Leita í fréttum mbl.is

Að vera eða vera ekki á moggabloggi

Viðbót: Tómas Ha og eyjan.is hafa gagnrýnt mig fyrir að fordæma ritskoðun á mbl.is á meðan ég stunda hið sama sjálf. Mér finnst þetta ekki sambærilegt: Mér finnst mikill munur á að loka á einstaka ruddaleg komment og að loka fyrir alla sem vilja tjá sig hjá mér en það gerði mbl.is, þeir lokuðu á alla sem vildu tjá sig um fréttina. Það að loka á komment sem í raun og veru gera fréttina enn meiri stórfrétt finnst mér alvarlegt. Þ.e.a.s. að maður sem er náinn vinur og samstarfsmaður Davíðs Oddsonar að veitast að sáru fólki þá er það vel. Mér finnst það bara óásættanlegt. Það hefði verið hægt að setja inn eða taka viðtal við fólkið sem Ólafur veittist að til að skapa jafnvægi í fréttinni. 

Ég ákvað á sínum tíma að fá mér aðsetur hér á mbl.is til að nýta mér frábæra tækni sem þeir hafa þróað til að búa til tengslanet og til að koma fréttum og skoðunum á framfæri. Ég hef mælt með því við fjölda manns að fá sér moggablogg vegna þess að mér hefur fundist þeirra vefsvæði bjóða upp á bestu möguleikana til að vera í samskiptum og fylgjast með nokkrum firnagóðum bloggurum.

Ég hef lagt mikla vinnu í bloggið mitt og oft fundist frábært að geta haft aðstöðu til að blogga við fréttir, því þar hefur maður haft kost á að leiðrétta ef rangt er farið með staðreyndir í fréttum og kannski bæta einhverju við ef upp á vantar. 

En það hefur líka sína ókosti að blogga hér -inn á bloggið mitt flæðir oft mikill flaumur af svokölluðum tröllum - fólk sem eys úr sér þvílíkum viðbjóði og mannvonsku að í fyrstu fékk maður hland fyrir hjartað þegar þetta flæddi inn í innboxið mitt og á síðu sem ég ber ábyrgð á.

Í fyrstu reyndi ég að svara þessu fólki á málefnalegan máta en sá að það var hræðilegur tímaþjófur og þetta fólk var ekki tilbúið að hlusta á nein rök - heldur vildi lík og Ólafur Klemm snappa sér fæting.

Því hef ég lokað á nokkur af þessum tröllum og hafa þau ekki aðgang að kommentakerfi mínu - segja má að það sé einskonar ritskoðun. Tek það fram að það er eingöngu fólk sem hefur verið með persónulega níð á mig eða aðra sem tjá sig á bloggi mínu.

Í fyrradag og í gær varð ég vitni af einhverju sem ég get ekki sætt við mig hér á mbl.is. Ritskoðun sem er ófyrirgefanleg. Lokað var við og allar tengingar við færslur er lúta að fréttum er tengdust ofbeldisfullri hegðun bræðranna Klemensson við mótmælendur á gamlársdag. Þegar fréttin kom fyrst fram á mbl.is var ekki vitað hverjir þessir menn voru - það afhjúpaðist síðan hér í bloggheimum að mennirnir sem ógnuðu fólki sem var verið að hlúa að eftir að hafa fengið piparúða í augun, væru opinberir starfsmenn. Ekki nóg með það - þá kom í ljós að annar þessara manna var svæfingarlæknir og hinn hagfræðingur í Seðlabankanum - ásamt því að vera persónulegur og náinn vinur Davíðs Oddssonar sem og Geirs Haarde. 

Þegar þetta var orðið augljóst og mennirnir harðlega gagnrýndir fyrir ofbeldisfulla hegðun og fjöldi vitna komin fram sem urðu fyrir barðinu á þeim lýst sinni reynslu - þá ákvað ritstjórn mbl.is að loka og fjarlægja tengingar við fréttina. Fyrst var bara fjarlægt það sem stóð við fréttina "Taldi sér ógnað", síðan sá ég að einnig væri búið fjarlægja möguleikann á að tengja við fyrstu fréttina og myndbandið af bræðrunum að ógna og stugga við fólki sem er ekki að gera þeim neitt. 

Svör ritstjórnar mbl.is eru aumlegt yfirklór en hér er svar frá þeim: "Við þessa frétt og aðra til voru skrifaðar svívirðingar og hótanir við nafngreindan einstakling sem ekki þótti hæfa að birta á mbl.is.
Með kveðju,
Árni Matthíasson"

Það hefði verið snyrtilegra og meiri viska í því hjá ritstjórn mbl.is að fjarlægja aðeins þau blogg sem innihéldu slíkt en flest þau blogg sem voru tengd við þessar fréttir innihéldu ekkert sem flokka mætti undir sem hótanir. Þau innihéldu aftur á móti mikilvægar viðbætur við þessar fréttir af hendi sjónarvotta, sem og um hverjir þessir menn væru.

Mér finnst að mbl.is ætti að biðja lesendur sína afsökunar um að hreinlega halda viljandi frá því mikilvæga viðbót við frétt sem í löndum með siðferði á öllu hærra stigi, þætti stórfrétt. 

Ég er alvarlega að íhuga að taka saman poka minn hér á mbl.is og fara á önnur mið. Finnst það leitt en ég get ekki lagt nafn mitt við slíka ritskoðun sem augljóslega er aðeins út af þrýstingi að ofan. Það er bara svo augljóst. Það er annars svo merkilegt að fylgjast með því að það er alger þöggun um þetta í öðrum fjölmiðlum. En hægt að fá greinagóða útlistun á this.is/nei.

Ég óska eftir hugmyndum um hvert væri sniðugt að færa sig, ég hef ekki áhuga á að vera inni á visir.is 

p.s. Skora á fólk að skoða myndbönd sem hægt er að finna hjá sumum er tengja við þessa frétt, þar sem sýnt er hvernig Kínverjar hamfletta dýrin á meðan þau eru lifandi. Það er alls ekki fyrir viðkvæmt fólk - ég varð að slökkva á þessu áður en myndbandið var að fullu búið...

 


mbl.is Harma umfjöllun um Cintamani
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Þú ert nú varla að segja að ég sé eitt af þessum tröllum Birgitta . ? .... Ég sem hélt að ég væri svo málefnalegur.

Brynjar Jóhannsson, 4.1.2009 kl. 10:41

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þú ert ekki tröll í mínum huga Brynjar:) finnst þú bara ansi málefnalegur þó við séum ekki á sömu skoðun með allt...

Birgitta Jónsdóttir, 4.1.2009 kl. 10:51

3 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Stofnaðu blogg á wordpress.com. Allir kostir góðs kerfis, engin ritskoðun.Með skráningu á blogggáttinni eru allir vegir færir og blog.is verður óþarfur milliliður.

Annar möguleiki er að kaupa sér lén. Það er ekki sérlega dýrt og hentar vel fyrir þá sem geta hugsað sér að deila netsvæði (kostnaðarskipting).

Gísli Ásgeirsson, 4.1.2009 kl. 10:55

4 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Baldur Mcqueen með fína samantekt :) Ég held að moggabloggið sé að skíta endanlega í heyið...

En mig langar að láta vandlætingu mína í ljós þannig að þeir finni fyrir því... þeir taka ekkert eftir því þó við tvær yfirgefum svæðið... þurfum að fá fjölda-flótta

Heiða B. Heiðars, 4.1.2009 kl. 11:36

5 Smámynd: Sævar Finnbogason

það fyndnasta í þessu með ólaf þennann Klemenz er að ef han vildi komast hjá því að lenda í klónnum á mótmælendum hefði hann hæglega geta gengið hinum megin við götuna, enda viðurkennt að besta leiðin til að lenda ekki í hringiðunni er að sveigja framhjá henni.

Sævar Finnbogason, 4.1.2009 kl. 11:45

6 Smámynd: molta

Gleðilegt ár og baráttukveðjur.

molta, 4.1.2009 kl. 11:47

7 identicon

mbl eru að leggja drög að því að verða ekki til á nýja íslandi... Árni Matt er orðin aðal talsmaður ritskoðunar á íslandi.

Ég er líka að leita að nýju kerfi... visir.is sukkar... það er kannski von um að einhver góður kaupi mbl... samt vill einhver kaupa blað sem er orðið þekkt fyrir að traðka á málfrelsi.

DoctorE (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 11:48

8 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Wordpress er mjög fínt

Heiða B. Heiðars, 4.1.2009 kl. 11:51

9 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Ég er nýr hér á blogginu eins og þið vitið flest en er samt að hugsa mér til hreyfings - eða hætta eftir stuttan bloggferil, bæði vegna þessa tiltekna máls og nafnbirtingarkröfunnar, sem gekk í gildi um áramótin.

Björgvin R. Leifsson, 4.1.2009 kl. 12:24

10 identicon

Ég er nú bara stoltur yfir því að hafa aldrei ritskoðað neitt á mínu bloggi... allir geta sett in athugasemdir, np.

DoctorE (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 12:57

11 Smámynd: Líf Magneudóttir

Ég sé ekkert athugavert við það að einkarekinn miðill stjórni umfjöllun við fréttir sem hann birtir. Rétt eins og þú stjórnar því sem birtist í athugasemdakerfinu á blogginu þínu. Of mikill tími færi í það hjá fáliðuð starfsfólki mbl.is að ritskoða hverja einustu færslu. Í þessu tilfelli hafa þeir ákveðið að vænlegast væri að loka fyrir allar athugasemdir. Rétt eins og með viðkvæmar fréttir af nauðgunum, líkamsmeiðingum eða viðkvæmum dómum o.s.frv. Í þessu tilfelli finnst þér málið koma þér við og því geturðu ekki verið hlutlaus í mati þínu á þessari tilteknu aðgerð starfsmanna mbl.is. 

Oft sér maður ekki skóginn fyrir trjánum.

Gangi þér vel með ákvörðunina þína. 

Líf Magneudóttir, 4.1.2009 kl. 13:02

12 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Þrætubókar þras er list,

því er mál að blogga.

Það er bara að velja vist,

á Vísi eða Mogga.

---------------------------------------

Stóri Klemmi með vindilinn lýtur út eins og Tóti Svarti þegar hann var uppá sitt "besta" fyrir utan Þórskaffi á sjöunda áratugnum og barði mann og annan.

Litli Klemmi er víst svæfingalæknir. Kannski valdi hann þá grein til að sleppa við mannleg samskipti? Af myndbandinu að dæma þyrfti hann svo sannarlega að fara á námskeið í þeim fræðum.

Þetta er auðvita afar sorglegt að sjá en líka sprenghlægilegt.

Ég verð illa svikinn ef Spaugstofan gerir sér ekki hátíðarmat úr þessu.

Ásgeir Rúnar Helgason, 4.1.2009 kl. 13:48

13 identicon

Birgitta: Af þessari færslu má lesa að þú hyggist hætta að blogga á blog.is vegna þess að ritstjórn mbl.is hafi ákveðið að birta ekki bloggtengingar við fréttir þar sem nafngreindur einstaklingur var kallaður fantur, fúlmenni, lygari, ofbeldismaður, sadískur drullusokkur, mannfýla, vitleysingur, fauti, rottweilerfasisti, ribbaldi og kófdrukkinn aukinheldur sem hann var sagður í "mjög annarlegu ástandi og virtist ekki hafa fulla stjórn á líkamshreyfingum sínum", "algjörlega snar vitlaus" og "greinilega fullur" svo dæmi séu tekin sem ég fann á vefslóðinni http://truth.is/?p=870.

Þar má líka lesa að bróðir viðkomandi sé stórhættulegur læknir og líklegur til að myrða fólk og þar er líka þessi lítt dulbúna hótun: "Ég spái því að hagfræðingurinn og svæfingalæknirinn eigi eftir að komast að því hvað það er að vera "ógnað" í raun og veru." auk þess sem nafn hans og bróður hans, heimilisfang þeirra og símanúmer voru birt og fólk hvatt til að ónáða þá.

Segðu mér: Hvað af ofangreindu er "mikilvægar viðbætur" við umræddar fréttir?

Það að birta þetta ekki á fréttavefnum telur þú "ófyrirgefanlega ritskoðun" á sama tíma og þú lokar sjálf fyrir "tröll" á þinni síðu. Er þetta ekki dæmigert tröllaorðbragð?

Önnur spurning: Telur þú fólk sem stundar svona samræðulist, þ.e. að ausa andstæðing sinn svívirðingum, sé að ýta undir lýðræðislegar umræður á Íslandi? Telur þú að það sé að vísa leiðina til Nýja Íslands?

Nýja Ísland (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 13:52

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Birgitta mín ég vil ekki missa af þér, eða neinum málefnalegum mótmælenda.  Við verðum að standa saman og við verðum að geta stutt hvort annað.  Þess vegna verðum við að vera á sömu bylgjulengd.  Takk fyrir málefnalega og góða baráttu.   Þú ert frábær.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2009 kl. 14:43

15 identicon

Maður má nú ekki vera svo bráðheilagur í sinni réttlætiskennd að sjá ekki að þarna gerði síðueigandi nákvæmlega sama hlutin og stjórnendur blog.is. 

Jafnvel umræddir bræður eiga fjölskyldu. 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 15:14

16 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég er ekki sammála þér Sigrún - ég hefði ekki þurft að setja það fram með þessari grein að ég hefði tekið út komment - ég aftur á móti hef ekki lokað á alla eins og mbl.is gerði - þar er stór munur á.

Birgitta Jónsdóttir, 4.1.2009 kl. 15:23

17 identicon

Hörður Torfason sem staðið hefur fyrir fundunum lenti í orðaskaki við fundargesti þegar hann bað hóp manna að taka niður lambhúshettur sem huldu andlit þeirra.

Þarna sjá öfgamennirnir hvað þetta hefur upp á sig, tvístra fólki sem vilja mótmæla, þvlík fífl að eyðileggja málstaðinn með svona framkomu.

Óskar (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 15:49

18 Smámynd: Óskar Þorkelsson

í mínum huga er þetta einfalt.. ef þú vilt komentere á moggablogginu þá verður þú að vera skráður.. þú mátt mín vegna vera undir dulnefni en kennitalan verður að vera skráð einhverstaðar..

síðan er sagt að við berum ábyrgð á okkar skrifum.. til hvers er þá verið ða ritskoða okkur.. Árni Matt hótaði mér eitt sinn eftir væl í villa í köben og ég sagði honum bara að villa væri frjálst að kæra mig og ég mundi glaður fara með það fyrir dómstóla.. ekkert gerðist frekar í því máli

skárðir bloggarar og skráðir tilsvarendur og málið er dautt !! 

Óskar Þorkelsson, 4.1.2009 kl. 16:29

19 Smámynd: TómasHa

Sæli Birgitta,

Ég er ekki að leggja mat á hvenær er rétt eða rangt að beita ritskoðun, ég er hins vegar að benda á að þú skulir í sama bloggi réttlæta eigin ritskoðun, en fordæma svo ritskoðun moggans. Þér er að sjálfsögðu heimilt að ritskoða eigin miðil, það er fullkomlega eðlilegt. Hins vegar gildir það sama um Moggann, þeir hafa fulla heimild til þess að ákveða hvað þeim finnst vera eðlilegt og hvað ekki á eigin miðli. Það er ekki þar með hægt að segja að þeir séu að ritskoða viðkomandi bloggara, færslan sem var upphaflega skrifuð er enn á bloggi viðkomandi bloggara.

Það er annars áhugavert að á sama tíma og þú ert að ráðast á Moggan fyrir ritskoðun á fréttatengingum, skulir þú nota tækifærið og misnota fréttatenginguna til þess að auka lestur á þessari færslu. Ég bendi á að þegar þú skrifar þessar færslu, tengirðu við frétt sem heitir „Harma umfjöllun um Cintamani“, en nú hefur sú tenging verið rofin í kjölfar kvartana.

TómasHa, 4.1.2009 kl. 16:41

20 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Ég er einn þeirra sem les bloggið þitt reglulega og hef bæði gaman og gagn af. Skiptir það litlu hvort ég er sammála þér eða ekki.

Andlag þess málefnis sem þú leggur hér út af er gróf og ruddaleg framkoma bræðra sem virðast hafa einsett sér að snapa sér á´nn. Slíkt ber að fordæma. Án þess að ég sjái neina ástæðu til að verja gerðir þessara bræðra er kannski rétt að huga að því að þeir voru ekki einir um svona háttsemi. Ég ætla ekki að nota um það sterkari orð.

Ég ritskoða mitt blogg og einstaka sinnum hefur komið fyrir að mér finnst við hæfi að fjarlægja comment þar sem farið er yfir þau huglægu og siðferðilegu mörk sem ég hef sett.

Sjálfsagt gerir þú það sama. Líka mbl.is.

Sumt af því sem sagt var um þessa bræður var ekki á þeim nótum sem vitræn umræða á að vera.

Hins vegar hefði mbl.is átt að meta það sjálfstætt hvað af færslunum yrðu fjarlægðar. M.a. ritaði ég um þetta og taldi mig hafa gert að af kurteisi þrátt fyrir að ég hafi sett skoðanir mína fram af fullri einurð.

Ritskoðun til þöggunar fordæmi ég. Sama hvaða skoðanir þú eða aðrir hafa og hvort ég sé sammála þeim eða ekki þá skal ég alltaf verja rétt þinn til að setja þær fram.

Sveinn Ingi Lýðsson, 4.1.2009 kl. 18:16

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Valdhöfum er mjög í mun að hafa stjórn á umræðunni. Það er kjarni málsins. Allt til þess að halda staðreyndum og umfjöllun um staðreyndir frá almenningi sem valdhafar líta á sem kjósendur eða kannski eru skýrara að segja að þeir líti á almenna borgar sem fóður valdsins.

Markmið þeirra er að spilla lýðræðinu

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 19:58

22 Smámynd: Þór Jóhannesson

Það er ekki ritskoðun að birta ekki skrif frá fólki sem felur sig á bak við nafnleynd. Ef menn vilja skrifa og gagnrýna eða jafnvel ráðast á einhvern persónulega þá eiga þeir að bera fulla ábyrgð á því og sá sem skrifað er um hefur fullan rétt á því að vita hver er að skrifa níðinn því þá getur hann beitt fyrir sig lýðræðislegum lögum landsins og höfðað meiðyrðamál gagnvart viðkomandi níðingi.

Þess vegna er það ekki ritskoðun að birta ekki viðbjóðslegar athugasemdir sem hafa ekkert að gera í umræðuna nema e.t.v. drepa henni á dreif.

Hver og einn bloggari hefur vissulega vald yfir því hverjir geta fengið athugasemdir sínar birtar á hans síðu enda er blogg ekki ósvipað og dagbók. Sumir eru með læst blogg sem enginn getur lesið nema útvaldir. Aðrir eru með opin blogg sem allir geta lesið en enginn skrifað athugasemdir. Þriðja gerðin af bloggurum velur úr athugasemdunum sem á þeirra blogg eru skrifuð og svo eru aðrir sem hreinlega bita allt - alveg sama hvað. Það er mjög einstaklingsbundið hvað hver og einn bloggari velur að gera - líkt og sá sem skrifar dagbók.

Aðrar reglur gilda um fréttastofur - þær eru ekki persónulega dagbók og þar eru ekki skrifaðar hugleiðingar við fréttaskrif (ég vona a.m.k. ekki). Þeirra skylda er að segja satt og rétt (og hlutlaust ef fréttastofan gefur sig út fyrir að vera hlutlaus) frá og á netmiðlum hefur sprottið upp frábært kerfi til hliðar við fréttir þar sem almenningur getur tengt sig fréttinni og tjáð sig um hana. Þetta kerfi köllum við athugasemdakerfi. Í því koma oft fram upplýsingar sem ekki hafa komið fram í fréttinni og ef fréttastofan - mbl.is í þessu tilviki - telur að þar sé eitthvað siðlaust eða ólöglegt á ferðinni hefur hún allar upplýsingar um viðkomandi bloggara sem hjá þeim er skráður og getur því hreinlega kært hann eða loka á hann. 

En fréttastofa mbl.is býður einnig upp á að fólk tjái sig í kerfinu undir tölvupóstfangi eða IP tölum - þar getur hvaða ræfill með lyklaborð og internettengingu misnotað aðstöðu sína og vegið úr launsátri að hverjum sem er. Þetta þarf að stoppa því annars endar heiðarleg umræða á þessum frábæru umræðuþráðum mbl.is eins og bullið sem fylgir athugasemdakerfinu á eyjan.is - þar sem allt logar í viðbjóði og árásum á persónur og einstaklinga skrifuðum úr launsátri. mbl.is verður að marka sér reglur um þessa hluti og það að banna nafnlausum einstaklingum að skrifa er einfaldlega ekki ritskoðun - það er ákvörðun um hversu langt miðillinn vil teygja sig í þjónustu sinni við lesendur.

Hitt er svo alvarlegast af öllu - það er þegar fréttastofa kýs að fjarlæga alla umræðu um fréttina í heild sinni vegna þess að þar hefur ýmislegt komið fram sem þeim líkar ekki. Þetta er þöggun og ritskoðun af verstu gerð og er ekkert lík því þegar persónulegur bloggari klippir úr ófyrirleitnar aðdróttanir eða hótanir i sínu persónulega bloggi, því einmitt þarna reynir á hversu megnug fréttastofan er að standa á bak við fréttina sem hún skrifaði.

Í fréttinni um Ólaf Klemensson og Guðmund bróðir hans gat fréttastofan ekki staðið á bak við fréttina þar sem hver maðurinn á eftir öðrum kom inn á athugasemdakerfið og lýsti atburðunum á allt annan hátt en Ólafur gerir í fréttinni. Vegna þessara - augljóslegu lyga í Ólafi - spruttu upp heitar og ósvífnar umræður sem oft á tíðum voru ekki siðsamlegar og engum til sóma. Þeir sem réðust að persónu Ólafs með hótunum verða einfallega að standa bak við sín orð (enda undir fullu nafni og kennitölu) ellegar hljóta kæru fyrir - þannig virkar lýðræðið  og málfrelsið. Það er ekki hlutverk fréttastofunnar að vera lögfræðingur og dómari í meiðyrðamáli.

Það er því ekkert sem afsakar þessa þöggun og ritskoðunfréttastofunnar mbl.is á fréttinni "Taldi sér ógnað" - að líkja saman persónulegu bloggi og fréttastofu er eins og líkja saman bláu og gulu og verður því að flokkast undir litblindu- og það held ég að einmitt að útskýri best ákvörðun mbl.is því það er bæði gamall og nýr sannleikur að þar sjá menn lífið og tilveruna í einum og sama litnum - eða bláum.

Þór Jóhannesson, 4.1.2009 kl. 23:22

23 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Birgitta eigum við ekki að vera hér enn um sinn?

Það skiptir máli að Moggbloggið breytist ekki í tóma nashyrninga. Þ.e. sá heimur sem hér þrífst þarf að sjá að til er annað en bara mis sætir nashyningar, - og að sjáist að „hinir“ sem ekki eru orðnir nashyrningar séu ekki jafn óeðlilegir og skrítnar og nashyrningarir vilja vera láta. - Þú hefur verið svoleiðis leiðarljós hér - fyrir þá venjulegu að halda sönsum.

-

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fréttamaður og Magnús Bergmann myndatökumaður hennar eru þrátt fyrir allt dæmi um að á mbl.is þrífast enn alvöru fréttamenn. - Hvað sem verður.

- Menn hafa kvartað yfir ritskoðun á Eyjunni líka.

- Ef þú finnur alvöru bloggvettvang mundu að láta okkur hin vita.

Helgi Jóhann Hauksson, 5.1.2009 kl. 01:08

24 Smámynd: Þór Jóhannesson

Yfir höfuð eru starfsfólk á bæði Morgunblaðinu og mbl.is afskaplega hæft fólk og starfi sínu vaxið - sama verður ekki sagt um yfirboðara þeirra.

Nashyrningapælinginn hjá þér Helgi er hárrétt - við förum hvergi!

Þór Jóhannesson, 5.1.2009 kl. 01:26

25 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Takk fyrir öll svörin:) Ég vildi að ég hefði meiri tíma til að svara öllum - langar að þakka þér sérstaklega Þór fyrir afar greinagóða analísu á þessu...

Verið er að búa til nýjan fréttamiðil sem er í alvörunni óháður - ættum kannski að hafa bloggmöguleika á honum?

Birgitta Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 07:39

26 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það sem mér þykir verst við moggabloggið er að Árvakur á allt sem ég skrifa. Fjölmiðlafyrirtækið hefur notað bloggsamfélagið í gróðaskyni.

Þeir birta bloggin að bloggurum forspurðum í Morgunblaðinu til að auka lestur á blaðinu, nota blaðið til að auka aðsókn að blogginu, nota bloggið til að auka aðsókn að mbl.is vefnum og nota mbl.is til að auka lestur á Morgunblaðinu.

Í raun er verið að að hafa okkur að féþúfu.

Ég er að leita mér að vettvangi þar sem ég ræð sjálfur yfir því efni sem ég sem og get áskilið mér höfundarrétt, þannig að enginn geti birt mín skrif án leyfis frá mér. Er ekki wordpress.com svoleiðis kerfi?

Theódór Norðkvist, 5.1.2009 kl. 10:14

27 identicon

Eyjan er núna að hefja sína ritskoðun í anda Moggan, en ganga ekki eins langt í fyrstu en hóta að beita fullri ritskoðun ef nýjum reglum þeirra er ekki fylgt. Þeir kalla þetta núna tilmæli en Guðmundur Magnússon ritstjóri er alveg gegnsær í þessu máli. Vonast til að Egill Helgason fari ekki að dæmi þeirra í www.silfuregils.is em er inni á Eyjunni. Það á eftir að koma í ljós.

En ég hvet til stofnunar nýs vefmiðlis og blogggáttar ef frelsi okkar er skert með þessu broti á tjáningarfrelsinu. Hefur þú einhverjar hugmyndir Birgitta um hvað beri að gera? Hvað með að leita út fyrir landsteinana?

Guggan (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 04:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband