Leita í fréttum mbl.is

Ónauðsynlegt

Nýverið voru hvítabirnir friðaðir vegna þess að þeir eru í útrýmingarhættu. Rök þeirra sem skutu björninn halda ekki vatni. Engin ógn var af þessu dýri ef rétt hefði verið staðið af verki. Allir sem tóku þátt í þessari lúalegu athöfn eru ábyrgir. Ef vilji hefði verið fyrir hendi og almenn þekking á atferli dýrsins þá hefði verið hægt að koma honum til síns heima án þess að illa færi fyrir neinum. 

Heyrst hefur að það hefði orðið honum til miska að flytja hann á haf út. Fannst mér sem þau rök séu fremur afsökun en eitthvað sem ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Ef aðal ógnin af dýrinu var að þefa af skotglöðu veiðimönnunum, af hverju fóru þeir þá ekki fjær og földu sig fyrir honum? Það var allt fullt af fólki þarna og harla eðlilegt að björninn nasaði af mannfjöldanum. Af hverju var svæðinu ekki lokað fyrir almenning? Ég hef heyrt ágætis rök og lausnir á því hvernig við hefðum getað bjargað honum frá þessum örlögum og þykir mér leitt að sjá virðingarleysið gagnvart birninum þar sem karlarnir fimm stilla sér upp með bráð sína sem um einhvern safaríleik hefði verið um að ræða.

Ég þarf varla að taka það fram að ég veit gjörla að hvítabirnir eru hættuleg dýr og langt í frá að vera krúttlegir bangsar sem hægt er að knúsa, en þó dýr séu mönnum hættuleg, þá skulum við ekki gleyma hvaða dýr er öllum hættulegast: maðurinn sjálfur.

Annars var gærdagurinn hálfgerður sorgardagur ef maður hefur í huga kvöldfréttir sjónvarpsins. Fyrst þetta tilhæfulausa dráp og síðan stórkallalegar yfirlýsingar um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Ég var einmitt að skoða eina slíka fyrir viku síðan í Venezúela og hvet ég fólk sem berst sem harðast fyrir þessu að kíkja í heimsókn í slíka stöð - er þetta framtíðarsýn Vestfjarða? Ég sem á ættir mínar að rekja þangað og hef dvalið vetrarlangt í Dýrafirði á ekki orð yfir skammsýni og rörsýni varðandi þetta mál.

Nú er góðærið að víkja fyrir samdrætti fyrir austan. Illa gengur að manna álverið og sér maður stöðugar auglýsingar frá Alcoa eftir verkafólki til að vinna hjá óskabarninu sjálfu. Hátækniálverinu sem átti að bjarga austurlandi frá volæði og vesæld. Hverjir maka krókinn fyrir austan og ætti ekki að banna þeim sem hæst góluðu eftir stóriðju þar á bæ að flytja til annarra landshluta ef herða fer á sultarólinni?

Nákvæmlega sama ferlið mun verða á Vestfjörðum, nokkrir munu græða mikið og sumir smá um stutta stund en þeir sem þurfa mest á því að halda munu ekki græða nokkurn skapaðan hlut enda gleymir fólk því allt og oft að þegar það er að eiga við stórfyrirtæki, hvort sem þau eru frá Evrópu, USA eða Rússlandi að þessi fyrirtæki hafa aðeins eitt markmið: tafarlausan gróða fyrir sig. Ég var að lesa merkilegar greinar sem tengjast banana-stórfyrirtækjunum sem eru við það að eyðileggja sjálfan bananann eins og við þekkjum hann. Plantan sem hann elur hefur þróað með sér einskonar myglu sem ekki er hægt að útrýma og er þessi fungi við það að ganga frá stofninum. En þeim er alveg sama svo framarlega sem þeir græði sem mest NÚNA; Samskonar hugsunarháttur einkennir öll þessi fyrirtæki og fyrir þá sem efast og halda að fyrirtæki eins og Alcoa eða rússamafían sé umhugað um samfélagið sem það nær í sína greip. Ég bendi hinum sömu að sjá hina stórgóðu mynd "the Corporation" eða "the Yes Men". 

Ég vil líka taka það fram við þá sem ætla að byrja á vælinu: maður borðar ekki falleg fjöll og þú hefur ekki  komið með betri lausn fyrir Vestfirði að ég hafði reyndar í samfloti við annað fólk lagt fram tilboð að rekstri fyrsta sjálfbæra samfélagsins á landinu, í mínum gamla heimavistarskóla í Dýrafirði en greinilegt var að taka átti fjörðinn frá fyrir olíuhreinsunarstöð, því engum af tilboðum þeim sem bárust nefndinni var tekið. Við ætluðum einnig að stofna til sumarskóla þarna með menningarlegu ívafi og eco-tourism en hópurinn af fólkinu sem tók þátt í verkefninu var skemmtileg blanda af fólki sem var tilbúið að flytja þarna vestur úr stórborginni og skapa atvinnutækifæri en það virðist best að flæma fólk burt sem hefur áhuga á einhverju öðru en stóriðju og skyndilausnum. 

Ég var að vona að fórnin mikla fyrir austan væri nóg til að fólk gæti lært af öllum þeim mistökum sem hafa átt sér stað í þeim landshluta. Í gær sá ég að búið var að leggja niður stöðu blaðamanns Morgunblaðsins og Iceland Express hætt með beinar ferðir frá Egilsstöðum til Köben... Austurland mun hægt og sígandi fara í sama horf og fyrir fórnina miklu sem er miklu verri og meiri en flestir þar á bæ vildu horfast í augu við. Lögurinn fallegi orðinn að Gruggi og sorglegt verður að horfa upp á gróðurinn kafna undan dauðasallinu úr Hálsalóni. 

Elsku þjóðin mín: berum virðingu fyrir landinu okkar. Án gjafa þess, hefðum við ekki neitt.  


mbl.is Einmana og villtur hvítabjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir, þetta var virkilega góð' lesning og fróðleg!!

alva (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 12:37

2 identicon

Já, þetta er nöturlegt með ísbjörninn, slátrun en ekki veiði, og svo stilla "veiðimennirnir" sér upp, algjör skrípamynd, - ég styð þá hugmynd að umhverfis og utanríkis - ráðherrarnir verði látnir éta ísbjörninn fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna,

geta kannski haft með sér smábita til Kína.

Og það er óskiljanlegt að þessi manneskja skuli ekki taka fyrir málefni Tíbet, eða styðja Tíbet einfaldlega, heldur stofna hér einskonar vísi að herstöð, íslenskri herstöð, varnarstöð er það kallað, ég meina hvað er í gangi á Íslandi,

áfram Birgitta! 

Elísabet Jökulsdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 13:40

3 Smámynd: Ríkharður Hjartar Magnússon


Ísbirnir eru ekki á neinum lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Þeir eru flokkaðir sem "Vulnerable" samkvæmt World Conservation Union, sem er þýðir að  stofninn er að minnka  meira en eðlilegt getur talist vegna náttúrulegra sveiflna. Ástæðan er minnkandi ís við norðurheimskautið sem ísbjörninn þarf á að halda, hann er eitt af fáum dýrum sem mætti kalla "ísdýr" frekar en landdýr. Ísbirnir voru hvergi friðaðir nýlega. Þeir eru veiddir, bæði í svokölluðum frumbyggjaveiðum og í sportveiðum. Kvótinn á Grænlandi er 150 dýr, og milli 500 til 600 dýr í Kanada. Þar að auki má skjóta alla birni í Rússlandi sem sést til á ákveðnum svæðum nálægt mannabústöðum, og svo eru birnir skotnir á svalbarða sem ekki tekst að fæla til baka út á ísinn. Sú ógn sem stafar að ísbjarnarstofninum felst ekki í þessum veiðum heldur eins og áður segir í minnkandi heimkynnum af völdum hlýnunar og þungmálmamengunar sem getur valdið ófrjósemi í karldýrunum. Núorðið eru Grænlendingar varaðir við að borða mikið af þeim vegna málmanna.  Sjálfsagt hefði verið hægt að fanga þennan og fljúga með hann heim, en ekki hefði ég viljað taka að skipuleggja þann flutning á nokkrum mínútum og því síður að rýma "svæðið" eins og þú segir. Til þess hefði þurft hundrað manns til að slá skjaldborg í kringum björninn svo að enginn álpaðist of nærri eða að björninn ráfaði óséður í burtu. Og alla vopnaða.

Ríkharður Hjartar Magnússon, 6.6.2008 kl. 00:32

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Það er búið að leggja til að setja þá á lista yfir dýr í útrýmingarhættu og var það gert í síðasta mánuði. Það er aðeins tímaspursmál hvenær ísbirnir fara á útrýmingarlistann. Ég sagði aldrei að hvítbjarnastofninum stafaði mest ógn af veiðum. Og veit mæta vel að þeirra stærsta ógn er mengun og bráðnun á ís á þeirra heimkynnum. En það hefði átt að standa öðruvísi að þessari aðgerð og hefa fjölmargir, þar á meðal dýralæknirinn að austann komið með tillögur að því hvernig hægt hefði verið að þyrma dýrinu. Það hefði alls ekki þurft skjaldborg vopnaðra manna ef honum hefði verið gefið kjöt með deyfilyfum. Það er raunar alveg furðulegt að það hafi ekki verið búið að klára aðgeraáætlun fyrir heimsókn hvítabjarna á landið. Það verður vonandi gerð búbót á því.

Það sem mér fannst sláandi við þetta allt voru hin mörgu mistök sem gerð voru. Þá voru karlarnir sem skutu hann ekki með rétt skotvopn og þurfti því að skjóta hann í tvígang og valda honum óþarfa þjáningu. Þú lítur kannski ekki svo á að dýr eigi nein réttindi og séu eingöngu okkur til þæginda. Ég lít bara ekki þannig á hlutina Ríkharður og ég á ekki von á að okkar skoðanir verði hinar sömu. En ég skil hvaðan þú kemur en ljóst er að engum stafaði bein ógn af Ísidórnum þegar ákveðið var að fella hann.

Birgitta Jónsdóttir, 6.6.2008 kl. 07:34

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Gott nafn, sem þú fannst á bangsa, Birgitta mín, enda skáldkona.  Betra hefði vissulega verið að Ísidór hefði fengið að bera þetta fína nafn í lifanda lífi.   Kannski þurfum VIÐ bara að hrinda af stað "aðgerðaáætlun" til að hafa tiltæka þegar næsti björn slysast hér á land  -amk fylgja því eftir að slíkri verði framfylgt. 

 -Nú reyna einhverjir eflaust að halda því fram að við séum svo b(j)arnalegar, að við ætlum að lokka næsta hvítabjörn heim í eldhús til okkar -og ala hann þar !  Svo...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 6.6.2008 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 508709

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband