jafnvel breyta um aðferð. Það er ekkert í þessu lífi meitlað í stein- það sem manni þótti sjálfgefið í dag getur breyst í einu hendingskasti þegar maður upplifir eitthvað óvænt sem kollvarpar öllu sem maður hélt vera traust og öruggt. Ég hef fengið að upplifa þannig kringumstæður persónulega og þurft að búa við mikla óvissu og ótta en náð að vinna mig úr því - þess vegna held ég að ég sé ágætlega fær um að vera skýr í kollinum ef ég fæ stór verkefni til að kljást við þegar kemur að þjóðarhag og almannaheill.

Ég mun leitast við að finna út hjá öðrum þingmönnum það sem við getum unnið að saman - ég er sjálf búin að fá alveg nóg af orðaskaki og að slá sig til riddara. Ég hef enga trú á að maður eigi hugmyndir - oft hef ég haft frumkvæði að einhverju - plantað einhverjum fræjum og svo hefur einhver annar tekið það og gert eitthvað með það - það er bara fínt. Í það minnsta varð eitthvað úr því sem ég hafði kannski ekki þrek eða áhuga á að taka alla leið:)

Ég er aftur á móti með afar sterk prinsip og þau verða ekki beygð - ég tek ekki þátt í óheiðarleika og stend yfirleitt upp í hárinu á þeim sem reyna að fara inn á grá svæði. Ég hef enga trú á píramída pólitík - ég hef aftur á móti mikinn áhuga á að virkja þjóðina í að taka þátt í að móta þá framtíðarstefnu sem við þurfum að sjá fyrir okkur - finnst það spennandi - sé fyrir mér þjóðfund eftir kosningar þar sem öllum er boðið að koma og taka þátt. Það eru til allskonar spennandi verkfæri til að virkja almenning í móta samfélagið sitt - við höfum gert tilraunir með þetta í grasrótinni og náðum þeim árangri að finna hvað það var sem allir voru ásáttir um að brýnast væri að gera og árangurinn er stefnuskrá XO. Það er nú ekkert minna en kraftaverk að það hafi tekist að sameina svona marga hópa í þessari vinnu þó svo að vissulega hafi einhverjir helst úr lestinni. 

Birgitta Jónsdóttir, 31.3.2009 kl. 07:33

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Baráttukveðjur. Gó görl.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.3.2009 kl. 10:02

12 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Baráttukveðjur að norðan. Við rokkum

Arinbjörn Kúld, 31.3.2009 kl. 10:27

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Birgitta mín gangi ykkur vel.  Láttu engan særa þig eða meiða nú þegar þú ert komin í leðjuslaginn.  Þar gilda viðmið frumskógarins og því hærra sem þið skorið í skoðanakönnunum, því meiri drullu megið þið búast við.  Það er erfitt fyrir ný framboð að koma fram, þið ættuð samt að hafa góðan og mikinn stuðning.   Ef fólk meinar það sem það segir um Nýja Ísland.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.3.2009 kl. 10:35

14 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þið eigið eitt öruggt atkvæði í Reykjavík Suður að minnsta kosti

Ég treysti ykkur best til að gera einhverjar breytingar og hef engar áhyggjur af því að atkvæði mitt verði að engu ef illa fer. Ég get þá staðið upp úr sófanum eftir kosningar og sagst hafa gert mitt besta. Þetta er sagt þrátt fyrir að ég hafi alla trú á því að þið komist yfir þann prósentumúr sem þarf til að þið komist á þing.

X-O

Höskuldur Búi Jónsson, 31.3.2009 kl. 11:12

15 Smámynd: Offari

Ég vona að þér gangi vel ég styð þær lýðræðisúrbætur sem Borgarahreyfingin vill gera. En eins og Höski nefnir hér að ofan verður það hræðslan við að henda atkvæðinu sem mun draga úr fylgi við ykkur. 5% regluna þarf því að afnema svo lýðræðið geti barist gegn fjórflokknum.

Mr Margo er greinilega lítið hrifinn af þeirri nálgun sem Framsókn hefur boðið búslóðabyltinguni. Mér hefur reyndar alltaf verið sama hvaðan gott kemur og þigg allt gott með þökkum. En mér finnst Framsókn einfaldlega gera mest í því að hlusta á kröfur fólksins af fjórflokkunum.

Ég hefði samt frekar vilja ganga lengra en framsókn í afskriftum skulda heimilina (30-40%) en frekar fara þá leið að setja fyrirtækin í skilanefndir og selja starfsfólki þau þegar búið er að finna rétt verð á þau.

Offari, 31.3.2009 kl. 11:53

16 identicon

Hæhæ þetta er flottur pistill hjá þér. En ég vil endilega biðja Helga Jóhann Hauksson að ganga í Borgarahreyfinguna. Þetta er maður sem veit sínu viti og er klár kall ;) Helgi endilega komdu til okkar, við þurfum á mönnum eins og þér að halda, og þá sérstaklega varðandi rágjöf fyrir ESB.

Heimir Örn Hólmarsson (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 12:29

17 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hér fer afar verðugur fulltrúi almennings þ.e. Íslendinga!

Gangi þér vel Birgitta mín - þið eigið eftir að komast lengra en margur heldur.

Ég vil minna þig á mæður og mæðraveldið - skrifaði í gær að ,,mæður væru pólitík - annað væri hjóm"  Stend við það.

Baráttukveðjur til Borgarahreyfingarinnar.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 31.3.2009 kl. 13:56

18 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Frambjóðandi sem skrifar svona góðan og einlægan pistil á skilið að komast á þing og ekki bara það, á erindi á þing.  Gangi þér vel.

Jón Kristófer Arnarson, 31.3.2009 kl. 21:29

19 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mikið eruð þið yndislegt fólk - það eru svona raddir sem gefa manni hugrekkið og kraftinn til að halda áfram :)

Ásthildur mín - að vera uppalin af umdeildri og þekktri konu eins og mömmu kenndi manni sitthvað um kjaftasögur og illar tungur - ég held að skrápurinn minn sé orðin nokkuð þykkur:) og svo hjálpaði auðvitað að þýða bók sem tók á þeirri gullnu lífsreglu að taka ekkert persónulega...:) 

Alma Jenny hvar finn ég eitthvað um mæðraveldið hjá þér - þú ert svo dugleg að blogga að ég fann þetta ekki áðan...

takk enn og aftur fyrir stuðninginn - ég mun vera eins mikið og ég get á kosningaskrifstofu í páskafríinu og hvet ykkur til að koma og fá ykkur rótsterkt kaffi með mér;)

Birgitta Jónsdóttir, 31.3.2009 kl. 21:41

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Birgitta mín svona eins og um lagið A boy named Sue  Hún hefur búið þig vel undir framtíðina þessi elska, blessuð sé minning hennar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2009 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 509214

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.