Leita í fréttum mbl.is

Að mótmæla - að mótmæla ekki

Ég hef alvarlega ígrundað það hvort að það sé einhver tilgangur að vera að standa í endalausum grasrótarfundum þar sem rædd er einhver framtíðarsýn og stefna fyrir landið. Ég hef alvarlega ígrundað það hvort að það sé einhver tilgangur að mæta á nánast öll mótmæli sem hér fara fram. Ég er í þeirri stöðu eins og þúsundir aðrir landar mínir að hafa misst vinnu vegna "ástandsins" og hef því nægan tíma á mínum höndum til að gera eitthvað uppbyggilegt við tíma minn á meðan á atvinnuleit stendur.

Til hvers að mótmæla og reyna að knýja fram réttlæti fyrir þjóð sem virðist standa á sama. Hef heyrt fólk fara stórum í bloggheimum og víðar sem talar um að 98% þjóðarinnar vilji óbreytt ástand. Ef svo er rétt, til hvers að reyna að gera eitthvað - það hlýtur að vera algerlega gegn vilja þjóðarinnar. Þjóðin vill greinilega halda áfram að láta kúga sig og ætti maður þá ekki að leyfa henni það í friði. 

Fólk hefur sagt ég sé best geymd bak við lás og slá svo að ráðamenn þjóðarinnar fái nú ráðrúm til að bjarga skútunni sem virðist eiginlega vera komin á bólakaf. Þetta fólk var kosið af miklum meiri hluta þjóðarinnar og hvað með það þó alræðistilburðir séu í gangi - þau eru búin að standa sig svo vel að sigla henni í strand - af hverju ættu þau ekki að geta komið henni aftur á flot?

Til hvers að reyna að gera eitthvað til að bjarga ærulausri þjóð með því að sýna umheiminum að það sé til fólk hér sem stendur ekki á sama hvernig málum er háttað hér? Skiptir þessi æra nokkru máli? Getum við ekki bara keypt hana eins og lífshamingju okkar? Við vorum jú hamingjusamasta þjóð í heimi áður en við misstum nánast allt. Sumir gera grín að mótmælendum en fleiri eru þeir þó sem níða mótmælendur og það er svo sem ekki neitt nýtt. Versta skammaryrði sem hægt var að fá á sig var að vera atvinnumótmælandi og ég er víst talin til þess hóps. Ég hef reyndar aldrei haft neinar tekjur af því að gera neitt sem ég hélt í einfeldni minni að gæti gert samfélag okkar að betra, réttlátara og heilbrigðara samfélagi manna. 

Ég viðurkenni að oft vildi ég óska þess að mín lífshamingja yrði tryggð með því að eiga nógu andskoti mikið af efnislegum gæðum og það gæti verið helsta takmark mitt í lífinu. Ég vildi óska þess að ég hefði aldrei fengið þá vitneskju sem ég hef um spillinguna og ójöfnuðinn, um eyðilegginguna og ofbeldið sem viðgengst hér sem og annarsstaðar í heiminum okkar. Ég vildi óska þess að ég gæti látið mér standa á sama um allt nema sjálfa mig. En ég bara get það ekki, sama hvað ég reyni, þá get ég ekki horft fram hjá því sem er að gerast hér. Ég get ekki hægt að hugsa um allt það fólk sem er að missa húsin sín, sem er búið að glata ævisparnaði sínum, sem hefur misst vinnuna sína, sem hefur misst vonina. Ég get ekki hægt að hugsa um afleiðingar kreppu á börn og þá sem standa ekki traustum fótum fyrir í góðærinu svokallaða. Ég get ekki hægt að hugsa um einhverjar leiðir til að breyta þessu ástandi svika og pretta í ástand þar sem við fáum loks að rísa upp á ný í samfélagi þar sem aðrar áherslur eru og önnur gildi en þau gildi að hver hugsi aðeins um sig, að hamingjan felist í veraldlegum hlutum, sem geta eins og þjóðin hefur upplifað, horfið eins og dögg fyrir sólu. 

Get ég leyft mér að horfa framhjá og leyft að þeir sem eru krosstengdir inn í heim fjárglæframanna, sjái um að rannsaka spillingu og hreint og klárt arðrán á þjóðinni? Kannski ég ætti bara að setja sjálfa mig í stofufangelsi, kannski ætti ég að halda kjafti, það myndi gleðja marga. Ég get alveg talið mér í trú um að ég sem einstaklingur geti ekki gert neitt til að breyta því sem hér er í gangi. Það væri auðveld leið - ég á heilt bókasafn af bókum sem bíða þess að ég lesi þær, ég er með stafla að bókum sem væri gaman að þýða. Já Birgitta, hvernig væri nú bara að vera þæg og láta sér fátt um finnast þó allt fari á kaf - að vera afstöðulaus er eitthvað sem er þjóðareinkenni Íslendinga og það er nánast þjóðarsvik að voga sér að vera öðruvísi en fjöldinn, sér í lagi ef maður hefur óþægilegar skoðanir, eins og að vilja vernda landið okkar, taka ekki þátt í stríði við aðrar þjóðir, vilja efla og styrkja heilbrigðiskerfið og menntakerfið, treysta ekki bönkunum og finnast allar manneskjur vera jafn mikilvægar.


mbl.is Sagt frá mótmælunum erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ástandið verður nógu óþægilegt fer fólk að hlusta betur á óþægilegar skoðanir.

Sókrates sagði það hlutverk sitt í lífinu að vera broddfluga á samfélaginu. Broddflugur voru notaðar til að knýja hesta áfram og hann áleit að samfélagið þyrfti á því að halda að vera 'stungið' af og til, til að koma í veg fyrir andlega stöðnun og leti. Þeir sem spyrja óþægilegra spurninga, stinga samviskuna, fá okkur til að hrökkva í kút, verða vitanlega fyrir því að til þeirra er slegið, og hlaupið undan þeim en ég held að Sókrates hafi haft rétt fyrir sér.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 12:01

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Takk Eva mín

þetta var akkúrat það sem ég þurfti að heyra :) Sókrates var heppinn að ekki var til neitt sem heitir blogg á hans tímum:.....: allt of mikill tímaþjófur - ég ætla allavega að hætta að blogga.

Guðmundur: hvar hef ég sagt að kjósa ætti NÚNA - ég vil þjóðstjórn NÚNA - kosningar í vor. Það er nú varla hægt að gera meiri glundurroða í ráðuneytinum en nú þegar er í gangi - fólk svo upptekið að þvo af sér ábyrgð að það er óvinnufært.

Birgitta Jónsdóttir, 23.11.2008 kl. 12:07

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Byltingin þyrfti ekki að taka nema mánuð,og að henni lokinni tækji við kosningabarátta og að kosningum lokknum tæki flokkurinn við stjórn landsins.Að sjálsögðu á byltigarráð flokksins að stjórna aðgerðum í byltingunni.Eins og staðan er í dag þá stendur formaður flokksins með Seðlabankastjóra og það er vegna þess að formaðurinn ætlar í stjórn með landráðaauðvaldinu eftir kosningar .Þessvegna verður byltingarráðið að taka réðið af formanninum,og helst að koma honum frá.Því er staðan þannig í dag að fomaðurinn er óvinur fólksins númer eitt.Því þarf að herða baráttuna með öllum tiltækum ráðum til að koma bæði seðlabankastjóra og formanninum frá.Formaðurinn var einu sinni rauður en þeim rauðu hárum fer sífækkandi eins og allir sjá.Lifi byltingin.

Sigurgeir Jónsson, 23.11.2008 kl. 12:20

4 Smámynd: Örn Arnarson

Mér finnst þetta um margt góður pistill hjá þér og í guðs bænum ekki hætta að mótmæla og segja þína skoðun.  Ég vona samt að þú gerir greinamun á friðsömum mótmælum og skemmdaverkum og ofbeldi.  Það voru fleiri þúsund manns að hugsa og segja það sama á Austurvelli í gær og á bakvið þann fjölda eru margir sem ekki áttu möguleika á að mæta.  Ég er reiður, sár og læt mig dreyma um nýtt og betra Ísland.  Ég mun þó aldrei brjóta rúður, grýta Alþingi eða ráðast á lögregluna.  ÞAÐ eru mótmælin sem þjóðin hafnar.

Örn Arnarson, 23.11.2008 kl. 12:21

5 identicon

Það er enginn að gagnrýna það að fólk mótmæli þegar því ofbýður. Það sem ég gagnrýni er að fólk taki sér eitthvað vald og brjótist inn á lögreglustöð! Hvernig í ósköpunum datt ykkur þetta í hug?

Annað sem ég vil gagnrýna er að þú gagnrýnir sjálf allt og alla sem eru við stjórnvölinn en kemur ekki með neinar hugmyndir sjálf um hvernig best væri að haga endurreisninni! Ekki  EINA  hugmynd! Farðu nú í smá naflaskoðun og settu svo fram raunhæfar hugmyndir um hvað þú teljir að best sé að gera núna. Það er nefnilega afar auðvelt að rífa niður og vera á móti en svo leggst heldur lítið fyrir kappann þegar hann á að fara að gera eitthvað sjálfur.

Soffía (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 12:31

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég hef aldrei kastað grjóti, eggjum, brotið rúður eða ráðist á lögreglu þó svo að mig hafi oft langað til þess. Ég ætla samt ekki að fordæma það eða mæla með því. Ég ætla ekki að segja að það skemmi fyrir eða ekki.

Ég ætla ekki að segja að ég skilji ofbeldi en ég skil mun á ofbeldi og skemmdarverkum. Ég skil að egg er hægt að þvo af húsum og bílum. Ég skil að sumir upplifa það sem ofbeldi gagnvart sér að það hafi verið arðrænt og skuldsett án þess að fá nokkru um það ráðið og svo nuddað salti í sárin með því að horfa upp á þá fjárglæframenn sem komu okkur í þessa stöðu vera hrókarað innan bankakerfisins eða fá lán hjá bönkunum sem það tók þátt í að koma í þrot. 

Ég fór upp á lögreglustöð til að fá skýr svör frá lögreglunni - til þess að sýna Hauk stuðning og til að sýna yfirvöldum að ég sætti mig ekki við að fólk sé handtekið á þann hátt sem hann Haukur var handtekinn.

Ég vil ekki vera í þeim sporum að segja öðrum hvernig þeir mótmæla - ég styð borgaralega óhlýðni en mér persónulega fannst þetta fara úr böndunum í gær. Ég vildi samt vera þarna áfram vegna þess að þegar hlutir fara úr böndunum er nauðsynlegt að það séu vitni af því. Það sem ég var vitni að var hvorki þeim sem brutu rúður né lögreglu til sóma. 

Birgitta Jónsdóttir, 23.11.2008 kl. 12:42

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Soffía ég hef reyndar talað um allskonar lausnir í gegnum tíðina - það er nú þannig að það er ekki nein ein lausn - það þarf að vera einskonar þjóðarsátt um varanlegar lausnir. Til að þjóðarsátt náist þarf almenningur að vera virkari í að móta saman það samfélag sem hann vill lifa í. Ég var til dæmis á góðum fundi í Hljómalind í hádegi í gær. Það er til dæmis staður sem ég er hrifin af - en þar er stundaður samvinnurekstur - ég held til dæmis að í stað þess að keyra fyrirtæki í þrot að það ætti að bjóða þeim sem starfa þar að eignast hlut í fyrirtækinu gegn til dæmis aðeins lægri launum. Málið er bara Soffía að við erum enn að falla og þá er mjög erfitt að virkja fólk í hugmyndavinnu en þér er velkomið að koma á Hljómalind klukkan 13 næsta laugardag og taka þátt í að fræðast og spjall um hvernig framtíðin okkar gæti orðið - ég hef sérstakan áhuga á að vinna að því að hér verði miklu sjálfbærara samfélag og barnavinvænlegra:)

Birgitta Jónsdóttir, 23.11.2008 kl. 12:50

8 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

einmitt Skorrdal - en eins og Eva bendir á þá erum við broddflugur samfélagsins og það er óþægilegt að finna fyrir samviskubiti í sálinni ef hún hefur verið of dofin af veraldlegu prjáli:)

Birgitta Jónsdóttir, 23.11.2008 kl. 12:52

9 identicon

Ofbeldi leysir engan vanda. Þessa klisu vilja sumir endalaust breiða út.

Það að sætta sig við að vera beittur ofbeldi leysir engan vanda. Kúgun er jú einn tegund af ofbeldi.

Hvernig stendur á því að í gegnum mannkynsöguna, hefur fólk marg oft þurft að berjast til þess að mannréttindi þeirra séu virt ?  Hvar værum við stödd í dag ef engin hefði verið til í það að berjast fyrir þeim mannréttindum sem við höfum ?

Sumir skilja ekki annað en hörku. Hvers vegna þarf lögregla landsins reglulega að takast á við glæpamenn ? ....hvar værum við stödd ef lögregla reyndi endalaust að tala vitið fyrir glæpamenn sem ekki vilja hlusta, því að þeim er nokkuð sama um allt nema sjálfa sig.

Átök ber að forðast ef hægt er....en þegar allt annað bregst og mikið liggur við, eru átök stundum nauðsinleg. Hvers vegna viljum við forðast átök ? Vegna þess að í átökum verður fólk fyrir skaða. En ef skaðin sem fylgir því að gera ekki neitt er meiri og stærri en sá sem fylgir því að berjast, þá eru átök ekki bara sjálfsögð, heldur nauðsinleg.

Það er auðvelt fyrir þá, sem njóta frelsis og allra þeirra mannréttinda sem við njótum í dag, að halda því fram að það sé bara nóg að tala um það þegar það er troðið á rétti okkar....þeir sem aldrei þurftu að berjast fyrir rétti sínum gleyma því gjarnan að á sínum tíma þurftu eitthverjir að berjast til þess að réttur þeirra væri viðurkendur og virtur.

Sjaldan en þörfin fyrir það að berjast meiri en þegar valdhafar gleyma því hvaðan völd þeirra eru komin, og í hroka sínum telja sig geta sagt og gert hvað sem þeim sýnist, án þess að þurfa að axla á því ábyrgð.

Sendi þér baráttu kveðjur Birgitta mín, við erum sem betur fer ekki öll svo einföld að halda að frelsi og réttlæti gerist bara að sjálfu sér.

Gunnar B. Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 13:07

10 identicon

Gunnar setti í orð það sem ég er að hugsa.

Meðvirkni er ekki gott ástand, en ég tel að eftir svona 2-3 mánuði, þegar almenningur er virkilega farinn að finna fyrir afleiðingum þess fjárhagsofbeldis sem búið er að beita því, að þá muni tónninn vera annar. Það erum bara við sem að föttum það sem að erum komin þangað.

Baráttukveðjur og ekki gefast upp.

linda (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 13:16

11 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Svo sammála. Væri gott á stundum að geta kúplað sér út úr eigin haus. En ég er líka svona gerð. Bara get það ekki. En eins og segir í fyrri athugasemd þá fæst ekkert án þess að fyrir því sé barist. Baráttukveðjur.

Rut Sumarliðadóttir, 23.11.2008 kl. 13:31

12 Smámynd: Jón Rúnar Ipsen

semsagt það er hægt að réttlæta allt sem gert er bara ef maður þykist hafa hag þjóðirnar í huga . KJAFTÆÐI ég er í þeirri stöðu að missa mjög mikið en ég mun aldrei skemma eigur annaðra (okkar)til þess að mótmæla

fyndið hvað fólk gerir til að réttlæta skrílslæti stór hluti þjóðirnar er á móti svona hegðun og eigum við þá ekki að mæta til að mótmæla ykkur getum gert eins og í gamla daga farir að slást á Austurvelli þá komust við í fréttir og allt verður betra 

Jón Rúnar Ipsen, 23.11.2008 kl. 13:50

13 identicon

Það er nú með ólíkindum að þegar 30 karlar hafa afrekað að setja þjóðina á hausinn, skuli fólk leggja sig niður við að óskapast yfir fjárhagstjóni af völdum eggjakastara. Já og þótt við séum að tala um eina útihurð og tvær rúður. Ég er ekki að segja að það sé sjálfsagt mál að brjóta rúður en my ass, er það virkilega tjónið sem gjaldþrota þjóð er að velta sér upp úr?

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 14:22

14 identicon

"stór hluti þjóðirnar er á móti svona hegðun"......

Sem þýðir það að valdamenn geta bara kosið að hlusta ekki á fólk, vegna þess að það er ekkert á bak við orðin.

Hvað ætlar fólk að gera þegar friðsamir mótmælendur eru orðnir 30 þ. ? nú eða 50 þ. eða jafnvel fleiri....og enn geta valdamenn kosið að hlusta ekki ? Hvað á þá að gera ? Tala svolíðið meira ?

 Ég hef verið að mæta á mótmælin á Austurvelli á hverjum laugardegi...ég hef engu grýtt, ég hef engan barið, ég hef ekki brotið nein lög.......enn

Það er nefninlega þannig að við höfum rétt á að tjá okkur.....en hvað eigum við að gera þegar ekki er hlustað ? Hvað eigum við að gera þegar það er ekki svo mikið sem reynt að svara spurningum okkar ?

Hversu lengi ætlum við að láta leiða okkur áfram eins og sauði til slátrunar ?

Ég hef ekki brotið lög ennþá....það gæti breyst.

Það sýnir sig betur og betur með hverjum degi, að þeir sem að beita þeim völdum og afli sem þeir hafa ( t.d. ráðherrar og auðmenn ), koma mun betur út en þeir sem að gera ekki neitt.

Og ef ég verð dæmdur að friðelskandi mótmælendum, þegar að því kemur að ég fæ nóg, þá skiptir það engu máli....því mér stendur enginn ógn af því að vera uppnefndur, gagnrýndur eða annað slíkt.

ef tveir deila og annar talar á meðan hinn lemur, hver verður uppi standandi að lokum ?

Ég ætla ekki að reyna að tala á meðan það er verið að berja mig !!

Þeim sem velja þá leið, óska ég góðs gengis....vonandi verður það fólk ekki barið endalaust !

Gunnar B. Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 14:39

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.11.2008 kl. 14:45

16 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Birgitta mín, ég vorkenni þeim hluta þjóðarinnar, sem ekki gerir sér grein fyrir þeirri eyðleggingu, sem átt hefur sér stað í okkar þjóðfélagi.  Forfeður okkar þurftu svo sannarlega að berjast fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, nú hefur þessu sjálfstæði verið stolið frá okkur af misvitrum stjórnmálamönnum og gráðugum, siðspilltum vinum þeirra.

Ég segi að sjálfstæði okkar hafi verið stolið frá okkur, því þær skuldbindingar, sem ráðist hefur verið gera okkur ófrjáls og öðrum háð.

Ég dáist af þeim hluta þinnar kynslóðar, sem "stendur í lappirnar" og lætur ekki þennan ósóma yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust.

Byltingin lifi, við þörfnumst þín og þinna líka

Sigrún Jónsdóttir, 23.11.2008 kl. 17:10

17 identicon

Ha, byltingin lifi?  Er einmitt að lesa Byltingin á Kúbu eftir Magnús Kjartansson.

 

Kommúnisminn er fallinn, kapítalisminn og frjálshyggja riðar til falls. Mitt í öllu brakinu stendur byltingar- og skæruliðaforinginn Fidel Castró með sína sólbrenndu og fallegu þjóð, skuldlaus maðurinn og með enginn gjaldeyrisvandamál, bara tvöfalt peningakerfi. Og hefur rifið kjaft við mesta stórveldi heims. Er hægt að hugsa sér meiri töfra í mannlífinu.

Það voru auðmenn og spilling á Kúbu. Fólk mátti ekki taka sér sjóböð á ströndinni. Hún var bara fyrir ríka fólkið.

 

Hvernig væri að senda einhvern til að fá ráðleggingar hjá Kúbumönnum.

Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 18:49

18 Smámynd: Heidi Strand

Birgitta mikið skil ég þig vel. Þetta er eins og talað frá mínu hjarta.

Heidi Strand, 23.11.2008 kl. 20:26

19 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Endilega ekki hætta að mótmæla en þú verður að horfast í augu við það að það er til hópur fólks sem að telur að þið mótmælendur hafið ekki rétt fyrir ykkur.

Sum okkar telja það Ísland sem að við búið við vera mjög gott og sjáum ekki þessa spillingu sem að þið mótmælendur sjáið í öllum hornum. Þið mótmælendur hafið farið mikinn og ég vona að þegar að leyndarhjúpnum verður aflétt af þessu öllu saman þá verðið þið ekki fyrir vonbrigðum, þó svo að mér segist svo hugur um að þið verðið það.

En mér finnst alltaf aðdáunarvert þegar fólk stendur upp og berst fyrir sínum málstað hver svo sem hann er en ég er sannfærður um að spilling á Íslandi sé ekki i þeim mæli sem að mótmælendur segja að hún sé. Ég er líka sannfærður um að allt það fólk sem að hefur með stjórnun þessa lands okkar að gera, hefur starfað að heilindum og gert sitt allra besta til þess að gera okkur lífið sem bærilegast.

Ef að við hrekjum ríkisstjórnina frá völdum þá erum við að fara mjög varhugaverða leið. Í hvert einasta skipti sem að ríkisstjórn verður óvinsæl, hvenær sem erfiðleikar steðja að, eigum við þá að boða til kosninga. Þó svo að það þjóni einhverjum tilgangi núna, sem ég þó efast um, þá skapar það varhugavert fordæmi fyrir komandi ríkisstjórnir.

Jóhann Pétur Pétursson, 23.11.2008 kl. 21:06

20 Smámynd: Rannveig H

Það heldur í mér geðheilsunni og færir mér von að það er til fólk sem hefur kjark og þor til að mótmæla. Takk Birgitta fyrir þitt framlag.

Rannveig H, 23.11.2008 kl. 23:00

21 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, nú er það spurning Birgitta hvort ekki verður farið að lesa upp úr einhverjum huggulegum jólabókum á næstu mótmælafundum. Annars vakti nú ræðan hennar Katrínar Oddsdóttur á Austurvelli hjá mér svolitlar vonir um að hópnauðgun stjórnvalda á þjóðinni sé farin að þreyta þolendurna að ystu mörkum. Alþingishúsið er búið að taka á sig mynd virkisins sem herforingjastjórnin hópast saman í til að skipuleggja næstu árás á þegnana.

Mikið vildi ég að gæti með fullri sannfæringu verið ósammála honum Sigurgeir en,- því miður?

Árni Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 23:38

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Íslenzka þjóðin er hvorki "ærulaus" né "gjaldþrota", þótt svo hafi verið fullyrt hér. Okkar bíður það verkefni að byggja upp, ekki að flýja af hólmi, ekki að rífa niður og ekki að ofurselja landið risabandalagi sem bíður þess að gleypa okkur.

Jón Valur Jensson, 24.11.2008 kl. 04:35

23 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Það er greinilega búið að vera líf og fjör hér að mér fjarverandi. Þó allt sé að brenna í samfélaginu þá verður maður að sinna fjölskyldunni sinni:)

Mig langaði að þakka sérstaklega fyrir hvatningarorðin - því að satt best að segja þá hef ég undanfarið verið komin á fremsta hlunn að hætta að mótmæla og hef ég aldrei upplifað það fyrr - en bæði þessi orð og svo upprifjun á baráttu manna og kvenna fyrir réttlæti sem tók oft áratugi og mikið mótlæti.

Við stöndum frammi fyrir miklum möguleikum á að endurhanna samfélagið allt -það er ansi gloppótt og mun kosta okkur meira að reyna að sparsla í þessi risagöt. Enda er nú meira spennandi að búa til nýja flík en að stoppa í göt:)

Jóhann Pétur - þetta er einstakt klúður og ekki hægt að koma með svona dæmi um óvinsældir stjórnar - því það er ekki til fordæmi fyrir öðru eins í okkar stuttu lýðræðissögu.

Því miður þá verð ég að hryggja þig með því að það sem nú þegar er komið fram varðandi spillingu og krosstengsl að það nægir mér alveg til að standa á gati yfir að við höfum látið þetta viðgangast svona lengi, og enn styður fólk við fjárglæframennina með því að versla við þá.

Mæli með því að fólk versli ef það hefur tök á - við sína hverfiskaupmenn:)

Heidi, Eva og Jenný

Og öllum hinum sem hafa gefið sér tíma til að skrafa hér vil ég þakka fyrir - hvort heldur að ég sé sammála eður ei:)

Birgitta Jónsdóttir, 24.11.2008 kl. 09:04

24 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Akkúrat svona hefur mér liðið og margar af þessum hugsunum flogið í gegnum kollinn á mér. En nú ríður á að haggast ekki og hvika hvergi. Þegar afleiðingar þessa hruns og spillingar fer að snerta persónulegt líf fólks sem núna vill trúa því að þetta gangi yfir í rólegheitunum. Þegar öryggið er farið og alvöru skortur farinn að segja til sín. Þá vonandi stendur fólk upp.

Sem betur fer er til fólk eins og þú Birgitta..sem betur fer.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.11.2008 kl. 10:03

25 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Segi það sama, ég á ekki orð yfir hve skammsýnt fólk getur verið og/eða gleymið.  Og það getur ekki einu sinni þagað, þegar allt er komið í kolasteik og eina von fólksins eru þessi mótmæli.  Nei þá hjálpa þau kvölurunum með því að taka undir, hneykslast á mótmælendum, en gæta hvergi þess óréttlætis sem fólkið hefur orðið fyrir, til dæmis eins og gasi demt yfir saklaust fólk, sem var að sýna samstöðu.  Auðvitað gengur einhverjir of langt, en það á ekki að dæma allan hópinn út frá nokkrum einstaklingum, sem eru orðnir reiðir yfir ástandinu. 

Nei elsku Birgitta mín, við megum ekki gefast upp núna, það er einmitt sem þetta pakk er að vonast til.  Svei þeim bara, tala digurbarkalega um að þau séu að bjarga þjóðinni, svo það sé ekki tímabært að þau fari.  En þau eru EKKI AÐ HLUSTA Á ÞJÓÐINA, ÞVÍ HÚN VILL ÞAU BURTU!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2008 kl. 10:21

26 Smámynd: Linda Hreggviðsdóttir

Birgitta, hetjan mín !

Ég fylgi þér, sem og margir aðrir.

Áfram Birgitta.

Linda Hreggviðsdóttir, 24.11.2008 kl. 10:48

27 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Áfram Birgitt mín !!!

Mótmælin eiga alveg rétt á sér, en hvað skárra tekur við ??

Við erum að ganga í gegn um þvílíka erfiðleika, sjá að húskofarnir okkar fara til,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,

Ég er sorgmædd og leyfir mér það, því það var ekki ég sem að kom Íslensku þjóðinni á þennan kalda klaka,  ég borgaði mitt sem upp var sett....enn þegar að þessir helv búbbar sprengja allt upp    þá veit ég ekki hvor ég get borgað samkv samningi.......ég samdi   enn ekki með uppsprengdu verði.........

Hvað með að þeir sem að hafa völdin, þeir sem að tóku öll þessi lán,,,, bara borgi ?????????

Eða á mín  lágstétta fjölskylda  að borða enn nú meira hor en hú hefur gert í þessu  Gróðæri    sem að aldrei kom til mín ??????

Erna Friðriksdóttir, 24.11.2008 kl. 15:52

28 Smámynd: Bara Steini

Oft veltur lítil þúfa þungu hlassi.

Stöndum saman.

Bara Steini, 24.11.2008 kl. 16:09

29 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka ykkur yndin mín - þykir vænt um stuðninginn og vitneskjuna um hve mörg okkar hugsun áþekkt - það gefur von að maður sé ekki einn í hugarstríðum... þessa dagana.

Birgitta Jónsdóttir, 24.11.2008 kl. 18:14

30 Smámynd: Bara Steini

Ég hef verið rifinn í tætlur af "sómaborgurum" inná minu bloggi. Liggur við hótunum um slæma hluti bara vegna þess að ég og 400-500 aðrir mættum og sýndu samstöðu á löggustöðinni.

Það einungis stappar i mig stálinu því ég veit að ef við lúffum þá lendum við öll í skelfilegri klípu.

Birgitta, þökk fyrir að standa við sannfæringuna og endilega haltu því áfram.

Okkar rödd mun opna augu þeirra sem neita eða heyra eittné neitt.

Bara Steini, 24.11.2008 kl. 20:42

31 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þó ég þekki þig ekki persónulega þá þekki ég réttlætiskennd þína vegna þess að ég sit uppi með sams konar réttlætiskennd og þú. Ég hef þó alls ekki verið jafn dugleg og þú að fylgja henni eftir.

Mér sýnist að vinir þínir séu búnir að sannfæra þig um það hvað þú og þínir líkar eru okkur hinum mikilvæg í baráttunni fyrir réttlátari heimi. Mér sýnist líka að þeir hafi fengið þig ofan af því að leggja árar í bát og fanga því! 

Bloggið getur verið tímafrekt, ég neita því ekki, en þessa daganna eru skrif margra bloggvina minna styrkurinn sem ég leita í. Athvarfið til að minna mig á að það er virkilega til fólk með heilbrigða skynsemi og þroskaða réttlætiskennd þó margt í samfélaginu bendi til allt annars.

Ég vona að þú haldir áfram að blogga svo við hin megum njóta næringarinnar og geðræktarinnar sem bloggið þitt veitir... mér a.m.k. Reikna með að það séu fleiri sem geta tekið undir það með mér.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2008 kl. 23:52

32 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

"A riot is the language of the unheard." 
  --  Martin Luther King Jr.

Georg P Sveinbjörnsson, 26.11.2008 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 508655

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband