Leita í fréttum mbl.is

Aðeins um sérvöldu lögin í tónlistarspilaranum

"Hver hefur rétt" var framlag mömmu til Evróvision-undankeppninnar árið 1990, hún samdi það 1987 að ég held. Ég var ekki neitt sérstaklega hrifin af þessu lagi, enda hef ég aldrei verið mikið fyrir Evróvision, en mér hefur fundist lagið og textinn hennar eldast vel. Skilaboðin í því eiga því miður aldrei meira erindi við okkur en í dag.

"Þjóðarblómið" er nýjasta lagið sem hún tók upp, veit ekki hvort að hún hafi samið neitt eftir það. Lagið kom til hennar eftir draumfarir og samdi hún það á sömu stundu og verið var að reisa fyrsta tjaldið fyrir fyrstu alþjóðlegu mótmælabúðirnar við Kárahnjúka. Hún vissi ekki af þessari lífsins tilviljun en leit á það sem tákn. Það var hennar vilji að þetta lag yrði notað í baráttunni til bjargar landinu okkar. Lagið var semsagt samið 21. júní 2005. Ljóðið samdi Skerjafjarðarskáldið Kristján Hreinsson. Það er sorglegt frá því að segja að mamma tók eiginlega ekkert upp eftir slysið 1993, en ég held að fólk hafi almennt ekki vitað hvað hún var líkamlega þjáð. Hún var einfaldlega svo góður leikari og létt í lund að eðlisfari. Í raun og veru var það afrek hjá henni að drífa sig í hljóðver til að taka Þjóðarblómið upp og nú þarf ég bara að finna þetta hljóðver í Danaveldi til að fá masterana af upptökunni.

"Sýnir" er eitt af mínum uppáhaldslögum og finnst mér lagið ákaflega vel samið. Ljóðið eftir Stein Steinarr er líka magnað. Sýnir kom út á "Bergmáli" og er það best unna platan hennar, enda öllu tjaldað í vali á tónlistarfólki sem tók þátt í gerð plötunnar. Þá spillti ekki að platan var sú fyrsta til að vera tekin upp í sveitahljóðverinu Glóru og vegna þess að það var tilraunaverkefni held ég að þau hafi getað gefið sér nægilegan tíma til að útsetja og eftirvinna lögin. Svo hefur sveitaloftið örugglega haft sitt að segja.

"Frændi þegar fiðlan þegir" tileinkaði mamma bróður sínum Jóni Sverri sem lést af slysförum barn að aldri. Þetta er einstaklega fallegt lag. Ég held því alltaf fram að Halldór Laxness hafi verið enn betra skáld en rithöfundur og er þetta ljóð alger perla í íslenskri ljóðagerð. Í þessari útgáfu lagsins sem einnig var á Bergmáli syngur afi bakraddir með mömmu. Bæði hann og mamma voru feikilega sérstakir gítarleikarar og augljóst hvaðan mamma hefur sinn sérstaka gítarstíl þegar maður hlustar á gamlar upptökur af afa að spila. Það var reyndar þannig að mikið var spilað á heimili afa og ömmu í Hveragerði og amma ansi liðtæk við munnhörpuleik. Ég sakna þess tíma.

"Verkamaður" er sennilega frægasta lagið hennar mömmu. Man hve pínlegt mér þótti sem unglingur að vera á djamminu með fólki og farið var að syngja einhverja slagara ef þetta lag kom upp. Þessi útgáfa lagsins var á fyrstu plötu mömmu sem heitir "Eintak" og skartaði að mati sérfræðinga ljótasta plötuumslagi íslandssögunnar en ég er ekki frá því að mér þyki þetta umslag fallega ljótt og ef eitthvað er þá virðist það eldast vel. Það er áhugavert að bera saman röddina hennar mömmu í þessari útgáfu og svo upptökuna af því á plötunni "Í seinna lagi". Ljóðið er eftir Stein Steinarr.

"Vinur að deyja" er samið við ljóð Pál J. Árdals og á sér nokkuð sérstaka sögu. Eitt sinn þegar ég var að koma heim þá var mamma að semja þetta lag og mér fannst það hálf óhugnanlegt. Rétt áður hafði ég séð að ég hélt kærasta systur hans pabba meðan ég beið eftir strætó. Mamma sagði að hún yrði að semja þetta lag og hafði áhyggjur af því að einhver okkur nákominn væri að deyja. Rétt eftir að hún samdi lagið hringdi síminn hjá nágrönnum okkar á hæðinni fyrir neðan, við höfum engan síma í litlu íbúðinni sem við leigðum. Það var til mömmu og henni sagt að Kata frænka og kærastinn hennar væru horfin. Óttast var um líf þeirra. Við mamma vissum að þau myndu ekki finnast á lífi. Lagið var engin tilviljun í huga okkar. Síðan kom í ljós að bíllinn þeirra hafði fokið ofan í höfnina í Þorlákshöfn í mikilli hálku og veðurham. Þegar mamma var að deyja þá setti ég þetta lag hér inn í tónlistarspilarann. Ég vissi að hún væri dáin en þó ekki. Stuttu síðar fengum við systkinin símtal um að hún hefði látist á spítalanum í Álaborg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: IGG

Þakka þér Birgitta mín fyrir þessi yndislegu skrif um fallegu lögin hennar mömmu þinnar. Ég sit hér við tölvuna, les og hlusta tárvotum augum. Kærleikskveðja IGG

IGG , 23.3.2007 kl. 09:16

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Elsku frænka, þakka þér fyrir fallega bréfið og kommentin hér á vefinn, sé þig væntanlega í jarðarförinni...

þar verða nokkur þessara laga spiluð

með björtum kveðjum

Birgitta Jónsdóttir, 23.3.2007 kl. 09:38

3 Smámynd: IGG

Jú ég verð þar og pabbi líka.

IGG , 25.3.2007 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 509137

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband