Leita í fréttum mbl.is

Elsku þjóðin mín ...

... nú verðum við öll sem eitt að hætta að gera ekki neitt.  Hvet alla til að lesa þetta skjal hér og bregðast svo við á viðeigandi hátt: með aðgerð en ekki bara tuði. Þeir sem komast ekki í neðangreinda aðgerð geta skipulagt sínar eigin aðgerðir, þeir geta gert eitthvað í sínu byggðarlagi, þeir geta skrifað ráðamönnum bréf, skrifað greinar í blöð, safnað undirskriftum, búið til áskorun til þingheims að gera eitthvað ellegar eru þau öll jafn samsek þessu hræðilega glæfraspili með framtíð landsins sem er vægast sagt ekki björt ef óráðsían heldur áfram. Við höfum ekki efnislega né andlega efni á fleiri mistökum. 

“Sláum skjaldborg utan um Alþingi”
 


Vilji okkar er að við högum okkur eins og siðmenntuð þjóð. Að við hröðum rannsókn á þessum grafalvarlegu málum, hugsanlegum lögreglurannsóknum og dómsmálum sem mest má til að þjóðin finni aftur til innri friðar og geti hafið það uppbyggingarstarf, sem framundan er. Ef það gerist ekki mun samfélag okkar bíða varanlega skaða, skaða sem við teljum ósanngjarnan, siðlausan og engan veginn bjóðandi komandi kynslóðum!
 
Við viljum fá að velja fært fólk en ekki flokka fyrir framtíð okkar og afkomenda okkar!
 
Við bendum á rétt okkar að krefjast inngripa af hendi Alþingis sbr. 14. Gr. Stjórnarskrárinnar og 1. grein landslaga, Það þýðir að láta ákveðna ráðherra svara til saka og það tafarlaust.

Við viljum að Ríkisstjórnin víki því strax frá og að hér verði skipuð tímabundin þjóðstjórn til að bjarga því sem bjargað verður.

Fjölmörg ríki hafa sýnt áhuga á að koma okkur til hjálpar en það er óframkvæmanlegt á meðan núverandi ríkisstjórn situr og sýnir engan veginn á sér fararsnið.
 
Botninum er löngu náð, þjóðin sættir sig ekki lengur við lögbrot, lygar, spillinu og falsanir sem eru bornar hér á borð daglega fyrir almenning á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur ekki lengur traust okkar, hún starfar ekki lengur í umboði okkar og ekkert réttlætir setu hennar lengur inn veggja Alþingis.
 
Hún verður því að hlýða kalli þjóðarinnar og víkja, afneitun og þrot ráðamanna er gersamlega orðið þjóðinni til háborinnar skammar um allan heim.
 
Íslenskur almenningur, heimili og fyrirtæki glíma við ónýta krónu og grafalvarlegan gjaldeyrisvanda í kjölfar bankahrunsins.
 
Sá vandi leggst ofan á skæða verðbólgu, lækkandi húsnæðisverð, gríðarlega vexti, hækkandi húsnæðislán, kvíða, óöryggi, vaxandi fátækt og félagsleg vandamál.

Flestir þeir, sem kunna að bera ábyrgð á því hvernig komið er, hafa haft sjálfdæmi um að vera áfram við völd, skipuleggja neyðaraðgerðir og móta efnahagsstefnu.

Á sama tíma er Alþingi, löggjafarvaldið og æðsta umboð kjósenda, algerlega óstarfhæft og vanhæft á alla kanta.

Þingmenn úr öllum flokkum kvarta yfir ráðherraræði og upplýsingasvelti, til að mynda fékk stjórnarandstaðan að lesa um þegar frágengna samninga við IMF , líkt og restin af þjóðinni í dagblaðinu DV. Í Úkraínu fær almenningur að vita nákvæmlega allt um lántökuna hjá IMF en ekki við íslendingar, við erum eina þjóðin í heiminum sem fáum ekki að vita neitt sem við eigum samkvæmt
lögum rétt á að fá að vita en hér eru lögin margbrotin daglega á almenningi þessa lands og erlendir ráðamenn eru orðlausir yfir þeirri ósvífni sem okkur er sýnd - daglega, í ofan álag þá flokkumst við sem þjóð undir  það eftirsóknarverða hugtak "að vera lýðræðisríki" sem við erum ekki og við krefjumst þess að lýðræðislegur réttur okkar verði virtur hér og nú, með tilvitnun í íslensk lög og þeim ber að fylgja:

Alþingi getur sótt ráðherra til saka og látið rétta yfir þeim

Það er unnt að gera á grundvelli 14. greinar stjórnarskrárinnar.
Þar segir:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.

Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum.

Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra.

Landsdómur dæmir þau mál.“


1. gr.

Landsdómur fer með og dæmir mál þau, er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.


Á grundvelli þessarar greinar stjórnarskrárinnar voru sett lög árið 1963 um ráðherraábyrgð og landsdóm

Sjá lögin í heild sinni á vef alþingis: www.althingi.is

Fyrsta grein laga um landsdóm hljóðar svo:

„Landsdómur fer með og dæmir mál þau, er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.“

Eftir hrun þriggja stærstu banka þjóðarinnar og gríðarlegt tap þjóðarbúsins, með tilheyrandi rýrnun lífskjara virðast lög um ábyrgð ráðherra frá 1963 auðveldlega geta átt við um störf og gjörðir þeirra nú.

Hirðuleysi ráðherra varðar við lög og þeim ber að fylgja eftir!


Í fyrstu grein laganna segir að ráðherra megi krefja ábyrgðar hafi hann „annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“.

Í áttundu grein d-liðar sömu laga segir að það varði ábyrgð ráðherra „ef hann verður þess valdandi að nokkuð það sé ráðið eða framkvæmt er skert getur frelsi eða sjálfsforræði landsins“.

Loks verður ráðherra sekur eftir b-lið 10. greinar sömu laga „ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þessi sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir“.

Í þrettándu grein laganna segir að hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu, sem refsiverð er samkvæmt lögunum, skal dæma hann til að greiða skaðabætur jafnframt refsingunni.
 
 
Hvetjið alla til að mæta, taka sér hádegishlé og sýna samstöðu  – Þetta eru Friðsamleg Mótmæli!
 
Tökum höndum saman og myndum SKJALDBORG utan um Alþingishús okkar íslendinga klukkan 12:00 á morgun, miðvikudag - þann 19. nóvember.
 
Ríkisstjórnin víki Þegar!
 
 
www.nyirtimar.com
http://www.facebook.com/inbox/?ref=mb#/event.php?eid=34050269559


mbl.is Arnór: Áfallið meira hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vildi að ég gæti verið með.  Ég lýsi allavega algjörri samstöðu með þeim sem verða við alþingishúsið, og á öllum mótmælafundum.  Ég er með, kemst bara ekki vegna fjarlægðar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2008 kl. 14:02

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þakka þér innilega fyrir þessa færslu Birgitta, þú hefur greinilega lagt á þig mikla vinnu við að skrifa hana.

Ég stefni á að mæta á morgun, vonandi gengur það upp hjá mér.

Ég veit að þú verður með í anda, Áshildur.

Bestu kveðjur til ykkar beggja.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 16:07

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

*Ásthildur

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 16:07

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Jóhamar, hér er átt við andlega skjaldborg. Þú veist líklega að mannsandinn er mjög víðfeðmur...

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30