Leita í fréttum mbl.is

Frábært myndband frá Saving Iceland

Ef ríkisstjórnin heldur áfram er ágætt að hafa í huga hverju hefur verið fórnað og hvað er á teikniborðinu. Viðtöl við Grím Björnsson, Sigga pönk, Ólaf Pál og fleiri um Kárahnjúkavirkjun.

Eitthvað annað en pólitík

Fyrir fjöldamörgum árum fann ég áhugaverðan stað á netinu sem heitir "The Hungersite". Þar er hægt að gefa mat til hungraðra með því að smella á þar til gerðan link einu sinni á dag sér að kostnaðarlausu. Vefurinn er enn til og hefur vaxið ört. Þar er nú hægt að smella til bókagjafa fyrir nemendur í þróunarlöndunum, bjarga skika af regnskógi og borga fyrir leit að brjóstakrabbameini svo eitthvað sé nefnt. Þarna er líka einhver flottasta netverslun í heimi. Hægt að fá allt á milli himins og jarðar og flest er það tengt "fair trade" viðskiptum. Hægt er að kaupa gjafabréf upp á upphitun í skólastofu í Afghanistan, kennaralaun, skólafatnað og margt fleira sem kostar ekki svo mikið en getur skipt sköpum fyrir fólk sem á ekki neitt. Þetta er hin fullkomna gjöf fyrir fólk sem á allt og þarf ekki meira af veraldlegum hlutum.

Ég hvet fólk til að kíkja á þennan vef og gefa eins og fimm mínútur af tíma sínum dag hvern með því að smella á linkana góðu og ef fólk er í þroti í gjafahugmyndum þá er þessi búð alger himnasending. Ég hef keypt hitt og þetta þarna, gaf ömmu til dæmis gjafabréf upp á að klæða skólabörn í Afghanistan svo þau geti stundað nám í jólagjöf. Allt sem ég hef pantað hefur skilað sér og það er ævintýri líkast að taka upp pakka frá þeim.

"The Hungersite"

Hvað er að þessari þjóð minni?

Með atkvæði sínu var stór hluti hennar að velja áframhaldandi stóriðju, áframhaldandi eyðileggingu á náttúruperlum okkar, einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, einkavæðingu Landsvirkjunar, einkavæðingu á vatnsrétti og sýna stuðning sinn við Írak stríðið, samþykka kvótakerfið, samþykkja mannréttindabrot á örykjum og öldruðum, samþykkja ósanngjarnt skattkerfi þar sem þeir sem eiga minnst borga hlutfallslega mest.

 Ég held að ég hafi verið óþarflega bjartsýn á vinstri stjórn gæti orðið að veruleika og er núna satt best að segja mjög hrygg. Ég hreinlega trúi þessi ekki. En best er að vakna og horfast í augu við ömurleikann í öllu sínu veldi og reyna að finna leiðir til að takast á við hann. Vildi að Ómar og co hefðu haft hugrekki til að gefa eftir atkvæði sín fyrir kosningar en ekki eftir. Hvað svo sem fólk segir þá voru þau samkvæmt könnunum að taka atkvæði frá VG og ég þekki fjölmarga sem hefði kosið VG sem voru að kjósa Ómar persónulega.


Enn einu sinni


Baráttuhátíð VG í gærkvöldi

 Það var alveg troðfullt út úr dyrum í kosningamiðstöð VG á Grensás í gærkvöld -mikil stemmning - mikill baráttuhugur í fólki og mikil samkennd. Hafði heyrt margar draugasögur og flakksögur um fólkið í VG áður en ég fór að vinna með því og allar reyndust þær ósannar. Hef sjálf alla tíð haldið því fram að VG sé flokkur með stórt hjarta og eftir að hafa kynnst fólkinu sem knýr hann áfram þá veit ég af hverju. Þetta er allt saman ákaflega hjartastórt fólk með heilbrigða skynsemi að leiðarljósi. Þau hafa fengið samfélagsgenið í vöggugjöf og er í sannleika umhugað um náunga sinn og um velferð þessa lands og þjóðar.

Frábær skemmtiatriði og mergjaðar ræður. Það eru enn tveir dagar til kosninga og hinn mikli meðbyr sem við höfum fundið í samfélaginu mun skila sér á einn eða annan máta. Hinn mikli sigur er að grænu málin hafa orðið ofaná í þessari kosningabaráttu og það er ekki lengur hallærislegt að vilja skila landinu og þess gæðum til komandi kynslóða óspjölluðu.

Ég fékk að flytja tvö ljóð í gærkvöldi og naut til þess stuðnings hans Hjörleifs Vals - hann er auðvitað bara snillingur í að tvinna tóna við ljóð. Læt ljóðið fyglja hér en ég orti það fyrir Dimmugljúfur, fyrir Lindur, fyrir alla þá náttúru sem liggur nú undir Hálsalóni í jökuleðju. Vaknaði í morgunn og sat þá Hrafn á þakskeggi og ég sakna þess að skilja ekki mál þeirra. Á þessari stundu flæðir haglél frá dimmu skýi, ég læt mig dreyma um að þeir sem eru ábyrgir fyrir skemmdarverkum á þessu landi mínu fái að gjalda þess með því að fólk kjósi þá ekki næstkomandi laugardag. Ég læt mig dreyma um að fólk muni Írak, að það muni öll loforðin sem hafa verið svikin og hve gjöfult þetta land hefur verið þeim. Er ekki tími kominn til að koma fram við það af meiri virðingu?

Ísland örum skorið

dimmugljúfur
hljóð
       –aftökustaður

í nið dauðadæmdra fossa
sem kvíslast
um löngu gleymdar slóðir
                 hvíslast á löngu gleymdar raddir


"veistu að þinn vinur er að deyja"

angan agnarsmárra blóma
dregur mig niður

                         n
                        i
                     ð
                        u
                           r

                              í hrjóstrugt mosabeð

                              og ég get ekki
                                               annað en andað tárum

hvers megnug er rödd mín gegn
vítisvélum sem bryðja fjöllin
                             eins og sætabrauð

hvers megnug eru orð mín
gegn almáttugu sinnuleysinu

                     forynjur og tröll
búa ekki lengur í fjöllunum
þau hafa tekið sér bólfestu
í hjörtum mannanna

nei álfar eru ekki menn
huldufólkið flúið drauma okkar

hvern dreymir lengur
um barnsburði í klettum

                                     hvers virði er að sjá
það sem enginn vill vita

ég heyri í fínlegum vængjum hugsanna minna

                                              vængsláttur fiðrildana
hrindir af stað stormi í fjarlægri heimsálfu


ég bíð frétta
af hvirfilbylum og bólgnuðu vatni
                                    jarðskjálftum og gjósku



Tek það fram að jarðskjálftar og gjóska getur líka verið tákn um fólk,
um breytingar. Fyrir mér í dag er það önnur ríkisstjórn.




4 ástæður til að kjósa að skipta um ríkisstjórn

Lýðræði?
2 menn settu Íslendinga á lista þjóða sem studdu stríðið í Írak. 35 komu í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun.

Fjársterkir aðilar hafa eytt milljónatugum til að hlutast til um ákvarðanatöku sveitarfélaga í Hafnarfirði, Reyðarfirði og víðar.

Samfélag fyrir alla?
Einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er komin á dagskrá og unnið er að sölu Landsvirkjunar, og þar með orkuauðlinda þjóðarinnar.

1. nóvember á þessu ári taka gildi lög þar sem einkaeignaréttur á vatni er festur í sessi og vatn gert að markaðsvöru.

Græn framtíð?
Álver verða reist við Húsavík og í Helguvík og virkjanir í Þjórsá og Skjálfandafljóti.

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist hraðar hér en í nokkru öðru landi í Evrópu.

Kvenfrelsi?
Kynbundinn launamunur er 16% og hefur ekki minnkað um eitt einasta prósent.

23 af 63 þingmönnum eru konur, 4 af 12 ráðherrum.

Allt annað líf - Á laugardag eru 4 ástæður til að kjósa Vinstri græn:

Lýðræði!
Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál.

Eflum grasrótarsamtök og tryggjum aðkomu almennings og frjálsra félagasamtaka að lýðræðislegri ákvarðanatöku.

Samfélag fyrir alla!
Burt með komugjöld og sjúklingaskatta.

Tryggjum almenningi lægra orkuverð og nýtum hlut ríkisins í Landsvirkjun í þágu skynsamlegrar orkunýtingar. Afturköllum lög um einkaeign á vatni og tryggjum að aðgangur að vatni verði áfram hluti af grunnréttindum okkar, líkt og andrúmsloftið.

Græn framtíð!
Stöðvum frekari stóriðjuframkvæmdir og ákveðum hvaða svæði við ætlum að vernda til framtíðar.

Stofnum loftslagsráð sem vinnur markvisst gegn losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með vistvænum samgöngum og fræðslu um umhverfismál.

Kvenfrelsi!
Afnemum launaleynd strax og eflum Jafnréttisstofu.

Vinnum að því að tryggja a.m.k. 40% hlut kvenna á þingi og í sveitarstjórnum, t.d. með því að hvetja til að fléttulistum verði beitt.


Fullvirkjun Íslands

Af hverju þurfum við að fá nýja ríkisstjórn?

1. Miðað við loforð núverandi ríkisstjórnar um orkusölu til álbræðslu þá þarf að fullvirkja landið. Tölur um þetta og kort má finna í bækling Íslandsvina sem dreift var á öll heimili landsins í síðustu viku.

2. Einkavæða á heilbrigðiskerfið.

3. Selja á Landsvirkjun, en fyrirtækið er sameign þjóðarinnar en hefur því miður ekki gætt hagsmuna eiganda sinnar og selt risafyrirtækjum eins og Alcoa orkuna okkar á skammarlegu verði. Hvað ef Alcoa eignast Alcan? Heldur fólk virkilega að það hafi engin áhrif hérlendis. Þá mun eitt fyrirtæki sem á sér miður fallega sögu í umhverfisspjöllum og broti á mannréttindum í öðrum löndum, hafa fáránlega mikill völd hérlendis. Hvað ef Alcoa eignast stóran hlut í Landsvirkjun þegar það verður sett á útsölu? Ekki hugnast mér heldur ef Rio Tinto myndi eignast Alcan. Það er fyrirtæki með jafnvel enn svartari samvisku en Alcoa. Hvet fólk til að afla sér upplýsinga um þessi fyrirtæki á netinu áður en það ákveður sig að koma með komment :) um ágæti þeirra... hægt til dæmis að googla alcoa fines og þá fær maður athyglisverðar upplýsingar.

4. Velsældin og einkavinavæðingin hefur ekki skilað sér til almennings. Var að lesa tölur um það að rekja má aukna neyslu landsmanna til aukinnar skuldsetningar heimila landsins. Aldrei hefur verið eins auðvelt að ná sér í lánsfé og flestir búnir að þenja sitt skuldaþol svo mjög að ekkert má út af bregða. Þess vegna þarf fólk að vinna enn meir, og fólk hefur enn minni tíma til að sinna fjölskyldum sínum, sér í lagi börnum og eldri fjölskyldumeðlimum sínum. Hagsæld er ekki endilega að maður geti keypt sér 40" plasmasjónvarp. Hef ekki þekkt nokkurn mann eða konu sem hefur fundið til varanlegrar hamingju út af dótinu sem það á.
Það sem hefur gerst í valdatíð hægri manna er að aldrei hafa fleiri börn verið greind með þunglyndi, aldrei hafa fleiri börn verið einmanna, aldrei hafa fleiri þurft að sækja á náðir mæðrastyrksnefndar, aldrei hafa fleiri verið á geðlyfjum, aldrei hafa verið eins margir ungir eiturlyfjaneytendur, aldrei hefur verið eins dýrt að hafa barn sitt í grunnskóla, ég gæti lengið haldið áfram. En ef þetta kallast hagsæld þá vel ég hiklaust að þurfa að skoða mína neyslu og minka hana og eiga meiri tíma með mínum börnum og ömmu minni, sem er einmanna eins og svo margt fólk sem er komið á hennar aldur, og sárfátæk þrátt fyrir að hafa unnið eins og þræll allt sitt líf.

5. Við þurfum að læra að þroska með okkur samfélagsvitund. Þessi ríkisstjórn vill ekki að við gerum slíkt heldur vill hún að hver hugsi aðeins um sig og að einkaframtakið sé hin eina rétta leið. Velferðarsamfélag rúmast ekki innan þeirra hugmyndafræði.

6. Við erum að kjósa um tvö stór mál: Hið fyrsta er Norrænt velferðarsamfélag versus Ameríska einkavæðingarmódelið. Hef búið bæði í Norðurlöndum og Norður Ameríku. Ég flutti frá USA vegna þess að ég vildi ekki ala mín börn upp í samfélagi sem er byggt upp á ótta, þar sem allt gengur út á að vera vel tryggður og að enginn geti farið í skaðabótamál við mann. Hvað ætli mörg prósent bandaríkjamanna lifi í hinum ameríska draumi? Passar það hinni íslensku þjóðarsál að eltast við drauma annarra þjóða?

Hitt málið sem við erum að kjósa um er fullvirkjun landsins versus sjálfbær þróun. Lesa má sér til um sjálfbæra þróun og vistvernd í verki hjá aðilum eins og Landvernd og VG.

Studdi ég stríðið gegn Írak og að Ísland væri sett á lista hinna viljugu? NEI! Ríkisstjórnin er ábyrg fyrir því.
Studdi ég Kárahnjúkafórnina? NEI! Ríkisstjórnin er ábyrg fyrir henni.
Studdi ég einkavæðingu grunnnets símans? NEI! Ríkisstjórnin er ábyrg fyrir henni.
Styð ég bág kjör aldraðra og öryrkja? NEI! Ríkisstjórnin er ábyrg fyrir þeim.
Styð ég stóriðjuáform, styð ég virkjanaáformin, styð ég óafturkræfar fórnir á auðlindum landsins fyrir skyndigróða. NEI! Ríkisstjórnin er ábyrg og mun halda áfram á þessari braut. Ekki láta blekkjast af fagurgala fyrir kosningar. Ekki gleyma að öll gætum við þurft á einhverjum punkti í lífi okkar að treysta á almannakerfið okkur til stuðnings. Allt er fallvalt, ekkert er öruggt, og þeir peningar sem fólk er að brenna í dag eru ekki trygging fyrir betra lífi komandi kynslóða. Hvernig ætlar fólk að skila landinu til komandi kynslóða. Ég kýs velferð þessa lands, en ekki bara í dag heldur um ókomna daga. Ég ber ábyrgð rétt eins og allir aðrir á að skila af mér landinu eins og ég tók við því. Því miður er landið í sárum vegna skyndilausna núverandi ríkisstjórnar. Því miður verður ekki hægt að spóla til baka og laga þau skemmdarverk sem hafa verið unnin. Þess vegna verðum við að axla ábyrgð og hugsa líka með hjartanu en ekki bara með buddunni. Ég reyndar skil ekki af hverju þessi blessaða ríkisstjórn hefur ekki haft burði til að laga brýnustu vandamál þessa samfélags, eins og skammarlega biðlista, ónýta vegi á landsbyggðinni og kjör þeirra sem minnst eiga, ef að ríkissjóður stendur svona vel.
Ah auðvitað það má ekkert gera til að rugga bátnum því þenslan er svo mikil. Allar framkvæmdir nema stóriðja þurfa að bíða svo hagkerfið springi ekki... og hve lengi eruð þið landsmenn góðir tilbúnir að bíða... 4 ár! Ég lofa ykkur því að ef núverandi ríkisstjórn heldur velli, þá mun biðin halda áfram ... og munið að XD bera jafnmikla ábyrgð og XB á því.


Lífsbók: minningaþáttur um Bergþóru Árnadóttur kominn á netinu

Bergþóra ÁrnadóttirÞá er þátturinn kominn á netið...

Smellið hér til að hlusta á fyrri hluta og hér til að hlusta á seinni hluta. Vil nota tækifærið og þakka RÚV fyrir að hafa þennan þátt 1. maí. Eiginlega allir nefndu tvennt sem var einkennandi fyrir mömmu: að hún hefði verið mikil baráttukona og brautryðjandi fyrir aðrar konur í tónlist og það að tónlistin hennar hefði ekki notið verðskuldaðrar virðingar.

Stefnt verður að því að endurútgefa allar plöturnar hennar, kannski í einu lagi í fallegu boxi, eða eina af öðrum. Kemur allt í ljós eftir kosningar.


Endurfluttningur á þættinum eða netútgáfa?

Er að reyna að finna út hvort og hvenær þátturinn verður endurfluttur, set inn upplýsingar um það um leið og þær koma til mín...

Er líka að vonast til að þátturinn verði aðgengilegur á netinu, margir sem misstu af öðrum hvorum hlutanum....


Hlakka til að heyra framhaldið klukkan 20:30

á þættinum um mömmu. Búið að vera bæði ánægjulegt og erfitt að hlusta. Held að ég sé eiginlega búin að gráta meira en í himnaförinni. Er enn ákveðnari í að endurútgefa verkin hennar. Ég var líka að spá í það í dag að það hefur enginn skrifað góða minningagrein um hana sem tónlistarkonu.

Kalla eftir því

Langar að þakka öllum þeim sem hafa minnst mömmu í Lífsbók og sérstaklega vil ég þakka Andreu og Hjölla...


Þáttur í dag 1. maí til minningar um Bergþóru Árnadóttur tónlistarkonu.

Lífsbók

Þáttur til minningar um Bergþóru Árnadóttur tónlistarkonu.

Andrea Jónsdóttir er umsjónarmaður þáttarins en hún fer yfir feril Bergþóru. Andrea fær til sín góða gesti sem rifja upp tónlistarferil þessarar einstöku konu.

01.05.2007

Minningarþáttur um Bergþóru Árnadóttur tónlistarkonu. Fyrri hluti.

Umsjón: Andrea Jónsdóttir.

Á dagskrá: Í dag 16.05

01.05.2007

Minningarþáttur um Bergþóru Árnadóttur tónlistarkonu. Seinni hluti.

Umsjón: Andrea Jónsdóttir.

Á dagskrá: Í kvöld 20.30


kameljónið les upp í kvöld í kraganum

Guðfríður Lilja býður konum í heimsókn í Kragakaffi Hamraborg 1-3
sunnudaginn 29. april kl. 20.00

Fjölmargar lista- og stjórnmálakonur munu troða upp

Guðrún Gunnarsdóttir syngur
Katrín Jakobsdóttir verður á rómantísku nótunum
Verðlauna stuttmynd Helenu Stefánsdóttur
Birgitta Jónsdóttir les ljóð með tónlist
Thelma Ásdísardóttir kemur á óvart
Kolbrún Halldórsdóttir og Svandís Svavarsdóttir leika af fingrum fram

Mireya Samber verður með myndlistasýningu

Gaman væri að sjá einhverjar konur úr vinahópnum koma við í kvöld... ég skal lofa að lesa upp eitthvað pólitískt... Kata sér um rómantíkina... held að ég lesi innflytjendaljóðið mitt langa... Hetjur...


Meira um hinn meinta útvarpsþátt...

Var að tala við Andreu í morgunn og sagði hún mér að þátturinn er orðin svo vel kryddaður af gæða viðtölum að hann mun spanna frá 16:00 til 18:00 og halda svo áfram um kvöldið...

Gleymdi að nefna að minn gamli kennari og jazzgeggjari með meiru Vernharður Linnet verður líka í þættinum og líka Jói G. En mamma og Valdi ráku með honum Gallerí Lækjartorg fyrir margt löngu.

Eftir kosningar mun ég svo fara að leggja drög að minningartónleikum í febrúar á næsta ári... og útgáfu á disk með efni með mömmu... held áfram að blogga um þessi málefni, kannski bý ég til nýtt blogg tileinkað henni, ætla allavega að setja upp Bergþóruvef um leið og tími gefst


Útaf minningarþætti á Rás 2 um Bergþóru Árnadóttur

Var að tala við Andreu Jónsdóttur áðan og ég er orðin mjög spennt að heyra þáttinn hennar um mömmu. Var búin að lofa að setja á bloggið mitt klukkan hvað hann verður fluttur: 1. maí klukkan 16:00 til 18:00.

Hér er svona ca, næstum allir sem ég man eftir að Andrea er búin að tala við: Hjörleifur Valsson, Páll Óskar, Bubbi, Aðalsteinn Ásberg, Eyjólfur Kristjáns, Ingi Gunnar, Stella, Þorvaldur Ingi, Diddi fiðla, Labbi, Helgi, Tryggvi Hubner, Pálmi Gunnars, Guðrún Gunnars, Hörður Torfa: ég er sennilega að gleyma einhverjum...  En ég treysti henni Andreu 100% til að gera frábæran þátt enda slá henni fáir við í þáttagerð um tónlist.

Að heyra sögur um mömmu er mér sem fágætur fjársjóður, hún lifir í gegnum þessar sögur og þegar ég heyri eitthvað nýtt er eins og ég fái aðeins lengri tíma með henni.


Leg er bara snilld

Bauð Neptúnusi í leikhús í gærkveldi í tilfefni 16 ára afmælis hans. Fórum að sjá Leg í Þjóðleikhúsinu. Langt síðan ég hef skemmt mér svona vel. Við vorum í hláturkasti út sýninguna. Fannst allt vel heppnað við þessa sýningu. Margmiðlunarhluti hennar var ótrúlega vel útfærður og þessi dásamlegi sjúklegi húmor hans Hugleiks snillarlega yfirfærður í leikhúsið. Þetta er eini söngleikurinn sem ég hef séð þar sem ég hef ekki verið í króniskri þjáningu vegna aulahrolls. Ég nefnilega þoli ekki söngleiki, veit ekki af hverju... fer alltaf um mig þegar fólkið fer að syngja samtölin...

Mæli hiklaust með þessari sýningu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband