Leita í fréttum mbl.is

Hverjum datt í hug að kæra útfrá 100 greininni? Svar óskast!

1. Þingpallar eiga samkvæmt 57. grein stjórnarskrár okkar, að vera opnir almenningi, svo almenningur geti með góðu móti fylgst með löggjafarsamkundunni. 57. gr. Fundir Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti eða svo margir þingmenn, sem til er tekið í þingsköpum, krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.

Útskýring: Það þarf að halda þingfund og skera úr um það hvort vísa á utanþingsmönnum burt. Það er ekki hlutverk annarra en þingforseta og þingmanna. Hvorki þingverðir, lögregla né aðrir hafa heimild til að vísa fólki burt sem á stjórnarskrárbundinn rétt til að fylgjast með störfum alþingis.

2. Oft er fólki meinaður aðgangur að þingpöllum vegna geðþóttaákvarðana þingvarða, enda hafa þeir engar skýrar reglur nema úr stjórnarskrá, sjá 57 greinina hér að ofan, um til dæmis hvort að tiltekinn klæðnaður sé bannaður. En það hefur komið fyrir ítrekað að fólki er meinaður aðgangur vegna klæðnaðar. (Ekki nógu fínar lopapeysur, merki, húfur, bolir og svo framvegis.)

3. Fleiri þúsund manneskjur tóku þátt í mótmælunum og því þykir það furðu sæta að 9 manneskjur séu kærðar á forsendu 100 greinar hegningarlaga: 100. gr. Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.

Það er 100 greinin sem fólk hefur gagnrýnt, en EKKI er verið að leggja til að þeir sem kunna að vera ábyrgir fyrir líkamstjóni annarra svo sem þingvarða og lögreglumanna verði ekki látnir svara fyrir dóm.

106. gr. Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta fangelsi allt að 6 árum. [Beita má sektum, ef brot er smáfellt.]

4. Það ætlar ekki að ganga þrautarlaust að komast að því hver ákærir útfrá 100. greininni. Hið dæmigerða athæfi íslenskra ráðamanna er enn við líða: þ.e.a.s. hver stal kökunni syndromið. Skrifstofustjóri alþingis hefur bent á þáverandi saksóknara Valtý (sá hinn sami og varð að segja sig frá málinu vegna náinna vensla við einn þingvarðanna sem kært var út af). Valtýr sagði að hann hefði ekki fengið hin stórsnjöllu hugmynd að kæra útfrá 100 grein, heldur hefði það komið frá þinginu. Spjótin beinast því að skrifstofustjóra alþingis eða eins og Ásta Ragnheiður kallaði hann eitt sinn úr embættisstól sínum: yfirmanni þingsins.

Hér er svar forseta Alþingis við fyrirspurn minni um ákærur vegna atburða í Alþingishúsinu og við það 8. desember 2008. (athugið að hvergi er minnst á 100 greinina í svarinu heldur aðeins fjallað um 106 greinina).

    1.      Með hvaða hætti var tekin ákvörðun um aðkomu Alþingis að ákærum gegn níu einstaklingum vegna atburða sem áttu sér stað í Alþingishúsinu og við það 8. desember 2008?
    Þegar þingfundur hófst á Alþingi kl. 3 síðdegis mánudaginn 8. desember 2008 opnuðu þingverðir bakdyr Alþingishússins til þess að gestir, sem þess óskuðu og fylgdu almennum reglum, kæmust á þingpalla. Þegar fyrstu pallagestir voru komnir í húsið kom hópur manna í kjölfarið og ruddi sér leið fram hjá þingvörðum, sumir með klúta fyrir andliti, og komst upp í stigagang Alþingishússins. Sex þingverðir og lögreglumaður, sem var á vakt í þinghúsinu, lentu í átökum við hópinn þegar hann var stöðvaður. Ýmsir þeirra hlutu meiðsl í átökunum sem kunna að vera varanleg.
    Strax í kjölfarið var farið nákvæmlega yfir myndbandsupptöku sem sýndi hvernig hópurinn þröngvaði sér inn í þinghúsið. Þá áttu aðallögfræðingur Alþingis (sá hinn sami og fékk vinnu í síðustu viku sem dómari hjá Héraðsdómi Reykjavíkur) og forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs samtöl við þingverðina og lögreglumanninn um atvikið. Myndbandsupptakan sýnir að þingvörður, sem átti að gæta inngangsins, var yfirbugaður til að tryggja að mannsöfnuðurinn kæmist óhindraður inn í húsið. Því mátti ætla að hann væri ekki kominn í friðsamlegum tilgangi. (er hægt að kæra út af ályktunum?) Af samtölunum við þingverði og lögreglumanninn varð enn fremur ráðið að hópurinn skirrðist ekki við að beita líkamlegu valdi til að komast í tæri við þingmenn sem sátu í þingsalnum á fundi. (hmm er ekki alveg að skilja hvað þetta þýðir, er það slæmt að komast í tæri við þingmenn? Það er vonlaust að komast í tæri við þingmenn af þingpöllum, miklu mun auðveldara að gera það bara út í kjörbúð). Það var því mat aðallögfræðings Alþingis að rík ástæða væri til að málið yrði rannsakað af lögreglu með tilliti til þess hvort ákvæði almennra hegningarlaga, einkum 106. gr. þeirra, (þarna vantar að fá svar við því hver ákvað að meta það svo að nota ætti 100 greinina, engin hefur gert athugasemd við 106. greinina þó að það hafi verið látið í veðri vaka í umræðunni.) hefðu verið brotin. Þar sem ekki var ljóst hvort lögreglan mundi eiga frumkvæði að rannsókn málsins ákvað skrifstofustjóri Alþingis (næsta skref er að fá þetta bréf birt almenningi), að óska eftir því bréflega fyrir hönd skrifstofu Alþingis og þeirra starfsmanna, sem í átökunum lentu, að málið yrði tekið til lögreglurannsóknar. Áður hafði málið verið borið undir starfsmennina sem hlut áttu að máli.

    2.      Hver óskaði eftir rannsókn málsins og í umboði hvers var það?
    Um fyrri liðinn í þessari spurningu er vísað til svars við 1. tölul. Skrifstofustjóri Alþingis fer með ráðningarvald yfir öðrum starfsmönnum þingsins og ber ábyrgð á rekstri skrifstofu Alþingis, sbr. 11. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 68/2007. Hann er því forstöðumaður skrifstofunnar í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eins og fram hefur komið urðu starfsmenn þingsins fyrir meiðslum í átökum meðan þeir gegndu skyldustörfum fyrir Alþingi. Forseti Alþingis lítur svo á að á skrifstofustjóra Alþingis hvíli sjálfstæð skylda til að standa vörð um öryggi starfsmanna Alþingis sem og alþingismanna. Að mati forseta er augljóst að skrifstofustjórinn var bær til að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort óskað yrði eftir rannsókn á atvikinu. Til þess þurfti hann hvorki atbeina forseta né annarra eins og ýjað er að í spurningunni. (Hvet fólk til að lesa fyrirgreinda málgrein vel og vandlega, oftast er það enginn annar sem sjálfur skrifstofustjórinn sem svarar fyrirspurnum eins og þessari sem þú ert að lesa núna. Hver er yfirmaður þingsins: forseti eða skrifstofustjórinn?
    Þá er til þess að líta að lögreglurannsókn á atvikinu var ekki háð því að sá sem misgert var við eða bar ábyrgð á starfseminni sem brotið var á óskaði eftir henni. Beiðni um rannsókn var því ekki nauðsynleg forsenda þess að rannsóknin færi fram. Hver sem bjó yfir upplýsingum um atburðinn gat aftur á móti vakið athygli lögreglu á að efni væri til að rannsaka málið.
    Það er grundvallarregla í réttarríki að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi sæti ákæru og séu beittir lögmæltum viðurlögum. Að því vinna lögregla, handhafar ákæruvalds og dómstólar hér á landi sem starfa sjálfstætt og af hlutlægni. Mikilvægt er að þessir aðilar fái svigrúm til að meta atvik í réttu ljósi og án utanaðkomandi þrýstings.

 3.      Er það rétt sem fram kom í máli verjanda tveggja hinna ákærðu fyrir héraðsdómi að skrifstofa Alþingis hafi haft aðkomu að málinu og ef svo er, hver var sú aðkoma og hver var formlegur grundvöllur hennar?

Sjá svar við fyrri töluliðum fyrirspurnarinnar.

Ljóst er að enginn vill gangast við því að leggja til að 100 greinin var notuð: Ég skora á þann aðila, hvort heldur þáverandi saksóknara, skrifstofustjóra þingsins, aðallögfræðing þingsins eða forseta þingsins að svara þessu með afgerandi hætti. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Öll spjót beinast að Láru V. fyrrum trúnaðarvinkonu forsætisráðherra og þeirrar sömu og vildi brjóta úrskurð kjararáðs og hækka laun Seðlabankastjóra um litlar 400 þúsund krónur á mánuði. 3x föld laun skúringakonunnar í Seðlabankanum! Það er saksóknari sem ákveður á grundvelli hvaða laga er ákært fyrir hverju sinni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.5.2010 kl. 07:43

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Getur starfsmannastjóri almennra starfsmanna í Alþingishúsinu ákært út frá 100. greininni? Á almenningur virkilega að kyngja því að almennir starfsmenn séu svo mikilvægur hluti stjórnsýslunnar að það sé réttlætanlegt að kæra hvern þann sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.

M.ö.o. eru það almennir starfsmenn alþingins; þingverðir, skjalaverðir, ritarar o.s.frv., sem eru orðnir mikilvægustu gæslumenn lýðræðisins eða hefur átt sér stað einhver breyting á skilningnum á hlutverki Alþingis. Er Alþingi kannski orðið eitthvað annað en stofnun þar sem unnið er að heildarhagsmunum almennings og íslensks samfélags?? Er Alþingi kannski orðið lokað samfélag sem þjónar engu nema sjálfu sér og þeim sem þar eru innanborðs??

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.5.2010 kl. 08:37

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Jóhannes: Hún Lára heldur því fram að það sé enginn annar en dómarinn sem ákveði útfrá hverju er kært. Valtýr var væntanlega sá sem útbjó ákæruna. Spurningin er hver lagði til að 100 greininni yrði beitt.

Birgitta Jónsdóttir, 17.5.2010 kl. 08:55

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Rakel - þetta þarf einmitt að fá á hreint:)

Birgitta Jónsdóttir, 17.5.2010 kl. 08:56

5 Smámynd: Daði Ingólfsson

Þetta minnir óneitanlega á steypuna sem kom úr sama fólki þegar þú baðst um að það væru haldnar fundargerðir eins og tíðkast hjá siðuðum þjóðum. Svarið "það er ekki hefð fyrir því" endurspeglar, rétt eins og þessi hringavitleysa, að þetta fólk hefur engan áhuga á faglegum vinnubrögðum, heldur bara að fá sínu framgengt - með góðu eða illu.

Daði Ingólfsson, 17.5.2010 kl. 14:32

6 Smámynd: Þór Saari

Þetta er orðið alveg hið ótrúlegasta mál og enn ein staðfesting á því að stjórnvöld eru í vanhæfni sinni að reyna að ná sér niðri á mótmælendum. Gleymum því ekki að mótmælin gerðu á endanum útaf við ríkisstjórn Geirs Haarde og Samfylkingar og þessu geta Sjálfstæðismenn og Samfó ekki gleymt og nota nú embættismenn sína til að ná fram hefndum. Orðræða þingmanna um þetta í þingsal er til vitnis um það.

Þór Saari, 17.5.2010 kl. 23:31

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Kannski líta Samfylking og Sjálfstæðisflokkur svo á að mótmælendur hafi svift þá foringjum sínum og ætla að ná sér niður á níumenningun fyrir það

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.5.2010 kl. 23:57

8 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Birgitta, það eru ekki allir mótmælendur "heilagt fólk" o það lýsir vanhæfni ykkar að geta ekki greint á milli heiðarlegra mótmælenda og uppvöðslulýðs sem réðst á lögregluna og Alþingi. Það er dapurlegt að vera vitni að því að á Alþingi sitja þingmenn sem verja húsbrot á Alþingi og heilsutjón á starfsmönnum þingsins.

Vertu velkomin á bloggið mitt <siggigretar.blog.is> þar sem ég segi mína skoðun umbúðalaust á þessu máli.

Ég bíð eftir að þið í Hreyfingunni verjið Nýnasista og Vítisengla ef þeir gera það sama gegn Alþingi og  uppvöðslulýðurinn sem þið álítið "heilagan".

Sigurður Grétar Guðmundsson, 19.5.2010 kl. 09:01

9 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Sigurður þetta er nú varla svaravert en ég ætla samt aðeins að útskýra.

1. Það eru til lög til að ákæra fólk sem meiðir annað fólk. Þeim á að sjálfsögðu að beita þegar það á við.

2. Fólk sem fer inn um þann inngang sem því er ætlað til að fylgjast með störfum þingsins sem því er heimilt og skylt samkvæmt stjórnarksrá, er ekki að ráðast á Alþingi.

3. Enginn álítur þennan uppvöðslulýð, eins og þú kallar fólkið, heilagan.

Enginn hefur farið fram á að enginn sé ákærður fyrir ekkert, en ákæran verður að eiga sér stoð í raunveruleikanum og vera rétt, sérstaklega þegar hún kemur frá skrifstofustjóra Alþingis.

Árás á alþingi er alvarleg ákæra og verður að hafa átt sér stað. Þarna var enginn vopnaður og enginn ætlun að skaða nokkurn mann.

Baldvin Björgvinsson, 19.5.2010 kl. 09:39

10 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sigurður Grétar, viljirðu í alvöru líkja saman nýnasistum og Vítisenglum við almenning á Íslandi sem að steig fram og barðist fyrir réttlæti hérna heima þá gerirðu það augljóslega. Að mínu viti dæmir það alfarið allan málflutning sem frá þér kemur þaðan í frá.

Nýnasistar eru skipulögð ofbeldissamtök sem telja sig öðrum ærði og telja sig geta réttlætt skelfilega hluti eins og t.d. helförina með þeim rökum sínum. Vítisenglar eru þaul skipulögð glæpasamtök á heimsvísu sem hafa megin tekjur sínar af fíkniefnasölu og mannsali. Finnist þér það sanngjarn samanburður við almenning á Íslandi sem var nóg boðið og sveið djúpt undan þeirri valdníðslu sem hér fer fram, já þá dæmir það vissulega allan þinn málflutning alfarið ómarktækan í mínum bókum.

Takk nafni fyrir innleggið hér á undan.

Birgitta er hér að kasta fram afar mikilvægri spurningu sem þarfnast umræðu án fordóma. Það er, HVER kaus að nota 100. gr. í ákærunni? Það virðist nefnilega vera svo að sú ákvörðun komi frá starfsmönnum Alþingis en ekki saksóknara eða dómara málsins. Það er enn ein staðfestingin á þeirri valdníðslu sem hér ríkir og misbeitingu kerfisins. Sérhagsmunir eiga ekki að ráða því hvaða leiðir sjálfstæðir dómstólar fara í málum, það er grafalvarlegt.

Fólk sem veldur öðrum skaða, jafnvel óvart eins og var í þessu tilfelli, þarf að vera ábyrgt fyrir gjörðum sínum. Það er eðlilegt að sá/sú sem skaðanum olli þurfi að bera ábyrgð á óhappinu. En hvers vegna er þá verið að velja 9 einstaklinga handahófskennt úr hópnum? Jú, vegna þess að það liggur ekki fyrir án vafa hverjum um er að kenna varðandi miskan og því ekki fær hefðbundin leið.

Þess vegna velur embættismannakerfið (starfsmenn Alþingis, framkvæmdavald) að stýra því hvaða ákæra er gefin út og út frá hvaða lögum Héraðsdómur (Dómsvaldið sem á að vera 100% sjálfstætt) dæmir.

Þetta lýsir ekki eðlilegu ferli máls í réttarríki. Það er bara þannig því miður.

Baldvin Jónsson, 19.5.2010 kl. 13:01

11 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Ég hef aldrei lagt að jöfnu Nýnasista og Vítisengla og þá sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni. En eins og ég leiði rök að í mínu bloggi þá koma alltaf fram úr skúmaskotum þeir sem fyrst og fremst vilja hasar, vilja átök. Þannig smáhópar komu fram í búsáhaldabyltingunni, þá mátti sjá ráðast á lögregluna, það sást í fréttum sjónvarpsins, ráðast inn á Hótel Borg og reyna að brjóta glugga í Stjórnarráðinu og  ekki síst; að ráðast inn á Alþingi, ráðast gegn starfsmönnum þingsins og það er staðreynd að það er að minnsta kosti 1 starfsmaður skaðaður fyrir lífstíð. Allt það heiðarlega fólk sem lét að sér kvaða í búsáhaldabyltingunni á það ekki skilið að þessi rumpulýður sé tjóðraður við þann mikla fjölda, þessi rumpulýður sem þið teljið að sé hafinn yfir íslensk lög.

En þá kemur vandinn!

Það eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum hvað skoðanir sem þeir hafa á málum. Einn þingmaður, Þór Saari, hefur meira að segja staðfastlega haldið því fram að þessir atburðir á þingpöllum sem rumpulýðurin er ákærður fyrir hafi aldrei átt sér stað, þetta hef ég svart á hvítu í pósti á netinu frá honum.

Að lokum tilvitnun í Baldvin Jónsson með smábreytingu:

Ykkar siðblinda  lýsir ekki eðlilegu ferli máls í réttarríki. Það er bara þannig því miður.

 

Sigurður Grétar Guðmundsson, 19.5.2010 kl. 13:58

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér sýnist Sigurður Grétar ekki aðeins þjást að siðvillu heldur rökvillu líka

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.5.2010 kl. 22:09

13 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Það er þannig Rakel, hann er svo ílla farinn af Samfylkisku að það er ekki hægt að tala við hann.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 19.5.2010 kl. 23:13

14 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Svar hefur borist við spurningu Birgittu: http://www.svipan.is/?p=7095

Baldvin Björgvinsson, 19.5.2010 kl. 23:33

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir ábendinguna Baldvin!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.5.2010 kl. 00:35

16 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Á hvaða torgum hrópar fólk eins og Sigurður Grétar núna þegar þau hafa skoðað myndbandið eða skoða þau kannski ekki myndbandið?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.5.2010 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband