Leita í fréttum mbl.is

Frábær himnaför og ógleymanlegur dagur

Dagurinn í gær var í alla staði eins og ég hefði best getað óskað mér. Vaknaði klukkan fjögur og hafði því nægan tíma til að gera allt sem gera þurfti fyrir himnaför mömmu. Þegar við keyrðum inn í Hveragerði fékk smá kökk í hálsinn, svo mikið af flöggum í hálfa stöng og ég hafði áhyggjur af því að mér tækist ekki að halda ró minni og myndi brotna saman. En þegar ég kom í kirkjuna þá var svo margt sem ég þurfti að gera og svo mikið af fólki komið að ég hafði hreinlega ekki tíma til að hafa áhyggjur af slíku. Kirkjan var alveg pakkfull og ég gerði ekki nógu mikið af prógrammi fyrir alla, hélt að það myndi koma helmingi færra fólk. Þótti vænt um að sjá alla sem komu. Fann líka fyrir öllum þeim hlýju hugsunum sem bar beint til okkar. Ég ákvað að standa í anddyrinu í kirkjunni og taka á móti öllum. Hélt að maður ætti að gera það, en allavega þá var það bara svo gott að sjá framan í alla sem voru að koma og ég ákvað að leyfa helst engum að sleppa inn án þess að faðma viðkomandi. Ég er mikill faðmari í eðli mínu. Alltaf mikið faðmast í minni fjölskyldu.

Athöfin hófst á því að flutt voru Þrjú ljóð um lítinn fugl án söngs. Það var alveg ótrúlega fallegt. Um morguninn mundi ég eftir því að mömmu var alltaf kappsmál að klappað væri í kirkjum. Bað því Hjölla um að nefna það að klappa á milli atriða, sem hann gerði. Vona að það skapist hefð hér á landi að klappa í jarðaförum, léttir óneitanlega yfir. Ég var djúpt snortin eftir tónlistina og horfa á börnin mín gráta á meðan á flutningum stóð. Var ekki viss um hvort að ég myndi geta flutt ljóðið, en ég stappaði í mig stálinu, enda stálkonan ógurlega:) og stóð upp og flutti það. Hjölli spilaði af sinni alkunnu snilld undir. Svo söng Páll Óskar Sýnir og það var alveg ótrúlega vel gert hjá honum. Hann hefur líka svo græðandi rödd. Það var eins og söngurinn hefði þau áhrif að mér leið vel og ég fann til ómældrar gleði frekar en að fara að gráta. Ég söng sjálf þetta lag yfir Kalla blóðbandapabba þegar hann var settur ofan í jörðina fyrir nokkrum árum á milli afa og ömmu. Ég varð að hætta að syngja það í miðjum klíðum því ég beygði af.

Eftir Sýnir var séra Gunnar Björnsson með tölu um mömmu. Hann stóð sig ágætlega. Reyndar hlýtur hann að hafa villst á línum í ræðunni, því allt í einu var ég gift Valda, fyrrverandi stjúpa og átti með honum börnin mín þrjú. Ég gat ekki annað en farið að flissa. Það voru nokkur önnur svona skemmtilega furðuleg atriði í ræðunni og ég sá mömmu fyrir mér í kasti yfir því.

Svo tók samfelld tónlistardagskrá við, hér er bara dagskráin í heild sinni:

Okkur þótti við hæfi að minnast mömmu með tónlistinni hennar. Öll tónlist sem flutt er við himnaför hennar eru lög sem hún samdi við ljóð íslenskra skálda.

Forspil: Þrjú ljóð um lítinn fugl
Ljóð í flutningi Birgittu Jónsdóttur og Hjörleifs Valssonar
Sýnir
Söngur: Páll Óskar Hjálmtýsson
Ljóð eftir: Stein Steinarr
Bergþóru minnst, Séra Gunnar Björnsson
Frændi þegar fiðlan þegir
Söngur: Páll Óskar Hjálmtýsson
Ljóð eftir: Halldór Laxness
Lífsbókin
Söngur: Páll Óskar Hjálmtýsson
Ljóð eftir: Laufeyju Jakobsdóttur
Draumur
Söngur: Jóhanna Vigdís Arnardóttir
Ljóð eftir: Stein Steinarr
Hin mikla gjöf
Söngur: Jóhanna Vigdís Arnardóttir
Ljóð eftir: Stein Steinarr

Um tónlistina sjá:
Jóhanna Vigdís Arnardóttir - söngur
Páll Óskar Hjálmtýsson - söngur
Hjörleifur Valsson - fiðla
Ástvaldur Traustason - píanó
Hilmar Örn Agnarsson - orgel
Björgvin Gíslason - gítar
Jón Rafnsson - kontrabassi
Steingrímur Guðmundsson - slagverk

Innilegar þakkir til allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn til að gera þessa athöfn mögulega. Sérstakar þakkir til tónlistarfólksins.

Það var sem mamma væri að syngja í gegnum Hönsu. Hún flutti þetta svo vel að mér hitnar um hjartarætur að hugsa til þess. Ég á engin orð til að lýsa þakklæti mínu til tónlistarfólksins. Þau gerði þessa athöfn að því sem hún var: ógleymanleg.

Svo greip ég kerið fína og arkaði með fallega hjörð að baki mér með blóm og kransi í fangi. Ætlaði aldrei að komast með öskuna í bílinn svo margir að tala við. Ferðinni var heitið í kirkjugarðinn við Kotstrandarkirkju. Þar las ég upp fyrir hann Peter manninn hennar mömmu bréf sem hann bað mig um að lesa, en hann komst ekki til að vera með. Ég hafði þýtt það um morguninn og læt þýðinguna fylgja.

"Til minnar ástkæru Bergþóru
Enginn skal velkjast í vafa um að við elskuðum hvort annað.
Þú kenndir mér að lifa einn dag í einu. Við lifðum í þessu andartaki.
Til hvers að hafa áhyggjur af morgundeginum, kannski er morgundagurinn hreinlega ekki til.
Það sannaðir þú daginn áður en þú lést.
Þú varst svo full af lífskrafi þetta eftirmiðdegi sem ég heimsótti þig á sjúkrahúsið. Það hvarflaði hvorki að þér eða mér að þetta væri hinsta stund okkar saman. Þú skrifaðir niður hvað ég ætti að koma með næsta dag til þín. Þú varst sannfærð um að eftir nokkra daga myndirðu verða flutt á litla spítalann í Brovst og að ekki væri langt í að þú kæmir heim að nýju.

Þú ljómaðir þegar þú sagðir %u201Cheim að nýju%u201D, þú elskaðir Dúkkuhúsið, heimilið okkar.
Áður en ég kvaddi þig, sagðirðu, mundu nú að knúsa og kyssa Jackpot frá mömmu. Jackpot var hundurinn okkar.
Ég var í góðu skapi þegar ég keyrði heim. Ég hugsaði um nikótínplásturinn sem þú hafðir fengið á spítalanum, hann átti að fjarlægja löngunina í sígarettur. Þú varst svo ánægð með þennan plástur vegna þess að þú varst sannfærð um að hann gæti hjálpað þér til að hætta að reykja.
Þú gerðir allt sem í þínu valdi stóð til að ég myndi ekki hafa áhyggjur af þér. Þér tókst að láta mér líða þannig að ég var sannfærður um að þú kæmir skjótt heim, þannig að það sem eftir lifði dags var ég áhyggjulaus og svaf rótt um nóttina.

Klukkan sjö um morguninn vakti síminn mig. Hjúkrunarkona sagði mér að þú hafðir yfirgefið mig, að þú hafðir látist í svefni um nóttina.

Elsku Bergþóra mín, þakka þér fyrir að hafa kennt mér að lifa og njóta dagsins í dag, að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum.
Ég er sannfærður um að þú varst ekki meðvituð um að dauðinn myndi bera að garði þegar hann kom og sótti þig.
Við höfum oft talað um dauðann. Við vissum að hann myndi koma til okkar einn daginn og sækja okkur. En svo lengi sem við lifðum myndum við elska hvert annað.
Nú er líkami þinn ekki lengur hér, en þú lifir í hjarta mínu og sál þín er hér ennþá, ég finn svo sterkt fyrir henni.
Ég er stoltur gagnvart því að þú þoldir mig í næstum því átján ár. Ég er stoltur gagnvart því að hafa búið með einum af merkustu listamönnum Íslands. Þú munt aldrei gleymast. Það sem þú hefur skapað með tónlist þinni mun lifa að eilífu.

Heiðruð skal minning þín
Ég elska þig
Þinn Peter "

Eftir þessa fallegu athöfn sem kallast mætti jarðsetning brunaði ég aftur til kirkjunnar í Hveró til að ná í gestabókina og myndirnar af mömmu og keyrðum svo sem leið lá á veitingastað bróður mín við Fjöruborðið þar sem við héldum erfðadrykkju. Það var líka yndislegt. Fann svo vel að mamma var kát með þetta allt.

Kíktum svo í smá heimsókn til ömmu í Hveragerði og fengum meira bakkelsi og kaffi og hlýju. Fór svo heim, var nokkuð útkeyrð en sátt og glöð. Sá fyrstu tölur frá Hafnarfirði og var viss um að þessi dagur myndi fá góðan endi. Dreif mig eftir að Delphin sofnaði upp í Hafnarfjörð og náði að fagna með þeim sem fagnað gátu. Ótrúleg stund og fullkominn endir á fullkomnum degi. Í gær varð sól í straumi, næsta verkefni er að fá von og bjartsýni handa landinu öllu. Landinu þyrmt um stund. Gefur okkur tíma til að finna almennilega lausn á þessu stóriðjuæði, álæði, brjálæði:) Markmiðið: sól á Íslandi öllu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Falleg athöfn greinilega og flottir listamenn sem tóku þátt með ykkur. 

Ég er viss um að hún hefur komið til mín undanfarna daga upp í gróðurhúsið, því það er búin að vera reykingalykt þar sem ég get á engan hátt útskýrt, en datt í hug að hún vildi láta mig vita af sér á þennan hátt.  Því reykingalykt í gróðurhúsi þar sem enginn reykir er alveg útilokuð.  En ég er búin að vera með sorg í hjartanu,  ótrúlega mikla af óviðkomandi manneskju að vera.  En ég held að okkar skyldleiki hafi verið á andlega sviðinu.  Við náðum allavega mjög vel saman.  Það er svo mikið tómarúm einhvernveginn þarna, sem þessi lífsglaða yndislega manneskja átti pláss, og á enn.  Og það pláss er frátekið fyrir hana alveg til enda. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2007 kl. 18:48

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mikið er þetta yndisleg færsla. Þú fékkst mig til að hlæja og skæla í sömu andránni, elsku hetjan mín! Hlakka til að hitta þig og knúsa þig, vona að það verði ekki of langt í það.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.4.2007 kl. 19:30

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála Gurrí ég bæði grét og hló.  Takk fyrir yndislegan pistil.  Gangi þér allt í haginn.  Ef eitthvað réttlæti er í heiminum Birgitta (sem ég er viss um) þá verða VG sigurvegarar kosninganna í ár.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.4.2007 kl. 22:13

4 Smámynd: IGG

Þetta var sannarlega dásamlegur dagur elskulega Birgitta mín, mjög falleg og einstök athöfn. Lögin hennar mömmu þinnnar svo yndisleg og fallega flutt. Mér fannst ég líka heyra í mömmu þinni í gegnum Hönsu. Ég dáðist líka að þér. Þú hélst svo fallega utan um þetta allt saman og gerðir það svo vel. Ég horfði á þig og hugsaði mikill maður og hetja er hún Birgitta ,,litla" frænka mín. Deili svo fleiru með þér augliti til auglitis. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera viðstödd þessa mögnuðu himnaför. Þín frænka IGG

IGG , 1.4.2007 kl. 22:44

5 Smámynd: Paul Nikolov

Mikið var þetta falleg Birgitta.

Paul Nikolov, 2.4.2007 kl. 23:07

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ingibjörg mín kæra söngfuglafrænka við þurfum að fara að hittast... sendi þér link á eftir í myndir frá Himnaförinni.. og kæra blóðbandafrænka Gurrí sem kemur mér alltaf í gott skap þegar ég kíki á bloggið þitt við þurfum líka að fara að hittast... er alltaf á leiðinnni út á Akranes. Kannski maður taki fræga stætóinn þangað einhvern daginn:) Ásthildur kveðjan þín komst til skila í Himnaförinni og gott að vita af mömmu innan um græðlingana hjá þær... og Jenný já við tökum þetta í vor, við erum eftir allt saman að kjósa um miklu meira en flokka í þetta sinn. Við erum að kjósa um bandarísku samfélagsleiðina eða skandinavísku samfélagsleiðina. Og Paul, takk innilega og velkominn í moggabloggsamfélgið:)

Birgitta Jónsdóttir, 3.4.2007 kl. 07:33

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

fallegt

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 7.4.2007 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 509137

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband