Leita í fréttum mbl.is

Fréttatilkynning frá SI ...

Markmið aðgerða SI er að vekja athygli á stóriðjuframkvæmdum landans og þeirra fórna á óspjallaðri náttúru sem það krefst. Fjöldi íslendinga eru beinir þátttakendur aðgerða SI og því ætti fólk að sjá sóma sinn í að hætta með þetta útlendingahatur í færslum sínum. Maður heyrir aldrei að barnaperrar og handrukkar ættu að verða landrækir en oftar enn einu sinni hef ég heyrt að réttlætanlegt sé að gera mig og aðra íslendinga sem mótmæla á "kjánalegan" hátt eigi að verða sendir í útlegð... Ég mun annað hvort síðar í dag eða á morgunn gera grein fyrir hvað hefur áunnist með aðgerðum SI en þær einskorðast alls ekki bara við svokallaðar beinar aðgerðir, þó þær hafi verið lang mest áberandi í íslenskum fjölmiðlum. Vinsamlegast lesið greinina áður en þið ákveðið að kommenta á hana. Þá vil ég benda á að ég skipulagði ekki þessa aðgerð en er henni fylgjandi. Kominn tími til að beina sjónum að þessu álveri á Grundartanga sem hefur fengið að stækka sig án nokkurrar almennilegrar umræðu.

Birgitta
----------------------------------------------------

Umhverfi / Mótmæli

Fréttatilkynning 18. júlí, 2007.

SAVING ICELAND LOKA VEGINUM AÐ VERKSMIÐJUM CENTURY / NORÐURÁLS OG ELKEM
/ ÍSLENSKA JÁRNBLENDIFÉLAGSINS

GRUNDARTANGA – Í dag hafa  samtökin Saving Iceland lokað eina aðfangaveginum frá þjóðvegi 1. að verksmiðjum Century / Norðuráls og ELKEM / Íslenska járnblendifélagsins. Saving Iceland samtökin eru
andsnúin áformum um nýja álbræðslu Century í Helguvík og stækkun á verksmiðju Járnblendifélags Íslands. Aðgerðafólk hafa hlekkjað sig saman í málmrörum og myndað þannig mannlegan tálma á veginum um leið og nokkrir hafa tekið yfir byggingakrana á svæðinu.

Century Aluminum, sem er hluti af nýrri rússnesk-svissneskri samsteypu fyrirtækjanna á RUSAL / Glencore / SUAL, ætla að reisa annað álver í Helguvík með 250.000 tonna árlegri framleiðslugetu. Álver þeirra á Grundartanga hefur þegar verið stækkað í 260.000 tonn.

Um þessar mundir er verið að fara yfir unhverfismat á Helguvíkur bræðslunni. (1) Þetta mat var gert af verkfræðisamsteypunni HRV (Hönnun/Rafhönnun/VST).

“Það er fáránlegt að verkfræðifyrirtæki sem hefur mikla hagsmuni af byggingu álversins sé ætlað að skila hlutlægu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í mati fyrirtækisins koma fram staðhæfingar eins og t.d. sú að mengun af verksmiðjunni verði ekkert vandmál vegna þess að Helguvík sé svo vindasamur staður að öll mengunin mun hverfa með vindinum” segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson frá Saving Iceland.

“Þessi álbræðsla mun kalla á nýjar jarðhitaboranir í Seltúni, Sandfelli, Austurengjum og Trölladyngju, auk þess sem Hengilssvæðinu hefur þegar verið raskað stórlega hennar vegna af Orkuveitu Reykjavíkur.  Í umhverfismatinu hefur alveg láðst að nefna þessi jarðhitasvæði eða hinar gífurlegu rafmagnslínur og rafmöstur sem fylgja munu framkvæmdinni. Þessar jarðvarmavirkjanir munu gersamlega eyðileggja ásýnd og vistfræðilegt gildi alls Reykjanesskagans. Orkuþörf verksmiðjunnar, um 400 mw, mun fara fram úr náttúrulegri orkugetu þessara jarðhitasvæða auk þess sem þau munu kólna á þremur til fjórum áratugum. (2) Century hafa viðurkennt að það er ætlun þeirra að stækka verksmiðjuna á næstu áratugum. Það er því augljóst að þessi álbræðsla mun ekki aðeins eyðileggja Reykjanesið heldur einnig útheimta frekari virkjanir jökuláa.”

Matsferlið virðist vera algjört aukaatriði, fyrirtækið hefur þegar reiknað með útgjöldum upp á 360 milljónir dollara sem að hluta til verður varið til byggingar álbræðslu í Helguvík. (3) Þetta gefur til kynna að Century hafa fengið fullvissun frá íslenskum yfirvöldum um að verkefnið mun sleppa í gegn hvað sem í skerst.

Þetta stangast algerlega á við stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkistjórnar Íslands, og þá sérstaklega nýlega yfirlýsingu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra, að hún sé á móti frekari álverksmiðjum á landinu.

Íslenska járnblendifélagið vill auka getu sína til framleiðslu á ferrosilicon fyrir stáliðnaðinn. Þetta fyrirtæki ber ábyrgð á einu mesta magni gróðuhúsalofttegunda og annarar mengunar á Íslandi. (4)

“Stækkun á verksmiðjum Íslenska járnblendifélagsins og Century mun auka stórlega útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.  Ef ekkert bætist við þá stóriðju sem þegar er á Grundartanga og hjá ALCOA Fjarðaáli mun Ísland samt auka við útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 38% miðað við ástandið árið 1990. Með áframhaldandi uppbyggingu stóriðju á Íslandi mun útstreymið nema um 63% yfir viðmiðun mörkum ársins 1990. Slíkt ber vitni um algjört ábyrgðarleysi og ótrúverðugleika íslenskra stjórnvalda.

Allt tal um “græna orku” frá jarðvarma og vatnsorku er í raun hreinar lygar. Íslendingar verða að rísa gegn þessum erlendu fyrirtækjum” sagði Snorri Páll.

ENDIR

Frekari upplýsingar: http://www.savingiceland.org

Punktar og tilvitnanir:
1. Environmental Impact Assesment, HRV, may 2007,
http://www.hrv.is/media/files/Frummatsskýrsla_2007-05-02_low%20res.pdf
2. Landvernd, Letter to national planning agency, 28th June 2007,
http://www.landvernd.is/myndir/Umsogn_Helguvik.pdf
3. Credit Suisse, June 12th 2007,
http://www.newratings.com/analyst_news/article_1548857.html
4. Icelandic Ministry of the Environment, March 2006,
http://unfccc.int/resource/docs/natc/islnc4.pdf
mbl.is Mótmælendur hlekkja sig við tæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Það pirrar mig þegar fólk er með ákveðnar skoðanir án þess að skrifa undir fullu nafni. Það er OK að vera nafnlaus ef um er að ræða vitsmunalega umræðu:

En að kalla fólk "skríl" sbr. "Vafasamt finnst mér einnig að ráðast á eignarrétt manna með því viðlíka hætti og skrilinn gerir með því að hlekkja sig við eigur þeirra og klifra upp í krana"

krefst nafns = fullt nafn.  Annars er það ekki trúverðugt. Þar til Óli GH segir til nafns tel ég hann vera dulnefni fyrir almannatengslafulltrúa umrædds fyrirtækis.

Út úr skápnum Óli GH = Óli Grundartanga Halelúja

Ásgeir Rúnar Helgason, 18.7.2007 kl. 18:40

2 identicon

Skríll og ekki skríll þá virðir þetta fólk ekki eignarrétt annara enda kringlu vitleysan gott dæmi um það. Vilji menn og konur mótmæla er þeim í sjálfum sér frjálst að gera það en að sjá þetta í sjónvarpi er eins og horfa á sirkús, málstaðurinn gleymist eða tínist innan um kjánalæti.

Ég varð fyrir töluverðri seinkun vegna "skrýlsláta" ýmissa kjánaprika á veg mínum heim og pirraðist við það, hjálpar það málstað þeirra sem stóðu fyrir fíflalátunum? 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 18:59

3 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Mér sýnist að hér sé um það að ræða að þeir sem stunda þessi mótmæli telja að þeir þurfi ekki að fara að almennum reglum á meðal manna og svo hitt að þeir sem ekki eru sammála málstað mótmælendanna muni kannski bara aldrei sætta sig við þá og það sem þeir standa fyrir. Og hann er nánast fráleitur útúrsnúningurinn um að andúð þeirra sem gagnrýna aðferðirnar séu aðför að tjáningarfrelsinu.

Engu skiptir hver málstaðurinn kann að vera þegar kemur að því að trufla umferð eða að fara inná einkalóðir. Um slíkt hlýtur að verða að semja. Ég get illa séð það fyrir mér að þú Birgitta myndir sætta þig við að ég og margir aðrir sem erum að mótmæla þessu ofbeldi tækjum okkur stöðu við dyrnar heima hjá þér til að mótmæla þessu. Eða að nágranni þinn myndi hlekkja sig við tré í garðinum þínum sem þú hyggðist fella af góðum ástæðum.

Enginn efast um mikilvægi þess að fólk geti komið skoðunum sínum á framfæri. En það er líka mikilvægt að troða ekki á rétti annarra í leiðinni. Ég hvet þig eindregið til þess að sannfæra mig um að það sé ekki ofbeldi að fara á vinnusvæði manna og stofna þar sjálfum sér og öðrum í hættu.

Við búum við fyrirkomuleg sem kallast lýðræði og það byggist þannig upp að stjórnvöld geta og mega taka ákvarðanir sem kunna að virðast heimskulegar. Finnist nógu mörgum þær heimskulegar þá ætti það að koma fram þegar við öll kjórum til þings. Flóknara er þetta ekki í stuttu máli.

Ég mótmæli þessari baráttuaðferð alveg óháð því hver málstaðurinn er. En ég mun samt ekki ryðjast inní þitt líf með ofbeldi að neinu tagi.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 18.7.2007 kl. 19:50

4 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Amen á eftir efninu!

En eins og ég bendi á á blogginu mínu þá er Vilhelmína (blogg-) vinkona mín er fulltrúi fyrir þá skoðun að fyrirtæki eigi sjálf að bera kostnað af aðgerðum til að vernda framkvæmdir og athafnafrelsi þeirra sjálfra. Þannig predikar Vilhelmína t.a.m. að Hvalur h.f. eigi að borga fyrir auka kostnað sem hlýst af mótmælum Watson vegna þess að það er Hvalur h.f. sem græðir á hvalveiðum. Íslenskir skattborgarar eiga ekki að greiða fyrir gróða einstakra fyrirtækja. Vilhelmína notar m.a. þau rök að hún sjálf og hennar fjölskylda þurfi að greiða fyrir eigin öryggisgæslu (Securitas) til að vernda sitt eigið heimili. Nú verður það að fylgja sögunni að Vilhelmína er frjálshyggjukona (öfugt við undirritaðan sem aðhyllist skoðanir í ætt við frjálslynda félagshyggju). En ég verð að viðurkenna að ef ég hef einhvertíma verið skotinn í röksemdafærslu frjálshyggjumanna þá er það núna. Af hverju eigum við að greiða kostnaðinn af auka löggæslu vegna framkvæmda alþjóðlegra auðhringja á Íslandi? Það er augljóst að svona framkvæmdir kalla á mótmæli og því ætti kostnaður vegna þeirra að vera með í útreikningum frá upphafi. Ef þetta er eitthvað sem stjórnvöld á Íslandi hafa ekki fattað er kominn tími á að stilla vekjaraklukkuna uppá nýtt.

Þetta er nýtt sjónarhorn a.m.k. fyrir mig og ég verð að leggjast undir feld áður en ég get sagt af eða á um hvort ég sé þessu sammála.

En... dálítið skotinn!

Ásgeir Rúnar Helgason, 18.7.2007 kl. 21:26

5 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Eins og ég hef ítrekað þá stroka ég út fólk sem getur ekki komið undir nafni. Finnst fátt jafn aumt eins og fólk sem er með skítkast undir dulnefni. Rögnvaldur þegar lögreglan sendi sína óeinkennisklæddu menn til að fylgjast með okkur fyrsta sumarið þá fór ég alltaf út og bauð þeim í kaffi. Þeir bara vildu það ekki. Lögreglan hélt því fram fullum fetum vð fjölmiðla að þeir væru ekki að fylgjast með okkur. Samt náðum við því ítrekað á filmu. Ég hef upplifað svo oft að þeir sem ætlast til þess að allir aðrir séu heiðarlegir séu með óheiðarlegalegsta fólki landsins. Ég missti mína virðingu fyrir valdastrúktúrnum þegar ég varð oft fyrir því að þeir fóru í fjölmiðla og lugu eins og þeir frekast máttu og þar af leiðandi gaf það afar skakka mynd af því sem var í gangi. Ef þú vilt koma heim til mín og mótmæla, syngja eða dansa á lóðinni minni um stutta stund til að vekja athygli á góðum málstað þá ertu guðvelkominn. Það sem gleymist er að þessar aðgerðir eru yfirleitt mjög stuttar og þessi á Snorrabraut hefði verið búin mörgum sinnum fyrr eða löggan hefði látið hana óreitta. Það að fólk sé svo vitlaust að hringja í neyðarlínuna vegna hávaða segir manni eitthvað um það sjálft. Ég varð einmitt fyrir því aðfararnótt laugardagsins mikla að það var eitthvað fólk út í garði á fylleríi að syngja og öskra í langan tíma, ég hugleiddi "get ég hringt eitthvað til að fá einhvern til að segja þeim að hætta þessum ósköpum" en það var ekkert númer að finna nema neyðarlínunúmerið og ég kunni bara ekki við að trufla neyðarlínuna enda ekki um neyð að ræða. Ef það hefði komið sjúkrabíll þá er alveg öruggt að honum hefði verið hleypt í gegn. Þó þau hagi sér kjánalega þá er þetta fólk langt frá því að vera kjánar.

Það sem gleymist gjarnan er að mótmæli SI hafa mjög ákveðinn tilgang og þó hann sé ykkur ekki augljós þá er hann okkur hinum sem höfðum staðið í þessari baráttu um langa hríð og ekki séð neinn árangur mikilvægur. Mikilvægur að því tagi að nú erum við sem stöndum með skilti við alþingi bara sakleysingar en ekki öfgafólk. Maður hefur svo sem fengið þenna stimpil á sig án þess að hafa nokkru sinni gert neitt sem telja mætti öfga. Það sem SI hefur gert með aðgerðum sínum er að færa hið svokallaða middleground til og gert fólki sem áður var á jaðrinum að mainstream fólki. Þá opnast sá möguleiki að hlusta betur eftir hvað þau segja og fyrir yfirvöld að ræða við þau sem áður voru jaðarfólk en eru núna mainstream út af þessari tilfærslu. Þetta er mjög algengt og segja má nauðsynleg lýðræðisleg aðferð. Annað sem SI hefur unnið hörðum höndum að í gegnum árin með miklum árangri er að koma upplýsingum um ástand mála hérlendis þegar kemur að offari gagnvart náttúru okkar í þágu stóriðju í fjölmiðla erlendis. Maður hefur eytt ófáum stundum í að tala við blaðamenn og heimildarmyndagerðafólk frá öllum heimshornum. Þá hafa í kjölfarið birst afar mikilvægar umfjallanir í blöðum eins og Guardian og New York Times. Þannig að þegar sagt er að fólkið í SI séu bara óupplýstur lýður og skríll þá finnst mér að þeim ranglega vegið því mörg þeirra þó ekki öll hafa meiri þekkingu á stöðu mála hér en margur eyjaskegginn.

Annað sem ég vil að fólk hafi í huga: SI hefur aldrei staðið fyrir ofbeldi. Hvernig er hægt að líta á það sem ofbeldi að syngja og dansa, að hlekkja sig við vinnuvélar eða klifra upp á krana? Ég verð að viðurkenna að ég bara skil það ekki. Ég veit það að eigin raun að fá athygli fjölmiðla er mjög erfitt þegar kemur að því að koma sjónarmiðum umhverfisverndar að. Fyrir kosningar gáfum við Íslandsvinir út veglegan bækling sem við lögðum mjög mikla vinnu í til að fræða almenning um sögu álfyrirtækjanna, hvernig ál er búið til, hvaða áhrif það hefur og svo lengi telja. Þegar við boðuðum til blaðamannafundar, mætti enginn. Samt var þetta einkaframtak sem krafðist gríðarlegra fórna til að senda upplýsingar á heimili landsins sem í raun og veru okkar ágæta ríkisvald ætti að sjá um. Því hvernig er hægt að ætlast til að fólk geti myndað sér heilsteypta skoðun ef það hefur ekki nauðsynlegar upplýsingar. Það sem svona aðgerðir gera er að hægt er að komast í fjölmiðla, fá viðtöl, snúa þeim frá spjalli um aðgerð í að tala um umhverfismál. Þegar ég var talsmaður SI 2005 þá var það alltaf grunnurinn að öllum viðtölum. Ég reyndi að koma málstaðnum að... þeas hverju átti fórna og fyrir hvað...

Birgitta Jónsdóttir, 19.7.2007 kl. 13:23

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Álver er tískuorð frá tíma austurver og suðurver... algerlega merkingalaust.... er bara að lýsa þyrpingu húsa. þarna er verið að bræða ál ekki satt

Birgitta Jónsdóttir, 19.7.2007 kl. 13:27

7 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Ég er ekkert að hafa á móti skoðunum þínum á neinn hátt og get alveg viðurkennt það að ég er trúlega full kærulaus þegar um er að ræða umhverfismál. Ég hef aftur á móti mikinn áhuga á því að fólk beiti ekki þeim aðferðum sem þið notist við. Þær eru ofbeldi í víðum skilningi þess orðs. Ofbeldi er fleira en að slá til einhvers. Hvar byrjar svona eða endar? Mér sýnist að tilgangurinn helgi algerlega meðalið, allt er leyfilegt því þetta er nánast sjálfsvörn sem þessi tiltekni hópur tekur að sér landinu til varnar.

Hvernig eru hlutirnir ákveðnir hjá okkur? Búum við ekki við lýðræði? Vinna menn hugmyndum fylgi með því þeim aðferðum sem þið beitið? Má meirihlutinn ekki vera heimskur? Ég er ekki að segja að meirihlutinn þurfi endilega að vaða yfir minnihlutann en hvernig viljum við hafa stjórnsýsluna ef ekki eins og hún er. Er hægt að halda því fram að á Íslandi séu einhversskonar skorður á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri? það held ég ekki, öðru nær.

Er ekki rétt hjá mér að til þess að fá að fara með friði um götur bæjarins þá þarf leyfi. Það er eina leiðin og ég get ekki skilið að það sé vandamál. Telur þú að þið fáið minni athygli ef þið sækið um leyfi fyrir ykkar baráttusamkomum? Við höfum einfaldar umgegnisreglur í þessu þjóðfélagi og þær gilda fyrir alla. Ég ryðst ekki inná vinnustaði og veld ónæði og kannski skemmdum að ótöldu fjárhagstjóni þó mér mislíki eitthvað. Og þannig vill ég hafa það.

Er bara prinsippmaður og vill ekki búa í þjóðfélagi þar sem hnefarétturinn í hvaða mynd sem hann birtist nýtur sín. Þið getið ekki tekið lögin í ykkar hendur á þeim forsendum að ykkur finnst eitthvað heimskulegt. Ekki frekar en aðrir.

Kv.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 19.7.2007 kl. 15:31

8 identicon

Birgitta segir:

"Eins og ég hef ítrekað þá stroka ég út fólk sem getur ekki komið undir nafni."

En hún hefur strokað út athugasemd mína. Prinsippmanneskjunni Birgittu má benda á að "Ólafur Skorrdal" sá sem ritar á þessa síðu gerir það heldur ekki undir nafni, en enginn Ólafur Skorrdal finnst í þjóðskrá.  Þar sem ég vænti þess að Birgitta geti ekki í framhaldinu ákvarðað það hvor okkar komi fram undir réttara nafni. Ég vænti þess þá að prinsippmanneskjan Birgitta fjarlægi færslur "Ólafs".

Birgittu má benda 

Óli GH (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 16:38

9 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Sorrí,

en hvaða er þetta SI (Saving Iceland )?

Er fyrirbærið með heimasíðu þar sem hægt er að lesa sér til?

Einn útá þekju:

Ásgeir Rúnar Helgason, 19.7.2007 kl. 17:53

10 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Ekki vantar stóryrðin í minn garð Ólafur. Ég er sneyddur lýðræðisskilningi og gott ef ekki vanþroskaður líka. Læt ekki eftir þér að svara svoleiðis málflutningi en mér sýnist að þú sérst bókstafstrúar þegar það hentar. En bara þegar það hentar.

Og ekki ætla ég að efast um um doktorinn sem skrifaði skýrsluna góðu hefur þessa skoðun. Honum er það heimilt og kannski hefur hann bara rétt fyrir sér. Og hvernig viltu þá bregðast við? Ef ég skil lýðræðið rétt þá er það bara þannig að forheimskur meirihlutinn getur tekið ákvörðun sem fluggáfaður minnihlutinn er óánægður með. Gangi stjórnvöld á svig við lög þá eru til aðferðir til að bregðast við því. Það er aðferð sem kallast dómstólaleiðin.

Mótmæli sem ganga þannig fram að fólk ryðst inná vinnustaði eða veldur öðru ónæði á svæði sem ekki er ætlað öðrum en vinnandi fólki er ruddaskapur. Getur þú kennt mér hvað er eðlilegt við að ráðast að verkfræðingum við vinnu sína þó sú vinna tengist álframkvæmdum á austurlandi? Hvernig þjóðfélag er það sem væri þannig að í hvert eitt skipti þegar ég þykist hafa rétt fyrir mér en ekki meirihlutinn að þá hleyp ég upp og beiti saklausu fólki ofbeldi eins og þar var sýnt?

Og segðu mér líka hvar minnihluti þjóða stjórnar vilja meirihluta. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega heldur því fram að ekki sé hægt að mótmæla og koma fram skoðunum sínum á Íslandi. Man ekki hvað þau heita samtökin stór og smá sem hafa beitt sér gegn virkjunum og álversframkvæmdum á austurlandi en þau náðu mínum eyrum og margra annarra með opinberum málfutningi. Sumir hafa haldið tónleika eða skirifað greinar. Útifundir gera gagn líka. Hvernig getur þú lesið það útúr stjórnarskránni að hún heimili að fólk sem vill koma andmælum sínum á framfæri megi beita til þess öllum þeim ráðum er fólk telji hentug og áhrifaríkust? Falla þá úr gildi önnur réttindi fólks sem hér búa og lúta að einkarétti og eignarétti? Hver kenndi þér þessa túlkun?

Þekki ekki ástæður óbeitar þinnar á lögreglunni en gaman væri að þú segðir mér hverju hún lýgur að mér um eiturlyf og neytendur þeirra.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 19.7.2007 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband