Leita í fréttum mbl.is

Hvað getur ÞÚ gert?

Ég finn fyrir ákveðnu vonleysi eins og margir aðrir hér í samfélaginu - Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar - enginn hefur axlað ábyrgð. Geir er skipstjóri í björgunarleiðangri að sokkinni þjóðarskútu sem hann sigldi í strand. Nú siglir þessi blindi maður björgunarbátnum í strand á sömu skerjunum sem þjóðarskútan marar í kafi.

dscf3953.jpgÞjóðin kallar eftir því að Geir og restin af þinginu fari - að seðlabankastjóri fari - að fjármálaeftirlitið fari - að fjárglæframennirnir í bönkunum fari - að hér fari fram rannsókn af erlendum ÓHÁÐUM fagaðilum en ekkert gerist - Geir og ISG líta af vanþóknun á mótmælendur og þátttakendur á borgarafundum sem um skítugu börnin hennar Evu sé að ræða í stað þess að horfast í augu við að meirihluti þjóðarinnar treystir þeim ekki lengur og vill þau burt. 

Fólk hefur gert ýmislegt til að sameina þjóðina til að hætta að láta kúga sig til hlýðni. En ekki hefur það tekist. Þjóðin mín er vön að láta taka ákvarðanir fyrir sig og nennir ekki að standa í þessu mótmælaveseni. Það geta aðrir séð um það. En það er ekki þannig. Það kemur enginn okkur til bjargar nema við sjálf. Fólk er duglegt að hengja sig í smáatriðunum og segist ekki mótmæla ástandinu ef ákveðið orðalag er notað, eða þessi eða hinn er með, fólk notar allar mögulegar afsakanir til að bjarga sér EKKI vegna þess að það hefur enga trú á að það sé mögulegt. En það er ekki rétt. Ef við stöndum saman þá erum við gríðarlega mikið afl sem hvorki stjórnvöld eða útrásarvíkingar hafa bolmagn til að hunsa. En hvað þarf til að þjóðin standi saman? Ég veit það ekki. Ég held að það sé kominn tími til að þeir sem ákveða að gera ekki neitt en vonast til að þetta reddist geri sér grein fyrir að þetta mun ekki reddast í þetta sinn, nema að við tökum til hendinni og gerum eitthvað sem ekki er hægt að horfa fram hjá. 

Nú er búið að boða til þjóðfundar þann 1. desember klukkan 15. Ég skora á fólk að mæta, ég skora á fólk að skoða innra með sér hvaða rök það hefur EKKI fyrir því að mæta og spyrja sig svo hverju það hefur að tapa. Í hverri vikunni sem líður sökkvum við dýpra niður í hyldýpi skulda og smánar. Alvarleg mistök eru framin sí og æ af ráðherraliðinu. Heimsbyggðin er dolfallinn yfir langlundargeði okkar gagnvart þeirri spillingu sem upplýst samfélag myndi aldrei láta yfir sig ganga án aðgerða. 

mynd eftir Jóhann ÞröstHvað þarf til að þú standir upp og segir: hingað og ekki lengra? Við skiptum öll máli og ég er sannfærð um ef við mætum svo tugum þúsunda skiptir á Arnarhól á mánudaginn að það verði á okkur hlustað. Ef við viljum breytingar og ætlum að vonast til þess að einhver annar sjái um það fyrir okkur, þá erum við á villigötum.

Ég er búin að fá nóg af siðspillingu og krosstengslum. Mér finnst þessi ríkisstjórn og allt liðið inni á alþingi vanhæft vegna ofangreindra atriða. Ég kalla eftir neyðarstjórn og kosningum í vor og ætla að gera allt sem er í mínu mannlega valdi til þess að það verði að veruleika. Ég vil ekki flokkaklíkur inn á þing. Ég kalla eftir núllstillingu á kerfinu svo hægt sé að fyrirbyggja áþekk afglöp og hér hafa farið fram. Ég kalla eftir nýju kerfi þar sem einstaklingar eru ráðnir í þessar mikilvægu stöður og miklu ráðvandari lögum í kringum stjórnsýsluna. Við verðum að smíða lög sem gera ráð fyrir krosstengslum viðskipalífs og þingheims. 

Valið er á milli þess að ekkert breytist: þjóðargjaldþrot og landsflótti verður afleiðing þess eða algera og gagngera uppstokkun á því kerfi sem við búum við: ef fólk heldur að það valdi óstöðugleika, þá spyr ég getum við búið við meiri óstöðugleika en nú?

Ef fólk trúir því að þeir sem stjórna núna séu best til þess fallnir þá verðum við bara að búa við það. En ef ÞÚ vilt breytingar, gerðu þá eitthvað, enginn gerir þetta fyrir okkur - við verðum að gera eitthvað. Sameiningarmáttur okkar er eina vopn okkar að svo stöddu.

Ég kalla eftir hugmyndum um hvað skal gera - þær þurfa að vera einfaldar og auðveldar í framkvæmd en síðast en ekki síst þá þarf að felast í þeim sameiningarmáttur. Elsku, elsku þjóðin mín, hættum að láta þeim eftir valdið - það er augljóst að þau valda því ekki.


mbl.is Allt opið í gjaldeyrismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gerið þið það segið ykkur burt úr öllum stjórnmálum, og flytjið burt af landinu. Og komið ekki aftur nema þá í viku heimsókn. Og sækið þá um leyfi til þess, gjaldeyris og ferðaleyfi. Þessi beiðni er ætluð öllum sem starfa að stjórnmálum á Íslandi þessar vikurnar.

Gerið þið það komið ykkur burt.  Við skulum reyna að gleyma ykkur eins fljótt og auðið er.  En komið aldrei aftur til búsetu.

Ég mæli með Nigeríu fyrir ykkur.

J.Þ.A (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 07:59

2 Smámynd: Ingibjörg SoS

Birgitta. Þú talar fyrir hönd mjög margra okkar orðið. Ég er þér
hjartanlega sammála. Og þetta er tímabært innlegg hjá þér.

1. Gott væri að fá þið sem ræðumanneskju á Þjóðarfundinn 1. Des. Ræðan þín
er fullkomin hér að ofan. (nema þú sért einfaldlega þreytt núna)

2. Þurfum við mótmælendur, hjálp erlendis frá? ...

3. Er kominn tími á formlega myndun, - stofnun "samtaka". Vettvangur fyrir
"alla", - grasrótarsamtök + alla aðra sem finna sig kanski ekki í
mótmælunum Austurvelli, og ekki í grasrótarsamtökum. Held að þarna sé stór
hópur sem er mjög hrjáður. Mjög til í drastískar breytingar, .....

4. Vandvirknislega valdir örfáir einstaklingar úr öllum þessum "áttum" komi
saman og fundi. Það eru ekki endilega "eingöngu" þeir kröftugustu, þeir sem
tala hæst og mest. Hef eins og á tilfinningunni að leita þurfi nú í smiðju
"VIRTINGANNA" líka. Þeirra sem sjá skírt allan ósómann, eru yfirvegaðir, í
góðu andlegu jafnvægi,...Einhverja sem geta hjálpað okkur að ná þeim
markmiðum sem "VERÐUR" að ná.

5.  Stór hluti þjóðarinnar er á hálfri orku, - lamaður. Margir hafa veikst.
Margir hafa endað líf sitt. Þetta er eins og sorgarferli. Fyrst kemur
afneitunin, ....  

6. 7. , ... Bara það sem kom fyrst upp í huga mér, Birgitta.

Nú sendi ég hlýjar og umvefjandi kveðjur. Lofum okkur að upplifa þreytu.
Allir þurfa á hvíld að halda. Ég hef trú á að þetta takist. Treystum, og
umvefjum hvert annað,

Stórt hlýtt faðmlag,

Ingibjörg

Ingibjörg SoS, 30.11.2008 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 509137

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.