Leita í fréttum mbl.is

Minningartónleikar um mömmu: Bergþóru Árnadóttur

Kæru félagar - á morgunn sunnudaginn 15. febrúar verða haldnir tónleikar til að heiðra minningu móður minnar, Bergþóru Árnadóttur. Þetta er afmælisdagurinn hennar en hún hefði orðið 61 á morgunn. Hennar er sárt saknað en mikil gjöf að sjá lög hennar glædd lífi í flutningi frábærra listamanna. Komið nú endilega ef þið hafið tök á - þætti vænt um að sjá ykkur:) Hér er fréttatilkynningin: 

Kápan af bókinniMinningartónleikar um söngkonuna og tónsmiðinn Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 15. febrúar kl. 20 Á tónleikunum verður eingöngu flutt efni eftir Bergþóru en tónleikana ber einmitt upp á afmælisdag hennar.

Þeir listamenn sem heiðra minningu Bergþóru að þessu sinni eru: Eyjólfur Kristjánsson, Ellen Kristjánsdóttir, Eyþór Gunnarsson, Hjörleifur Valsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Valgeir Skagfjörð, Kristjana Stefánsdóttir, Svavar Knútur og þríeykið Elín Ey, Myrra Rós og Marta Sif, sem allar standa framarlega meðal ungra og upprennandi íslenskra söngvaskálda.

Á tónleikunum verður ennfremur brugðið upp mynd af Bergþóru gegnum stuttar frásagnir frá samverkamönnum, þar sem varpað verður ljósi á hina mannlegu þætti í hennar listamannsferli, hvort sem um er að ræða tregafulla eða gleðilega. Leitast verður við að sýna fram á þau áhrif sem Bergþóra hafði sem listamaður og einnig hvernig hún snerti líf samverkamanna sinna.

Það er nýstofnaður minningarsjóður um Bergþóru sem stendur að tónleikunum. Sjóðurinn var stofnaður í framhaldi af tvennum velheppnuðum tónleikum sem haldnir voru á síðasta ári og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar, en tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Miðaverð krónur 1.500 og fer forsala aðgöngumiða á minningartónleikana fram á vefsíðunni midi.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Til hamingju með daginn hennar mömmu þinnar! Vona að þið eigið yndilegan dag saman með lögunum hennar og minningunum um hana. Sjálf hef ég mikið uppáhald á útsetningum hennar og flutningi á ljóðum Steins Steinarrs.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.2.2009 kl. 22:00

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka þér fyrir Rakel mín - sammála þessu varðandi Stein á Stein ofan - hún hafði einstakt lag á að lokka fram lög sem virtust hvíla innra með ljóðunum hans - enda kann ég þau flest utan af ;)

sendi þér bjartar og hlýjar kveðjur 

Birgitta Jónsdóttir, 14.2.2009 kl. 22:07

3 Smámynd: Páll Höskuldsson

Birgitta tónlist móður þinnar lifir og mun lifa áfram eftir daga okkar. Það er vegna þess að hún var yndislegt tónskáld og frábær trúbador. Gangi ykkur vel með tónleikana.

Páll Höskuldsson, 14.2.2009 kl. 22:58

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Vissi ekki að þú værir dóttir Bergþóru, Birgitta mín.  Hún hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er þakklát fyrir að minningu hennar sé gert hátt undir höfði

Sigrún Jónsdóttir, 14.2.2009 kl. 23:41

5 Smámynd: Þórbergur Torfason

Var á tónleikunum í Salnum. Þeim gleymi ég seint. Gott framtak Birgitta. Mamma þín var snillingur.

Þórbergur Torfason, 15.2.2009 kl. 00:01

6 Smámynd: Jón Arnar

Vildi ég gæti komið á tónleikana í fríkirkjunni en er ekki á klakanum því miður -  er þar sem hún bjó lengi DK

Jón Arnar, 15.2.2009 kl. 01:23

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka fyrir hlýjar kveðjur kæru félagar - tónleikarnir í Salnum voru ógleymanlegir - held að það verði seint hægt að endurskapa það sem gerðist þar :)

Held að tónleikarnir í kvöld verði allt öðru vísi en þó án efa ógleymanlegir - Hlakka mikið til að heyra Hjörleif Vals flytja Þrjú ljóð um lítinn fugl á fiðluna sína - hann gerði það í himnaförinni og ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um það.

Birgitta Jónsdóttir, 15.2.2009 kl. 10:47

8 Smámynd: Björn Jónsson

Blessuð sé minning hennar.

Góður tónlystamaður.

Gangi þér allt í haginn.

Björn Jónsson, 15.2.2009 kl. 15:49

9 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Til hamingju með daginn, Birgitta mín.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 15.2.2009 kl. 15:58

10 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

takk Hildur og Björn

maður situr hér og heldur aftur nokkrum tárum - hún skildi eftir sig svo rosalega mikið tóm:) og það er á svona dögum sem söknuðurinn verður eitthvað svo yfirþyrmandi...

Birgitta Jónsdóttir, 15.2.2009 kl. 16:08

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Æ, elsku Birgitta hvað ég skil þig vel Fjársjóðurinn sem hún skildi eftir hlýtur þó að vera mikil huggun. Vona það a.m.k. að þú getir leitað huggunar í hann.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.2.2009 kl. 17:03

12 Smámynd: Jack Daniel's

Það vildi ég svo sannarlega óska að ég gæti komið á þessa tónleika því mamma þín var og er ein af mínum uppáhalds tónlistarmönnum.

Jack Daniel's, 15.2.2009 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.