Leita í fréttum mbl.is

Er ekki mál að linni þingheimur, er ekki mál að linni?

Ræða sem ég flutti í gærkvöldi um frumvarp iðnaðarráðherra um skattaívilnanir til fyrirtækis í eigu Björgólfs Thor, mér tókst að semja um að atkvæðagreiðslu yrði frestað þangað til eftir sveitastjórnarkosningar, finnst mikilvægt að það sé ekki kosið um svona umdeilt mál á miðnætti eins og til stóð. Enn og aftur er lítil sem engin fjölmiðlaumfjöllun um mikilvægt mál eins og þetta, það var til dæmis ekki stafkrókur um frumvarp sem forsætisráðherra flutti um fjármál flokkanna, en meira um það síðar. 

Frú forseti
 

Hér fjöllum við um mál sem ríkisstjórn og ríkisstjórnarþingmenn með dyggri aðstoð meirihluta minnihlutans hafa þurft að beita skapandi hugsun við að koma í gegnum þingið. Þetta er líka þannig mál að það er erfitt að réttlæta fyrir sér að styðja það eins og því er fyrirkomið hér á lokastigum þess hér í þinginu.

Hér eru nokkur atriði sem mér svíður undan: Það vita það allir sem hér sitja inni að það getur bara ekki verið rétt að verðlauna þá aðila sem hér tóku með einbeittum brotavilja þátt í því að koma þjóðinni í þá háskalegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Hvernig er hægt að réttlæta að maður sem einsýnt er samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar alþingis flokkast undir að vera fjárglæframaður, hvernig er hægt að réttlæta það að hann fái yfir höfuð að halda áfram að fjárfesta í framtíð landsins, og ekki nóg með það þá á að gefa honum skattaívilnanir. Nú kunna aðrir þingmenn að réttlæta þennan fáránlega gjörning með að blessaður maðurinn hefur afsalað sér afsláttinn í tíu ár og hafi skrifað auðmjúkt afsökunarbréf til þjóðarinnar. Flestir réttlæta þetta fyrir sér með því að það sé mikið atvinnuleysi á Reykjanesi og því verði þetta mikil búbót og mörg störf um að ræða. En það verður nú að segjast ágæti forseti að enginn virðist hafa hugmynd um hve mörg störf skapist eða hvernig störf þetta séu. Það hlýtur að vera hægt að finna aðra lausn, kannski væri lag að aðstoða íslensk fyrirtæki sem vilja setja upp smærri einingar af gagnaverum með því að gefa þeim sambærilega skattaafslætti og líta svo á að þau erlendu fyrirtæki sem hér munu hýsa gögn sín hafi um fjölbreytta kosti að velja í hýsingu og komi þar af leiðandi hér inn með fjölbreyttari störf sem slíkt umhverfi gæti leitt af sér.

4670_106795851718_722836718_2745093_5524593_n.jpgÉg vil vekja athygli á því að málið minnir mig á sögu sem hefur verið spunnin áfram af spunameisturum og kannski eru þeir spunameistarar kannski í stjórn fyrirtækisins sem vill gagnaverið byggja og tengjast auðvitað flokki með völd? Ó, hve dásamlegt þetta fjórflokkakerfi er - allir fá einhvern tíman tækifæri á að hygla sér og sínum.

Það að geta ekki hugsað handan stóriðju hvort heldur hún heitir álver eða gagnaver er sorgleg þróun. Sorgleg vegna þess að ef þetta fyrirtæki gengur illa, þá mun þetta sveitarfélag aftur líða fyrir stórmennskudrauma sem breyttust í martröð, ég hef hugleitt mikið hvernig hægt væri að bregðast við afleiðingum þeim sem maðurinn sem á að fá að halda áfram að fjárfesta í íslensku vinnuafli og nota þjóðina áfram sem veð – ég hef mikið hugleitt frú forseti hvort að það sé virkilega svo að það sé bara ein leið fær. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að svo er ekki. Það er aldrei bara ein leið fær. Mörg lítil og meðalstór fyrirtæki eru miklu öruggari leið til að viðhaldi stöðugleika en ein risalausn. Ef eitt meðalstórt fyrirtæki af mörgum rúllar þá mun það hafa lítil áhrif á samfélagið, en ef fyrirtæki gerast svo stór að þau geta ekki axlað ábyrgð af óráðsíu eins og við upplifum nú, þá lendir baggi einkafyrirtækja sem fá afskriftir á skattborgurum og bökin er núna orðin ansi fá og veikburða og við getum ekki leyft okkur að halda svona áfram. Einhver þarf alltaf að borga fyrir uppgufun fjármagns þó íhaldsmenn haldi öðru fram.

Frú forseti, hvernig hefur verið staðið að því að finna annan aðila til að fjárfesta í þessu gagnaveri en Björgólf Thor og hans fyrirtæki? Frú forseti, ég veit að þessi spurning hefur borið á góma en ekki hafa fengist nægilega skýr svör við henni. Ég myndi með sanni styðja þetta mál ef Björgólfur Thor hefði sýnt þann manndóm að sleppa tökunum af þessum draumi og gefið öðrum kost á að fjárfesta í stað sín.

Best væri hreinlega ef að það á að halda áfram að gefa manninum gulleggin okkar að bíða í það minnsta uns rannsókn er yfirstaðin á gamla bankanum hans. Ég get ekki stutt þetta verkefni vegna þess að mig hreinlega svíður undan þessu í minni réttlætiskennd. Er þetta nýja Ísland frú forseti, er þetta sá hornsteinn að uppbyggingu landsins sem við viljum leggja? Ef Björgólfur Thor fær enn að fjárfesta í framtíð Íslands þrátt fyrir það sem kemur fram í skýrslunni, þá verður varla hægt að segja nei við hina fjárglæframennina, og til hvers þá að vera með einhverja sýndarmennsku varðandi réttarhöld og handtökur, hættum þessu bara og látum strákana okkar aftur við stjórntaumana og leyfum þeim að halda áfram í útrás og innrás.

Mér skilst að ríkissjóður hafi ábyrgst nokkra milljarða lán út af farice-strengsins sem flytur gögn á milli landa, móðurfélag Verne Holding fékk lán upp á nokkur hundruð milljónir sem nú er verið að afskrifa, ríkisábyrgðin mun því falla á herðar skattborgara eins og svo mörg önnur ævintýri út- og innrásar víkinganna.

Er ekki mál að linni frú forseti, er ekki mál að linni?

Ég skora á þingmenn að kanna innra með sér af hverju það sé svo að þingið nýtur ekki meiri trausts en svo að aðeins 1 af hverjum 10 landsmönnum treysta þingheimi  eins og kom fram í skoðanakönnun í dag: gæti það verið út af því að svona vinnubrögð sýna skort á siðgæði og almennri skynsemi.

Frú forseti er ekki mál að vitleysunni linni og að háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar beiti örlítið meiri skapandi hugsun til að koma í veg fyrir að þeir sem rændu okkur fái að halda áfram að ræna okkur?

William Black sagði til að ræna þjóð, skaltu kaupa banka… nú er það svo að við vitum ekki hverjir eiga nýju bankana, vitum ekki hvort að Magma Energy sé skúffufyrirtæki bankaræningja og áfram heldur leikurinn áfram og enn og aftur líður almenningi sem nóg sé komið en engin björg sé í boði nema að taka þessari siðblindu því það sé ekkert annað í boði.

Sýnum nú þjóðinni aðeins meiri virðingu en þetta, sýnum hugrekki, og höfnum því að gefa bankaræningja gullin úr tönnum okkar – því við eigum ekkert meira að gefa. Nú þegar verið er að seilast enn og aftur í tóma vasa öryrkja og ellilífeyrisþega til að borga fyrir sukkið hjá þessum sama aðila og við erum að gefa tækifæri á að fjárfesta áfram.


Nú er mál að linni frú forseti, nú er mál að linni.


Oft er þörf en nú er nauðsyn

Ég hef verið haldin ritstíflu á bloggvettvangi, vissi eiginlega ekki hvar skildi bera niður vegna þess hve víða pottur er brotinn í samfélaginu og pólitíkinni og var haldin valkvíða um hvað ég ætti að skrifa um. Hef fundið ágæta lausn á þessu útfrá góðri ráðgjöf vina minna: taka fyrir eitt mál í einu sem er ef til vill að fá brotakennda umfjöllun í fjölmiðlum og almenningur er ekki að fá heilstæða mynd af. 

Grundvallarforsenda til að umbylta óréttlæti að fólk hafi aðgang að réttum upplýsingum. Sú er oftast ekki raunin. Flestir fjölmiðlar eru enn máttlausir, vegna niðurskurðar og eignarhalds. Sjálfsritskoðun og hraði einkennir mikið af umræðunni og það sem sorglegast er flokkadrættir drepa alla gagnrýna hugsun og málefnalega umræðu. Nú stöndum við frammi fyrir stórum málum á alla vegu. Mál sem munu hafa afgerandi áhrif á framtíð landsins. Ber þar hæst: auðlindir okkar og sú vá við stöndum frammi fyrir varðandi eignarhald á þeim, Icesave, AGS, ESB, Magma energy, mótmæli, fæðuöryggi og búsifjar vegna eldgoss.

Ég hef reyndar notað facebook mikið til að koma skoðunum mínum á framfæri sem og til að deila upplýsingum með vaxandi hópi vini - innlendra sem erlendra:) Þar er meiri virkni á milli fólks - svo margir vinir mínir horfnir frá þessum vettvangi um víðan völl.


 

Hverjum datt í hug að kæra útfrá 100 greininni? Svar óskast!

1. Þingpallar eiga samkvæmt 57. grein stjórnarskrár okkar, að vera opnir almenningi, svo almenningur geti með góðu móti fylgst með löggjafarsamkundunni. 57. gr. Fundir Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti eða svo margir þingmenn, sem til er tekið í þingsköpum, krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.

Útskýring: Það þarf að halda þingfund og skera úr um það hvort vísa á utanþingsmönnum burt. Það er ekki hlutverk annarra en þingforseta og þingmanna. Hvorki þingverðir, lögregla né aðrir hafa heimild til að vísa fólki burt sem á stjórnarskrárbundinn rétt til að fylgjast með störfum alþingis.

2. Oft er fólki meinaður aðgangur að þingpöllum vegna geðþóttaákvarðana þingvarða, enda hafa þeir engar skýrar reglur nema úr stjórnarskrá, sjá 57 greinina hér að ofan, um til dæmis hvort að tiltekinn klæðnaður sé bannaður. En það hefur komið fyrir ítrekað að fólki er meinaður aðgangur vegna klæðnaðar. (Ekki nógu fínar lopapeysur, merki, húfur, bolir og svo framvegis.)

3. Fleiri þúsund manneskjur tóku þátt í mótmælunum og því þykir það furðu sæta að 9 manneskjur séu kærðar á forsendu 100 greinar hegningarlaga: 100. gr. Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.

Það er 100 greinin sem fólk hefur gagnrýnt, en EKKI er verið að leggja til að þeir sem kunna að vera ábyrgir fyrir líkamstjóni annarra svo sem þingvarða og lögreglumanna verði ekki látnir svara fyrir dóm.

106. gr. Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta fangelsi allt að 6 árum. [Beita má sektum, ef brot er smáfellt.]

4. Það ætlar ekki að ganga þrautarlaust að komast að því hver ákærir útfrá 100. greininni. Hið dæmigerða athæfi íslenskra ráðamanna er enn við líða: þ.e.a.s. hver stal kökunni syndromið. Skrifstofustjóri alþingis hefur bent á þáverandi saksóknara Valtý (sá hinn sami og varð að segja sig frá málinu vegna náinna vensla við einn þingvarðanna sem kært var út af). Valtýr sagði að hann hefði ekki fengið hin stórsnjöllu hugmynd að kæra útfrá 100 grein, heldur hefði það komið frá þinginu. Spjótin beinast því að skrifstofustjóra alþingis eða eins og Ásta Ragnheiður kallaði hann eitt sinn úr embættisstól sínum: yfirmanni þingsins.

Hér er svar forseta Alþingis við fyrirspurn minni um ákærur vegna atburða í Alþingishúsinu og við það 8. desember 2008. (athugið að hvergi er minnst á 100 greinina í svarinu heldur aðeins fjallað um 106 greinina).

    1.      Með hvaða hætti var tekin ákvörðun um aðkomu Alþingis að ákærum gegn níu einstaklingum vegna atburða sem áttu sér stað í Alþingishúsinu og við það 8. desember 2008?
    Þegar þingfundur hófst á Alþingi kl. 3 síðdegis mánudaginn 8. desember 2008 opnuðu þingverðir bakdyr Alþingishússins til þess að gestir, sem þess óskuðu og fylgdu almennum reglum, kæmust á þingpalla. Þegar fyrstu pallagestir voru komnir í húsið kom hópur manna í kjölfarið og ruddi sér leið fram hjá þingvörðum, sumir með klúta fyrir andliti, og komst upp í stigagang Alþingishússins. Sex þingverðir og lögreglumaður, sem var á vakt í þinghúsinu, lentu í átökum við hópinn þegar hann var stöðvaður. Ýmsir þeirra hlutu meiðsl í átökunum sem kunna að vera varanleg.
    Strax í kjölfarið var farið nákvæmlega yfir myndbandsupptöku sem sýndi hvernig hópurinn þröngvaði sér inn í þinghúsið. Þá áttu aðallögfræðingur Alþingis (sá hinn sami og fékk vinnu í síðustu viku sem dómari hjá Héraðsdómi Reykjavíkur) og forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs samtöl við þingverðina og lögreglumanninn um atvikið. Myndbandsupptakan sýnir að þingvörður, sem átti að gæta inngangsins, var yfirbugaður til að tryggja að mannsöfnuðurinn kæmist óhindraður inn í húsið. Því mátti ætla að hann væri ekki kominn í friðsamlegum tilgangi. (er hægt að kæra út af ályktunum?) Af samtölunum við þingverði og lögreglumanninn varð enn fremur ráðið að hópurinn skirrðist ekki við að beita líkamlegu valdi til að komast í tæri við þingmenn sem sátu í þingsalnum á fundi. (hmm er ekki alveg að skilja hvað þetta þýðir, er það slæmt að komast í tæri við þingmenn? Það er vonlaust að komast í tæri við þingmenn af þingpöllum, miklu mun auðveldara að gera það bara út í kjörbúð). Það var því mat aðallögfræðings Alþingis að rík ástæða væri til að málið yrði rannsakað af lögreglu með tilliti til þess hvort ákvæði almennra hegningarlaga, einkum 106. gr. þeirra, (þarna vantar að fá svar við því hver ákvað að meta það svo að nota ætti 100 greinina, engin hefur gert athugasemd við 106. greinina þó að það hafi verið látið í veðri vaka í umræðunni.) hefðu verið brotin. Þar sem ekki var ljóst hvort lögreglan mundi eiga frumkvæði að rannsókn málsins ákvað skrifstofustjóri Alþingis (næsta skref er að fá þetta bréf birt almenningi), að óska eftir því bréflega fyrir hönd skrifstofu Alþingis og þeirra starfsmanna, sem í átökunum lentu, að málið yrði tekið til lögreglurannsóknar. Áður hafði málið verið borið undir starfsmennina sem hlut áttu að máli.

    2.      Hver óskaði eftir rannsókn málsins og í umboði hvers var það?
    Um fyrri liðinn í þessari spurningu er vísað til svars við 1. tölul. Skrifstofustjóri Alþingis fer með ráðningarvald yfir öðrum starfsmönnum þingsins og ber ábyrgð á rekstri skrifstofu Alþingis, sbr. 11. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 68/2007. Hann er því forstöðumaður skrifstofunnar í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eins og fram hefur komið urðu starfsmenn þingsins fyrir meiðslum í átökum meðan þeir gegndu skyldustörfum fyrir Alþingi. Forseti Alþingis lítur svo á að á skrifstofustjóra Alþingis hvíli sjálfstæð skylda til að standa vörð um öryggi starfsmanna Alþingis sem og alþingismanna. Að mati forseta er augljóst að skrifstofustjórinn var bær til að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort óskað yrði eftir rannsókn á atvikinu. Til þess þurfti hann hvorki atbeina forseta né annarra eins og ýjað er að í spurningunni. (Hvet fólk til að lesa fyrirgreinda málgrein vel og vandlega, oftast er það enginn annar sem sjálfur skrifstofustjórinn sem svarar fyrirspurnum eins og þessari sem þú ert að lesa núna. Hver er yfirmaður þingsins: forseti eða skrifstofustjórinn?
    Þá er til þess að líta að lögreglurannsókn á atvikinu var ekki háð því að sá sem misgert var við eða bar ábyrgð á starfseminni sem brotið var á óskaði eftir henni. Beiðni um rannsókn var því ekki nauðsynleg forsenda þess að rannsóknin færi fram. Hver sem bjó yfir upplýsingum um atburðinn gat aftur á móti vakið athygli lögreglu á að efni væri til að rannsaka málið.
    Það er grundvallarregla í réttarríki að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi sæti ákæru og séu beittir lögmæltum viðurlögum. Að því vinna lögregla, handhafar ákæruvalds og dómstólar hér á landi sem starfa sjálfstætt og af hlutlægni. Mikilvægt er að þessir aðilar fái svigrúm til að meta atvik í réttu ljósi og án utanaðkomandi þrýstings.

 3.      Er það rétt sem fram kom í máli verjanda tveggja hinna ákærðu fyrir héraðsdómi að skrifstofa Alþingis hafi haft aðkomu að málinu og ef svo er, hver var sú aðkoma og hver var formlegur grundvöllur hennar?

Sjá svar við fyrri töluliðum fyrirspurnarinnar.

Ljóst er að enginn vill gangast við því að leggja til að 100 greinin var notuð: Ég skora á þann aðila, hvort heldur þáverandi saksóknara, skrifstofustjóra þingsins, aðallögfræðing þingsins eða forseta þingsins að svara þessu með afgerandi hætti. 

 


Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 508655

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2010
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband