Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.1.2014 | 15:52
ÚTrásar INNrás - ræða mín um fríverslunarsamning við Kína
Í dag ræðum við um fríverslunarsamning við alþýðulýðveldið Kína. Hann mun renna greiðlega í gegnum þingið án nokkurra vandkvæða enda allir flokkar nema Píratar hlynntir því að samþykkja samninginn. Segja má að við séum að fullgilda Silkileið norðursins en undirbúningur hennar hófst fyrir allnokkru síðan. Kapphlaupið um auðlindir á norðurslóðum er hafið, þar sem gullæði mun renna á fólk og fyrirtæki þar sem Íslendingar halda að þeir fái brauðmola af borði kínverska drekans á slóðum eyðileggingar og arðráns auðlinda sem talið er að með svokallaðri nýtingu geti stofnað lífríki jarðar í enn frekari vá. En það er allt í lagi, við fáum ódýrt dót frá Kína, fáum fína merkjavöru á spotprís sem fólk vinnur á næturnar í þrælabúðum og hverjum er svosem ekki sama þó að einhver þurfi að þjást eða deyja fyrir neysluna okkar, það myndi hvort er eð bara einhver annar fara illa með þetta fólk ef við gerum það ekki. Hverjum er svo sem ekki sama þó að aðrar þjóðir sem hafa gert skilyrt lán og samninga við alþýðulýðveldið séu orðnar þrælakistur og séu arðrændar á meðan brauðmolarnir falla okkur í skaut á spotprís. Hverjum er ekki sama þó að verndaðir skógar séu í skjóli spillingar hreinsaðir og lóðsaðir beint um borð í kínversk kargóskip og lenda svo inn í okkar stofu með smá krókaleið. Þetta er svo ódýrt og gott fyrir þjóðarbúið okkar.
Það er gaman að hafa svo öflugan utanríkisráðherraforseta að hann hefur setið sleitulaust á nærri 5 kjörtímabil og skreytir inngang að opinberum híbýlum sínum með myndum af sér og algóðum kommúnista foringjum og hersveitum þeirra. Þessi utanríkisráðherra er jafnframt forseti lýðveldisins Íslands og hefur verið ötull talsmaður tveggja póla, fengið verðlaun fyrir umhverfisverndarlausir í jarðvarmahugsjón og vill á sama tíma opna með alvöru silkiborða silkileið norðursins. Það var Ma Kai sem staðfesti að Silkileið Norðursins sé sameiginlegur draumur íslenskra ráðamanna sem og kínverskra, en hann kom nýverið til Íslands að undirlagi íslenskra stjórnvalda. Íslenskir fjölmiðlar hafa algerlega brugðist hlutverki sínu að halda þjóðinni upplýstri um mikilvæg málefni er varða hagsmuni þjóðarinnar, nú eins og fyrir hrunið. Heimsókn þessa valdamikla ráðamanns hefur nánast enga umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum. Enginn veit nákvæmlega hvers vegna kínverska varaforsætisráðherranum var boðið til Íslands. Í stuttri frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins er fjallað um samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ma Kai. Í lok fréttarinnar frá ráðuneytinu kemur fram að kínverski ráðherrann bauð forsætisráðherra Íslands að heimsækja Kína við fyrsta tækifæri.
Samkvæmt blogginu með kveðju frá Kína birtist birtist frétt um heimsókn Ma Kai til Íslands á Xinhua sem er aðalfréttaveita kínverskra ríkisins. Samkvæmt blogginu er sama frétt höfð orðrétt eftir í fleiri kínverskum fjölmiðlum. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að vitna í bloggið: "Í fyrirsögn fréttarinnar segir að Ma Kai hafi átti fund í Reykjavík með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Vitnað er í Ma sem segir meðal annars að á milli landanna ríki gagnkvæmt traust og einlægur vinskapur. Þá er vitnað í Ólaf Ragnar sem segir að í kjölfar íslensku fjármálakreppunnar hafi verið mikilvægt að efla viðskipti og fjárhagslega samvinnu milli landanna. Þessa samvinnu þurfi að þróa betur og hraðar er haft eftir Ólafi. Lokaorð fréttarinnar eru þó einna athyglisverðust en þar segir að Ísland óski eftir því að þróa "silkileið norðursins" með Kína.
Í framhaldi af heimsókn Ma Kai hóf utanríkisráðherra Íslands upp raust sína í viðtali á Bloomberg fréttavefnum og sagði að við Íslendingar ættum að nýta þann áhuga sem Kínverjar sýna Íslandi, en gera það á okkar forsendum.
Nú er ekki víst að forsendur Íslendinga geti ráðið ferðinni í samningum við stórveldi. Kína er fjölmennasta ríki veraldar en á Íslandi búa um 320.000 manns. Kínverjar gera allt á eigin forsendum og eru mjög góðir í því. Stjórnvöld í Kína eru þekkt fyrir áætlanagerð og skipuleggja þá gjarnan langt fram í tímann. Þau eru heldur ekki þekkt fyrir að bjóða samvinnu við önnur lönd nema fá eitthvað í staðinn.
Framtíðarsýn kínverskra yfirvalda virðist miða að því að tryggja góðar samgöngur fyrir kínverskar vörur til Evrópu, einskonar nútíma silkileið. Miðstöðvar til uppskipunar og annarskonar athafnasvæði eru mikilvægur hluti af slíkum áætlunum. Kaup Kínverja á hafnarsvæðum í Grikklandi styðja þessa kenningu sem og áhugi þeirra á Íslandi og norðurslóðum.
Fyrir okkur Íslendinga er nú nauðsynlegt að fá að vita hvort íslensk stjórnvöld séu í fullri alvöru að vinna að því að gera Ísland að einhverskonar kínverskri bensínstöð á þessari nýju leið frá Kína til Evrópu."
Forseti
Arðrán kínverskra ríkisfyrirtækja á auðlindum þjóða sem alþýðulýðveldið hefur gert fríverslunarsamninga við hefur afhjúpast hægt og bítandi og er þeirra helsta aðferðafræði er á þann veg að kínverski alþýðubankinn býður hagfelld lán þó háð miklum skilyrðum. Í sumum tilfellum er skilyrðin á þann veg að kínversk ríkisfyrirtæki og undirfyrirtæki þeirra fá skilyrtan einkarétt á auðlindum þjóðanna, gasi, olíu, góðmálmum, trjám, og svo mætti lengi telja í ca 50 ár. Þess má geta að auðlindirnar eru fluttar milliliðalaust og oft með miklum tilkostnaði fyrir viðkvæm landsvæði þessara landa. Engir brauðmolar falla í skaut alþýðu þessara landa, einu brauðmolarnir lenda í vösum spilltra embættismanna og stjórnmálamanna. Hrikalegar sögur hafa heyrst frá aðbúnaði og kjörum verkafólks í þessum þróunarlöndum, löndin fyllast síðan af ódýrum kínverskum vörum og innlendar vörur eiga hreinlega ekki séns í að keppa við þessar vörur í verðlagi og mörg smærri og meðalstór fyrirtæki hafa hreinlega þurrkast út með ótrúlegum hraði á þessum slóðum. En þetta á ekki bara við stan ríkin, Afríku ríkin eða latnesku Ameríku, þeir seilast nú dýpra inn í Evrópu og nú síðast náð ótrúlegum völdum á Grænlandi í efnahagslegum skilningi, þó ber að hafa í huga hinir nýju alþýðulýðveldisnýlenduherrar hafi lítið látið sig varða mannréttindi, náttúruvernd eða hagsæld þeirra þjóða sem þau hafa gert stórfína samninga við. Samninga sem hvort er eð eru aldrei virtir.
Alþýðubanki vina okkar í austri gerði tilboð í að kaupa einn af hrunabönkunum okkar. En enginn hefur tekið saman alla þræðina í alvöru fréttaskýringu. Eina manneskjan sem hefur alltaf staðið vaktina og reynt að vekja okkur til umhugsunar á hvaða vegferð við erum gagnvart kínverskum yfirvöldum og þeirra leppum er rannsóknarbloggarinn Lára Hanna, ég ætla að vísa í færslu frá henni í dag með leyfi forseta:"Engin umræða hefur farið fram í samfélaginu um þennan fríverslunarsamning milli stærstu og fjölmennustu þjóðar heims og einnar minnstu. Aðrar Evrópuþjóðir hafa enga reynslu af fríverslunarsamningi við Kína - enda hafa þær ekki gert slíkan samning. Mér vitanlega hafa engar rannsóknir farið fram á hugsanlegum afleiðingum slíks samnings.
Ekki hefur heldur farið fram nein umræða um annan samning sem gerður er samhliða fríverslunarsamningnum - vinnumálasamning einhvers konar.
Samskipti einnar minnstu þjóðar heims og þeirrar stærstu og fjölmennustu þykir ekki fréttaefni - a.m.k. ekki hjá þeirri litlu sem sú stóra getur kramið með litlafingri eins og flugu. Ef eitthvað kemur upp, og það mun gerast, getum við ekki stólað á aðstoð Evrópuríkja þar sem núverandi ríkisstjórn og forsetinn hafa snúið baki við á rudddalegan hátt." Tilvitnun líkur.
Það er kannski ekki nein tilviljun að í gær var gefið út þriðja sérleyfið til rannsókna og vinnslu olíu og gass á drekasvæðinu og langstærsta leyfið eða 60% hlut hlaut kínverska ríkisfyrirtækið CNOOC, sem er reyndar búið að gera að dótturfyrirtækinu CNOOC ísland ehf.
Ég er meðvituð um að þessi fríverslunarsamningur er haglega saminn og inn í hann ofin falleg orð eins og t.d. mannréttindi, fullveldi, hugsjónir og friður. Ég er ekki í neinum vafa um að íslenska samninganefndin hafi staðið sig mjög vel og náð tímamótasamning við Alþýðu"lýð"veldið Kína. Húrra fyrir því. Það er ekki þeim að kenna að samningsþjóðirnar, bæði Ísland og Kína, munu sennilega ekki virða samninginn til hins ítrasta enda báðar þjóðir heimsþekktar fyrir að skauta á gráu svæðunum. Löglegt en siðlaust er málsháttur sem fest sig hefur í sessi hjá þeim sem meira mega sín og kunna að snúa sig úr viðjum laga eins og háll áll í stórmöskva neti, því kerfið er grisjótt, það vita allir.
Þegar ég lýsti yfir áhyggjum mínum í tengslum við þennan samning á Alþingi og óskaði eftir því að við myndum stíga varlega til jarðar og grandskoða samninginn innan þings, og lýsti yfir ósk um að þingmenn kynntu sér af kostgæfni sögu samningsrofa víðsvegar um heim, þá var lítið gert úr varnaðarorðum mínum. Ég óttast að allt of fáir kynni sér þessa sögu, það er þó hægt að lesa sér til um vafasama starfshætti kínverskra fyrirtækja í þróunarlöndum í bókinni "China´s Silent Army".
Það eru svo margar hættur sem okkur ber að varast og nú þegar höfum við gert vinum okkar á Tævan óleik með því sem stendur í samningum og myndi ég vilja að fólk gerði sér grein fyrir því sem verið er að viðurkenna í okkar nafni úti í hinum stóra heimi, en í lokaorðum samningsins stendur eftirfarandi: Ísland fylgir þeirri stefnu að Kína sé eitt og óskipt ríki og styður friðsamlega þróun samskipta yfir sundið og þá viðleitni að Kína sameinist á ný með friðsamlegum hætti. Kína metur mikils fyrrnefnda afstöðu ríkisstjórnar Íslands.
Hvað þýðir þetta.? Jú, það hefur verið stefna Íslendinga að viðurkenna sameinað Kína, sem er með öðrum orðum að viðurkenna hernám Kína í Tíbet og einangrunarstefnu gagnvart Tævan til að innlima það inn í móðurlandið. Það sem mér finnst þó sorglegast við þennan texta er að við styðjum viðleitni að Kína sameinist á ný með friðsamlegum hætti. Viðleitni Kína hefur langt í frá verið friðsamleg, 122 Tíbetar hafa kveikt í sér síðan 2009, í þeirri von að ákall þeirra um hjálp verði veitt áheyrn einhversstaðar í heiminum. Í Tíbet hafa kínversk yfirvöld stundað menningarlegt þjóðarmorð, það getur varla talist friðsamlegur háttur við sameiningu. Þá eru fjöldamörg dæmi um að Kína hafi samið Tævan út úr löndum í tengslum við svona samninga og það hlýtur að vera umhugsunarvert að þeir vildu ekki semja í gegnum EFTA sem er miklu betri kostur því þar erum við í vari sem gerðardómur EFTA býður upp á ef Kínverska alþýðulýðveldið skyldi taka upp á því að fara á svig við samninginn:
Hér er svo að lokum bókum mín í nefndarálitinu: Birgitta Jónsdóttir er áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd og er ekki samþykk áliti þessu. Andstaða hennar lýtur m.a. að stöðu mannréttindamála í Kína, þ.m.t. kúgun kínverskra stjórnvalda á Tíbetum (sbr. 206. mál á 143. löggjafarþingi) og öðrum þjóðarbrotum, nauðungarvinnu fanga og skertu tjáningarfrelsi, og enn fremur af misgóðri reynslu Nýja-Sjálands af fríverslunarsamningi við Kína. Birgitta deilir áhyggjum sem koma fram í umsögnum frá m.a. Alþýðusambandi Íslands sem mótmælir harðlega samþykkt samningsins á þeim grundvelli að kínversk stjórnvöld viðurkenni ekki mannréttindi og vinnuverndarréttindi kínversks verkafólks. Því telur þingmaðurinn afar ólíklegt, þrátt fyrir góð fyrirheit sem gefin eru í samningnum og umfjöllun um hann, að samningurinn muni bæta mannréttindavernd í Kína. Þvert á móti muni samþykkt samningsins veikja stöðu þeirra sem háð hafa baráttu fyrir mannréttindum þar í landi.
Ég vona innilega að ég verði ekki sannspá.
13.4.2011 | 21:06
Gjörningurinn: Þéttum raðir stjórnarliða
Forseti
Hér tek ég þátt í gjörningnum þéttum raðir stjórnarliða. Ég spyr: hvernig má skapa traust í brotnu samfélagi okkar? Ég held að vantrausts yfirlýsing sett fram af vanhugsun og sérhagsmunum sé ekki til þess fallið.Ég á í engum vandræðum með að lýsa yfir vantrausti á þessa ríkisstjórn og meðan ég er að því að þá vil ég nota tækifærið og lýsa yfir vantrausti á Sjálfstæðisflokkinn.
Forseti Ég skora á þing og þjóð að fylkja sér um samfélagssáttmálan okkar sem mun endurspeglast í tillögum stjórnlagaráðs. Ég skora á okkur öll að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefja hér alvöru uppstokkun á kerfinu og beita okkur fyrir réttlætismálum eins og afnám verðtryggingar, segja skilið við AGS, upptöku nýs gjaldmiðils og að setja fram alvöru tölur um lágmarksframfærslu og fylgja þeim tillögum. Kreppan er rétt að byrja. Það er ekki hæg að réttlæta að halda áfram á þeirri braut sem við erum nú.
Ríkisstjórnin heldur sennilega velli og hún mun halda áfram á þeirri vegferð sem hún hefur verið á síðan hún tók við þessu erfiða búi og það er ljóst að ekki mun líða á löngu áður en að önnur vantrausts tillaga verður borin fram nema að ríkisstjórnin hafi dug og þor til að stokka upp hjá sér.
Því legg ég svo til og mæli með að hæstvirtur forsætisráðherra og hæstvirtur fjármálaherra segi af sér. Ég mæli ekki með að þingrof verði samþykkt því það er einfaldlega sett til höfuðs stjórnarskrárbreytinum og almennum lýðræðisumbótum sem og umbótum í kvótakerfinu.
Já það er með óbragði í munni sem ég stend hér og stend frammi fyrir þeim valkosti að ef ég sit hjá er ég að styðja við núverandi ástand og ef ég samþykki vantraust þá er ég að taka þátt í örvæntingufullum leikþætti formanns sjálfsstæðisflokksins. Hvorugur kosturinn er mér ásættanlegur því höfðum við farið fram á að atkvæðagreiðslunni um vantraust verði skipt í tvennt. Kosið verður um vantraust sérstaklega og síðan um þingrof 11. maí. Utanþingstjórn gæti verið lang skynsamlegasti kosturinn ef svo ólíklega vill til að vantraust verði samþykkt. Þingrof er eðlilegra í samhengi við þjóðaratkvæðagreiðslur um stjórnarskrárbreytingar en ekki núna.
9.4.2011 | 16:00
Orðræðan sem skömm er að
31.3.2011 | 08:27
Neyðarkall frá íslenskum borgurum til AGS og ESB
Að frumkvæði Gunnars Tómassonar, hagfræðings og fyrrverandi ráðgjafa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og fleiri Íslendinga var meðfylgjandi bréf sent til Dominiques Strauss-Khans, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og José Manuels Barrosos, forseta Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Bréfið var sent til þeirra í ljósi þess lykilshlutverks sem AGS og ESB skipuðu í nóvember 2008 þegar samningaviðræðurnar vegna Icesave hófust.
Á þessum tíma setti AGS fram spár um efnahagshorfur Íslands og gengið var frá samkomulagi um að ef efnahagsþróun landsins yrði umtalsvert verri en þessar spár gerðu ráð fyrir þá gæti Ísland farið fram á viðræður við Bretland og Holland vegna þeirra þátta sem liggja til grundvallar frávikinu og um sjálft viðfangsefnið Icesave.Nýlegt mat AGS á þróuninni á árunum 2009 til 2010 og spár fyrir 2011 til 2013 gefa mun verri mynd en fyrri spár.
Bréfritarar hafa áhyggjur af því að núverandi frumvarp um Icesave-samninginn, sem verður lagt fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl n.k., endurspegli ekki þessa neikvæðu þróun. Því fara bréfritarar þess á leit við AGS og ESB að þessar stofnanirgeri ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands annars mun vanhugsuð úrlausn Icesave-málsins þröngva Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.
Reykjavík 28. mars 2011
Hr. Dominique Strauss-Kahn
framkvæmdarstjóri
Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Washington, DC 20431
USA
/
Hr. José Manuel Barroso
forseti Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins
1049 Brussels, Belgium
Kæri, hr. Strauss-Kahn. / Kæri, hr. Barroso.
Eftir hrun íslenska bankakerfisins í október 2008 féll verg landsframleiðsla (VLF) um 25% á næstu tveimur árum eða úr 17 milljörðum bandaríkjadala niður í 128 milljarða bandaríkjadala (USD). Ef spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um 14,8% vöxt vergrar landsframleiðslu næstu þrjú árin gengur eftir mun hún nema 14,7 milljörðum bandaríkjadala árið 2013 og vera 13% lægri en árið 2008.
Horfurnar eru aðeins skárri ef mið er tekið af vergri landsframleiðslu á stöðugu verðlagi í íslenskum krónum . AGS spáir að árið 2013 verði verg landsframleiðsla um 2-3% lakari en árið 2008 sem þýðir að hún verður 4-6% lægri en AGS spáði í nóvember 2008.
Með öðrum orðum þá eru efnahagshorfur Íslands umtalsvert lakari en gengið var út frá við gerð svokölluðu Brussels viðmiða fyrir ICESAVE samninga sem aðilar málsins samþykktu undir handleiðslu viðkomandi stofnunar Evrópusambandsins (ECOFIN) í nóvember 2008.
Jafnframt telur AGS að vergar erlendar skuldir Íslands í lok ársins 2009 hafi verið um 308% af vergri landsframleiðslu. Það þýðir nærri tvöfalt það 160% hlutfall sem sjóðurinn spáði í nóvember 2008. Í skýrslu AGS um Ísland, dagsettri 22. desember 2010, er því spáð að vergar erlendar skuldir Íslands muni nema 215% af vergri landsframleiðslu í árslok 2013 (sjá töflu 3, bls. 32 í umræddri skýrslu) eða liðlega tvöfalt það 101% hlutfall sem spáð var í nóvember 2008 (sjá töflu 2, bls. 27 í sama riti).
Vergar erlendar skuldir Íslands í lok 2009 voru langt umfram það 240% hlutfall af vergri landsframleiðslu sem starfsmenn AGS mátu sem augljóslega ósjálfbært í skýrslu þeirra sem er dagsett 25. nóvember 2008 (sjá bls. 55 í þessari skýrslu).
Meginmarkmið þess samningaferils um ICESAVE sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2008 var að tryggja uppgjör á flóknum málum sem viðkomandi aðilar, að meðtöldum ESB og AGS, voru einhuga um að leiða til farsællar lausnar samhliða endurreisn íslenska hagkerfisins.
Við undirritaðir Íslendingar höfum verulegar áhyggjur af því að fyrirliggjandi drög að samkomulagi um ICESAVE samrýmist ekki þessu meginmarkmiði, og vísum í því sambandi til umsagna AGS um þróun og horfur varðandi innlendar hagstærðir og erlenda skuldastöðu Íslands hér að ofan.
Því förum við þess virðingarfyllst á leit við ESB og AGS að þessar stofnanir takist á hendur ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands svo að vanhugsuð úrlausn ICESAVE-málsins þröngvi ekki Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur
Ásta Hafberg, háskólanemandi
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Helga Þórðardóttir, kennari
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna
Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari
Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar
Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar
25.3.2011 | 18:42
Siðferðisleg togstreita friðarsinna
Bylgja mótmæla og umbyltinga undanfarna mánuði hefur hrakið hvern einræðisherrann af öðrum frá völdum og ákall ungs fólks eftir breytingum hefur smitað frá sér von um heim allan að hægt sé að umbylta óréttlæti og kúgun með samstöðu almennra borgara.
Viðbrögð yfirvalda við mótmælabylgjunni hafa verið margþætt, í Egyptalandi og víðar var aðgangi almennings að netinu og farsímanetum lokað. Yfirvöld hafa beitt hermönnum og sérsveitum gegn samborgurum sínum. Slík valdbeiting hefur þó yfirleitt orðið til þess að fleira fólk ákvað að streyma út á götur og á endanum hafa yfirvöld séð að slík aðferðafræði gæti aðeins leitt til fullkominnar upplausnar ef ekki yrði við kalli mótmælenda.
Í Líbýu, Jemen, Sýrlandi og Bahrain hafa valdsjúkir menn þó ekki skilið að þeirra tími er uppurinn og beiting hervalds gegn almennum borgurum sé aðeins leið til glötunar en ekki sigurs til langtíma litið.
Ég hef hlustað á ákall margra þjóðarbrota og hópa um að alþjóðasamfélagið beiti sér til að bjarga þeim frá slátrun eða hægfara þjóðarmorði og kallað eftir því að alþjóðasamfélagið bregðist við. Ég hef fylgst náið með ástandinu í Líbýu í gegnu
m tengslanet mitt á Twitter, hlustað á fréttir hjá BBC og horft á Al Jazeera. Fyrir u.þ.b. viku síðan heyrði ég átakalegt ákall frá fólkinu í borginni Bengasi en hún er undir stjórn mótmælenda í Líbýu. Gaddafi hafði í hótunum í þarlendum fjölmiðlum að fara um borgina með herliði sínu og flæma svikara út úr húsum sínum sem höfðu mótmælt honum og kremja fólkið eins og kakkalakka. Ég sá fyrir mér skelfileg fjöldamorð á almennum borgurum. Fólkið í borginni kallaði eftir loftferðabanni og ég í einfeldni minni lét eftirfarandi haft eftir mér í ræðustól alþingis í utandagskrárumræðum við Utanríkisráðherra: Ég var að horfa á Al Jazeera í gærkvöldi og hlusta á símtal við fólk í borginni Bengasi þar sem það kallaði eftir því að það yrði sett á loftferðabann. Ég sá í morgun að það stefnir í að það verði fjöldamorð í Bengasi á næstu dögum, innan 36 tíma. Hvað gerir maður þá ef maður er friðarsinni? Ég verð að viðurkenna að ég er í mikilli flækju með þetta mál, mér finnst þetta ekki sambærilegt við Írak, mér finnst það sem er að gerast núna í Norður-Afríku, Líbýu og Bahrain og fleiri löndum, vera allt annars eðlis. Þetta snýst ekki um trúarbragðastríð, heldur almenna borgara sem eru búnir að fá nóg af kúguninni. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að það sé mjög mikilvægt að þetta fari undir hatt Sameinuðu þjóðanna, þ.e.a.s. næstu skref og aðgerðir. Ég verð að segja að ég styð loftferðabann eftir að hafa hlustað á almenning í Líbýu kalla eftir aðgerðum.
Þá megum við líka beina sjónum okkar að öðrum löndum eins og Bahrain. Ég horfði á myndband rétt í þessu sem er á netinu þar sem ég horfði upp á að vopnlaus maður var skotinn beint í hausinn af lögreglunni frá Sádi-Arabíu og ég krefst þess að Íslendingar skori á aðra á alþjóðavettvangi að slíta öllum stjórnmálasamskiptum við Sádi-Arabíu sem sendi herinn sinn inn í Bahrain til að slátra almennum borgurum, við eigum skilyrðislaust bæði að slíta, ef við höfum stjórnmálasamband við þessa þjóð, og hvetja Bandaríkjamenn og Evrópusambandið til að slíta samstundis öllum samskiptum við Sádi-Araba."
Síðan gerist það að á skömmum tíma kemst öryggisráðið að þeirri niðurstöðu að það ætli að verða við bæði ákalli borgaranna í Bengasi sem og Arababandalagsins um loftferðabann. Ég horfði á beina útsendingu Al Jazeera þegar ályktunin var lesin upp og að mér setti óendanlegri djúpstæðri sorg, sorg sem þó var kæfð að einhverju leiti því á sama skjá mátti sjá mikinn fögnuð fólksins í Bengasi sem trúði því að háski sá sem hafði færst óðum nær var ei meir. En sorgin situr enn í mér því strax á fyrsta degi tilrauna til að verja lofthelgina varð ljóst að ekki væri hægt að verja loftið flugumferð stríðstóla nema að beita sömu tólum.
Ég hef jafnframt séð að verið er að selja heimbyggðinni réttlætingu á miklu meiri hernaði en flest okkur sem vildum bregðast við ákalli mótmælenda í Líbýu vildum trúa að væri þörf á. Ég vildi trúa því að hægt væri að mynda verndarhjúp um borgina Bengasi án þess að stofna almenningi í hættu en auðvitað er það draumsýn ein og dæmigerð viðbrögð við aðsteðjandi vá.
En ég verð að spyrja mig í fullkominni vægðarlausri hreinskilni hvað hefði verið hægt annað að gera til að varna því að þessu fólki yrði slátrað og ég verð að viðurkenna að ég hef fátt um svör og þeir friðarsinnar sem ég hef talað við hafa jafnframt fátt um svör. Og hvað ef ekkert hefði verið að gert? Hefði ég þá getað réttlætt fyrir mér að þessu fólki hefði verið fórnað vegna þess að hernaðaríhlutun er ekki réttlætanleg? Hefði ég þá fordæmt alþjóðasamfélagið fyrir að gera ekki neitt til að stoppa blóðbaðið? Sennilega, ég hef fordæmt og fyllst hrylling á því hvernig farið hefur verið með almenning í Palestínu, Tíbet, Rúanda, Kongó, Fílabeinsströndinni, Búrma, Sýrlandi, Bahrain og hvernig alþjóðasamfélagið hefur hunsað ákall þeirra um tafarlausa hjálp. Í fyrradag heyrði ég viðtal við konu frá Fílabeinsströndinni þar sem hún hafði orðið vitni af því að sjö konur sem mótmæltu forseta sem stal völdum voru myrtar og hún spurði, hefur heimurinn gleymt okkur? Þar hefur fólkið kallað eftir aðstoð en enga fengið.
Það sem hefur gengið á, eftir að ákveðið var að setja á loftferðabann í Líbýu eru miklu viðameiri aðgerðir en ég hélt að fólkið í Líbýu væri að kalla eftir og ljóst er að ég get ekki stutt misnotkun á heimild öryggisráðsins eins og raun ber vitni um. Ég lýsi því harðri andstöðu við frekari íhlutun og kalla eftir alvöru umfjöllun um málið á þinginu. Ég vil þó taka það fram að afstaða utanríkisráðherra hefur verið skýr í umræðum á þinginu og það er að sjálfsögðu þingsins að kalla eftir því hvort að ríkisstjórnin gjörvöll fylgi honum að máli.
Ég bað um umræðu og fund með utanríkismálaráðherra síðastliðinn föstudag til að fara yfir stöðu mála því samkvæmt því sem Össur tjáði mér byggt á heimildum sem hann hafði aðgang að er vopnabúr Gaddafi og hans stuðningsmanna fornt og ekki til mikilla afreka andspænis hátækni morðtólum bandalagsríkja hins vestræna heims. Formanni nefndarinnar Árni Þór Sigurðarsyni ásamt öðrum nefndarmönnum þótti ekki tilefni til að fá utanríkisráðherra á fund nefndarinnar sem mér þótti miður. Í gær miðvikudaginn 23. mars var haldinn fundur á hefðbundnum fastatíma hjá utanríkismálanefnd og var þar fenginn starfsmaður ráðuneytisins til þess að fara yfir málin ekki bara í Líbýu heldur á gjörvöllu svæðinu en engin málefnaleg umræða um afstöðu nefndarinnar á málinu né framhald á því. Ég lagði til í lok fundarins eftir að ákveðið var að taka málefni Líbýu af dagskrá því það var eingöngu samræður á milli mín og fulltrúans úr ráðuneytinu, að fenginn yrði fulltrúi frá SHA, tilnefndur frá þeirra hönd var Sverrir Jakobsson og kom ég þeim skilaboðum áleiðis. Ég hef enn ekki fengið fundarboð og geri ekki ráð fyrir að hann verði kallaður fyrir nefndina fyrr en í næstu viku á hefðbundnum fundartíma.
Mér finnst ómögulegt að hafa þetta í lausu lofti og mun halda áfram að freista þess að fá fund fyrr, taka má fram að helmingur nefndarinnar situr fund á morgun föstudaginn 25. mars til að fara yfir ESB umsóknarferlið og þykir mér ærið tilefni að kalla alla nefndina saman til að kanna hvort að það sé vilji til þess að senda yfirlýsingu af einhverju tagi eða semja ályktun þar sem hægt væri kanna stuðning þingsins við áframhaldandi hernað í Líbýu. Nató mun vera ræst út og vegna aðildar okkar að því bandalagi finnst mér brýnt að þingið leggi á sig smá vinnu til að koma áleiðis skýrum skilaboðum um hver stefna rauðgrænu ríkisstjórnarinnar er sem og annarra þingmanna.
Ég studdi upprunalega að verða við kalli almennings í Bengasi um flugbann ef öryggisráðið samþykkti það, eins og komið hefur fram var það mér þungbær ákvörðun og eftir að sjá framvindu mála undanfarna daga þá hef ég alfarið horfið frá stuðningi mínum.
Ég óska eftir alvöru umræðu um málið í þinginu og að það álykti hvort að það sé með eða á móti áframhaldandi hernaðaraðgerðum í Líbýu.
Mér skilst að t.d. þing Spánverja hafi gefið leyfi fyrir þátttöku landsins í að framfylgja flugbanni í mánuð, þannig að ljóst er að í það minnsta var fjallað um málefnið á spænska þinginu og greidd atkvæði um stuðning við aðgerðirnar.
Það er nauðsynlegt að málið fái lýðræðislegri meðferð í þinginu til þess að þingmenn viti hvaða rök liggi að baki ákvörðun um stuðning við flugbann ef slíkur stuðningur er með sanni ályktun ríkisstjórnarinnar.
31.12.2010 | 13:24
Brú á milli þings og þjóðar
Áramótagrein fyrir Fréttablaðið: Birgitta Jónsdóttir
Það er ófriður á Íslandi. Í ranglátu samfélagi ríkir ófriður. Stór hluti almennings hefur glatað trausti á æðstu stofnanir landsins, aðeins 9% aðspurðra treysta Alþingi. Vantraustið hríslast um allt samfélagið, því ráðamenn og stofnanir hafa brugðist trausti fólksins. Við lifum í samfélagi þar sem ljóst er að lögin ná ekki til allra þeirra sem landið byggja. Hinir ósnertanlegu ganga enn um göturnar og halda áfram að þiggja greiða frá stjórnmálafólki sem þykist ekki, þrátt fyrir að sitja að völdum, geta gert neitt til að breyta því ástandi óréttlætis sem við búum við. Til að endurheimta traust þurfa þeir sem hafa völdin að sýna í verki að þeir séu traustsins verðir. Orð skulu standa en ekki vera föl fyrir völd.
Skipta þarf út efstu lögum stjórnenda
Það hafa margir furðað sig á að það fólk sem flestir treystu til að mynda skjaldborg um heimilin í landinu, hafi brugðist því trausti á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni. En það er ekkert furðulegt við það. Kerfið sjálft er ónýtt. Hefð hefur skapast fyrir því að ráða fólk eftir flokkskírteinum í efstu lögin á kerfinu. Þeir sem fara með æðstu völdin eru ekki ráðnir eftir menntun, hæfni eða getu. Ef kerfið er eins og skemmt móðurkartafla þá er ljóst að þeir sem standa henni næst skemmast. Það er nákvæmlega sama hverjir komast til valda þeir munu skemmast ef ekki verður alvöru uppstokkun í kerfinu. Til hvers að reyna stöðugt að tjasla í götin á ónýtu kerfi þegar tækifæri til endurnýjunar er til staðar? Það er ekki aðeins hérlendis sem fólk hefur gert sér grein fyrir því að kerfi sem þjónar alltaf hinum ósnertanlegu er ekki lengur ásættanlegt. Samhljómur almennings víðsvegar um heim verður sífellt sterkari. Fólk er hætt að bærast sem einstök hálmstrá í vindi. Samstaða er möguleg á víðtækum grunni vegna tilkomu netsins og þar má finna sístækkandi hópa fólks sem er byrjað að undirbúa breytingar í takt við þá staðreynd að við eigum bara eina plánetu og ef heldur fram sem horfir, þá munu lífsgæði barna okkar og barnabarna verða mjög slæm miðað við það sem við höfum fengið að njóta.
Stefnuskrá Hreyfingarinnar er einfaldur tékklisti
Við í Hreyfingunni höfum stundað tilraunapólitík. Við skilgreinum okkur hvorki til hægri né vinstri. Það er ljóst að sú hugmyndafræði er að renna sitt skeið á enda. Við skilgreinum okkur útfrá málefnunum. Þegar stefna Hreyfingarinnar var mótuð í árdaga Borgarahreyfingarinnar var ákveðið að setja saman stefnuskrá sem er tékklisti. Þessari tiltölulegu einföldu stefnu fylgjum við en hún lýtur fyrst og fremst að því að koma hér á víðtækum lýðræðisumbótum. Að færa völd og ábyrgð til almennings. Þetta er hægt að gera með því að lögfesta réttinn til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum, persónukjöri þvert á flokka, skera á tengslin á milli fyrirtækja og flokka og nýrri stjórnarskrá sem tryggir að auðlindir þjóðar tilheyra henni en ekki hinni ósnertanlegu valdamafíu sem hefur hrifsað til sín þessar auðlindir á markvissan hátt allt frá upphafi hins unga lýðveldis okkar.
Almenningur taki þátt í að móta samfélagið
Stefnuskráin er grunnstoðin sem við í þinghópnum virðum og vorum kosin út á. Önnur mál sem ekki falla undir þessa stefnu fylgjum við sem einstaklingar rétt eins og kveður á um í því drengskaparheiti sem við skrifum undir sem nýir þingmenn. Við sækjumst ekki eftir völdum. Sú blinda foringjahollusta sem hefur einkennt mannkynið um árþúsundir er eitthvað sem almenningur verður að láta af. Þessi öld verður öld almennings ekki leiðtoga. Völdum fylgir mikil ábyrgð. Er almenningur tilbúinn að taka við völdum með því að gefa þau ekki frá sér heldur verða virkir þátttakendur í að móta samfélagið sitt? Ég vona það. Sífellt fleiri kalla eftir því. Ég mun gera mitt besta til að skapa nauðsynleg verkfæri til að það sé hægt. Þegar stefnumálum Hreyfingarinnar verður náð getum við með góðri samvisku lagt hana niður, því þá hefur traust brú á milli þings og þjóðar hefur verið smíðuð.
22.11.2010 | 19:06
Fundað í aðdraganda kjarasamninga
Í dag áttum við þingmannahópur Hreyfingarinnar fund með tveimur af öflugustu forystumönnum verkalýðhreyfingarinnar, Vilhjálmi Birgissyni og Ragnari Þór Ingólfssyni. Fundurinn var opinskár og málefnalegur. Meðal umræðuefnis voru lýðræðislegar umbætur á lífeyrissjóðunum og frumvarp til laga um lögbundin lágmarkslaun náist ekki fram viðunandi launahækkanir í komandi kjarasamningum. Upphaflega stóð til að fundað yrði með Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ en hann hafði óskað eftir fundi með þingmönnum Hreyfingarinnar til að ræða stöðuna í aðdraganda kjarasamninga. Þegar þingmennirnir óskuðu eftir því að þeir Vilhjálmur og Ragnar tækju einnig þátt í fundinum neitaði Gylfi hins vegar að mæta. |
7.11.2010 | 08:04
AGS styður almennar aðgerðir: fyrir suma
Það hefur borið nokkuð á því að AGS hafi haldið því fram, á fundum með þingmönnum, hagsmunasamtökum og fjölmiðla, að sjóðnum finnist það nauðsynlegt að fara í almennar aðgerðir fyrir heimilin.
AGS boðaði Hreyfinguna á sinn fund á föstudaginn og var um margt afar fróðlegur. Á fundinn mættu þingmenn Hreyfingarinnar og 4 fulltrúar frá AGS.
Ég hef í nokkur ár viðað að mér upplýsingar um það hvernig þeim löndum sem hafa verið undir handleiðslu AGS hefur farnast í því prógrammi og því var ekki laust við það að ég hefði af því þungar áhyggjur þegar engin önnur leið virtist fær en að kalla eftir aðstoð þeirraí árdaga hrunsins. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og við höfum fengið að finna fyrir því á eigin skinni hvernig okkur farnast í þessu prógrammi. Margir sérfræðingar og stjórnmálamenn héldu því fram að við myndum fá sérmeðferð og að við myndum koma betur út úr AGS prógrammi en t.d. Argentína.
Nú er svo komið að það lítur út fyrir að það sé að takast að þurrka út millistéttina hérlendis eins og tókst í Argentínu. Það sem var gagnlegt við fundinn með 4 fulltrúum AGS í gær var að hægt var að leiðrétta misskilning og fá á hreint álitamál.
Ég hóf fundinn á því að spyrja hvort að það væri rétt að sjóðurinn væri fylgjandi almennum aðgerðum. Þeir sögðu svo vera. Fulltrúar AGS viðurkenndu að þeir hefðu lagt það til síðan í upphafi árs 2009 og það hefði verið rætt við ríkisstjórnina, þingmenn og hagsmunasamtök. Mér fannst eitthvað ekki passa og þrýsti á að fá vitneskju um hvað þeir ættu nákvæmlega þegar þeir töluðu um almennar aðgerðir. Þá kom hið merkilega í ljós: AGS styður almennar aðgerðir fyrir suma! (Í mínum huga er þá ekki hægt að kalla það almennar aðgerðir, ef það er bara fyrir suma.)
Hér er skilgreining AGS á almennum aðgerðum varðandi húsnæðislán.
Það eru tveir hópar húsnæðislántakenda. Fyrsti hópurinn er fólkið sem getur ekki borgað. (Þeir sem eru nú þegar komnir fram yfir bjargarbrúnna.) Seinni hópurinn er fólkið sem enn getur borgað.
Vegna þess að fyrsti hópurinn á ekkert og getur ekki borgað, þá fær hann leiðréttingu. Hinn hópurinn getur borgað og því er ekkert réttlæti samkvæmt hugmyndafræði AGS þeim til handa. Þeim ber að borga. AGS finnst ranglátt að aumingja vesalings fjárfestarnir taki á sig eitthvað af því vandamáli sem þeir báru höfuðábyrgð á að skapa.
Mér fannst merkilegt að þeir hefðu ekki skilgreint þetta sem þrjá hópa og lagði til að þeir myndu flokka þetta á annan hátt, það væri ekki hægt að horfa fram hjá því að þriðji hópurinn sem hægt væri að staðsetja á milli fyrsta og þriðja er hópurinn sem rétt nær svo að borga núna, þessi hópur er kominn út að bjargbrúninni og mun fara sömu leið og fyrsti ef ekkert verður gert. Það vill svo til að þetta er langstærsti hópurinn. Ég spurði Franek Roswadowski hvort að fulltrúar AGS á Íslandi vildu vera ábyrgir fyrir því að þessi hópur myndi hrynja fram að bjargbrúninni á næstu mánuðum og við tók aðeins þögn frá fulltrúum sjóðsins.
Það er deginum ljósara að AGS styður EKKI almennar aðgerðir og munu aðeins leggja til að þeir sem reiknaðir eru sem fólkið sem getur ekki borgað útfrá viðmiðum umboðsmanns skuldara fái leiðréttingu.
Mér finnst í það minnsta mjög gott að þetta er þá komið á hreint, því sumir sem hafa barist fyrir leiðréttingu hafa fallið fyrir mjúkmælgi AGS og ekki gengið nægilega hart að þeim að skilgreina hvað þeir eiga við. Það má ekki gleymast að AGS hefur yfirleitt alltaf staðið vörð um fjármagnseigendur og því fannst mér eitthvað bogið við tal þeirra um almennar aðgerðir.
Þeir þvertóku fyrir að orðalag sem hægt væri að skilja sem tillögu um að orkufyrirtækin yrðu einkavædd væri rétt, eftir útskýringar þeirra um hvað þessi texti þýddi get ég tekið þá trúarlega, þeir leggja semsagt til að einkavæðingin verði víðtækari, ekkert samt sem undanskilur orkufyrirtækin, en þeir leggja til almennar einkavæðingar hjá hinu opinbera.
Ég læt svo fylgja bréf frá Gunnari Tómassyni sem hann skrifaði Roswadowski í gær út af þessum málum.
November 6, 2010
Dear Mr. Roswadowski,
As an old IMF hand(1966-1989), I noted with interest Althing member Margrét Tryggvadóttirs following comments on her Facebook page (in my translation):
[I] met with four IMF staff members today [November 5]. They found it totally incomprehensible why we are requesting that creditors and debtors should share losses resulting from the economic collapse.
And, indeed, it makes no sense in the context of the IMFs mainstream economic world-view (The Washington Consensus) to re-allocate losses incurred on account of Icelands economic collapse between creditors and debtors through the political process.
However, many/most of those who emerged as substantial creditors from the collapse owed their good fortune to strictly non-economic causes, namely, actions taken through thepolitical process to shelter their capital at the cost of their fellow citizensand foreign creditors.
As a matter of principle, the IMF does not interfere in the internal affairs of member countries. Thus, the IMF did not oppose the Icelandic governments expansion of deposit insurance and retroactive re-ordering of the priority status of claims on the financial system in October 2008.
The request that creditors and debtors should share losses resulting from the economic collapseis predicated on grounds of equity and justice. It envisages a partial roll-back of the pro-creditor measures previously taken by the Icelandic government on non-economic grounds.
The request is one that the IMF, as an institution, based on law and moral authority in the words of former Managing Director Jacques de Larosière, can and should embrace and support.
With kind regards,
Gunnar Tómasson
IMF Advisor, ret.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.9.2010 | 08:41
Ráðherraábyrgðar ræða
Ég vil byrja á að þakka háttvirtum þingmönnum Atla Gíslasyni og Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir mjög greinagóðar ræður þar sem störf nefndarinnar eru rakin og hvet þingmenn til að kynna sér ræður þeirra.
Í dag ræðum við um ábyrgð. Þegar maður les skýrslu rannsóknarnefndar er ljóst að enginn gengst við ábyrgð. Farið er í hinn margfræga leik, hver stal kökunni úr krúsinni í gær og ábyrgðinni velt á aðra. Enginn er maður með meiru og viðurkennir mistök sín og axlar þá ábyrgð sem þeim fylgja. Ég verð að viðurkenna frú forseti að ég ber litla virðingu fyrir fólki sem getur ekki gengist við ábyrgð á sínum mistökum og minnsta virðingu ber ég fyrir fólki sem varpar henni yfir á aðra í von um að sleppa og að athyglin beinist að einhverju öðru.
Ég ber aftur á móti mikla virðingu fyrir fólki sem gengst við mistökum, iðrast og einsetur sér að læra af mistökunum. Það fer ekki mikið fyrir slíku fólki hér innan dyra fyrr og nú.
Í íslenskri stjórnmálahefð er þetta viðtekin venja og það eru ekki margir þingmenn né ráðherrar sem hafa stigið hér upp í pontu og viðurkennt æpandi mistökin í gegnum árin og vikið af þingi í kjölfarið. Enginn hefur stigið hér upp í pontu og gengist við ábyrgð á aðgerðaleysinu í aðdraganda bankahrunsins. ENGINN. Því miður er það ljóst að afleiðingar hrunsins eru sviðinn jörð hjá þúsundum íslendinga sem höfðu ekki aðgengi að sömu upplýsingum og ráðherrar og þingmenn sem áttu aðild að þeirri ríkisstjórn sem hrakin var frá völdum með búsáhaldabyltingunni.
Ein afleiðing hrunsins mun birtast í þeirri ömurlegu staðreynd að í næsta mánuði munu mörg hundruð fjölskyldur missa heimi sín vegna þeirra mistaka, vanrækslu og gáleysis ráðamanna sem hér er fjallað um í dag.
Frú forseti nú þegar hafa ansi mörg stór orð verið látin falla, ég ásamt fleirum þingmönnum úr þingmannanefndinni höfum m.a. verið vænd um að vera blóðþyrst út af því að við viljum láta kalla saman Landsdóm til að taka til umfjöllunar ákæru á hendur 4 ráðherrum. Við skulum aðeins setja hlutina í samhengi, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar alþingis eru þeir aðilar sem við leggjum til að verði kallaðir fyrir Landsdóm ábyrgir vegna aðgerðaleysi og vítaverðu gáleysi. Væri það ekki vítavert gáleysi að gera ekki neitt og bregðast við þeim áfellisdómi sem skýrslan er með sanni? Ég upplifi það ekki sem sérstakan hefndarþorsta eða blóðþorsta að vilja lúta leiðsögn þeirrar skýrslu sem svo mikið hefur verið mærð hér í þingsölum sem tímamóta skýrsla sem okkur ber að læra af. Við getum ekki bara sleppt því sem er óþægilegt og snýr að ábyrgð ráðherra.
Ég vil ekki kalla saman landsdóm til að friðþægja almenning eins og einn hæstráðandi ráðherra lét nýverið hafa eftir sér, ég vil aftur á móti kalla saman Landsdóm vegna þess að mér ber að gera það útfrá þeim starfskyldum sem okkur voru settar í þingamannanefndinni, út af samvisku minni og útfrá ótal fundum sem við sátum með sérfræðingum á þessu sviði og tóku undir það lagalega mat um ráðherraábyrgð og tilefni til ákæru sem fólst í skýrslu rannsóknarnefndar.
Mér finnst líka mikilvægt í ljósi þess að enginn hefur sýnt iðrum né vilja til að breyta þeim ónýtu hefðum sem tíðkast með oddvitaræði og vanvirðingu fyrir heilbrigðri skynsemi eins og að halda almennilegar fundargerðir á efstu stigum stjórnsýlsunnar, mér finnst það mikilvægt að við þingmenn sýnum í verki að slíkt að slíkt verklag er ekki boðlegt og að við séum meðvituðum um hve skaðlegt það er velferð landsmanna að halda áfram á sömu braut og haldið var í náinni fortíð. Við erum að kljást við skaðann af óvönduðum vinnubrögðum. Iðrunarleysið er svo stórfellt að töluverður hluti fyrrum ríkisstjórnar situr enn á þingi, bæði sem óbreyttir þingmenn sem og í æðstu stöðum í ráðuneytunum.
Að draga fólk fyrir Landsdóm er orðalag sem heyrist mikið hér inni og endurvarpast í fjölmiðlum. Þá tala margir um að það sé erfitt að senda vini sína hugsanlega í fangelsi og upp teiknast mynd sem á sér litla stoð í veruleikanum. Það vita það allir að hámarks refsing ef Landsdómur dæmir er tveggja ára fangelsisdómur, ólíklegt er að neinn muni sæta hámarksrefsingu. Ef ráðherrarnir fyrrum verða sakfelldir þá er næsta ljóst að þeir munu sennilega aðeins þurfa að sæta refsingar sem inniber skilorð eða fjársekt. Í þessu samhengi langar mig á að benda að einn af þeim aðilum sem dæma á út af því að hún leyfði sér að mótmæla vanhæfri ríkisstjórn á hinum háhelgu áheyrendapöllum verður í orðsins fyllstu merkingu dregin fyrir dóm laugardaginn 1. desember þrátt fyrir að eiga von á barni á sama tíma. Ekkert tillit er tekið til hennar í þeim pólitísku ofsóknum sem eiga sér stað gagnvart þeim einstaklingum sem var nóg boðið út af vanmætti ráðamanna að axla ábyrgð og segja af sér á sínum tíma, þrátt fyrir að öllum var ljóst að sú ríkisstjórn sem hér réði ríkjum var með öllu vanhæf og hafði sýnt af sér vítavert gáleysi.
Þeir níu einstaklingar sem ákærðir eru fyrir árás á þingið eru ákærð útfrá 100gr. þar sem hámarks refsins er hvorki meiri né minni en lífstíðarfangelsi. Ef maður ber saman þessi tvö mál þá verður maður að draga efa hvort að við með sanni búum í alvöru réttarfarsríki, sér í lagi ef að þingið mun ekki hafa dug til að afgreiða þessar þingsályktanir með því sniði sem lagt upp var með.
Það var með sanni ekki hægt að koma fyrir hrunið, en það var hægt að minnka hve stórfellt það varð með eðlilegum stjórnsýslulegum aðgerðum sem raktar eru í greinagerð þingsályktunnar þeirrar sem við fjöllum um í dag. Það er mikilvægt að muna að ef við setjum ekki skýr mörk gagnvart því hvar ábyrgðin liggur fyrir þá sem sitja á valdastólum nú og í framtíðinni. Við verðum að sína í verki að við viljum læra af fortíðinni.
Því miður er hætt við því að allt hólið á aðra vinnu þingmannanefndarinnar og varðar hina sameiginlegu þingsályktun nefndarinnar sé byggt á innan tómum orðum sem ættu betur heim í 17. júní ræðum eða í kosningaherferð. Við viljum ekki endurtaka oddvitaræðið, valdaránin, brotnu ráðherraábyrgðarkeðjuna eða að fólk firri sig ábyrgð með því að benda á aðra, eða hvað?
Frú forseti
Af hverju eru ekki þeir sem bera mesta ábyrgð á hinu hryllilega hruni látnir sæta ábyrgð? Til hvers að kalla saman landsdóm ef Davíð og Halldór verða ekki látnir sæta ábyrgð? Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið?
Auðvitað væri best ef við hefðum þannig lög að ráðherraábyrgð fyrnist ekki á aðeins þremur árum.
En þau rök að ekki sé forsenda til þess að kalla fólk til ábyrgðar sem er ekki eins mikið ábyrgt fyrir hruninu og afleiðingum þess er auðvitað alger rökleysa. Það mætti bera þetta saman við það ef að tveir aðilar taka þátt í þjófnaði. Einn stelur 5 milljónum, hinn 4 milljónum, þessi sem stal mest sleppur, á þá ekki að kæra þann sem stal minna?
Mikil harmakveini heyrast víða um að löginn um Landsdóm séu úr sér genginn, forngripur sem lítið mark sé á takandi, risaeðla í lögfræðilegu tilliti og marklaus vegna hrumleika. Vil ég benda á að þessi lög eru óvenju vel úr garði gerð miðað við háan aldur, lögin eru þó ekki eldri en 50 ára sem er nokkuð yngra en flest það sem finna má í stjórnarskránni okkar og ef þetta eru rökin og fólk getur ekki fellt sig við gömul lög þá skulum við bara hætta að fylgja öllum lögum sem eru eldri en 50 ára, þar á meðal undirstöðum stjórnarskrár landsins.
Frú forseti
Þúsundir landsmanna hafa flúið land, þúsundir hafa misst vonina, þúsundir þurfa að velja á milli þess að borga af stökkbreyttum lánum eða geta brauðfætt fjölskyldur sínar. Tugþúsundir hafa glatað öllu trausti á valdastofnanir þessa lands, sér í lagi alþingi.
Því er það með sanni hálf ömurlegt að eyða dýrmætum tíma í þessi ræðuhöld á meðan mikil ólga er í samfélaginu út af því sem margir upplifa sem sérpantaðan dóm í hæstarétti. Það verður samt ekki undan því komist að fjalla um þetta "erfiða" mál og hvet ég samþingmenn mína að hafa hugrekki til þess að láta ályktunina hafa sinn gang án klækja eða tilrauna til að eyðileggja málið. Ég leyfi mér að trúa því að háttvirtir þingmenn búi yfir nægilega miklu hugrekki til að kjósa um þessar ályktanir í stað þess að hindra að þær fái eðlilega þinglega meðferð.
frú forseti
Mikið er talað um virðingu þingsins, ég leyfi mér að spyrja þingmenn, háttvirta sem hæstvirta um það hvort að það sé til þess fallið að auka virðingu þingsins að hér sitja í valdamestu stólum hins háa alþingis fólk sem átti aðild að ríkisstjórn þeirri sem fékk áfellisdóm í skýrslu rannsóknarnefndar? Hvernig er hægt að firra sig ábyrgð á þeim hörmungum sem þess þjóð þarf að bera um ókomna tíð og ekkert sér fyrir endann á? Ætlar enginn að gangast við þeirri ábyrgð? Enginn? Hvernig er hægt að ætlast til þess að almenningur virði þetta svokallaða réttarríki ef það á bara við suma? Það er skylda þingsins að sýna af sér gott fordæmi og skora ég á þingmenn að fylgja þeim drengskapareið sem þau tóku þegar þeir háttvirtir tóku við embætti. Ég skora á þá að hlusta á samvisku sína og hjarta og beita sig vægðarlausum heiðarleika um hver heill þessa samfélags eru ef enginn ráðamaður mun sæta ábyrgð?
Mikil reiði innan VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2010 | 11:21
Mótmæli fyrir utan Seðlabankann á mánudaginn
Fann þessa auglýsingu á facebook: ég ætla að mæta.
Tilmælum FME og Seðlabanka Íslands gegn Hæstarrdómi mótmælt
Date: | Monday, 05 July 2010 |
Time: | 12:00 - 13:00 |
Location: | Við Seðlabanka Íslands |
Tekin er afstaða fjármálafyrirtækjanna eina ferðina enn, þar sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands leyfa sér að vaða yfir dóm Hæstarréttar með "TILMÆLUM UM LÆGSTU MEÐALVEXTI FRÁ 2007 SEM ERU 14.76%". (ekki 8,6%).
Hvert eru menn að fara með Ísland? Eiga þessar stofnanir að fá leyfi til að hnekkja dómi Hæstarrétar? Látum við þetta líka yfir okkur ganga?
Takið með ykkur verkfæri sem búa til mikinn hávaða ásamt spjöldum og öllu öðru sem þið hugsanlega hafið meðferðis.
Við kyngjum þessu ekki þegjandi - nú er mælirinn fullur! Bakkafullur bikarinn er ekki nægjanlega stór fyrir allt það óréttlæti sem yfir okkar þjóð hefur gengið! Næjanlega stór bikar fyrirfinnst ekki!
Stöndum saman öll sem eitt!
Krafðir um háar bætur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Nýja Ísland
Ég les:
Tíbet
- Fréttir frá Tibet
- Tibet Info Net An Independent Information Service on Contemporary Tibet
- Undercover in Tibet Ný heimildarmynd frá Channel 4 um hvernig ástandið er í raun og veru í Tíbet
- Leaving Fear Behind Viðtöl við Tíbeta í Tíbet stuttu fyrir mótmælin í mars
- Cry of the Snow Lion Margverðlaunuð heimildarmynd um Tíbet
- Yeti - heimildarmynd
- Yogis of Tibet Heimildarmynd um Jógameistara Tíbets sem eru óðum að hverfa
- Students for a Free Tibet
- Dalai Lama
- Tibetan Uprising
- Kerti fyrir Tíbet
- Tibet TV
- Central Tibetan Administration
- Om mani padme hum
Ýmsar slóðir
sem ég man eftir í andartakinu
- The Hunger Site
- THE MEATRIX
- Myspace síðan mín
- Úgáfan Beyond Borders Alþjóðleg útgáfa sem ég stofnaði árið 1999 í netheimum
- Hitt bloggið mitt
- Félagið Ísland-Palestína
- Womb of Creation Vefurinn minn sem ég hef haldið við síðan 1995
- Myspace síðan hennar mömmu
- Saving Iceland
- Be the change:)
- Náttúra vefur með umhverfisvitund
- Nattura info
- Care 2 make a Difference
Bækur
Bækurnar mínar
-
: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni -
: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra. -
: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tónhlaða
Bloggvinir
- ADHD
- Agný
- Alfreð Símonarson
- Andrea J. Ólafsdóttir
- Alexandra Briem
- Andrés Magnússon
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Ari Sigurðsson
- Baldvin Björgvinsson
- Baldvin Jónsson
- Baldvin Jónsson
- Bara Steini
- Bergur Sigurðsson
- Bergur Thorberg
- Bergur Þór Ingólfsson
- Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
- Binnan
- Birgir Þórarinsson
- Birna Rebekka Björnsdóttir
- Bjargandi Íslandi
- Bjarkey Gunnarsdóttir
- Björgvin R. Leifsson
- SVB
- Brjánn Guðjónsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
- Brynja skordal
- Brynjar Hólm Bjarnason
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
- Daníel Haukur
- Dorje
- Dísa Dóra
- Egill Bjarnason
- Egill Jóhannsson
- Einar Guðjónsson
- Einar Indriðason
- Einar Vignir Einarsson
- Einar Ólafsson
- Eiríkur Bergmann Einarsson
- Eldur Ísidór
- Elyas
- Elín Sigurðardóttir
- Elísabet Markúsdóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Erna Hákonardóttir Pomrenke
- Eva Benjamínsdóttir
- Eydís Hentze Pétursdóttir
- Eyjólfur Kristinn Vilhjálmsson
- FLÓTTAMAÐURINN
- Finnur Bárðarson
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Friðrik Þór Guðmundsson
- Fríða Eyland
- Félag Anti-Rasista
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Gaukur Úlfarsson
- Georg P Sveinbjörnsson
- Gerður Pálma
- Gestur Guðjónsson
- Goggi
- Greta Björg Úlfsdóttir
- Gunnar Pétursson
- Gunnar Rögnvaldsson
- Gunnar Skúli Ármannsson
- Gunnlaugur B Ólafsson
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Guðjón Baldursson
- Guðjón Bergmann
- Guðjón Heiðar Valgarðsson
- Guðmundur Helgi Helgason
- Guðmundur M Ásgeirsson
- Guðmundur Ragnar Guðmundsson
- Guðmundur Steingrímsson
- Guðmundur Ásgeirsson
- Guðný Lára
- Guðrún S Sigurðardóttir
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Gísli Hjálmar
- Haffi
- Halldór Sigurðsson
- Hannibal Garcia Lorca
- Haukur Már Helgason
- Heidi Strand
- Heilsa 107
- Heiða Þórðar
- Helga Auðunsdóttir
- Kaleb Joshua
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Himmalingur
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjálmtýr V Heiðdal
- Hjörleifur Guttormsson
- Hlekkur
- Hlynur Hallsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Hlédís
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Hrólfur Guðmundsson
- Hulla Dan
- Hólmfríður Guðlaug Einarsdóttir
- Hörður B Hjartarson
- Húmoristaflokkurinn
- Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir
- Ingibjörg Helga
- Ingibjörg SoS
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Isis
- Jakob Falur Kristinsson
- Jakob Smári Magnússon
- Jakob Þór Haraldsson
- Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
- Jens Guð
- Johann Trast Palmason
- Jóhannes Ragnarsson
- Jón Bjarnason
- Jón Gerald Sullenberger
- Jón Sigurgeirsson
- Jón Svavarsson
- Jón Valur Jensson
- Jón Þór Ólafsson
- DÓNAS
- Katrín Mixa
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Ketill Sigurjónsson
- Ketilás
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Konráð Ragnarsson
- Kristbergur O Pétursson
- Kristján B. Jónasson
- Kristján Kristjánsson
- Kristján Logason
- Kristín Dýrfjörð
- Kristín Snorradóttir
- Krummi
- Kári Harðarson
- Landvernd
- Laufey Ólafsdóttir
- Lovísa
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Lýður Árnason
- Mafía-- Linda Róberts.
- Margrét Guðjónsdóttir
- Margrét Lóa Jónsdóttir
- Margrét Sigurðardóttir
- Markús frá Djúpalæk
- María Kristjánsdóttir
- María Pétursdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Morgunblaðið
- Myndlistarfélagið
- Mál 214
- Máni Ragnar Svansson
- Neo
- Oddi
- Paul Nikolov
- Perla
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Pálmi Gunnarsson
- Pálmi Guðmundsson
- Ragnar Þór Ingólfsson
- Rannveig H
- Ransu
- Róbert Björnsson
- Rögnvaldur Hreiðarsson
- Rúnar Sveinbjörnsson
- Rúnar Þór Þórarinsson
- Salvör Kristjana Gissurardóttir
- Samstaða - bandalag grasrótarhópa
- SeeingRed
- Sema Erla Serdar
- Sigga
- Signý
- Sigrún Jónsdóttir
- Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
- Sigurgeir Þór Hreggviðsson
- Sigurjón Sigurðsson
- Sigurður Hrellir
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þór Guðjónsson
- Skuldlaus
- Snorri Sturluson
- Soffía Valdimarsdóttir
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Þorsteinn Briem
- Steinunn Helga Sigurðardóttir
- Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
- Stríða
- Sveinbjörn Eysteinsson
- Sveinn Hjörtur
- Sveinn Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Swami Karunananda
- Sæmundur Bjarnason
- Sævar Finnbogason
- Sævar Einarsson
- Sæþór Helgi Jensson
- Sóldís Fjóla Karlsdóttir
- Sóley Tómasdóttir
- Sólveig Klara Káradóttir
- TARA
- Tilkynning
- Tinna Jónsdóttir
- Trausti Traustason
- Tryggvi Gunnar Hansen
- Tína
- TómasHa
- Valgeir Skagfjörð
- Valgerður Halldórsdóttir
- Vefritid
- Vilborg Eggertsdóttir
- Vilhelmina af Ugglas
- Vilhjálmur Árnason
- Villi Asgeirsson
- Vinir Tíbets
- Viðar Eggertsson
- Viðar Freyr Guðmundsson
- Vér Morðingjar
- Vésteinn Valgarðsson
- arnar valgeirsson
- fingurbjorg
- hreinsamviska
- leyla
- molta
- oktober
- Einhver Ágúst
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Ár & síð
- Árni Þór Sigurðsson
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Ásgerður
- Ásta Hafberg S.
- Ásthildur Cesil Þórðardóttir
- Ævar Rafn Kjartansson
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Ólaf de Fleur Jóhannesson
- Ólafur fannberg
- Ólöf de Bont
- Ómar Ragnarsson
- Óskar Arnórsson
- Örlygur Hnefill Örlygsson
- Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
- Þröstur Unnar
- Þór Jóhannesson
- Þór Saari
- Þórhildur og Kristín
- Þórður Björn Sigurðsson
- Þórólfur S. Finnsson
- Andrés.si
- Anna Karlsdóttir
- Anna Margrét Bjarnadóttir
- Ari Jósepsson
- Aron Ingi Ólason
- Axel Þór Kolbeinsson
- Barði Bárðarson
- Bergþór Gunnlaugsson
- Billi bilaði
- Bjarki Steingrímsson
- Bjarni Kristjánsson
- Bogi Jónsson
- brahim
- Daði Ingólfsson
- Daníel Sigurður Eðvaldsson
- Dóra litla
- Dúa
- Einar Björn Bjarnason
- Elsabet Sigurðardóttir
- Esther Anna Jóhannsdóttir
- Frosti Sigurjónsson
- Grétar Eiríksson
- Guðbjörg Hrafnsdóttir
- Guðmundur Óli Scheving
- Gunnar Helgi Eysteinsson
- Héðinn Björnsson
- Hreyfingin
- Hulda Haraldsdóttir
- Högni Snær Hauksson
- Ingvi Rúnar Einarsson
- Ísleifur Gíslason
- Jack Daniel's
- Jóhann Ágúst Hansen
- Jóhannes Þór Skúlason
- Jóhann Pétur
- Jóna Kolbrún Garðarsdóttir
- Jónas Bjarnason
- Jón Kristófer Arnarson
- Jón Lárusson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lísa Björk Ingólfsdóttir
- Lúðvík Lúðvíksson
- Madhav Davíð Goyal
- Magnús Ragnar (Maggi Raggi).
- Morten Lange
- Óðinn Kári Karlsson
- Ólafur Eiríksson
- Ólafur Ingi Hrólfsson
- Pjetur Stefánsson
- Rafn Gíslason
- Rannsóknarskýrslan
- Rúnar Freyr Þorsteinsson
- Sigurbjörn Svavarsson
- Sigurður Einarsson
- Sigurður Jónsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Sveinbjörn Ragnar Árnason
- Vaktin
- Vilhjálmur Sveinn Björnsson
- ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE
- Þorsteinn Helgi Steinarsson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson