Leita í fréttum mbl.is

Ræðan mín frá því í morgunn

Það gætu verið málfarsvillur í henni - set inn betrumbætta útgáfu byggða á framsögunni síðar í dag.

Frú forseti

Er réttlætanlegt að ríkið taki að sér að axla ábyrgð á einkaskuld sem getur ef illa fer skert lífsgæði allra sem hér á landi búa?

Er hæstvirtur forseti meðvitaður um þann skaða sem hljótast mun af þeirri ákvörðun að samþykkja samninginn?

Gámarnir bíða í hrönnum eftir búslóðum þeirra sem geta ekki réttlætt það fyrir sér að búa hér lengur ef þetta verður samþykkt. Fólkið sem er að fara – er fólkið sem getur farið. Fólkið sem er að fara mun sennilega ekki koma aftur ef fer sem fer. Fólkið sem er að fara ætlar að taka fyrirtækin sín með sér, menntunina sína, starfsreynsluna sína, börnin sín, framtíðar skatttekjur.

Innra með mér er uggur – því ég veit að þetta verður dropinn sem fyllir mælinn, þetta er dropinn sem fær fólk til að bregðast við. Þetta snýst nefnilega ekki bara um góðan eða vondan samning – þetta snýst um grundvallar óréttlæti, um grundvallar sjálfsvirðingu þjóðar sem er orðin örmagna af fréttum um spillingu og krosseignatengsl viðskipta, þingheims, fjölmiðla, þetta snýst um að nokkrum mönnum tókst með aðstoð sofandaháttar heils stjórnkerfis að hneppa þjóðina í fjötra fátæktar og bágra lífsgæða. Þetta snýst um sundraðar fjölskyldur og mannslíf. Þetta snýst um sjálfsvirðingu þjóðar.

Það að láta undan þeirri kúgun sem við erum beitt af hendi breskra yfirvalda með því að samþykkja þó svo breyttan nauðungasamning þar sem skuldumeinkaaðila er velt yfir á alla landsmenn að þeim forspurðum er óréttlætanlegt. Fólk upplifir þetta sem hina algeru niðurlæginu – að þjóðin sem beitti okkur hryðjuverkalögum fái til þess stuðning frá vinaþjóðum okkar og AGS þjóðþingið til að samþykkja ríkisábyrgð er sárara en tárum taki fyrir marga landsmenn. Sá óttaáróður sem hefur viðgengist í kringum þetta mál hefur haft sín áhrif á marga þingmenn sem munu greiða atkvæði með og samþykkja með því að það sé réttlætanlegt að almenningur taki á sig skuldir einkaaðila.

Sumir halda því fram og trúa því að þessar skuldir hverfi eins og dögg fyrir sólu eftir sjö ár. Sumir ráðherrar hafa talað um töframenn þegar þeir hæðast að þingmönnum fyrir að vilja alherjar aðgerðir fyrirheimilin í landinu – þessir sömu ráðherrar hafa látið það í veðrinu vaka að Icesave skuldbindingin hverfi – manni verður oft hugsað til galdrakarlsins í OZ þessa dagana þegar maður horfir upp á þær sjónhverfingar sem viðgangast hér á þessum ágæta stað.

Frú forseti láttu ekki blekkjast þó sumarið hafi verið rólegt úti á Austurvelli, réttláta reiðin er að vaxa að nýju þegar myrkrið hefur innreið sína á vetramánuðum. Reiðin hefur farið stigmagnandi eftir því sem það hefur orðið deginum ljósara að sumarþingið snérist fyrst og fremst um ESB en ekki neyðaraðgerðir fyrir almenning.

Í dag hefði ég viljað spyrja ríkisstjórnina um hvað hún ætlar að gera fyrir þá sem eiga ekki fyrir mjólk – fyrir þá sem geta ekki farið í skóla vegna fátæktar – fyrir þá  sem sjá engan tilgang með því lengur að borga í svartholið sem engan enda virðist ætla að taka. Í dag hefði ég viljað sjá vonarneista til handa þjóðinni minni, ég vona með sanni að þegar þessi ríkisábyrgð verður samþykkt að fólk glati ekki voninni, heldur muni að það er alltaf dimmast fyrir dögun. Það sem hefur fengið mig til að sjá smá von í þessu icesave svartnætti er að þingheimi tókst að vinna saman við það að gera vondan hlut betri. Þingmenn hófu sig ofar flokkspólitík og lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til að tryggja samstöðu um fyrirvara á þessum handónýta samningi sem samninganefndin færði þjóðinni – sem var sannkallaður köttur í sekknum. En gleymum ekki að þessir fyrirvarar eru nauðavörn, þessir fyrirvarar ættu að fella samninginn ef allt væri hér með feldu og það vona ég svo sannarlega að þessir fyrirvarar munu gera. Það þarf nefnilega að senda fólk út að semja sem getur valdið því, ekki vini og vandamenn. Ég legg svo til og mæli  með frú forseti að næst verði Buchheit fenginn til verksins ef hann er enn fáanlegur til þess.

Frú forseti

Ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þennan nauðasamning þó svo ég muni styðja heilshugar þá fyrirvara sem hér verða lagðir fram. Mér finnst sú vinna sem átti sér stað við gerð fyrirvarana mikilvægur grunnur að nýju samkomulagi. Ef við fáum bestu mögulegu samningamenn til að semja upp á nýtt þá held ég að við getum átt von á því að geta staðið upp með glæsilega niðurstöðu. Niðurstöðu sem tryggir að þeir sem efndu til þessarar skuldar verði einir látnir axla ábyrgð á því fjárhagslega tjóni sem þeir hafa ollið þjóðinni.

Sú vinna sem þingmenn lögðu á sig mun nýtast og er vonandi upphafið af breyttum vinnubrögðum hér á þinginu þar sem fólk úr öllum flokkum hefur einsett sér að nýta sér þá þekkingu, fagmennsku og yfirsýn sem má finna innan allra flokka – því gleymum því ekki að við erum alltaf fyrst og fremst að vinna að þjóðarhag þó áherslur okkar séu oft mjög ólíkar. Með þeirri þverpólitísku vinnu sem átti sér stað í kringum Icesave nauðavörnina höfum við sýnt að á ögurstundu er hægt að finna flöt á samvinnu sem við þurfum að viðhalda í kringum þau erfiðu mál sem eiga eftir að koma fyrir þingið á næstunni. Vinnan í kringum Icesave er fyrsti vísir að þeirri þjóðstjórn sem ætti að vera sett saman til að vinna þjóðina upp úr þeim erfiðleikum sem hún stendur frammi fyrir. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa lagt á sig mikla vinnu til að það væri hægt að finna sem breiðustu sátt um fyrirvarana sem eins og ég áður nefndi eru mikilvægur grunnur að nýjum samning.

Frú forseti
Mig langar að lokum að minna þjóðina okkar á að þrátt fyrir að ríkisábyrgðin verði samþykkt í dag að gefast ekki upp. Við megum ekki gefast upp sama hvað er í gangi í kringum okkur. Segja má að við séum í sjálfstæðisbaráttu sem er rétt að byrja og við þurfum á ykkur að halda til að veita þinginu aðhald – til að berjast gegn þeim ofuröflum sem hafa hafið innreið sína inn fyrir landssteina, þar mun án efa AGS verða okkur skeinuhættastur og hætt við miðað við hvernig hlutirnir eru að þróast að við glötum auðlindum okkar í hendurnar á alþjóðafyrirtækjum sem eiga sér langa sögu í arðráni hjá knésettum þjóðum. Þessi orrusta er kannski töpuð en blikur eru á lofti að þær verði fleiri og því skora ég á ykkur að gefast ekki upp, heldur beita ríkisvaldið þrýstingi að þau standi við gefin loforð um lýðræðisumbætur og alvöru uppgjör á þessu hruni. Haldið á lofti kröfunni um réttlæti – að heimilin fá alvöru stuðning en ekki bómullargjaldþrot og tilsjónarmenn. Það er kominn tími á að ríkisstjórnin setji heimilin á oddinn, búi til það umhverfi og aðstæður til að fleiri fyrirtæki rúlla ekki, það er kominn tími á að hefja endurreisnina.


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Það var fínt hjá ykkur að segja nei við icesave samningnum.  En afhverju var ekki einhugur um það í þinghópnum?  Það kom mér verulega á óvart.

Jón Kristófer Arnarson, 28.8.2009 kl. 14:34

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já,Birgitta við erum í sjálfstæðisbaráttu eigum nokkra afar góða fulltrúa á þingi. Takk fyrir að birta góða ræðu þína hér.

Helga Kristjánsdóttir, 28.8.2009 kl. 14:59

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Birgitta þú átt heiður skilinn fyrir að standa með þjóðinni og ekki landráðaþingmönnunum.

Theódór Norðkvist, 28.8.2009 kl. 15:12

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl

Falleg ræða hjá þér.

Það er skiljanlegt að vilja ekki borga skuldir sem einkaaðilar efndu til, en því miður var um bankastarfsemi að ræða sem fékk blessun yfirvalda hér og í raun var hún afleiðing þróunar sem ráðandi hluti þjóðarinnar kom okkur í.  Ábyrgðin er því þjóðarinnar sama hvað þrengri lagalegum skilningi líður.  Þúsundir manna og félagasamtaka töpuðu fjármunum sínum með IceSave dæminu sem var í raun aðeins einkenni á miklu stærra vandamáli.  Þetta fólk horfir til íslensku þjóðarinnar og væntir hjálpar og ábyrgðar.  Það má deila um réttmæti en ef við greiðum ekki lágmarks tryggingu innstæðu þessa fólks, hefur það tapað öllu því sem það átti hjá IceSave.  Við Íslendingar verðum að bera ábyrgð á hvort öðru og ef að einhverjir landar okkar skaða mannorð sitt og svíkja fólk erlendis, er það óhjákvæmilega endurspeglun á þjóðina að einhverju leyti.  Ég sé ekki að við komumst frá því og að við verðum að bíta í það súra.  Góðærið var á stórum hluta loftbóla og nú þurfum við að borga fyrir.  Fólk mun flytja burt um tíma en við munum jafna okkur.  Það er betra að gera það með því að taka á okkur byrðar en að sverja af okkur bankakerfin og það fólk sem þar ríkti (fyrir tilstuðlan yfirvalda). 

Ég ber mun meiri virðingu fyrir nei-atkvæði þínu en að sitja hjá eins og þorri Sjálfstæðismanna gerði.  Þegar um svona alvarleg mál er að ræða er það mikið ábyrgðarleysi að hafa ekki kynnt sér nægilega málin til að gera upp hug sinn og greiða atkvæði.  Ábyrgir þingmenn eiga að nota atkvæði sitt, en ekki varpa ábyrgðinni á aðra.  Að skila auðu er annað hvort flótti eða vitni þess að vita ekki hvað eigi að gera.

Svanur Sigurbjörnsson, 28.8.2009 kl. 15:15

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta Birgitta, þið sem sögðuð nei eigið heiður skilinn.  Og ég er algjörlega á móti þeirri skoðun að þetta sé okkar mál og við eigum þess vegna að borga.  það er mýta sem búið er að telja fólki trú um af áróðursmeisturum ríkisstjórnarninnar, og þá aðallega Samfylkingunni.  Ég er samt sammála því að enn verra en að segja já var að segja nei.  Og hvar er Þór Saari.  Hann hefur svo sannarlega svikist undan merkjum með því að sitja hjá. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.8.2009 kl. 15:30

6 identicon

Góð ræða hjá þér Birgitta.  Hún snart mig.  Vöknaði meira segja um augun á tímabili.

Votta þeim sem greiddu atkvæði gegn samningnum virðingu mína og vildi óska að fleiri hefðu gert það sama.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með flesta flokksfélaga mína í Sjálfstæðisflokknum í dag.

Hrafna (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 15:33

7 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Stórgóð ræða hjá þér Birgitta, sem á örugglega eftir að lifa í sögubókum framtíðarinnar. Nú þurfum við borgararnir bara að fara að safna liði til að losa okkur við þennan samning og annað álíka siðlaust í okkar samfélagi. Ég er viss um að þessi nauðasamningur mun ekki standast fyrir dómstólum evrópusamfélagsins sbr. mál nr. 222.

Því miður ætlar Alþingi íslendinga að fara í frí án þess að vinna í lausn á vanda heimilanna. Þið eigið víst skilið smá frí en nú þarf að ákveða hvernig skuldir heimilanna verða færðar niður á réttlátan hátt. Greiðsluverkfallið er 1. október eins og þú veist...

Baldvin Björgvinsson, 28.8.2009 kl. 16:09

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Orð þín okra á mig sem huggun. Ljós á þessum dimma degi. Græðandi smyrsl á djúp kvíðasár. Takk fyrir þína fallegu ræðu! Ég þakka því góða í heiminum fyrir þig

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.8.2009 kl. 16:42

9 identicon

Takk fyrir að segja NEI.

Ég vona að þrátt fyrir öll merki um heilindi að þá verði þín heilindi meiri þegar á líður en ekki blekkingarleikur á leiðinni á "toppinn", sem mundi væntanlega þýða mestu skyryfirhellingu Íslandssögunnar ef svo væri.

Ég býst ekki við neinu öðru en heilindum frá þér.

Megir þú njóta friðar í fríi og einhverri afslöppun og endurnæringu á Sál og Líkama.

Megi allir góðir vættir vera með okkur í að knésetja Skrímslið og Ófreskjuna. 

Ragnar (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 21:26

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Svanur, má ég berja börnin þín ef einhver vinur þinn ræðst á mig?

Theódór Norðkvist, 28.8.2009 kl. 22:08

11 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir að standa með okkur fólkinu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.8.2009 kl. 22:16

12 Smámynd: Guðbjörg  Hrafnsdóttir

Það verður lengi í minnum haft hverjir sögðu NEI!

Takk fyrir Birgitta.

Guðbjörg Hrafnsdóttir, 29.8.2009 kl. 10:00

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ef þetta væri svona einfalt Theódór, þá kæmi auðvitað ekki til mála að greiða þetta, en þegar svona alvarlegir víðtækir hlutir gerast´er varða alþjóðaviðskipti, þá er þetta flóknara en deilur einstaklinga.  Ég vildi að þú hefðir rétt fyrir þér, en það er annar veruleiki sem mætir okkur í alþjóðasamhengi.  Við erum eyland en verðum að endurbyggja það traust sem hrundi síðasta haust.  Heldurðu að við höfum efni á því að segja flatt nei við þessu?  Veistu hverjar yrðu afleiðingarnar?  Ég veit það ekki nákvæmlega, en tel líklegt að það yrði ekki sérlega ánægjulegt að hafa sterkustu lönd ESB á móti sér næstu 10 árin.

Svanur Sigurbjörnsson, 30.8.2009 kl. 00:35

14 identicon

Svanur!

Bretapakk, niðurlendingapakk, bandóðuríkin, rússarusl, Norðurlönd, pólskapakk, ítalaskítaur, spanjólaskítur, frakkapakk, kínavitleysingar, þjóðverjar og öll "voldugustu" ríki heimsins og flest allt annað apamannadjöfla hyski Jarðarinnar, já öll þessi ríki eru samverkamenn í stríðsglæpum, hryðjuverkum og barnamorðum í mið-austur löndum og víðar og það er engin ástæða til að semja um eitt eða neitt við slíkt glæpahyski sem ógnar lífi og límum og friði á Jörðinni !!

Ef það þarf að gera það þá á að gera það með svipuðum tilheyrandi yfirlýsingum og ábendingum og ásökunum um barnamorð, aðra stríðsglæpi og hryðjuverk gegn mannkyni !!

Ég borga aldrei neitt sem tilheyrir þessum landráðum sem hafa verið svo lengi í gangi í okkar samfélagi og hef gert ráðstafanir til þess að hafa fulla stjórn á mínum verðmætum sem ég skila inn í mitt samfélag og í hvað það verði notað.

Reyndar er merkilegt að þú skulir koma hér með yfirlýsingar um þetta mál og að þú sjáir enga ástæðu sem "meðvitaður" "menntaður" læknir? eða barnalæknir? til að draga inn í þessa umræðu hið sanna eðli og hegðun þessara stjórnkerfa sem reyna að knésetja Ísland !! 

Það er athyglisvert að þú varst spurður um tilvísanir (references) á og á eftir fyrirlestri eða auglýsinga-söluskru-kynningu á gildi bóluefna, en talaðir á niðrandi hátt um "óhefðbundnar" (alternative?) "lækningar". (Háskólanum (Askja?) 21. Nóvember 2007)

Báðir þessir flokkar innihaldsa loddara, lygara, svindlara , og siðlaust glæpa- og öfgafólk  og þá sérstaklega sá hópur sem kallar sig stunda  "nútíma lækningar".

Vegna þeirrar ofur- fasísku stjórnunar sem "dauða-dýrkunar-trúarofstækis-djöflafólkið" hefur innan svokallaðra "nútíma lækninga" er heilbrigðis vandamálið sífellt að aukast. Þetta "death cult" sem þú augljóslega tilheyrir eða þjónar, ber fyrir sig "vísindi" og kenningar og  "sannanir" þeirra sem allsherjar úrslitavald um hvað samfélögin eiga að sóa af mannslífum og fé í sturlunina sem kallast "nútíma lækningar".

Þú átt enn eftir að gera grein fyrir eða afhenda sannanir fyrir því að t.d. veira valdi mislingum og þá erum við að tala um alvöru vísinda gögn eftir ströngustu kröfum vísinda-aðferða og vísinda-rannsókna!!

Þó svo að margt reynist eðlilegt í skoðun og jafnvel meðhöndlun á krankleika og heilbrigðisbresti hjá þessu "dauða-költi" sem kallar sig "nútíma lækningar" þá breytir það ekki því að með í þeim skammti fylgja óteljandi gildrur og ranghalar sem fólk villist inn í og endar oftar en ekki í langvarandi þjáningu og óhamingju og "krónískum" heilsuvandamálum og jafnvel dauða !!

Ástæðan er eitrun og eyðilegging á lífkerfum líkamans með "kemískum" eða "petrochemical" efnum sem eru að eðli eða ástandi algerlega framandi eða eitrandi fyrir líkamann og þær örsmáu verur sem byggja þá náttútu eða lífheild sem við köllum líkamanum okkar.

Ekki ætla ég frekar út í þá umræðu hér enda ekki vanur að skrifa um þessi mál.

En..... 

Nú skora ég á þig Svanur að leggja fram sannanir um það að "veira" valdi því sem kallað er mislingar og jafnvel enn betra að þú sýndir fram á það eftir ströngustu kröfum vísinda-aðferða og rannsókna að "veira" valdi því sem kallað er "mænusótt, "mænuveiki", "lömunarveiki" eða "polio".

Ég tek fram að ég hef ekki áhuga á neinum loddara svörum sem byggjast ekki þessum grundvallar atriðum sem ég hef nefnt.

Að vitna í eitthvað frat eins og "PCR" sem leið til að einangra veirur er ekki gilt í þessu tilfelli því ég vil sjá grunn- eða frumrannsókn sem að sjálfsögðu fór fram áður en hinir dularfullu "primerar" eða "próbar" (primers and probes) voru hannaðir, og þar af leiðandi, hannaðir út frá !!

Við höfum beðið í tæplega 2 ár !!!!

Ég tek það fram að ég mundi aldrei láta þig snerta börnin mín !

Ragnar (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 18:04

15 identicon

Sæl, Birgitta.  Sláandi ræða og kjarngóð, að auki vil ég hrósa þínum þingferli og þér fyrir hreinlyndi.   Eins og félagi minn, Svanur, bendir á veit enginn með vissu hvað myndi gerast ef fyrirliggjandi samningi yrði hafnað og vísar hann til stórvelda ESB og aðgerða þeirra.   Spurningin er hvort við séum tilbúin til að taka slaginn eða ekki.  Og mín afstaða er sú að frekar vil ég búa eins og maður í Kúbu norðursins en mús í hinu svokallaða alþjóðasamfélagi.  Þó illa ári er þess skammt að bíða að Ísland verði eftirsótt vegna auðlinda og þá kýs ég íslenzk yfirráð yfir gersemunum, ekki erlend.  Þess vegna þakka ég þér fyrir neiið, Birgitta, en þú mátt gefa Saari einn löðrung frá mér.

Kveðja, LÁ

lydurarnason (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 02:31

16 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Takk fyrir að segja nei Birgitta.

ÁFRAM ÍSLAND
NEI við ESB  -  NEI við Icesave

Styðjum Samtök Fullveldissinna
http://www.fullvalda.is

http://fullvalda.blog.is/blog/fullvalda/

Ísleifur Gíslason, 1.9.2009 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.