Leita í fréttum mbl.is

Draumar

Hef dreymt mömmu mjög mikið undanfarið. Hef líka verið nokkuð síþreytt. Í gær heyrði ég flotta skilgreiningu á söknuði eftir þeim sem hverfa úr lífinu okkar inn í heim dauðans. Maður býr ekki lengur til neinar nýjar minningar með viðkomandi. Ég varð frekar sorgmædd þegar ég fór að hugsa út í þetta en svo fór ég að skoða hlutina í samhengi. Í raun og veru eru minningar síbreytilegar og fortíðin tekur stakkaskiptum eftir því sem maður þroskast og þróast. Því á ég alltaf nýjar minningar um mömmu og alla hina sem hafa horfið út lífi mínu.

En það er þetta nú, kvika hamskiptandi nú sem er það eina sem er í raun og veru til. Hef mikið verið að velta því fyrir mér hvernig lífi mínu sé best varið. Þrái ekkert frekar en að skrifa en hef engan tíma til þess. En hverju skipta skrifin og sköpunargyðjan ef maður sinnir ekki því sem dýrmætast er í lífinu? Lífinu sjálfu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta með að geta ekki skapað nýjar og fleiri minningar er alveg satt. Ég missti dótturson minn mjög ungan og allar minningar um hann eru svo dýrmætar en ég græt enn hversu fáar þær urðu.  Er samt þakklát fyrir það sem ég á.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.3.2007 kl. 16:01

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Birgitta mín, þú ert heppin að geta dreymt móður þína! Það mun reynast þér mikill styrkur til lengdar.  Ég missti föður minn úr krabbameini sömu vikuna og einkasonur minn fæddist og ég átti svo bágt með að syrgja hann lengi...maður þarf sinn tíma!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.3.2007 kl. 17:48

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skrifaðu endilega og bloggaðu elsku Birgitta mín, það hjálpar að ná sátt í hjartað, trúðu mér.

Guð styrki þig vina. 

Jón Steinar Ragnarsson, 24.3.2007 kl. 18:36

4 identicon

Elsku Birgitta. Þú orðar það svo vel þegar þú segir að minningar séu síbreytilegar og fortíðin taki stakkaskiptum. Það er einmitt svo mikilvægt að reyna að greipa í hugann að minningar um ástvin sem deyr sem nísta hjartað í fyrstu eiga eftir að verða minningar sem gleðja mann síðar meir. Miðað við reynslu mína get ég fullvissað þig um að þú átt eftir að eignast margar nýjar minningar um hana mömmu þína. Það er gott að halda í þá hugsun sérstaklega á erfiðum stundum fyrstu mánuðina á eftir. Og ég tek undir með Jóni Steinari hér að framan haltu áfram að skrifa og blogga. Hugur minn er hjá þér.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 22:14

5 Smámynd: Agný

Ég samhryggist þér innilega kæra Birgitta.Ég veit hvað er að missa nákomna ættingja en maður getur alltaf glaðst yfir góðum minningum. Þær getur enginn tekið frá manni.Ég er ein þeirra sem var svo heppin að kynnast mömmu þinni, en það var á Reykjalundi "92 hún var bara perla.Við vorum saman þarna einhverjar vikur og hún lífgaði svo sannarlega upp á veruna þarna. Ég hefði alveg viljað að við hefðum átt lengri tíma saman þarna. Ég er mjög þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk að kynnast henni á.Sendi þér stórt knús   og ekki hætta að skrifa.

Agný, 25.3.2007 kl. 01:39

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka ykkur fyrir allar þessar fallegu hugsanir og hvatninguna. Mér skildist snemma að orðið er eitthvað það magnaðasta verkfæri sem okkur sem mannfólki var gefið. Ljóðið hefur alltaf verið mitt athvarf og ég hef reynt að skrifa ljóð þegar tilfinningaflæðið er of yfirþyrmandi til að geta andað. Þá hef ég pínt mig að tölvunni og skrifað. Og þá er eins og ég geti andað að nýju. Ég er í einskonar tilfinningakreppu. Veit að eitthvað mikilvægt er framundan. Stórar ákvarðanir sem alltaf fylgja breytingum af þessu tagi.

Ég held að enginn manneskja fari í gegnum lífið án þess að þurfa að horfast í augu við dauðann. Hvort það sé snemma eða seint á lífsleiðinni. Dauða ber yfirleitt ekki að eftir óskum, né hvernig fólk deyr. Því er mikilvægt einmitt að varðveita minningarnar sem maður átti saman. En eitt er það sem fólki er tamt að gera og það er að ásaka sig fyrir að hafa gert eða ekki gert eitthvað til að koma í veg fyrir að viðkomandi dó. Ég var í áratug að losa mig undan slíkum bull álögum gagnvart manninum mínum heitnum. Mamma ásakaði sig alla tíð fyrir að bróðir hennar dó, þegar hann var lítill og síðan þegar pabbi dó þá gerði hún hið sama.

Lífið er með sanni skóli og manni eru færð oft á tíðum ómöguleg verkefni til að kljást við en ég er á því að manni sé alltaf gefinn valkostur um hvernig maður vinnur úr reynslunni. Ég hef fengið svo marga dauða til að díla við að ég segi það nú oft í gríni að nú sé ég kominn með doktorinn í dauðanum.

Þið sem hafið skrifað mér með minningabrot um mömmu eða falleg orð til mín hafið gefið mér meira en orð fá lýst, styrkt þessa innri kjölfestu, þetta æðruleysi og gefið mér dýrmætan fjársjóð.

Takk frá dýpstu hjartans rótum

Birgitta Jónsdóttir, 25.3.2007 kl. 07:54

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku stelpan okkar þetta eru erfiðir tímar og von að þú sért þreytt og döpur.   Mamma þín er örugglega að láta þig vita af sér til að gefa þér meiri kraft.  Það segir mér líka að hún hefur verið alveg tilbúin að fara.  Hún var yndisleg kona, og er hér að gera það sama og hún gerði alltaf, hugsa um hina.  Sjálf sat hún eftir.  En hún var líka einstök baráttukona. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.3.2007 kl. 13:48

8 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Nokkrum vikum eftir að pabbi dó dreymdi mig hann ... hann var svo hamingjusamur, ég hafði aldrei heyrt röddina hans svona fulla af gleði. Morguninn eftir var fyrsti dagur í bata! Elsku frænka. Ég sendi þér innilegar samúðarkveðjur!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 26.3.2007 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509138

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.