Leita í fréttum mbl.is

Hér er minningagreinin í fullri lengd sem átti

að birtast í mogganum en þeir létu mig stytta hana svo mikið að hún varð alveg ömurleg. Þurfti líka að standa í stappi til að fá ljóðið birt vegna þess að mati þess sem sér um minningagreinar fyrir Morgunblaðið þá var það ekki í réttum stíl, þ.e.a.s. það var ekki með stuðlum og höfuðstöfum. Fékk það loks í gegn eftir að hann talaði við eitthvað annað fólk á mogganum. En ég þurfti þá að stytta minningagreinina.

Mamma var fyrst og fremst hetja. Hetja vegna þess að hún hvikaði aldrei frá sjálfri sér. Var alltaf samkvæm sér og sínum skoðunum. Lífið krefst meira af sumu fólki en öðru. Mamma fékk svo sannarlega vænan skammt til að vinna úr. Kannski varð það henni ofviða undir lokin. Hún var alltaf tilbúin að hjálpa öllum en skildi sjálfa sig og sínar þarfir svo oft út undan. Held að örkuml hennar eftir slysið 1993 hafi stolið frá henni lífsþorstanum og sköpunarþránni. Mamma fékk í vöggugjöf einstaka tónlistargáfu. Tónlistin var hennar líf og yndi þangað til að hvert áfallið á fætur öðru tók meira að segja gleðina við að semja frá henni. Sé fjarlæga minningu um hana sitja á háa eldhúskollinum í eldhúsinu í Þorlákshöfn þegar ég var krakki að semja lög á næturnar. Æfa sig viðstöðulaust á tólf strengja gítarinn, hún ætlaði sér að afsanna að ekki væri hægt að spila á einhvern ákveðinn hátt á hann. Og henni tókst það svo sannarlega. Ég man líka eftir þvældu og útkrotuðu ljóðasafni Steins Steinarrs á eldhúsborðinu en ljóð hans voru henni gjöful. Hver perlan á fætur annarri spratt úr verkum hans í einmanaleik næturinnar. Mamma samdi ekki lög eins og önnur tónskáld. Lögin spruttu út úr ljóðunum nær fullsköpuð. Hún sagði að í góðum ljóðum byggi alltaf lag og hennar verk væri að laða lagið fram.

Mamma hafði sértakan gálgahúmor og lífssýn sem erfitt er að koma í orð. Hún var einskonar Búddisti í hugsun og gjörðum. Allir voru henni jafn mikilsverðir. Skiptir þar engu hvort að viðkomandi væri útigangskerling eða forseti. Börn vina sinna eða hennar eigin börn. Hún var fremur bernsk í hugsun og án efa hefur það komið henni í ýmsar ógöngur að trúa nánast öllu sem henni var sagt. Hennar lífsspeki rúmaðist innan máltækisins: Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Það var ekki auðvelt að komast inn fyrir skelina hjá henni og þó hún hafi alltaf verið létt og gaman að vera nálægt henni þegar sá gállinn var á henni, þá kraumaði þungur harmur í sálu hennar sem hafði afgerandi áhrif á allt hennar líf.

Mamma kom til Íslands síðasta sumar til að vera viðstödd brúðkaup bróður míns Jóns Tryggva og Lindu. Hún var svo stolt af honum og það geislaði af henni bjartsýnin. Hún var ákveðin að gefast ekki upp í því mótlæti sem að henni steðjaði, vildi hjálpa öðru fólki með krabbamein að komast handan við óttann sem slíkur stóridómur oft inniber. Hún var líka staðráðin í því að láta krabbameinið ekki taka yfirhöndina í lífi sínu. Engu skildi breytt. Hennar lífsstíll hinn sami uns yfir lauk. Hún vildi ekki framlengja lífið með lyfjum eða liggja á sjúkrahúsi. Daginn sem hún dó í tvígang og var endurlífguð, fór hún til vinkonu sinnar, til sálfræðings og á pósthúsið með hálfsmetra syngjandi afmæliskort til ömmu. Svo gat hún ekki meir, féll á búðargólfið í matvörubúðinni, blæddi út og var færð á sjúkrahúsið í Álaborg sem henni geðjaðist lítt að. Um nóttina safnaði hún styrk og eyddi síðasta deginum í þessari jarðvist til að róa þá sem henni voru kærir, sagði að henni liði vel, gerði nett grín að þessu öllu og reyndi að sannfæra okkur systkinin um að koma ekki til Danmerkur. Henni tókst það næstum því. En ég heyrði að hún átti ekki mikið eftir af lífsorkunni. Þannig að för okkar varð ekki frestað. Hún fór svo að sofa eftir símtal við vinkonu sína, hugsandi um Santorini, djúpblátt hafið og kúpt hvít húsþök. Sigldi inn í eilífðina ein um borð í kænu með hvítu segli. Dó í svefni og eins og hún þráði, varð engum ánauð. Ekkert vildi hún síður en að verða gömul bitur kona. Hún dó bjartsýn að vanda og ætlaði sér út af þessum ómanneskjulega spítala hið fyrsta. Og henni varð af þeirri ósk sinni. Mamma trúði á líf handan þessu og sækir okkur systkinin stíft í draumheimum, lætur vita af sér á ýmsa vegu eins og henni er von og vísan.

Ég hef lært svo margt af henni mömmu þó ég hafi hreinlega ekki séð það fyrr en á síðustu árum. Ég er henni full þakklætis fyrir allt sem við upplifðum saman þó ekki hafi það alltaf verið dans á rósum. Frá henni fékk ég bjartsýnina og þrautseigjuna. Ósérhlífnina sem oft er nauðsynleg til að verða eitthvað úr verki. Frá henni fékk ég ómælda hvatningu til að helga mig skáldagyðjunni. Frá henni fékk ég hugrekki til að vera ég sjálf og standa mig sama hvað gengi á í kringum mig. Ég fékk frá henni ómældan efnivið úr djúpum gleðinnar og sorgarinnar. Ég hef aldrei og mun aldrei elska neinn eins og hana. Ég var í því furðulega hlutverki að vera henni miklu frekar sem móðir en dóttir, vinur miklu frekar en dóttir og á því kann ég enga skýringu. Okkar líf var samofið skringilegum og oft á tíðum absúrd örlögum. En engu vildi ég breyta. Ekki henni, né örlögunum okkar furðulegu. Ég elska þig mamma skilyrðislaust og þú munt alltaf lifa í hjarta mínu, í minningunum óborganlegu og í lögum þínum.
Þín Birgitta Jónsdóttir stundum Bergþórudóttir

Ekki deyja fyrr en ég kem til þín

Þú frábaðst þér argandi vélarnar
-gervilífið og morfínið

Ég á ofgnótt líknar að þínu skapi
Ég skal lesa fyrir þig Stein Steinarr eða Halldór Laxness
Ég skal lesa fyrir þig um lífið eða engil dauðans

Bera smyrsl á andlit þitt
strjúka burt storknað blóðið í þykku hári þínu
Syngja fyrir þig vögguvísunar sem gleymdist
að syngja fyrir þig í bernsku

En ekki deyja fyrr en ég kem
Söngfugl að hefja sig til flugs
Ekki deyja fyrr en ég kemst til þín

Líf þitt fjarar út
Andlitið slétt
Það stirnir í augum
Óendanleiki og alheimur
Í svefni sótti engill dauðans þig
vafði þig sæbláum kufli
Og þú söngst í draumi mínum
"Veistu að þinn vinur er að deyja"
brostir og hélst þína leið

Faðma þig ylvolga
kyssi þig þúsund kossa
En ekkert er þess megnugt til að fá
þig til að snúa aftur
úr faðmi dauðans

Friðurinn fundinn, líkn undan fargi lífsins
Og ég sleppi, fagna með þér í hjarta sorgarinnar
með lífsbókina syngjandi í hjarta mínu
-þegar ég vakna

Ort handa mömmu í mars 2007, hvíldu í friði mín kæra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hér eiga engin orð við Birgitta min, hvert orð sem þú segir hér er lifandi ástaróður til mömmu þinnar.   En einmitt svona var hún, þó ég hafi ekki þekkt hana í mörg ár, þá náðum við vel saman og vorum örugglega sálarsystur.  Megi allir góðir vættir vaka með ykkur öllum ættingjum hennar. 

Vertu nú yfir og allt um kring

með einlægri blessun þinni.

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni. 

Þetta kemur einhvernveginn í huga minn núna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.3.2007 kl. 01:54

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Fallegt og einlægt. Mikið ertu lík mömmu þinni í útliti.

Jóna Á. Gísladóttir, 31.3.2007 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509138

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband