Leita í fréttum mbl.is

Tölvuafvötnun

Ég er búin að taka mér smá frí frá virtual veruleika og verið að njóta veruleikans í botn. Æfa mig í að vera bara til í einu lifandi andartaki og senda þakklæti inn í framtíðina í gríð og erg ef ég fæ kvíðahnút eins mér er tamt ef allt leikur í lyndi. Hef ákveðið að salta bókina um mömmu um einhverja hríð. Get ekki einbeitt mér að henni og þessari vinnu ásamt öllu hinu sem ég hef lofað að gera. Ég skrifaði stutta ritgerð um verkefnið "Ferðalag Bergþóru í búk Maríuhænunnar sem verður birt í nóvember í vefriti nokkru ásamt úrvali ljósmynda af ævintýrum Maríuhænunnar sem geymir hluta af ösku móður minnar. Maríuhænan fer með mér hvert sem ég fer og ef ég sakna mömmu þá tek ég hana bara upp, hristi hana smá (en hún er ákaflega hljómfögur) og bý til nýja minningu. Ég er svo heppin að fá að keyra framhjá bæði ánni fallegu sem pabbi hvarf í forðum daga og Kotstrandakirkju en þar er askan hennar mömmu að mestu á einum stað, á leið minni til vinnu og fæ þá að hugsa til þeirra í samþættri hugsun.

Leiðin í vinnuna er vörðuð minningum, hef ekki tölu á því hve oft maður hefur farið um heiðina. Fór aukaferð síðustu helgi til að heimsækja ömmu í Hveró. Merkilegt hve hálfblind manneskja getur verið klár í lummugerð:) Delphin minn yngsti var eitthvað svo mikið krútt, alltaf að knúsa ömmu löngu og segja henni að hann elskaði hana... Hún leyfði krökkunum að fara í steinasafnið sitt og velja sér steina. Það vakti mikla lukku. Heim var komið með mikið af eðal grjóti og lummum. Við Delphin fórum aðeins upp í Hamar en það er bara ekki hægt að fara til Hveragerðis án þess að fara upp í Hamar. Fullkomið barnafjall. Tíminn er annars allt of fljótur að líða og vegna tölvuhlés hefur tölvupósturinn hlaðist upp að nýju án afláts. Þarf að fá mér ritara...

Vildi að ég væri eins og da Vinci sem þurfti bara að sofa í 4 tíma eða minna á sólarhring. Reyndar þá finnst mér fátt jafn gott og svefn og hefur mér tekist að sofa í gegnum ægilegar steypuvélar og steypuhögg við blokkina mína eftir vaktir. Hef reydnar aldrei átt í vandræðum með að sofa og þegar mér tókst að hætta að hugsa áður en ég sofnaði þá hafa gæði svefnsins stórum aukist.

Fann enn eina snilldarteiknimyndasögusyrpuna fyrir fullorðna. Sú heitir Concrete og hægt að finna í Borgarbókasafninu. Má til með að þakka henni Úlfhildi Dags opinberlega fyrir að hafa gert þessa deild bókasafnsins að því sem hún er: tærri snilld og brunni hughrifa.

Hef nánast ekki skrifað neitt nema ástarljóð undanfarna mánuði og er það hið besta mál ef frá eru talin um það bil 30 ljóð sem ég skrifaði til skálda víðsvegar um heim á póstkort. Fékk svo sjálf misskemmtileg ljóðakort í póstinum allan ágústmánuð. Frábært verkefni að vera með í, sum kortin algerar perlur og ljóðin skrifuð beint á kortin án þess að vera eitthvað að spá í annað en að gefa skapandi gjöf handa viðtakandanum einum saman.

Horfði aftur á Al Gore myndina góðu um gróðurhúsaáhrifin og ef einhver sem les þetta hefur ekki séð myndina mæli ég eindregið með því að sjá hana. Við sem mannkyn stöndum á svo mikilvægum tímamótum og segja má að við höldum á fjöreggi í höndum okkar. Ef okkur tekst ekki að gera allt sem í okkar valdi stendur bæði sem einstaklingar og sem samfélag manna til að varðveita þetta fjöregg þá mun ekki verða neitt eftir handa börnum okkar og barnabörnum sem kalla má lífsgæði. Það er mikilvægt að muna að það er bara til ein Jörð og við eigum það öll sameiginlegt að búa á henni. Því ætti að vera auðvelt að setja í forgang að varðveita hana af sömu ástúð og umhyggju og ástvin sem væri í bráðri hættu. Myndin hans Al Gore heitir an Inconvenient Truth, hægt að fá hana á næstu dvd leigu.

Vona svo að vinir mínir og ættingjar fyrirgefi mér sinnuleysið í formi tölvupósts, sendi bara hugskeyti í staðinn:)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég sá myndina hans Al Gore og fannst mér hún mjög áhrifamikil !

gangi þér vel með allt þitt, hvað sem þú velur !

AlheimsLjós til þín

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 8.9.2007 kl. 23:59

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Knús ljósið minn.  Gangi þér vel með öll verkefnin þín og vinnuna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.9.2007 kl. 11:55

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ljósið mitt átti þetta nú að vera

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.9.2007 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 509214

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.