Leita í fréttum mbl.is

Neyslufráhvörf þjóðarinnar

Vikan sem var að líða var afar viðburðarík sem og lærdómsrík fyrir mig og mína. Það er allt of mikið að gera hjá mér og þess vegna hafði ég ekki tök né orku til að blogga neitt. Þrátt fyrir að klæja í puttana út af mörgu fréttaefni sem um mbl.is flæddi. Ég er nefnilega háð þeim ósköpum að þurfa að hafa skoðun á öllu og það er engum manni hollt. 

Merkilegt hve logandi illdeilur og grimmd er vinsælt lesefni hér í heimi. Allir eru að rífast, Björn B og Jóhann, flestir í FF við aðra í FF. Mér finnst póltíkin vera oft á tíðum eins og Leiðarljós og ég hef aldrei nennt að horfa á sápuóperur þrátt fyrir tilraunir til slíks í veikindum.

Mikið er talað um kreppu. Ég kýs að kalla þetta eitthvað annað og leyfi mér að vera frekar ánægð með að neyslugeðveikin sé að brá af fólki. Það er ekki til neitt sem heitir endalaust góðæri sér í lagi ef fólk tekur alltaf meira en það getur torgað.

Ég hef tamið mér það alla tíð að lifa frekar spart. Hef ekki þörf á að kaupa mér eitthvað eins og tískuvarning eða skemmtun. Hef ekki þörf á að vera í samkeppni við nágranna eða vini um flottara heimili eða bíl. Hef ekki þörf á að fá handsnyrtingu eða strípur. Hef ekki þörf á að liggja á sólarströnd eða ferðast á fyrsta farrými. Hef ekki þörf á að eiga eitthvað, vegna þess að allir eiga það eða upplifa eitthvað út af því að allir eru að upplifa það. 

Ég hef tamið mér að elda flestan mat frá grunni og fer nánast aldrei út að borða. Fer sjaldan í bíó eða á dýra tónleika. Ég nota bílinn stundum ekki dögum saman og valdi mér sparneytinn bíl. Því er þessi svokallaða kreppa ekki endilega að koma eins hart niður á mér og mörgum. Auðvitað finn ég fyrir því að matvara er orðin dýrari og hver poki af mat er dýrari en síðast. En ég er svo lánsöm að líta á það sem tækifæri til að einfalda líf mitt og læra eitthvað nýtt. Sá að risadósin af salsa sem ég keypti oft á góðu verði og nota til matargerðar var kominn upp í meira en 700 krónur. Finnst ekki réttlætanlegt að kaupa slíkt aftur og ætla því að búa til mitt eigið salsa sem er hvort er eð miklu betra en dósasalsa. 

Það er ekki til nóg af hráefnum handa öllum á jörðinni ef við slökum ekki á neyslunni. Það er hrikaleg pressa að þurfa að taka þátt í þessu og fyrir vikið nýtur maður ekki þessarar einstöku stundar sem andartakið er. Maður er alltaf með hugann við hvað maður á eftir að gera, upplifa, kaupa. 

Ég er að vona að með þessari "kreppu" að fólk endurskoði verðmætamat sitt. Við vinnum óhóflega mikið og oft án tilefnis. Við þurfum ekki svona mikið, við hendum og sóum og réttlætum vinnuálagið með meiri neyslu. Hrikalegur vítahringur. Á sama tíma og við neytum eins og fíklar eru burðarstoðir samfélags okkar að fúna og hafa ekki fengið nauðsynlega endurnýjun. Skólakerfið er sprungið og ekki í stakk búið að sinna námskrá og miklum fjölda barna með sérþarfir. Miklir biðlistar á sjúkrahús í lífsnauðsynlegar aðgerðir til að eiga möguleika á grunn lífsgæðum segja sína sögu. 

Enginn mun breyta þessu ástandi nema við. Ef við erum ekki til í að endurskoða hvað raunveruleg lífsgæði eru, hvað ætti að vera í forgrunni þá mun ekkert breytast og fólk mun þjást mikið vegna þess að það lét hafa sig út í þetta mynstur sem í raun og veru læddi sér inn í líf okkar án þess að við værum endilega þess vör. Ég hef ekki tölu á hve oft ég heyri fólk segja að það sé brjálað að gera hjá þeim. Ég gerist oft sek um hið sama og ef ég ætti að segja frá mínum helsta lesti þá er það án efa stöðug þörf á að gera meira og meira og meira. Veruleikaflótti í gegnum vinnu hefur svo sannarlega sett sitt mark á mitt líf. Ég hef bara verið afar lánsöm að hafa búið svo í haginn að flest mín vinna fer fram hér heima fyrir framan tölvufressið mitt og því hef ég sveigjanlegri tíma en flestir. 

Ég valdi þetta fyrir mörgum árum síðan, þess vegna heillaðist ég af netvinnu og annarri vinnu sem hægt er að gera í fjarvinnu. Ég sá fram að það að vera sjálfstætt foreldri, þyrfti ég að vera sjálfstæðari í því hvernig ég haga vinnustundum mínum. Nú lifum við í þannig veruleika að miklu fleiri ættu að hafa tök á að vinna á þennan hátt. Það að vera á vinnustað og sitja fyrir framan tölvu eða við síma er alger óþarfi, maður gæti hæglega gert þetta heima. Þegar maður vinnur heima, þá eru engir starfsfélagar sem maður freistast til að fara að spjalla við. Maður kemur miklu meira í verk og á meiri tíma til að vera með börnum sínum eða sinna áhugamálum sínum.

Það virðist vera tregða hjá yfirmönnum að sjá gildi þess að fólk vinni meira á heimilum sínum. Þó er þetta miklu skilvirkari vinnuaðferð en að sitja í opnum rýmum eins og er nýjasta tíska hérlendis. Ég þoli ekki opin rými. Hávaðinn og erillinn allt í kring er afar truflandi til lengdar. 

Ég sá fyrir mér í árdaga netbólunnar að miklu fleiri tölvutengd störf myndu verða flutt út á land en raunin hefur verið. Skil ekki af hverju áherslan hefur verið eingöngu á að skapa láglaunastörf út á landi þegar svo miklir möguleikar felast í því að skapa atvinnutækifæri fyrir fólk sem hefur sótt í stærri samfélög til að mennta sig. 

Við þurfum meiri nýsköpun í úrlausn vandamála en að sama skapi er heilmargt sem við getum lært af þeim kynslóðum sem kunnu að fara með hráefni og voru dugleg að búa til eitthvað úr nánast engu. 

Það er talað um mikið álag á börnum og foreldrum. Börn eru oft í meira en 9 tíma á dag í leikskólum. Það er bara ekki ásættanleg. En ef foreldrar láta það yfir sig ganga og gera ekkert til að knýja á breytingar á þessum ósköpum þá mun lítið gerast.  Okkur hefur verið talið í trú um að börn verði nánast félagsleg afstyrmi ef þau eru ekki sett ung að aldri í leikskóla. Ef sú er raunin þá eru ansi margar kynslóðir af félagslega vanhæfu fólki til um allan heim. 

Við þurfum að endurlæra að hlusta á innsæi okkar og ekki taka öllu sem rétt er að okkur sem einhverjum algildum sannleik.  Allt sem ég hef dælt út úr mér hér er auðvitað byggt á mínum veruleika og á kannski alls ekki við aðra. En ég ákvað að deila þessum með ykkur - því satt best að segja þá er ég bara nokkuð hamingjusöm mannvera og þarf ekki mikið til að gera mig glaða, þrátt fyrir dynjandi kreppudans allt í kring.

Þetta er orðið miklu lengra en ég ætlaði mér:) Ég vona að innan þessa dags leynist tilefni gleði og brosa í ykkar veruleika. Tek mér svo vikuhlé frá bloggi en fæ að fylgjast með þeim bloggvinum sem gjarnan fá mig til að hlæja eða hugsa:)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stríða

Þú ert svo yndisleg og kemur með svo góða punkta. Gaman að kynnast þér á Internet slóðum

Stríða, 28.9.2008 kl. 12:27

2 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Algjörlega sammála þér með neysluæðið.....og já við getum sko lært á þessari kreppu þó eflaust séu margir sem fá harðan skell, sjá jafnvel fram á gjaldþrot...

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 28.9.2008 kl. 12:47

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Frábær pistill, Birgitta! Tek undir þetta allt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.9.2008 kl. 15:46

4 identicon

Vá, þessi pistill minnir mig ekkert smá á það sem sagt var um hinn píetíska Kristjáns sjötta en það var að fólk ætti að biðja, gráta og vinna. 

Merkilegt hvað fólk sem gagnrýnir einsleitni í samfélaginu keppist við að boða annars konar einsleitni og patent lausnir sem eiga að passa öllum.

Magnús (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 16:09

5 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Takk Lára Hanna, Hrafnhildur Ýr og Stríða:) Því miður keyptu margir fagurgalann hjá bankagreini sérfræði hagvaxtar gúrúum og létu plata sig í að kaupa um efni fram. Gjaldþrot er frekar ömurleg upplifun en langt í frá að vera einhver heimsendir, svo framarlega sem fólk láti það ekki skaða sjálfsmynd sína og hafi hengt hana í ytri umgjörðina.

Magnús þú hefur væntanlega ekki lesið þetta allt því ég setti einmitt þann varanagla á þessar hugleiðingar mínar "Allt sem ég hef dælt út úr mér hér er auðvitað byggt á mínum veruleika og á kannski alls ekki við aðra." Ég er svo langt í frá að njóta þess bara að vinna éta og sofa eða gráta að það er dásamlega fyndið að þú fáir þá mynd af mér eftir að hafa hálflesið pistilinn minn.

Ef fólk vill halda áfram í neyslugeðveikinni og ætlast svo til að restin baili það út ... þá er ég því algerlega mótfallin. Það er eins og að fara útí ríkið og kaupa brennivín handa alkanaum svo hann þurfi ekki að upplifa tremma...

Birgitta Jónsdóttir, 28.9.2008 kl. 18:23

6 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

takk fyrir frábæran pistil. Ég hef oft undrast yfir því hvernig í veröldinni fólk fer að því að lifa eins og verðlagið er. Fólk keppist við náungann að eignast það besta eða nýjast og oft á kostnað barnanna sem eru oft alin upp hjá dagmömmu eða á leikskóla til að hægt sé að afla fjár fyrir flatskjá eða utanlandsferð eða hvað það nú er. Allir virðast vilja vera kóngar í ríki sínu.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 28.9.2008 kl. 19:52

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Við lifum á afar áhugaverðum tímum og ég vil trúa því að við eigum einhverja aðra von um framtíð en í vélvæddum veruleika þar sem við verðum orðin algerlega náttúrulaus:) En það þarf að gerast mikil hugarfarsbreyting - sér í lagi hér á eyju sjálfshyggjunnar. Sá athyglisverða sjálfsgreiningu á þjóðinni í Silfri Egils í dag. Þar kemur skýrt fram að við lítum svo á að okkur komi heimurinn nánast ekkert við. Ætli við höfum alltaf verið svona?

Það er alla vega ánægjuefni að ég sé ekki ein þeirra skoðunar að við verðum að breyta áherslunum og þeim forgangsatriðum sem eru við lýði í dag. 

Birgitta Jónsdóttir, 28.9.2008 kl. 21:29

8 Smámynd: Tína

Ég er svo innilega sammála því sem þú segir elsku Birgitta mín. Ég held að þessi "kreppa" sé bara af hinum góða, því það mun þjappa fólki og fjölskyldum aftur saman og kenna því að meta það sem virkilegu máli skiptir............ en það er náunginn. Þetta er í það minnsta mitt mat. Sagt er að margur verður af aurum api............ það sást bersýnilega í þessu svokallaða góðæri sem reið yfir landi og þjóð.

Njóttu dagsins yndislegust og takk fyrir þessa færslu.

Tína, 30.9.2008 kl. 07:31

9 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott..........

Soffía Valdimarsdóttir, 2.10.2008 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband