Leita í fréttum mbl.is

Þakklæti og mótmælaskýrsla

Mikið er ég þakklát fyrir þá athygli sem málefni Tíbet hefur fengið. Fannst reyndar pínu skringilegt að eyða svona miklum tíma í að sýna áróðursmyndbönd frá Kína í fréttatíma sjónvarpsins. En það er ekki hægt að fá allt sem maður vill, alltaf. 

Mótmælin voru frábær. Fólk frá öllum, stéttum, flokkum og trúarlegum bakgrunni dreif að. Ég taldi um 65 manneskjur en fólk kom og fór. Ætli við höfum ekki verið allt í allt í kringum 75 þarna í dag. Eitthvað ætlaði lögreglan að vera með stæla til að byrja með. Við áttum ekki að fá að standa á gangstéttinni fyrir framan sendiráðið. En við fundum málamiðlun að lokum. Fengum að standa hálfan metra frá sendiráðströppunum:) Ég gleymdi reyndar að telja hve margir lögreglumenn og konur stóðu yfir okkur en það hefur sennilega verið í kringum 8 þegar mest var. Á meðan var verið að murka lífið úr einhverju úthverfafólki í Breiðholti. En við vorum í það minnsta alveg örugg fyrir kínverskum harðstjórum með þennan fríða flokk löggæslumanna og kvenna hjá okkur...

Tíbetinn Tsewang hélt ræðu þar sem hann fór yfir ýmiss atriði er varða Tíbet og Kína og var það fróðlegt að hlusta á.  Við héldum á okkur hita með að hrópa nokkur slagorð og Jón Valur hélt smá tölu sem að vanda var fróðlegt. Snorri stýrði fundinum af röggsemi og alveg frábært hvað hann og fleiri hafa verið dugleg að fara fyrir utan sendiráðið á hverjum degi, með kerti, fána, söngla slagorð, eiga í misskemmtilegum samskiptum við lagana verði. Ég flutti svo yfirlýsingu sem ég sauð saman stuttu fyrir fund útfrá ræðunni hans Tsewang og nýjustu fréttum um stöðu mála. 

Yngri sonur minn veiktist reyndar af flensupest í nótt og var ég því ekki með eins mikinn tíma til að gera allt sem ég vildi gera fyrir fundinn. Mér tókst þó að setja saman gagnlegar upplýsingar fyrir þá sem komu á mótmælin til að taka með sér heim svo hægt væri að afla sér meiri upplýsinga, skrifa bréf og annað slíkt sem mikilvægt er í þessari baráttu.  

Ég var að keyra vin minn á stofnun til að halda erindi og hitti þar aðra félaga, þær fóru eitthvað að tala um flott dæmi í Fréttablaðinu í dag en ég kom alveg af fjöllum. Var samt spennt að sjá hvað þetta væri fyrst þau sögðu að þetta væri svona frábært:) Kom svo heim og sá hvað þetta var sem þau voru að vitna í og viti menn. Ég er bara maður vikunnar... og ég verð nú eiginlega hálffeimin við þá fallegu hluti sem þar voru sagðir um mig. En mikið þykir mér vænt um að fá að sjá að annað fólk sjái mig á þennan máta. Gefur mér kraft og orku til að halda áfram í þessari baráttu sem og öðru sem er mér hjartans mál.

Ég er Fréttablaðinu þakklát fyrir að gera svona fallegan hlut um mig og öllum þeim sem tjáðu sig um mig. Ef þetta hjálpar til að varpa athygli á málefni Tíbet þá er þetta mikil blessun. Mér finnst nefnilega þetta vera svo gífurlega mikilvægt mál og svo krítískur tími fyrir þessa þjóð sem hefur gefið mér svo mikið síðan ég var krakki og ég las fyrstu bækurnar mínar um munkana í Tíbet. Ef einhver manneskja hefur verið mér mikil fyrirmynd í lífinu þá er það hann Dalai Lama. Hann hefur alltaf náð því að vinna sig í gegnum allar þessar hörmungar með bros á vör. Það að vera uppljómaður er ekki eitthvað sem maður fær bara, maður þarf að vinna fyrir því með miklum sjálfsaga og miklu og stöðugu þakklæti.

Takk og takk og takk allir sem hafa hjálpað til við mótmæli, allir sem hafa ljáð mér falleg orð, hér sem og annarsstaðar. Mér finnst ég svo óendanlega rík að eiga svona vini og kunningja.

Verið er að skipuleggja önnur mótmæli við kínverska sendiráðið næstkomandi laugardag... nánar um það síðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ sæta, gleðilega páska og takk fyrir kveðjuna, sjáumst í næstu grúppu. knús, Beta Markúsar

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 20:20

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir góðan fund í dag, Birgitta!

En HÉR er opnan í Fréttablaðinu, þar sem greinin er um mann vikunnar: Birgittu sjálfa, og ef smellt er þar á greinina, opnast nýr gluggi með henni, þar sem hægt er að lesa hana alla.

Hér er svo önnur opna í sama blaði með mikilvægum alþjóðafréttum um Tíbet.

Innlegg Jóns Frímanns er alvarlegs eðlis, – fer nú að líta á tengilinn.

Kær kveðja. 

Jón Valur Jensson, 23.3.2008 kl. 00:19

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, þetta var skrýtinn fréttaflutningur. Baráttukveðjur, frænka!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 23.3.2008 kl. 08:57

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Baráttan heldur áfram uns við fáum einhverja niðurstöðu... það er svo gott að finna meðbyr með svo mikilvægu málefni...

Fréttavef rúv tókst að víxla saman mínu nafni og mömmu nafni... bergþóra jónsdóttir skáldkona lol

ótrúlegt hve fréttafluttningur er oft illa unninn... en þeim tókst samt að gera ágæta frétt þar sem helstu baráttumálin komu fram...

Birgitta Jónsdóttir, 23.3.2008 kl. 10:49

5 identicon

kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 10:50

6 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Þakka þér fyrir athugasemd sem þú gerðir á blog mitt skodunmin.blog.is Ég þakka þér fyrir þær viðbótarupplýsingar sem þú bentir mér á. Ég átti að gera mér grein fyrir að slík fellingafjöll sem eru í Tíbet hlytu að hafa einhver verðmæti að geyma. Það hefur hins vegar ekki verið rætt um þau í fréttum. Það sem þú segir er að yfirráð Kínverja jafnist við verstu nýlendukúgun þ.e. að ráða löndum til þess að ná verðmætum sem þau hafa að geyma. Þetta skýrir einnig möguleika Tíbeta til þess að vera sjálfstæðir. Þó baráttan sé ef til vill vonlítil þá er hún betri en að sitja þeygjandi hjá. Fréttamiðlar hér á landi hafa takmarkaða getu til að afla sér upplýsinga. Það er veikleiki þeirra. Það er styrkur þeirra sem hafa upplýsingar sem þeir telja mikilvægt að koma á framfæri.

Baráttukveðjur

Nonni

Jón Sigurgeirsson , 23.3.2008 kl. 13:46

7 Smámynd: Kristín Snorradóttir

Hæ yndislegust.

Þú ert bara frábær mannvera og ég er stolt af því að vera ein af þeim sem þekkir þig.

Knús

Kristín Snorradóttir, 23.3.2008 kl. 16:53

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

„Sá kúgaði hefur ætíð rétt fyrir sér“ ritaði þýski rithöfundurinn og rannsóknablaðamaðurinn Günter Wallraff í bók eftir fyrirlestur sem hann hélt á Íslandi fyrir um 20 árum.

Mér hefur ætíð þótt mikið til vandaðrar rannsóknarblaðamennsku koma og það er ótrúlega mikið sem við getum lær. Við sitjum uppi með allt að því ofvirka ríkisstjórn þegar um er að ræða undirbúning að byggingu álvera og vafasamar stríðsyfirlýsingar gegn fátæku fólki í Írak.

En þegar að velferðarmálunum kemur hér heima, heilbrigðismálunum, menntamálunum, félagsmálunum og umhverfismálunum svo e-ð sé nefnt. Efnahagsmálin eru látin eftirlitslaus í fóstur markaðarins sem er að því virðist vera ákaflega veiklulegur um þessar mundir og kominn af fótum fram. Lögreglan er fjársvelt og ribbaldalýður veður uppi, berjandi og meiðandi friðsama borgara.

Leitun er að ríkisstjórn í gjörvallri heimsbyggðinni sem dregur jafn mikið lappirnar og sú íslenska í öllum þessum málaflokkum. Og við höfum setið uppi með þessa karla í nær tvo áratugi með smábreytingum. Konurnar í Sjálfstæðisflokknum virðast hafa gleymt kvenlegri köllun sinni og umhyggju. Sú seinasta sem þannig var þenkjandi, Katrín Fjeldsetd, var hrakin í burtu og hefur ekki átt afturkvæmt á þing, nema sem varamaður einhvers karlsins!

Kannski við þurfum að setja á kröfuborðana fyrir 1. maí: Aldrei oftar ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins! Ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks er betri en sú sem stingur höfðinu í sandinn að hætti strútsins.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 23.3.2008 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband