Leita í fréttum mbl.is

Ráðherraábyrgðar ræða

Ég vil byrja á að þakka háttvirtum þingmönnum Atla Gíslasyni og Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir mjög greinagóðar ræður þar sem störf nefndarinnar eru rakin og hvet þingmenn til að kynna sér ræður þeirra.

 

Í dag ræðum við um ábyrgð. Þegar maður les skýrslu rannsóknarnefndar er ljóst að enginn gengst við ábyrgð. Farið er í hinn margfræga leik, hver stal kökunni úr krúsinni í gær og ábyrgðinni velt á aðra. Enginn er maður með meiru og viðurkennir mistök sín og axlar þá ábyrgð sem þeim fylgja. Ég verð að viðurkenna frú forseti að ég ber litla virðingu fyrir fólki sem getur ekki gengist við ábyrgð á sínum mistökum og minnsta virðingu ber ég fyrir fólki sem varpar henni yfir á aðra í von um að sleppa og að athyglin beinist að einhverju öðru.

 

Ég ber aftur á móti mikla virðingu fyrir fólki sem gengst við mistökum, iðrast og einsetur sér að læra af mistökunum. Það fer ekki mikið fyrir slíku fólki hér innan dyra fyrr og nú.

 

Í íslenskri stjórnmálahefð er þetta viðtekin venja og það eru ekki margir þingmenn né ráðherrar sem hafa stigið hér upp í pontu og viðurkennt æpandi mistökin í gegnum árin og vikið af þingi í kjölfarið. Enginn hefur stigið hér upp í pontu og gengist við ábyrgð á aðgerðaleysinu í aðdraganda bankahrunsins. ENGINN. Því miður er það ljóst að afleiðingar hrunsins eru sviðinn jörð hjá þúsundum íslendinga sem höfðu ekki aðgengi að sömu upplýsingum og ráðherrar og þingmenn sem áttu aðild að þeirri ríkisstjórn sem hrakin var frá völdum með búsáhaldabyltingunni.

 

Ein afleiðing hrunsins mun birtast í þeirri ömurlegu staðreynd að í næsta mánuði munu mörg hundruð fjölskyldur missa heimi sín vegna þeirra mistaka, vanrækslu og gáleysis ráðamanna sem hér er fjallað um í dag.

 

Frú forseti nú þegar hafa ansi mörg stór orð verið látin  falla, ég ásamt fleirum þingmönnum úr þingmannanefndinni höfum m.a. verið vænd um að vera blóðþyrst út af því að við viljum láta kalla saman Landsdóm til að taka til umfjöllunar ákæru á hendur 4 ráðherrum. Við skulum aðeins setja hlutina í samhengi, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar alþingis eru þeir aðilar sem við leggjum til að verði kallaðir fyrir Landsdóm ábyrgir vegna aðgerðaleysi og vítaverðu gáleysi. Væri það ekki vítavert gáleysi að gera ekki neitt og bregðast við þeim áfellisdómi sem skýrslan er með sanni? Ég upplifi það ekki sem sérstakan hefndarþorsta eða blóðþorsta að vilja lúta leiðsögn þeirrar skýrslu sem svo mikið hefur verið mærð hér í þingsölum sem tímamóta skýrsla sem okkur ber að læra af. Við getum ekki bara sleppt því sem er óþægilegt og snýr að ábyrgð ráðherra. 

 

Ég vil ekki kalla saman landsdóm til að friðþægja almenning eins og einn hæstráðandi ráðherra lét nýverið hafa eftir sér, ég vil aftur á móti kalla saman Landsdóm vegna þess að mér ber að gera það útfrá þeim starfskyldum sem okkur voru settar í þingamannanefndinni, út af samvisku minni og útfrá ótal fundum sem við sátum með sérfræðingum á þessu sviði og tóku undir það lagalega mat um ráðherraábyrgð og tilefni til ákæru sem fólst í skýrslu rannsóknarnefndar.

 

Mér finnst líka mikilvægt í ljósi þess að enginn hefur sýnt iðrum né vilja til að breyta þeim ónýtu hefðum sem tíðkast með oddvitaræði og vanvirðingu fyrir heilbrigðri skynsemi eins og að halda almennilegar fundargerðir á efstu stigum stjórnsýlsunnar, mér finnst það mikilvægt að við þingmenn sýnum í verki að slíkt að slíkt verklag er ekki boðlegt og að við séum meðvituðum um hve skaðlegt það er velferð landsmanna að halda áfram á sömu braut og haldið var í náinni fortíð. Við erum að kljást við skaðann af óvönduðum  vinnubrögðum. Iðrunarleysið er svo stórfellt að töluverður hluti fyrrum ríkisstjórnar situr enn á þingi, bæði sem óbreyttir þingmenn sem og í æðstu stöðum í ráðuneytunum.

 

Að draga fólk fyrir Landsdóm er orðalag sem heyrist mikið hér inni og endurvarpast í fjölmiðlum. Þá tala margir um að það sé erfitt að senda vini sína hugsanlega í fangelsi og upp teiknast mynd sem á sér litla stoð í veruleikanum. Það vita það allir að hámarks refsing ef Landsdómur dæmir er tveggja ára fangelsisdómur, ólíklegt er að neinn muni sæta hámarksrefsingu. Ef ráðherrarnir fyrrum verða sakfelldir þá er næsta ljóst að þeir munu sennilega aðeins þurfa að sæta refsingar sem inniber skilorð eða fjársekt. Í þessu samhengi langar mig á að benda að einn af þeim aðilum sem dæma á út af því að hún leyfði sér að mótmæla vanhæfri ríkisstjórn á hinum háhelgu áheyrendapöllum verður í orðsins fyllstu merkingu dregin fyrir dóm laugardaginn 1. desember þrátt fyrir að eiga von á barni á sama tíma. Ekkert tillit er tekið til hennar í þeim pólitísku ofsóknum sem eiga sér stað gagnvart þeim einstaklingum sem var nóg boðið út af vanmætti ráðamanna að axla ábyrgð og segja af sér á sínum tíma, þrátt fyrir að öllum var ljóst að sú ríkisstjórn sem hér réði ríkjum var með öllu vanhæf og hafði sýnt af sér vítavert gáleysi.

 

Þeir níu einstaklingar sem ákærðir eru fyrir árás á þingið eru ákærð útfrá 100gr. þar sem hámarks refsins er hvorki meiri né minni en lífstíðarfangelsi. Ef maður ber saman þessi tvö mál þá verður maður að draga efa hvort að við með sanni búum í alvöru réttarfarsríki, sér í lagi ef að þingið mun ekki hafa dug til að afgreiða þessar þingsályktanir með því sniði sem lagt upp var með.

 

Það var með sanni ekki hægt að koma fyrir hrunið, en það var hægt að minnka hve stórfellt það varð með eðlilegum stjórnsýslulegum aðgerðum sem raktar eru í greinagerð þingsályktunnar þeirrar sem við fjöllum um í dag. Það er mikilvægt að muna að ef við setjum ekki skýr mörk gagnvart því hvar ábyrgðin liggur fyrir þá sem sitja á valdastólum nú og í framtíðinni. Við verðum að sína í verki að við viljum læra af fortíðinni.

 

Því miður er hætt við því að allt hólið á aðra vinnu þingmannanefndarinnar og varðar hina sameiginlegu þingsályktun nefndarinnar sé byggt á innan tómum orðum sem ættu betur heim í 17. júní ræðum eða í kosningaherferð. Við viljum ekki endurtaka oddvitaræðið, valdaránin, brotnu ráðherraábyrgðarkeðjuna eða að fólk firri sig ábyrgð með því að benda á aðra, eða hvað? 

 

Frú forseti

 

Af hverju eru ekki þeir sem bera mesta ábyrgð á hinu hryllilega hruni látnir sæta ábyrgð? Til hvers að kalla saman landsdóm ef Davíð og Halldór verða ekki látnir sæta ábyrgð? Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið?

 

Auðvitað væri best ef við hefðum þannig lög að ráðherraábyrgð fyrnist ekki á aðeins þremur árum.

 

En þau rök að ekki sé forsenda til þess að kalla fólk til ábyrgðar sem er ekki eins mikið ábyrgt fyrir hruninu og afleiðingum þess er auðvitað alger rökleysa. Það mætti bera þetta saman við það ef að tveir aðilar taka þátt í þjófnaði. Einn stelur 5 milljónum, hinn 4 milljónum, þessi sem stal mest sleppur, á þá ekki að kæra þann sem stal minna?

 

Mikil harmakveini heyrast víða um að löginn um Landsdóm séu úr sér genginn, forngripur sem lítið mark sé á takandi, risaeðla í lögfræðilegu tilliti og marklaus vegna hrumleika. Vil ég benda á að þessi lög eru óvenju vel úr garði gerð miðað við háan aldur, lögin eru þó ekki eldri en 50 ára sem er nokkuð yngra en flest það sem finna má í stjórnarskránni okkar og ef þetta eru rökin og fólk getur ekki fellt sig við gömul lög þá skulum við bara hætta að fylgja öllum lögum sem eru eldri en 50 ára, þar á meðal undirstöðum stjórnarskrár landsins. 

 

Frú forseti 

 

Þúsundir landsmanna hafa flúið land, þúsundir hafa misst vonina, þúsundir þurfa að velja á milli þess að borga af stökkbreyttum lánum eða geta brauðfætt fjölskyldur sínar. Tugþúsundir hafa glatað öllu trausti á valdastofnanir þessa lands, sér í lagi alþingi.

 

Því er það með sanni hálf ömurlegt að eyða dýrmætum tíma í þessi ræðuhöld á meðan mikil ólga er í samfélaginu út af því sem margir upplifa sem sérpantaðan dóm í hæstarétti. Það verður samt ekki undan því komist að fjalla um þetta "erfiða" mál og hvet ég samþingmenn mína að hafa hugrekki til þess að láta ályktunina hafa sinn gang án klækja eða tilrauna til að eyðileggja málið. Ég leyfi mér að trúa því að háttvirtir þingmenn búi yfir nægilega miklu hugrekki til að kjósa um þessar ályktanir í stað þess að hindra að þær fái eðlilega þinglega meðferð.

 

frú forseti

 

Mikið er talað um virðingu þingsins,  ég leyfi mér að spyrja þingmenn, háttvirta sem hæstvirta um það hvort að það sé til þess fallið að auka virðingu þingsins að hér sitja í valdamestu stólum hins háa alþingis fólk sem átti aðild að ríkisstjórn þeirri sem fékk áfellisdóm í skýrslu rannsóknarnefndar? Hvernig er hægt að firra sig ábyrgð á þeim hörmungum sem þess þjóð þarf að bera um ókomna tíð og ekkert sér fyrir endann á? Ætlar enginn að gangast við þeirri ábyrgð? Enginn? Hvernig er hægt að ætlast til þess að almenningur virði þetta svokallaða réttarríki ef það á bara við suma? Það er skylda þingsins að sýna af sér gott fordæmi og skora ég á þingmenn að fylgja þeim drengskapareið sem þau tóku þegar þeir háttvirtir tóku við embætti. Ég skora á þá að hlusta á samvisku sína og hjarta og beita sig vægðarlausum heiðarleika um hver heill þessa samfélags eru ef enginn ráðamaður mun sæta ábyrgð?


mbl.is Mikil reiði innan VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Ég horfði á þig flytja ræðuna í þinginu í gær - það var sorgleg upplifun

Ólafur Ingi Hrólfsson, 21.9.2010 kl. 09:12

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er góð ræða.

Magnús Sigurðsson, 21.9.2010 kl. 09:19

3 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Góð ræða og sanngjörn. Sorgleg viðhorf hjá Ólafi Inga Hrólfssyni.

Kristján H Theódórsson, 21.9.2010 kl. 09:29

4 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Maður er agndofa! Og nú eru Bjarni Ben og Jóhanna sammála......

Það eina rétta er að gera það sem er álitamál að 9menningarnir hafi gert, og það er að sýna Alþingi vanvirðingu sína í verki. Mæta þarna niður eftir og segja þessu fólki að skammast sín.........

Virðing Alþingis var ekki vanvirt af 9menningunum, hún hefur verið vanvirt um langan tíma af þingmönnum sjálfum, aðeins örfáir þeirra njóta virðingar almennings, þeirra á meðal þú Birgitta, Atli Gislason og Lilja Mósesdóttir. ....

Harpa Björnsdóttir, 21.9.2010 kl. 09:38

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Góð ræða og þörf.

Er Alþingi viðbjargandi?

Sigurður Hrellir, 21.9.2010 kl. 10:33

6 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Þeir einu sem halda að borin sé virðing fyrir hringleikahúsinu við Austurvöll eru trúðarnir innandyra!

Haraldur Rafn Ingvason, 21.9.2010 kl. 11:41

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

"Ég ber aftur á móti mikla virðingu fyrir fólki sem gengst við mistökum, iðrast og einsetur sér að læra af mistökunum. Það fer ekki mikið fyrir slíku fólki hér innan dyra fyrr og nú."

Stuttur fattþráðurinn í þeim, sem fatta ekki sannleikann í þessum orðum, en sprengiþráður mjög margra er brunnin upp, með hvissi og  glærum.  Skildu þau fatta það?

Góð ræða Birgitta.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.9.2010 kl. 17:07

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir yndislega og manneskjulega ræðu

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.9.2010 kl. 18:58

9 Smámynd: Hörður B Hjartarson

    Sæl Birgitta ! Ég vona að svona aths. eins og kjá Ólafi Inga risti ekki djúpt , það er vissulega ýmislegt sorglegt sem fellur frá FL  flokks félögum nú til dags , sem endranær og telst hann þar síst undantekning .

    En mér finnst þú afar bjartsýn , trúir þú því að , í það minnsta þeir er stóðu að því að dæma níu menningana , að þeir kjósi með ákæru í þessu máli - það tel ég 100% öruggt að þeir munu ekki gera og hvað þeirra siðferði viðvíkur , þá grunar mig að þeir hafi týnt því ekki seinna  en er þeir settust í Þjóðarleikhúsið .

    Takk fyrir frábæra ræðu og eig þú góðar stundir í Þjóðarleikhúsinu . 

Hörður B Hjartarson, 21.9.2010 kl. 19:02

10 Smámynd: Hörður B Hjartarson

   Sæl aftur !  Ég var að horfa og hlusta á Atla G . nú í fréttunum og ég er alfarið á móti hanns skoðun , að virðing Alþingis sé í húfi , virðingin á þeim stað er , eins og Haraldur Rafn segir , eingöngu innan veggja Þjóðarleikhússins , enda ekki að ástæðulausu og sjálfra leikaranna er sóminn hvað óvirðinguna  áhrærir .

Hörður B Hjartarson, 21.9.2010 kl. 19:07

11 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Góð ræða Birgitta.

Þegar fer yfir þann veg,sem einkavæðing bankana fæddist til hrun þeirra,með þeim afleiðingum að fjöldi fólks tapaði öllu sínu,án þess að koma þar nokkru nærri.Áttu það einungis til saka unnið að búa á Íslandi.

Hvað er ábyrgð?Er nóg að flýja af hólmi?Er nóg að segja"afsakið"?

Það voru fjöldi manna innan politíkarinnar,sem og bankanna,sem báru ábyrgð.Þeir flestir komið fram og sagt"sorry"og snúið sínu baki við áheyranda og hlegið að þjóðinni.

Ingvi Rúnar Einarsson, 21.9.2010 kl. 21:20

12 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Birgitta, þú ert Alþingi til sóma.

Aðalsteinn Agnarsson, 21.9.2010 kl. 22:00

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með síðasta ræðumanni.  ég er stolt af þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.9.2010 kl. 22:21

14 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

:)

Birgitta Jónsdóttir, 22.9.2010 kl. 00:35

15 Smámynd: hilmar  jónsson

Hef ekki alltaf verið sáttur við þig Birgitta, en þessi ræða þín var í réttum tón.

Hrósa skal því sem vel er gert.

hilmar jónsson, 22.9.2010 kl. 20:40

16 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

þakka ykkur öllum fyrir að nenna að lesa ræðuna mína... takk sérstaklega Hilmar:)

ég vona að þetta taki fljótt af í þingheimum og engum fleiri klækjabrögðum verði beitt til að þetta fari ekki í eðlilega afgreiðslu á þinginu, þeas atkvæðagreiðslu.

verðum að einbeita okkur að því sem er að gerast núna í samfélaginu en á sama tíma er mikilvægt að byggja einhvern grunn svo við föllum ekki aftur í gryfjuna sem kom okkur út í þau óefni sem við erum að glíma við í dag. skýrsla rannsóknarnefndar sem og viðbrögð og niðurstöður þingmannanefndar um úrbætur er mjög mikilvægur hornsteinn að framtíðinni.

Birgitta Jónsdóttir, 23.9.2010 kl. 08:22

17 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Birgitta, frjálsar handfæra veiðar hefðu ekki komið okkur

í þessar ógöngur, en orðið landi og þjóð til heilla.

Bið Borgaraflokkin að koma með frumvarp,

Frjálsar Handfæra veiðar.

Aðalsteinn Agnarsson, 23.9.2010 kl. 23:14

18 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Mæti við alþingi aðfaranótt föstudagsins sef vært við styttu Jóns Sigurðssonar og verð við alþingi þegar reina á að setja haustþingið!

Bylting í uppsiglingu!

Sigurður Haraldsson, 29.9.2010 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 509206

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband